Ferill 442. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 754  —  442. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um sjávarflóð og sjávarrof.


     1.      Liggur fyrir mat á líkum eða hættu á sjávarflóðum og sjávarrofi við strendur landsins, og ef svo er, hve langt er síðan slíkt mat var gert?
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti fer með málefni er varða sjóvarnir og fer með yfirstjórn þeirra mála samkvæmt lögum nr. 28/1997, um sjóvarnir. Með framkvæmd þeirra laga fer Vegagerðin. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið fer hins vegar með málefni er varða varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, sbr. lög nr. 49/1997. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögunum er gert ráð fyrir að heimilt verði á ákveðnu tímabili að nota hluta af fé úr ofanflóðasjóði í því skyni að vinna hættumat vegna sjávarflóða. Verkefnin sem unnið er að eru: (a) Gagnasöfnun og greining á endurkomutíma, (b) Samspil loftslagsbreytinga og sjávarflóða, (c) Sviðsmynd um trúlega sjávarstöðu við landið, (d) Áhættuviðmið fyrir sjávarflóð og (e) Forgangsröðun svæða. Miðað er við að vinnu við þessi verkefni ljúki á næsta ári.
    Samkvæmt lögum um sjóvarnir, nr. 28/1997, vinnur Vegagerðin sjóvarnaáætlun þar sem óskir sveitarfélaga eða landeigenda um varnir gegn sjávarrofi og sjávarflóði eru metnar og lagt mat á nauðsyn áætlaðra framkvæmda, hagrænt gildi þeirra og þeim raðað í forgangsröð eftir mikilvægi. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er þessi vinna stöðugt í gangi og er grundvöllur fyrir sjóvarnaáætlun sem er hluti samgönguáætlunar.
    Í „Yfirlitsskýrslu um sjóvarnir árið 2011“ sem unnin var af Siglingastofnun eru talin upp 66 sjóvarnaverkefni sem metið er að framkvæma þurfi og þegar hefur verið ráðist í þau brýnustu. Auk þessa eru tiltekin í skýrslunni 65 önnur verkefni tengd strandvörnum í 46 sveitarfélögum. Þessi síðarnefndu verkefni eru ekki talin jafn brýn en þurfa þó að vera til athugunar.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur hún undanfarin ár unnið að ýmsum rannsóknarverkefnum sem tengjast mati á hættu á sjávarflóðum. Þar ber helst að nefna skoðun á Básendaflóðinu 1799 frá strandverkfræðilegu sjónarhorni og úrvinnslu sjávarborðsmælinga frá höfnum landsins. Þá er hafin vinna við endurskoðun á viðmiðunarreglum um lágmarkslandhæð og gólfkóta á lágsvæðum nærri sjó. Fyrri viðmiðunarreglur frá árunum 1992–1995 náðu ekki til alls landsins en við endurskoðunina er ætlunin að ná til sem flestra þéttbýlisstaða nærri sjó.
    Vísindanefnd um loftslagsbreytingar vinnur að skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi. Þar er m.a. fjallað um líklegar breytingar á hæð sjávarborðs við Ísland vegna hlýnunar og bráðnunar jökla, auk þess sem landris og landsig eru einnig tekin til skoðunar. Gert er ráð fyrir að skýrsla nefndarinnar komi út í ár. Þessar niðurstöður verða nýttar í vinnu um hættumat vegna sjávarflóða sem Veðurstofa Íslands fer fyrir og vinnur m.a. í samráði við Siglingasvið Vegagerðarinnar. Verkefnið hófst árið 2015 og er gert ráð fyrir að niðurstöður fyrsta verkhluta þess „Yfirlit yfir fyrirliggjandi úttektir og mat á sjávarflóðahættu“ liggi fyrir í lok þessa árs.

