Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 950  —  432. mál.
Framhaldsnefndarálit. Fyrirvarar.

2. umræða.


Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin tók málið til umfjöllunar að nýju og fékk á sinn fund Einar Magnússon og Ragnhildi Sif Hafstein frá velferðarráðuneytinu, Jón Pétur Einarsson og Ólaf B. Einarsson frá embætti landlæknis og Friðrik Smára Björgvinsson frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þá fékk nefndin minnisblað frá embætti ríkissaksóknara.
    Nefndin telur mikilvægt að lögð verði aukin áhersla á fræðslu og forvarnir en þeim sjónarmiðum hafði verið hreyft fyrir nefndinni að forvarnir gætu verið besta vopnið gegn notkun ólöglegra vímuefna. Leggur nefndin því til að í markmiðsákvæði greinarinnar verði tiltekið að eitt af markmiðum laganna sé að stuðla að fræðslu og forvörnum. Þá leggur nefndin til að ný grein bætist við frumvarpið sem feli mennta- og menningarmálaráðuneyti í samráði við velferðarráðuneyti og embætti landlæknis að sjá til þess að fram fari fræðsla í því skyni að draga úr og koma í veg fyrir heilsutjón sem verður af neyslu frammistöðubætandi efna.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir þess efnis að refsinæmi skv. 1. mgr. 1. gr. væri ekki tæmandi talið og því gæti verið vafaatriði um hvort ákvæðið samræmdist skilyrði 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár um skýrleika refsiheimilda. Nefndin leggur því til breytingu á ákvæðinu sem ætlað er að tryggja betur skýrleika þess.
    Í síðari málslið 2. mgr. 3. gr. er aðeins gert ráð fyrir heimild til upptöku á lyfjum og efnum sem flutt eru hingað til lands eða seld ólöglega hér á landi. Nefndinni var bent á að skv. 1. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir að refsinæmi taki til vörslu og meðferðar lyfja og efna, þ.m.t. til innflutnings, útflutnings, sölu, kaupa, skipta, afhendingu, móttöku og framleiðslu. Þannig virðist heimild til upptöku þrengri en refsinæmi. Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að þetta gæti leitt til þess að ekki yrði unnt að gera upptæk lyf og efni sem lagt væri hald á við rannsókn sakamáls. Nefndin leggur því til breytingu á ákvæðinu til að tryggja skýrleika þess og samræmi.
    Þá leggur nefndin til breytingu á 3. mgr. 3. gr. sem heimili að refsað verði fyrir brot á lögunum séu þau framin af ásetningi eða gáleysi.
    Nefndin ræddi nokkuð mikilvægi þess að varsla neysluskammta yrði ekki gerð refsiverð og hver mörk refsinæmis ættu að vera. Telur nefndin eðlilegt að miða slíkt mark við 10 dagskammta og leggur því til að varsla og meðferð efna og lyfja sem ákvæði frumvarpsins ná til verði ekki refsiverð nema haldlagt magn efna sé umfram 10 dagskammta. Í ljósi skilyrðis stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda er mikilvægt að skýrt sé hver dagskammtur hvers efnis er og leggur nefndin því til að ráðherra skuli skilgreina í reglugerð hvað teljist dagskammtur þeirra efna og lyfja sem tilgreind eru í frumvarpinu. Til að tryggja skýrleikann leggur nefndin einnig til að þetta ákvæði taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2018. Með því gefst ráðherra nægur tími til setningar reglugerðar.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir orðunum „líkamlega frammistöðu“ í 1. mgr. 1. gr. komi: og að stuðla að fræðslu og forvörnum.
     2.      Við 2. gr.:
                  a.      Í stað orðanna „þ.m.t. innflutningur, útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka og framleiðsla þeirra“ í 1. mgr. komi: samkvæmt því sem nánar greinir í 4. mgr.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Innflutningur, útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla og varsla efna og lyfja, sbr. 1. gr., er bannaður með undantekningum skv. 2. og 3. mgr.
     3.      Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Það ráðuneyti sem fer með fræðslumál skal í samráði við ráðuneytið og embætti landlæknis sjá til þess að fram fari fræðsla í því skyni að draga úr og koma í veg fyrir heilsutjón sem verður af neyslu frammistöðubætandi efna.
     4.      Við 3. gr.:
                  a.      Síðari málsliður 2. mgr. orðist svo: Gera skal upptæk til ríkissjóðs ólögmæt lyf og efni skv. 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. gr.
                  b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að refsa fyrir brot á lögum þessum, ef þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Varsla eða meðferð efna og lyfja skv. 2. gr. skal aðeins vera refsiverð þegar haldlagt magn efna er umfram það sem talist geta 10 dagskammtar og efnin eru ætluð til eigin neyslu. Ráðherra skal skilgreina í reglugerð hvað telst dagskammtur þeirra efna og lyfja sem lög þessi fjalla um.
     5.      Við 5. gr. bætist nýr málsliður: Þó skal 5. mgr. 4. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2018.

Alþingi, 30. maí 2017.

Nichole Leigh Mosty,
form, með fyrirvara.
Guðjón S. Brjánsson,
frsm.
Albert Guðmundsson.
Arnbjörg Sveinsdóttir. Brynjar Níelsson,
með fyrirvara.
Elsa Lára Arnardóttir.
Halldóra Mogensen. Óli Halldórsson. Pawel Bartoszek,
með fyrirvara.