Ferill 499. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1069  —  499. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um bifreiðakaup ráðuneytisins.


     1.      Hversu margar bifreiðar hafa verið keyptar til afnota fyrir ráðuneytið og fyrirrennara þess (innanríkisráðuneytið) frá því í ársbyrjun 2014, af hvaða tegund eru þær, hvaða eldsneyti notar hver þeirra, hver er uppgefin eldsneytisnotkun hverrar þeirrar og hver er uppgefin losun hverrar þeirra á koltvíoxíði (CO2)?
    Ein bifreið hefur verið keypt frá því í ársbyrjun 2014. Hún er af tegundinni Toyota Land Cruiser VX 150, keypt í febrúar 2017 að undangengnu útboði. Bifreiðin er með dísilvél. Koltvíoxíðslosun er 194 g/km og eldsneytiseyðsla er uppgefin 7,4 l/100 km.

     2.      Hvernig samræmast bifreiðakaup fyrir ráðuneytið markmiði í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti (146. mál) um að fimmtungur bifreiða í eigu opinberra aðila verði vistvænn fyrir árið 2020?
    Í umræddri tillögu til þingsályktunar, sem iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagði fram á yfirstandandi þingi um aðgerðaáætlun um orkuskipti (þskj. 205, 146. mál) og er óafgreidd, kemur fram að gefin skuli út samgöngustefna fyrir Stjórnarráðið og undirstofnanir. Markmiðið sé að 20% allra bifreiða í eigu opinberra aðila verði vistvænar fyrir árið 2020.
    Bifreiðin sem keypt var í febrúar 2017 fellur undir flokkinn EURO 6 þar sem skilgreindar eru kröfur varðandi útblástur fyrir ríki innan ESB og EES. Hún fellur aftur á móti ekki undir skilgreiningu um vistvænar bifreiðar sem vísað er til í framangreindu þingskjali en þar segir í 2. mgr.: „Vistvænar bifreiðar teljast þau ökutæki sem ganga að öllu eða mestu leyti fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum (metantvinnbílar, metanbílar, rafmagnsbílar, tengiltvinnbílar, tvinnbílar (hybrid), vetnisbílar).“

     3.      Hefur krafa um að bifreiðar sem keyptar eru til nota fyrir opinbera aðila nýti endurnýjanlega orkugjafa verið í útboðsskilmálum vegna bifreiðakaupa ráðuneytisins eða er áformað að slíkir skilmálar verði settir?
    Í útboðsskilmálum var tiltekið að eyðsla bifreiðarinnar skyldi ekki vera umfram 7,5 l/100 km í blönduðum akstri, hún losaði ekki meira en 200 CO2 (g/km) og að hún væri í flokki EURO 6.