Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1082  —  301. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.


    Fyrirspurninni var upphaflega beint til forsætisráðherra en 9. maí sl. var hún prentuð upp og send til fjármála- og efnahagsráðherra. Hér á eftir er svar Seðlabanka Íslands.
    Áður en einstökum spurningum er svarað telur Seðlabankinn nauðsynlegt að gera grein fyrir markmiðum og framkvæmd gjaldeyrisútboða Seðlabanka Íslands, en gerð var grein fyrir þeim í áætlun um losun fjármagnshafta frá árinu 2011. Þá stóðu stjórnvöld frammi fyrir þeim vanda að erlendir aðilar áttu miklar skammtímakröfur í íslenskum krónum á innlenda aðila, svokallaðar aflandskrónur, einkum í formi innstæðna í innlendum bönkum og stuttum og auðseljanlegum ríkisskuldabréfum. Þessar kröfur námu árið 2011 u.þ.b. fjórðungi landsframleiðslu Íslands og var talið líklegt að stór hluti þessara krafna yrði seldur við losun hafta með tilheyrandi afleiðingum fyrir stöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálakerfisins. Um leið var það stefna íslenskrar stjórnvalda að losa um fjármagnshöftin eins fljótt og unnt væri án þess að það ylli óstöðugleika. Forsenda þess að hægt yrði að losa um höftin var því að lausn fyndist á svokölluðum aflandskrónuvanda.
    Fyrsti áfangi áætlunarinnar frá 2011 fólst í því að draga úr áhættu sem mögulegt útflæði aflandskróna gat skapað með því að standa fyrir röð útboða þar sem aflandskrónueigendum bauðst að selja krónueignir fyrir erlendan gjaldeyri. Þegar áætlunin var sett fram var hins vegar ljóst að ekki væri til nægur gjaldeyrisforði til þess að mæta hugsanlegu útflæði þegar losað yrði um fjármagnshöftin, né heldur var forðinn nægur til þess að leysa út aflandskrónueigendur áður en til almennrar losunar hafta kæmi. Því var fyrirsjáanlegt að tekið gæti mjög mörg ár ef ekki áratugi að skapa skilyrði fyrir losun fjármagnshafta nema langtímafjárfestar yrðu dregnir að borðinu í því skyni að leysa út skammtímafjárfestana.
    Til þess að ná þessu markmiði og draga úr hættu á óstöðugleika vegna útstreymis kvikra krónueigna við losun fjármagnshafta hélt Seðlabankinn reglulega útboð um þriggja og hálfsársskeið þar sem eigendum krónueignanna bauðst að selja krónur í gjaldeyrisútboðum á sama tíma og langtímafjárfestum bauðst að kaupa krónur fyrir erlendan gjaldeyri í öðru útboði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þannig varð Seðlabankinn milligönguaðili í viðskiptum þar sem þeir sem vildu selja krónur gátu skipt á krónueignum sínum fyrir erlendan gjaldeyri langtímafjárfesta án þess að Seðlabankinn þyrfti að verja takmörkuðum gjaldeyrisforða sínum í því skyni. Um leið var stuðlað að atvinnuuppbyggingu á tímum þegar atvinnufjárfesting var í lágmarki.
    Fyrstu útboðin voru haldin á miðju ári 2011. Fjárfestum sem vildu leggja fram gjaldeyri í útboðunum var boðið upp á tvenns konar leiðir, sem lýst verður nánar hér á eftir, annars vegar svokallaða fjárfestingarleið þar sem hægt var að fjárfesta í margvíslegum fjármálagerningum og fasteignum og hins vegar ríkisverðbréfaleið. Síðasta útboð samkvæmt fjárfestingarleið og ríkisverðbréfaleið var haldið í febrúar 2015. Með gjaldeyrisútboðunum tókst að færa kvikar krónueignir að fjárhæð 175 milljarðar kr. úr eigu erlendra aðila í hendur langtímafjárfesta. Þar af bundu útboðin í fjárfestingarleiðinni 118,5 milljarða kr. eða 68% af heildinni og útboð ríkisverðbréfaleiðar 56,5 milljarða kr. eða 32% af heildinni. Sem hlutfall af landsframleiðslu lækkaði staða skammtímakrónueigna erlendra aðila fyrir tilstuðlan gjaldeyrisútboðanna og beinna viðskipta Seðlabankans úr 26% af landsframleiðslu í árslok 2011 í 12% af áætlaðri landsframleiðslu ársins 2016 við lok síðustu útboða fjárfestingarleiðar og ríkisverðbréfaleiðar sem fram fóru í febrúar 2015. Í þessum tölum er ekki tekið tillit til útboðsins sem fram fór 16. júní 2016 þar sem Seðlabanki Íslands kallaði eftir tilboðum um sölu á aflandskrónueignum gegn greiðslu reiðufjár í erlendum gjaldeyri. Munurinn á því útboði og hinum fyrrnefndu er sá að í útboðinu 16. júní seldi Seðlabankinn gjaldeyri úr gjaldeyrisforðanum án þess að langtímafjárfestum væri boðið að taka þátt, enda var forðastaðan þá orðin allt önnur. Af fyrrgreindu má sjá að gjaldeyrisútboðin ásamt beinum viðskiptum Seðlabankans skiluðu þýðingarmiklum árangri og auðvelduðu losun fjármagnshaftanna.
