Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 750  —  456. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um kostnaðarþátttöku krabbameinssjúklinga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver hefur árleg kostnaðarþátttaka krabbameinssjúklinga verið síðastliðin fimm ár og hversu margir hafa sjúklingarnir verið?
     2.      Hver hefur meðalkostnaður krabbameinssjúklings verið á tímabilinu og hvernig skiptist hann í tíundarhluta eftir fjölda sjúklinga?
     3.      Hver hefur heildarkostnaður hvers sjúklings verið og hvernig skiptist hann eftir kostnaðarliðum, m.a. lyfjum, heimsóknum til læknis o.fl.?

    Upplýsingar um kostnað einstaklinga með greinda sjúkdóma, svo sem krabbamein, eru ekki aðgengilegar vegna persónuverndarsjónarmiða. Krabbameinsfélag Íslands skráir öll krabbamein á Íslandi í Krabbameinsskrá. Til að mögulegt sé að keyra saman upplýsingar úr Krabbameinsskrá og upplýsingar um notkun einstaklinga á heilbrigðisþjónustu þarf samþykki Persónuverndar og ekki eru fordæmi fyrir slíkri úrvinnslu hér á landi.
    Sjúklingar með krabbamein nota þjónustu göngudeilda sjúkrahúsa, svo sem vegna læknisþjónustu og rannsókna. Þeir fara í myndgreiningu, mögulega í sjúkraþjálfun og sjúklingar á landsbyggðinni eiga kost á að fá greiddan ferðakostnað. Sjúklingar með krabbamein þurfa að kaupa nauðsynleg lyf, þó ekki svokölluð sjúkrahúslyf sem eru greidd af Sjúkratryggingum Íslands. Í upplýsingakerfum sjúkrahúsanna og rannsóknarstofa eru gjaldaliðir ekki tengdir við sjúkdóma. Upplýsingar um fjölda einstaklinga og kostnað vegna komu til krabbameinslækna í stofurekstri, sem eru á samningi við Sjúkratryggingar Íslands, liggja fyrir. Þær upplýsingar segja þó lítið um heildarkostnað krabbameinssjúklinga.
    Við gerð kostnaðarmats vegna nýja greiðsluþátttökukerfisins sem tók gildi 1. maí var lagt mat á kostnað sjúkratryggðra á sl. ári. Ef eingöngu eru skoðaðir þeir einstaklingar sem voru með kostnað yfir 80.000 kr. á árinu þá nam fjöldi þeirra 18.852 kr. og meðalkostnaður hvers sjúklings nam rúmlega 114.000 kr. Hafa ber í huga að kostnaður vegna lyfjakaupa er ekki meðtalinn í þessum kostnaði.

Fjöldi sjúklinga með greiðslur yfir 80.000 kr. árið 2016 og kostnaður.

Kostnaður sjúklinga Fjöldi sjúklinga Meðalkostnaður á hvern sjúkling
Almennir 1.710.994.778 13.724 124.672
Börn 43.068.763 399 107.942
Aldraðir 294.140.425 2.735 107.547
Öryrkjar 232.717.008 1.994 116.709
Samtals 2.280.920.974 18.852

    Fyrsta maí sl. tók gildi nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt þessu nýja kerfi munu sjúkratryggðir ekki greiða meira en sem nemur ákveðnu hámarksgjaldi fyrir heilbrigðisþjónustu að teknu tilliti til afsláttarstofns. Ákvörðun hámarksgjalds miðast einna helst við að vernda þá sem þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda, svo sem krabbameinssjúklinga, fyrir háum kostnaði vegna þjónustunnar.
    Hámarksgjald innan almanaksmánaðar verður 24.600 kr. hjá almennum sjúkratryggðum einstaklingi en 16.400 kr. hjá öðrum. Það leiðir til þess að enginn almennur sjúkratryggður greiðir meira en sem nemur 69.700 kr. á 12 mánaða tímabili ef tímabilið hefst án stöðu á afsláttarstofni og 49.200 kr. á ári ef tímabilið hefst á fullum afsláttarstofni, sem er hámark fyrir þá sem þurfa samfellda þjónustu. Hámarkskostnaður annarra yrði þá 46.467 kr. og 32.800 kr. miðað við sömu forsendur. Að auki er gert ráð fyrir gjaldfrjálsri þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga við börn sem fengið hafa tilvísun frá heimilislækni. Gert er ráð fyrir að margar barnafjölskyldur muni nýta sér það úrræði.