Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 892  —  432. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Velferðarnefnd hefur haft til umfjöllunar frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum. Umsagnir bárust frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Kristni Tómassyni, sérfræðingi í geð- og embættislækningum, og tollstjóra. Á fund nefndarinnar komu fulltrúar Félags lýðheilsufræðinga, Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
    Markmið frumvarpsins skv. 1. gr. er að banna tiltekin efni og lyf sem notuð eru til að bæta líkamlega frammistöðu svo að tryggja megi að meðferð og notkun þeirra valdi ekki heilsutjóni ásamt því að koma í veg fyrir ólögmæta markaðssetningu tiltekinna frammistöðubætandi efna og lyfja. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að engin heildarlöggjöf taki á ólöglegum innflutningi, útflutningi, sölu, kaupum, skiptum, afhendingu, móttöku, framleiðslu eða vörslu þeirra efna sem tilgreind eru í frumvarpinu.
    Samkvæmt frumvarpinu skal varsla og meðferð frammistöðubætandi efna og lyfja vera óheimil á íslensku forráðasvæði, þ.m.t. innflutningur, útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka og framleiðsla. Í 3. gr. frumvarpsins um viðurlög segir að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum laganna og eftir atvikum reglugerð sem sett er á grundvelli þeirra. Skal framangreind háttsemi þannig vera refsiverð að viðlagðri fangelsisvist allt að tveimur árum.
    Mikilvægt er við setningu laga sem hafa að geyma refsiákvæði að skoða nauðsyn þess að lög verði sett um tiltekið efni. Lagafrumvarp þetta leggur til að varsla og meðferð þessara frammistöðubætandi efna og lyfja skuli vera skilgreind sem afbrot. Löggjafarvaldið skilgreinir á hverjum tíma hvað teljist til afbrota en hugtakið afbrot er í sjálfu sér afstætt og síbreytilegt. Það er því mikilvægt að við lagasetningu sem þessa hugi Alþingi að því hvernig lagasetning endurspegli vilja samfélagsins um það hvað skuli teljast afbrot og hvað skuli teljast refsivert. Einnig er nauðsynlegt að refsing við afbrotum endurspegli réttilega þá ósk samfélagsins að einstaklingum skuli refsað fyrir þá háttsemi sem það telur brot.
    Dreifing þeirra lyfja sem hér er fjallað um er þegar óheimil samkvæmt lyfjalögum, nr. 93/1994. Fyrir brot gegn lögunum skal refsa með sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sú breyting sem hér er lögð til mundi hafa þau megináhrif að ekki yrði einungis refsivert að dreifa lyfjunum heldur einnig að varsla og meðferð þeirra yrði refsiverð. Væri með því verið að færa refsiheimild fyrir neytendur í lög. Þannig eru þessi lyf og efni færð undir sama hatt og vímuefni þannig að heimilt verði að refsa neytendum þeirra á sama hátt og gert er samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974.
    Þó að eðli þessara efna og lyfja sé að nokkru ólíkt þeim efnum sem fjallað er um í lögum um ávana- og fíkniefni eiga þau þó margt sameiginlegt. Misnotkun frammistöðubætandi efna á borð við stera hefur verið viðvarandi áhyggjuefni. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann hafa boðið upp á meðferð fyrir þá sem misnota stera en margir þeirra sem misnota stera verða fastir í notkun þeirra og hafa þannig myndað fíkn í efnin, þrátt fyrir að efnið falli ekki undir hefðbundna skilgreiningu vímuefna. Með því að taka upp þá stefnu að refsa skuli neytendum efnanna er því verið að færa þá í sama hóp og þá sem misnota vímuefni. Það er nú orðið flestum ljóst að refsistefna í vímuefnum hér á landi hefur ekki skilað þeim árangri að dregið hafi úr neyslu þeirra. Það má því spyrja hvaða marki þetta lagafrumvarp eigi að ná og hvernig auknar refsingar í garð neytenda muni draga úr heilsutjóni sem efnin valda.
    Það er gagnrýnisvert að við vinnslu þessa lagafrumvarps hafi ekki farið fram heildstæð greining á þörf á lagasetningu um þessi efni. Óljóst er hvaða áhrif frumvarpið mundi hafa á málaflokkinn og hvaða áhætta felst í auknum refsingum. Þar má sem dæmi nefna hættu á því að með hertri löggæslu muni framleiðsla og dreifing efnanna færast í meira mæli til þeirra sem selja ólögleg vímuefni. Það gæti haft þau áhrif að átök þeirra sem framleiða, selja og neyta efnanna mundu magnast um leið og hagkerfi undirheima styrktist. Mikil þörf er á að stefnumótun í málefnum sem varða neyslu ólöglegra efna sé heildstæð og til þess fallin að minnka skaða á heilsu einstaklinga og samfélagslegan skaða sem verður af neyslu þeirra. Það að setja í lög auknar refsiheimildir án þess að slík greining fari fram áður er óábyrgt og sýnir ófagleg vinnubrögð í málefnum sem varða heilsu og líf þeirra einstaklinga sem neyta ólöglegra efna.
    Við meðferð velferðarnefndar kom fram í máli gesta að besta vopnið gegn notkun þessara efna væri að öllum líkindum forvarnir. Það skýtur því skökku við að með lagasetningu þessari sé stuðlað að refsingum umfram forvarnir. Það stríð sem Ísland háði gegn vímuefnum, með von um fíkniefnalaust Ísland, er löngu tapað og gera aðilar þess málaflokks sér nú grein fyrir því að forvarnir og fræðsla eru mun öflugra verkfæri en refsistefna og hert löggjöf. Það veldur því vonbrigðum að stríð þetta sé að öðlast nýjan vígvöll.

Alþingi, 22. maí 2017.

Halldóra Mogensen.