    Þátttakendur í útboðum fjárfestingarleiðar Seðlabankans urðu að uppfylla fjölmörg skilyrði sem giltu um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið og undirrita skilmála þar um. Á meðal kvaða sem fjárfestar þurftu að gangast undir var að fjárfestingin yrði bundin í fimm ár. Var það gert í því skyni að draga úr líkum á því að spákaupmenn tækju þátt í útboðunum, en slíkt hefði komið í veg fyrir að markmið um aukinn stöðugleika næðist. Seðlabanki Íslands gerði í upphafi útboða fjárfestingarleiðar samninga við milligönguaðila (fjármálafyrirtæki) þar sem skilgreindur var rammi um kaup Seðlabankans á erlendum gjaldeyri fyrir krónur í útboðsviðskiptum sem seljendur gjaldeyrisins myndu verja til langtímafjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Fjármálafyrirtækin höfðu milligöngu um að miðla til Seðlabankans umsóknum fjárfesta um þátttöku í útboðum fjárfestingarleiðar og bar m.a. að gæta þess að fyrirhuguð fjárfesting uppfyllti kröfur Seðlabankans. Formlega var þátttaka í útboðunum í nafni innlends fjármálafyrirtækis sem var gagnaðili Seðlabankans í viðskiptunum. Fjármálafyrirtækjunum bar m.a. að kanna fjárfesta (viðskiptamenn sína) með tilliti til laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og staðfesta gagnvart Seðlabankanum. Eftirlit með því að fjármálafyrirtæki sinni skyldum sínum varðandi peningaþvættisathuganir er hins vegar í höndum Fjármálaeftirlitsins. Seðlabankanum er ekki kunnugt um að gerðar hafi verið athugasemdir við starfsemi milligönguaðila hvað varðar peningaþvættiskannanir og skyldur skv. lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Án tæmandi upptalningar fylgja hér þátttökuskilyrði fjárfesta í útboðum fjárfestingarleiðar:
          Viðskiptin voru skilyrt því að fjárfestir áformaði fjárfestingu til fimm ára hið minnsta.
          Fjárfestir samþykkti kvaðir um bann við hvers kyns ráðstöfun fjárfestingarinnar, hvort sem er bein eða óbein, til fimm ára, og þ.m.t. allar veðsetningar, framvirka samninga eða aðrar afleiður.
          Fjárfestir samþykkti ákvæði um innlausnarrétt Seðlabanka til handa yrði brotið gegn kvöðum um bann við ráðstöfun, en bankinn áskildi sér rétt ef nauðsyn krefði til málshöfðunar, kyrrsetningar eða annarra réttar- og fullnustugerða til heimtu á innlausnarrétti.
          Fjárfestir þurfti að staðfesta að hann væri raunverulegur eigandi fjármunanna, svo og að viðskiptin væru framkvæmd fyrir eigin reikning fjárfestisins en ekki fyrir hönd annars/annarra aðila; og jafnframt að fjárfesting væri ekki til málamynda, einungis gerð til þess að afla fjárfestinum hagnaðar af undirliggjandi gjaldeyrisviðskiptum án þess að fjárfestingin ætti að færa honum hagnað.
          Fjárfestir skuldbatt sig til að veita allar upplýsingar í viðskiptum sínum og Seðlabankans sem nauðsynlegar væru til að sýna fram á og staðreyna að skilyrði fyrir viðskiptunum væru uppfyllt.
          Það var jafnframt skilyrði af hálfu Seðlabankans að fyrirhuguð fjárfesting ætti í engum tilfellum, hvorki beint né óbeint, að standa undir erlendri fjárfestingu. Með erlendri fjárfestingu var átt við beina eða óbeina fjárfestingu í erlendum eignum, svo sem, en án tæmandi talningar, verðbréfum útgefnum af erlendum aðilum, lánveitingum til eða á milli erlendra aðila, eða fasteignum sem væru staðsettar erlendis.
          Fyrirhuguð fjárfesting átti ekki að standa undir kaupum hlutafélags á eigin hlutabréfum, lánveitingum í erlendum gjaldeyri, fjárfestingum í flugvélum, skipum, lausafé eða kröfum á fjármálafyrirtæki í slitameðferð.