     2.      Telur ráðherra að tilefni sé til að endurmeta hættu á sjávarflóðum og sjávarrofi á landsvísu og taka inn í það fleiri þætti en hafa haft vægi hingað til?
    Við hönnun sjóvarnargarða eru mannvirki hönnuð til að geta staðist ölduálag með um 100 ára endurkomutíma þar sem miðað er við spá um sjávarborðshækkun um það bil 20 ár fram í tímann. Að mati Vegagerðarinnar er hagkvæmara að miða við sjávarborðshækkun til 20 ára í stað lengri tíma, sjóvarnir þurfi viðhald og því sé hagkvæmara að styrkja þær eftir því sem fram líður og forsendur breytast.
    Hins vegar er full ástæða til að endurmeta hættu á sjávarflóðum og rofi á landsvísu, bæði í ljósi nýrra upplýsinga frá sveitarfélögum og einnig í ljósi upplýsinga um afstæðar breytingar á sjávarborði. Í þessu sambandi er rétt að leggja áherslu á mikilvægi sjávarborðsmælinga en engin opinber stofnun ber formlega ábyrgð á þeim. Sjávarborðsmælingar eru gerðar í nokkrum höfnum landsins á ábyrgð hafnanna. Þar hefur hins vegar ekki verið lögð áhersla á þá nákvæmni sem nauðsynleg er til að lesa hægfara sjávarborðsbreytingar.
    Nákvæmar sjávarborðsmælingar eru nauðsynlegar til að geta fylgst með breytingum á afstöðu lands og sjávar sem geta bæði verið vegna hnattrænnar hlýnunar og jarðskorpuhreyfinga. Niðurstaða átaks Vegagerðarinnar í úrvinnslu sjávarborðsmælinga sýnir að nauðsynlegt er að gera mikla bragarbót á fyrirkomulagi þessara mælinga. Fylgjast þarf með mælum, kvarða þá og hæðarmæla í fasta punkta með jöfnu millibili, helst árlega.

     3.      Eru líkindi á sjávarflóðum og sjávarrofi meðal forsendna fyrir skipulagsstefnu og skipulagi alls staðar á landinu og hvernig er í aðalatriðum brugðist við þessum atriðum í skipulagi?
    Um langt skeið hefur verið tekið tillit til hættu á sjávarflóðum og sjávarrofi við skipulag byggðar við strönd.
    Meðal markmiða skipulagslaga, nr. 123/2010, er að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi er haft að leiðarljósi. Í 12. gr. laganna segir að í skipulagsáætlunum sveitarfélaga skuli marka stefnu um landnotkun og byggðaþróun, m.a. með tilliti til náttúruvár.
    Í skipulagsreglugerð er að finna nánari fyrirmæli um hvernig fjalla skuli í skipulagsáætlunum sveitarfélaga um náttúruvá og aðra hættu fyrir heilsu og öryggi almennings, þar á meðal hættu á sjávarflóðum og hættu vegna hækkandi sjávarstöðu. Jafnframt segir þar að taka skuli fullt tillit til hættumats við alla skipulagsgerð og gera skuli grein fyrir takmörkunum og reglum sem gilda um landnotkun og mannvirkjagerð. Þá segir að óheimilt sé að byggja á þekktum flóðasvæðum við ár, vötn og sjó og að á lágsvæðum nálægt sjó skuli hafa samráð við Vegagerðina (áður Siglingastofnun) um ákvörðun lægstu gólfhæða bygginga.
    Að þessu málefni er einnig vikið í Landsskipulagsstefnu 2015–2026, sem samþykkt var sem þingsályktun á Alþingi í mars 2016. Í henni er m.a. kveðið á um að við skipulagsgerð sveitarfélaga skuli taka tillit til áhrifa loftslagsbreytinga, svo sem vegna hækkunar sjávarborðs, og náttúruvár, með það að markmiði að varna slysum á fólki og tjóni á mannvirkjum, jafnframt að til grundvallar skipulagsákvörðunum verði lagðar upplýsingar frá Veðurstofu Íslands um náttúruvá og loftslagsbreytingar.
    Til marks um að þetta viðfangsefni er ekki nýtt af nálinni við skipulagsgerð hér á landi eru tvær skýrslur sem hafa að geyma leiðbeiningar um skipulag og byggingar á lágsvæðum sem verkfræðistofan Fjarhitun vann fyrir Skipulag ríkisins, Vita- og hafnamálastofnun og Viðlagatryggingu Íslands. Skýrslur þessar komu út árin 1992 og 1995 og er enn byggt á þeim við skipulagsgerð á lágsvæðum. Í undirbúningi er endurskoðun þessara leiðbeininga og hefur Vegagerðin forgöngu um það verkefni í samráði við Skipulagsstofnun, Veðurstofu Íslands og Viðlagatryggingu.
    Skipulagsstofnun hefur eftirlit með skipulagsgerð sveitarfélaga og fylgir því m.a. eftir að farið sé eftir framangreindum ákvæðum skipulagslaga, skipulagsreglugerðar og landsskipulagsstefnu og að leitað sé umsagnar Vegagerðarinnar um skipulagsgerð á lágsvæðum, þar sem það á við.

