Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 959  —  530. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um einkavæðingu Vélskólans.


     1.      Hvað greiddi Menntafélagið ehf., eða eigendur þess, íslenska ríkinu fyrir Vélskólann?
    Engar greiðslur áttu sér stað frá Menntafélaginu fyrir Vélskóla Íslands, enda er ríkið eigandi og verður eigandi allra þeirra eigna sem Menntafélagið tók til rekstrar ásamt þeim tækjum og tólum sem bætast við á rekstrartíma Menntafélagsins/Tækniskólans. Verði þjónustusamningnum sagt upp eða ljúki samningstímanum með öðrum hætti tekur ríkið við skólanum með öllum eignum sem voru fyrir hendi, hafa verið endurnýjaðar eða aflað af Menntafélaginu/Tækniskólanum.

     2.      Hvert var virði þeirra eigna, í íslenskum krónum að núvirði, sem runnu til Menntafélagsins ehf. og inn í Fjöltækniskólann frá íslenska ríkinu við einkavæðingu Vélskólans? Hverjar voru þessar eignir?
    Engar eignir runnu inn í Menntafélagið/Fjöltækniskóla Íslands við gerð þjónustusamningsins um rekstur Vélskóla Íslands og engar eignir vegna þessa eru skráðar í efnahagsreikning Menntafélagsins/Fjöltækniskóla Íslands, enda er ríkið eigandi eignanna og Menntafélagið/Fjöltækniskóli Íslands rekstraraðili. Menntafélagið/Fjöltækniskóli Íslands greiðir húsaleigu fyrir húsnæði skólanna sem er í eigu ríkisins með sama hætti og aðrir framhaldsskólar.

     3.      Fékk íslenska ríkið eignarhlut í Fjöltækniskólanum að lokinni einkavæðingu Vélskólans með flutningi hans til Menntafélagsins ehf.?
    Nei, enda var Vélskóli Íslands lagður niður.

     4.      Rann Vélskólinn ásamt öllum eignum frá íslenska ríkinu inn í Fjöltækniskólann/Menntafélagið ehf. án nokkurs endurgjalds?
    Nei. Engar eigur ríkisins hafa runnið inn í Menntafélagið/Fjöltækniskóla Íslands.