          Fjárfestingin átti ekki, hvorki beint né óbeint, að standa undir fjármögnun almennra utanríkisviðskipta, þar með talið kaup á nauðsynlegum aðföngum vegna venjubundinnar starfsemi fjárfestis, nema utanríkisviðskiptin tengdust uppsetningu og rekstri fjárfestingarinnar.
          Þegar um var að ræða fyrirhugaða fjárfestingu til kaupa á verðbréfum þurfti fjárfestir að afhenda upplýsingar, þar sem fram kæmi hverjar fyrirætlanir útgefanda verðbréfanna væru um ráðstöfun fjármunanna, en það gátu verið fjárfestingaráætlanir, endurrit fundargerða af hluthafafundum eða stjórnarfundum eða önnur gögn af sama toga.
          Svo lengi sem kvaðir um langtímafjárfestingu eru í gildi getur Seðlabanki Íslands, telji hann ástæðu til, kallað eftir upplýsingum frá fjárfesti er varða skilyrði fyrir viðskiptunum.
          Fjárfestar voru kannaðir með tilliti til gr. 4.g í skilmála fjárfestingarleiðar sem fjallaði um að fjárfestir, eða lögaðili sem hann á eða átti sæti í stjórn eða er eða var í forsvari fyrir, lægi ekki undir rökstuddum grun hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans um meint brot, hefði ekki verið ákærður af handhafa ákæruvalds eða kærður til lögreglu af Seðlabankanum, og máli vegna þess væri enn ólokið hjá ákæruvaldi eða lögreglu, eða vanvirt óuppgerða stjórnvaldssekt eða sátt, allt vegna meintra brota á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, og reglum settum á grundvelli þeirra.
    Í 21 útboði fjárfestingarleiðar sem hófust í febrúar 2012 og lauk í febrúar 2015 gerðu fjárfestar 1.282 tilboð. Alls var 1.074 tilboðum tekið samtals að fjárhæð 550 milljónir evra. Fjárfestar þurftu að selja fjárhæð erlends gjaldeyris jafnháa þeirri sem tekið var í gjaldeyrisútboði fjárfestingarleiðar hjá innlendri fjármálastofnun. Samtals komu því u.þ.b. 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðar eða 206 milljarðar kr.
    Um 47% af fjármagnsinnstreyminu vegna útboða samkvæmt fjárfestingarleið runnu til kaupa á skuldabréfum, um 40% til kaupa á hlutabréfum, 12% til kaupa á fasteignum og tæplega 1% til kaupa á hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða. Greining fjárfesta í innlenda og erlenda sem tóku þátt í útboðunum samkvæmt fjárfestingarleið sýnir að 794 innlendir fjárfestar stóðu að baki 35% fjárfestingarinnar en 280 erlendir að baki 65% fjárfestingarinnar. Við greininguna voru erlend félög í eigu innlendra aðila talin sem innlendir fjárfestar.
    Seðlabanki Íslands getur ekki tjáð sig um þátttöku tiltekinna einstaklinga og/eða lögaðila í útboðum bankans með vísan til þagnarskylduákvæðis 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.
    Þátttaka í útboðum fjárfestingarleiðar var að meginhluta frá aðildarríkjum OECD. Frá svæðum sem skilgreind eru sem lágskattasvæði (þau eru 29 að tölu) samkvæmt lista fjármála- og efnahagsráðuneytisins tóku sjö lögaðilar í meirihlutaeigu íslenskra aðila þátt í einhverju af 21 útboði fjárfestingarleiðar á árunum 2012 til 2015 með 13 milljónir evra alls. Þessa fjárhæð má tvöfalda þar sem fjárfestarnir þurftu að skipta jafnhárri fjárhæð á álandsgengi til að uppfylla skilyrði útboðanna. Því nam fjárfesting þeirra u.þ.b. 26 milljónum evra, sem samsvarar tæplega 5 milljörðum kr. og 2,4% af heildarfjárfestingu í útboðum fjárfestingarleiðar. Frá Lúxemborg, Kýpur og Möltu, sem ekki eru á fyrrgreindum lista, tóku 12 lögaðilar í meirihlutaeigu íslenskra aðila þátt í fjárfestingarleiðinni með 82 milljónir evra eða 15,4 milljarða kr.
    Í 23 útboðum ríkisverðbréfaleiðar bauðst Seðlabanki Íslands til að kaupa evrur gegn greiðslu í ríkisverðbréfum. Skuldabréfaflokkarnir verða á gjalddaga 2031 og 2033. Gjaldeyrisútboð ríkisverðbréfa hófust sumarið 2011 og var síðasta útboðið haldið í febrúar 2015. Með þátttöku í ríkisverðbréfaútboðunum skuldbundu fjárfestar sig til að eiga skuldabréfin í að minnsta kosti fimm ár. Fjárfestingar í ríkisverðbréfum urðu alls 56,5 milljarðar kr. Af þeirri fjárhæð er hlutdeild lífeyrissjóðanna 44% sem skýrðist að mestu leyti af samkomulagi fulltrúa lífeyrissjóðanna við stjórnvöld vegna þátttöku sjóðanna í fjármögnun sérstakra vaxtabóta.
