Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1093  —  313. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur um hjúkrunar- og dvalarrými.


     1.      Hefur ráðherra ákveðið hvernig skipta eigi þeim 700 millj. kr. sem samþykktar voru við 2. umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 til að fjölga hjúkrunar- og dvalarrýmum? Ef svo er, hvernig verður sú skipting?
    
Við 2. umræðu fjárlaga þessa árs ákvað Alþingi að veita 700 millj. kr. tímabundið til öldrunarstofnana. Framlagið skiptist þannig að 500 millj. kr. eru ætlaðar til að mæta útskriftarvanda spítala en 200 millj. kr. til að fækka tvíbýlum á hjúkrunarheimilum og breyta þeim í einbýli.
    Þegar hefur verið tekin ákvörðun um ráðstöfun stærsta hluta þeirra 500 millj. kr. sem ætlaðar eru til að mæta útskriftarvanda spítala.
          163,2 millj. kr. fara til reksturs öldrunardeildar sem Landspítali rekur á Vífilsstöðum.
          125,2 millj. kr. fara til reksturs útskriftardeildar á Landakoti.
          60–120 millj. kr. verður varið í að breyta fimm daga öldrunardeild á Landakoti í sjö daga deild. Upphæðin ræðst af því hvenær unnt reynist að ráðast í breytingarnar.
          10 millj. kr. verður varið í að sameina dag- og göngudeild á Landakoti.
          70 millj. kr. verður varið í að framlengja rekstarheimildir 26 dagdvalarrýma sem komið var á tímabundið á síðasta ári í tengslum við ráðstöfun tímabundinna fjárveitinga til að mæta útskriftarvanda Landspítala.
    Ekki liggur fyrir endanleg ákvörðun um úthlutun 200 millj. kr. fjárveitingar til að breyta tvíbýlum í einbýli. Verið er að undirbúa úthlutun fjárveitinganna og er í þeirri vinnu horft til aðstæðna og þarfa á hjúkrunarheimilunum.

     2.      Ef ráðherra hefur ekki gert áætlun um skiptingu þessa fjármagns, hvenær hyggst hann gera það og mun hann leggja slíka áætlun fyrir þingið?
    Eins og fram kemur í svari við fyrri lið fyrirspurnarinnar liggur fyrir nákvæm áætlun um skiptingu 500 millj. kr. af 700 millj. kr. tímabundinni fjárveitingu sem Alþingi ákvað að veita til öldrunarstofnana. Hins vegar liggur ekki fyrir endanleg ákvörðun um skiptingu þeirra 200 millj. kr. af fjárveitingunni sem ætlaðar eru til að breyta tvíbýlum í einbýli.
    Heilbrigðisráðherra hefur ekki í hyggju að leggja þessa áætlun sérstaklega fyrir Alþingi en vonar að þessar upplýsingar gefi háttvirtum þingmanni fullnægjandi upplýsingar um hvernig fyrirhugað er að ráðstafa þessari 700 millj. kr. tímabundnu fjárveitingu.