     4.      Hvar á landinu er byggð talin stafa mest hætta af sjávarflóðum og sjávarrofi?
    Sá skaði sem getur hlotist af náttúruhamförum stafar ekki einungis af umfangi þess sem veldur tjóninu heldur skiptir tjónnæmið, þ.e. hversu útsett byggðin er, einnig máli. Sjávarborðshækkun getur síðan aukið það tjón sem sjávarflóð valda, bæði með því að gera verstu flóð alvarlegri og einnig með því að gera minni flóð tíðari. Á höfuðborgarsvæðinu munar tæplega 40 sm á hæð þess flóðs sem hefur 100 ára endurkomutíma og þess flóðs sem hefur 10 ára endurkomutíma og því þarf ekki mikla hækkun til þess að flóð sem nú eru fágæt verði mun algengari. Nýlegar skýrslur um flóð á höfuðborgarsvæðinu og varnir við þeim sýna að flóð á höfuðborgarsvæðinu geta valdið verulegu tjóni og mögulegt er að kostnaðarsamt verði að verjast þeim.
    Hætta á sjávarflóði og sjávarrofi er bakgrunnur vinnu Vegagerðarinnar við sjóvarnaáætlun sem er hluti samgönguáætlunar. Með forgangsröðun framkvæmda er lagt mat á það hvaða framkvæmdir eru mest aðkallandi til varnar sjávarflóðum og sjávarrofi. Hætta af sjávarflóðum og sjávarrofi er breytileg bæði í tíma og rúmi. Í tíma er hún breytileg vegna breytinga á afstöðu lands og sjávar, hækkandi sjávarstöðu vegna hnattrænnar hlýnunar, landriss og landsigs og bæði í tíma og rúmi vegna landbrots og byggingar sjóvarna. Strandsvæði sem var í „mestri hættu“ dettur niður listann um leið og sjóvörn er byggð. Að sama skapi fer strandsvæði upp listann við rof.

     5.      Hefur verið brugðist við ábendingum um sjávarflóð sem fram koma í skýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Áhættuskoðun almannavarna, frá 2011 og þá hvernig?
    Frá miðju ári 2013 tók Vegagerðin yfir verkefni Siglingastofnunar varðandi sjóvarnir. Í skýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra frá 2011 sem vísað er til fer Siglingastofnun með þetta hlutverk.
    Í skýrslunni kemur fram að sex umdæmi hafi óskað eftir úrræðum og aðgerðum vegna sjávarflóða og að sex umdæmi vilji að áhættan verði skoðuð nánar. Öll þessi umdæmi eru undir við gerð sjóvarnaáætlunar þar sem sveitarstjórnir koma á framfæri óskum sínum um sjóvarnir.
    Í skýrslunni eru tvö umdæmi flokkuð undir „Gífurleg áhætta – aðgerðir strax“, þ.e. Árnessýsla annars vegar og Rangárvallasýsla og V-Skaftafellssýsla hins vegar. Í fyrrnefnda umdæminu er vísað til áhættu á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þar urðu mikil flóð árið 1990 og áður 1975. Eftir flóðin 1990 hafa verið byggðir miklir sjóvarnargarðar framan við alla byggðina þannig að öll byggð á þessum svæðum er mun betur varin nú en hún var í flóðunum. Á þessu svæði rís land lítillega sem vinnur á móti hækkandi sjávarstöðu. Vissulega þarf að fylgjast með hækkun sjávarstöðu og grípa inn í tæka tíð en Vegagerðin er ekki sammála því að við núverandi afstöðu lands og sjávar sé ástæða til flokkunarinnar „Gífurleg áhætta – aðgerðir strax“. Í þessu sambandi er rétt að líta til þess að þó að sjávarflóð séu algeng á Íslandi þá er þar aðallega um fjárhagslegt tjón að ræða. Það þarf að fara langt aftur í tímann til að finna dæmi um að mannslíf hafi tapast eða að maður hafi slasast.
    Í síðarnefnda dæminu er vísað til Víkur í Mýrdal. Þar eru að hefjast framkvæmdir við nýjan sandfangara austan við þann fyrri sem á að verjast landbroti framan við austurhluta byggðarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er þar með ekki sagt að ekki sé flóðahætta í Vík en stöðvun landbrots sé hins vegar skref í rétta átt.