    Samfara útboðum til kaupa á erlendum gjaldeyri samkvæmt skilmálum fjárfestingarleiðar og sölu á ríkisverðbréfum voru haldin 22 útboð þar sem leitað var tilboða frá aðilum sem vildu selja krónueignir sínar í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri sem var undanþeginn skilaskyldu. Í útboðunum 22 voru samtals 460 milljarðar kr. boðnir til sölu, en þar af keypti Seðlabanki Íslands tæpa 158 milljarða kr. Síðar í þessari samantekt verður sérstaklega gerð grein fyrir síðasta útboðinu um kaup á krónum sem haldið var í júní 2016. Eftir því sem leið á útboðsferlið færðust aflandskrónurnar á færri hendur sem skýrðist af viðskiptum erlendra aðila með krónurnar. Greina mátti vaxandi samráð eigenda krónanna í tilboðum um sölu á aflandskrónunum í síðustu útboðunum og átti sú staðreynd m.a. þátt í að talið var rétt að hætta gjaldeyrisútboðunum, ásamt því að forðastaðan hafði stórbatnað.
    Útboðsverð var ákveðið að afloknum útboðunum þremur á útboðsdegi. Magn króna sem Seðlabanki Íslands keypti fyrir erlendan gjaldeyri réðst af magni erlends gjaldeyris sem boðinn var til sölu til kaupa á löngum ríkisskuldabréfum og til fjárfestinga í gegnum fjárfestingarleiðina. Þannig var áhrifum útboðanna á gjaldeyrisforðann haldið í lágmarki.
    Í endurskoðaðri áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnt var í júní 2015 var greint frá þrenns konar aðgerðum sem taldar voru forsenda endanlegrar losunar fjármagnshafta. Ein þeirra fólst í afmörkun aflandskrónueigna og útboði er miðaði að því að minnka stofn aflandskróna er valdið gæti óstöðugleika við losun fjármagnshafta. Í útboðinu sem fram fór 16. júní 2016 kallaði Seðlabanki Íslands eftir tilboðum um sölu á aflandskrónueignum gegn greiðslu reiðufjár í erlendum gjaldeyri. Hinn 21. júní 2016 kynnti Seðlabankinn helstu niðurstöður útboðsins og greindi jafnframt frá því að bankinn byðist til að kaupa aflandskrónueignir sem ekki seldust í útboðinu á genginu 190 krónur á evru. Skilmálar viðskipta voru kynntir 22. júní. Alls bárust 1.715 tilboð og var 1.688 tilboðum tekið eða 98,4% af fjölda tilboða. Samþykkt voru tilboð að andvirði 83 milljarða kr. af 188 milljörðum kr. sem boðnar voru í útboðinu og í tilboðsferlinu í kjölfar útboðsins. Ekki voru haldin útboð um kaup á erlendum gjaldeyri samfara fyrrgreindu útboði og því lækkaði gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands í kjölfar útboðsins um sem nam rúmlega 54 milljörðum kr.
    Í mars sl. var greint frá samkomulagi Seðlabanka Íslands við eigendur krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, sbr. lög nr. 37/2016. Í samkomulaginu fólst að Seðlabankinn keypti af þeim aflandskrónueignir að fjárhæð um 90 milljarðar kr. á genginu 137,5 krónur á evru. Með lögum nr. 37/2016 var mælt fyrir um meðferð aflandskrónueigna og þær afmarkaðar sérstaklega. Afmörkunin var talin nauðsynleg í ljósi þess að áformað var að losa um fjármagnshöft á heimili og fyrirtæki að miklu leyti en gjaldeyrisforði var ekki talinn nægur til þess að tryggja stöðugleika ef losun fjármagnshafta á eigendur aflandskróna ætti sér stað samtímis. Í byrjun apríl 2017, eftir að fjármagnshöft á innlenda aðila höfðu verið losuð að mestu leyti án óstöðugleika, bauðst Seðlabanki Íslands til að kaupa aflandskrónueignir í skiptum fyrir reiðufé í evrum á genginu 137,5 krónur á evru. Tilboðið náði til innstæðna, víxla og skuldabréfa sem gefin eru út af ríkissjóði eða Íbúðalánasjóði og innstæðubréfa Seðlabankans en niðurstöður liggja enn ekki fyrir.
    Embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra óskuðu eftir upplýsingum um þátttakendur í gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands sem þeim voru afhentar með nokkrum sendingum á árunum 2012 til 2015.

     1.      Hvert er heildarumfang gjaldeyrisinnstreymis samkvæmt fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, skipt eftir gjaldmiðlum? Hversu mikill afsláttur hefur verið gefinn ár hvert frá því að heimilt var að koma með gjaldeyri með þessum hætti inn í landið?
    Í 21 útboði fjárfestingarleiðar sem hófust í febrúar 2012 og lauk í febrúar 2015 gerðu fjárfestar 1.282 tilboð. Alls var 1.074 tilboðum tekið samtals að fjárhæð 550 milljónir evra eða sem samsvarar 118,5 milljörðum kr. Fjárfestar þurftu að selja fjárhæð erlends gjaldeyris jafnháa þeirri sem tekið var í gjaldeyrisútboði fjárfestingarleiðar hjá innlendri fjármálastofnun. Samtals komu því u.þ.b. 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðar eða 206 milljarðar kr. Í eftirfarandi töflu má sjá fjárhæðir einstakra útboða fjárfestingarleiðar ásamt mismun miðgengis evru á útboðsdegi auk útboðsgengis reiknað í milljörðum króna:

Dagsetning
útboðs
Tekin tilboð m. evra Útboðsgengi evra Miðgengi evru Mismunur í ma.kr.
15.2.2012 59,1 240 161,9 4,6
28.3.2012 20,7 239 169,1 1,4
9.5.2012 25,7 238,8 162,4 2,0
20.6.2012 17,1 245 158,2 1,5
29.8.2012 14,9 235 152,9 1,2
3.10.2012 10,0 235 158,9 0,8
7.11.2012 16,8 235 163,3 1,2
18.12.2012 26,4 233 166,3 1,8
5.2.2013 22,2 230 171,6 1,3
19.3.2013 34,1 225 162,7 2,1
30.4.2013 23,9 210 152,9 1,4
11.6.2013 26,5 210 160,1 1,3
3.9.2013 16,5 210 159,0 0,8
15.10.2013 17,9 210 163,8 0,8
3.12.2013 39,3 210 162,4 1,9
4.2.2014 24,5 209 156,4 1,3
14.5.2014 33,0 190 155,4 1,1
24.6.2014 34,6 186 155,0 1,1
2.9.2014 27,9 181 154,0 0,8
10.2.2015 58,5 195 149,8 2,6

550

31,0
    
    
    Eins og taflan ber með sér fengu eigendur erlenda gjaldeyrisins, sem með þátttöku í gjaldeyrisútboðunum undirgengust kvaðir í skilmálum fjárfestingarleiðarinnar um ráðstöfunarbann fjárfestinga sinna til fimm ára, samtals 31 milljarði kr. hærra verð fyrir erlenda gjaldeyrinn, þ.e. sem nemur mismun miðgengis evru á útboðsdegi og útboðsgengis á þeim þremur árum sem útboðin voru haldin, en síðasta útboð fjárfestingarleiðar fór fram 10. febrúar 2015. Fjárhæðin endurspeglar það álag sem aflandskrónueigendur voru tilbúnir að greiða á erlenda gjaldeyrinn til að losa um fjármuni sína hérlendis á tímabilinu. Eins og fyrr greinir var áhrifum útboðanna á gjaldeyrisforðann haldið í lágmarki og Seðlabankinn gaf ekki afslætti í tengslum við útboð fjárfestingarleiðar.

     2.      Hvernig hefur þessum gjaldeyri verið ráðstafað, þ.e. hve mikið hefur farið til kaupa á
       a.      hlutabréfum,
       b.      fasteignum, þar með töldu jarðnæði,
       c.      öðrum verðmætum, flokkuðum með viðurkenndum aðferðum?

    U.þ.b. 47% fjármagnsinnstreymis í tengslum við útboð samkvæmt fjárfestingarleið runnu til kaupa á skuldabréfum, því sem næst 40% til kaupa á hlutabréfum, 12% til kaupa á fasteignum og tæplega 1% til kaupa á hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða.

     3.      Hversu stórum hluta fjárfestinganna er ekki hægt að skipta á tilgreindar fjárfestingar skv. 2. tölul.?
    Á fasteignir sem keyptar voru fyrir tilstuðlan útboðanna var þinglýst kvöð um ráðstöfunarbann þar sem fjárfestar skuldbundu sig til að eiga fasteignirnar í fimm ár frá kaupum. Í tilviki hlutabréfa og skuldabréfa var gerð krafa um að bréfin væru rafrænt skráð hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Gerður var samningur við vörsluaðila verðbréfa um „læsingu“ verðbréfanna þannig að eigendur þeirra gætu ekki ráðstafað þeim fyrr en að fimm árum liðnum frá kaupum. Fjárfestum stóð ekki til boða að fjárfesta í öðrum eignum en nefndar eru í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Hvernig skiptast fyrrgreindar fjárfestingar, í fjárhæðum og fjölda, milli lögaðila og einstaklinga, aðila með innlenda kennitölu og með erlenda kennitölu og erlendra aðila og innlendra?
    Alls tóku 316 lögaðilar þátt í útboðum fjárfestingarleiðar og nam heildarfjárfesting þeirra 170 milljörðum kr. Alls tóku 758 einstaklingar þátt og nam fjárfesting þeirra alls 36 milljörðum kr. Greining á búsetu fjárfesta sem tóku þátt í útboðunum samkvæmt fjárfestingarleið sýnir að 794 innlendir fjárfestar stóðu að baki 35% fjárfestingarinnar en 280 erlendir aðilar að baki 65% fjárfestingarinnar. Eru þá erlend félög í eigu innlendra aðila talin sem innlendir fjárfestar.

     5.      Hversu hátt hlutfall gjaldeyrisinnstreymis eftir fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands má ætla að hafi verið sýndarviðskipti?
    Erlendum gjaldeyri sem fjárfestar fluttu til landsins fyrir tilstuðlan útboða fjárfestingarleiðar var ráðstafað til kaupa á rafrænt skráðum verðbréfum eða til kaupa á fasteignum. Seðlabankinn fær ekki séð að sýndarviðskipti hafi verið möguleg.

     6.      Hver voru upprunalönd þessa gjaldeyris, hver var fjöldi fjárfestinga frá hverju þeirra og heildarfjárhæð?
    Í eftirfarandi töflu er sundurliðun fjárfesta eftir búsetu, fjölda og heildarfjárhæðum raðað eftir fjölda samþykktra umsókna frá hverju búsetulandi. Þátttaka í útboðunum var í nafni innlends fjármálafyrirtækis (milligönguaðila) sem var þá gagnaðili Seðlabankans í viðskiptunum. Fjármálafyrirtækin báru þá skyldu að kanna fjárfesta – viðskiptamenn sína – með tilliti til laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og staðfesta gagnvart Seðlabankanum.

Búsetuland fjárfestis Fjöldi samþykktra umsókna Fjárfesting m. evra
Ísland 301 160,0
Bandaríkin 98 82,8
Bretland 97 72,8
Noregur 87 57,9
Svíþjóð 69 17,5
Luxemborg 65 207,0
Sviss 60 186,5
Danmörk 49 35,3
Þýskaland 45 16,0
Holland 29 81,3
Kanada 16 4,5
Hong Kong 14 9,0
Spánn 13 41,4
Malta 12 25,1
Frakkland 11 1,2
Austurríki 10 23,3
38 önnur lönd 98 77,3
1074 1.099,1

     7.      Er unnt að meta áhrif innstreymis þessa gjaldeyris á gengisþróun krónunnar? Ef svo er, hver hafa áhrifin verið?
    Ekki er hægt að fullyrða hve mikil áhrif innstreymi erlends gjaldeyris fyrir tilstuðlan útboðanna hafi haft á gengisþróun krónunnar á því þriggja ára tímabili (febrúar 2012 til febrúar 2015) sem útboð fjárfestingarleiðar voru haldin. Helmingur þess erlenda gjaldeyris sem fjárfest var fyrir fór um millibankamarkað með gjaldeyri og dreifðist fjárfesting vegna útboðanna með nokkuð jöfnum mánaðarlegum hætti á fyrrgreindu þriggja ára tímabili. Almennt ættu útboðin því að hafa haft jákvæð áhrif á gengi krónunnar á tímabili þegar það stóð mjög veikt. Neðangreint línurit sýnir miðgengi evru gagnvart krónunni yfir útboðstímabilið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     8.      Hvað hafa komið upp mörg tilvik þar sem Seðlabankinn telur að reynt hafi verið að misnota fyrrgreinda leið? Hvað má gera ráð fyrir að um háar fjárhæðir hafi verið að ræða?
    Í útboðum fjárfestingarleiðar var 1.074 tilboðum fjárfesta sem selja vildu erlendan gjaldeyri fyrir krónur tekið. Ekki er hægt að útiloka með öllu að í einhverjum tilvikum hafi ekki verið farið í einu og öllu samkvæmt ákvæðum skilmála fjárfestingarleiðar. Hins vegar hafa athuganir ekki leitt í ljós umtalsverð frávik frá skilmálum og er það mat Seðlabankans að skilmálunum hafi almennt verið fylgt. Embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra óskuðu eftir upplýsingum um þátttakendur í gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands sem þeim voru afhentar með nokkrum sendingum á árunum 2012 til 2015. Seðlabankinn hefur ekki upplýsingar um hvað þær upplýsingar hafa leitt í ljós.