Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1099  —  194. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Arnbjörgu Sveinsdóttur um sóknaráætlanir landshluta.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra framfylgja ákvæði stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um byggðamál þar sem segir að lýðræðisleg aðkoma íbúa verði m.a. styrkt í gegnum sóknaráætlanir landshluta?
    Í samræmi við lög nr. 69/2015, um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, er starfræktur samráðsvettvangur í hverjum landshluta. Þar er um að ræða samstarfsvettvang sveitarfélaga, ríkisstofnana, atvinnulífs, menningarlífs, fræðasamfélags og annarra haghafa í hverjum landshluta. Í 4. gr. samninga um sóknaráætlanir segir: „Landshlutasamtökin skipa samráðsvettvang þar sem tryggð er sem breiðust aðkoma sveitarstjórna, stofnana, atvinnulífs, menningarlífs, fræðasamfélags og annarra haghafa í landshlutanum. Gæta skal lýðræðis-, búsetu-, aldurs- og kynjasjónarmiða. Landshlutasamtökin skilgreina hlutverk og verkefni samráðsvettvangs og skal hann hafa beina aðkomu að gerð sóknaráætlunar landshlutans og vera upplýstur um framgang hennar. Samráðsvettvangurinn skal koma saman að minnsta kosti árlega og ræða framgang sóknaráætlunar.“ Í árlegri greinargerð um framvindu samninga og ráðstöfun á fjármunum til sóknaráætlana landshluta má finna tölfræðilegar upplýsingar um samsetningu einstakra samráðsvettvanga.

     2.      Er fyrirhugað að auka fjárframlög til sóknaráætlana landshluta sem nú er ætlað að efla menningu og efla atvinnuþróun? Er fyrirhugað að veita fé til annara þátta og málaflokka?
    Ákvæði samninga um sóknaráætlanir kveða á um að ríkið og landshlutasamtök sveitarfélaga skuli vinna að því að auka fjárframlög á samningstímanum. Ríkið hefur aukið fjárframlög frá 2015 um rúm 27%, eða úr 530,7 millj. kr. í 730,7 millj. kr.
    Samningsaðilar hafa rætt hvernig breikka megi starfssvið sóknaráætlana og hvort æskilegt sé að fella fleiri málaflokka undir samninga um sóknaráætlanir í framtíðinni.

     3.      Verður aðkoma stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál að sóknaráætlunum óbreytt?
    Um aðkomu stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál að sóknaráætlunum gilda lög nr. 69/2015, um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Góð reynsla er af störfum stýrihópsins og samskiptum hans við landshlutasamtök sveitarfélaga. Verklag á samskiptum samningsaðila er á hinn bóginn sífellt í mótun.

     4.      Verður lagt heildarmat á hvernig framkvæmd sóknaráætlana landshluta hefur tekist með hliðsjón af umfangi verkefnisins og fjárveitingum?
    Núgildandi sóknaráætlanasamningar voru undirritaðir 10. febrúar 2015 og verklag, eftirlit og mat á framkvæmd samninganna er í stöðugri þróun. Árlega er unnin greinargerð fyrir ráðherra og ríkisstjórn um framvindu samninga og ráðstöfun á fjármunum til þeirra. Greinargerðir hér um eru aðgengilegar á vef Stjórnarráðsins.
    Á árinu 2017 verður tekin í notkun rafræn umsóknargátt fyrir sóknaráætlanir. Þar verður á einum stað haldið utan um allt er lýtur að sóknaráætlanasamningum, m.a. umsóknir í uppbyggingasjóði og afgreiðsla þeirra, framvinda verkefna, áhersluverkefni landshluta og þróun fjárframlaga til einstakra samninga. Með umsóknargáttinni verður allt utanumhald og yfirsýn yfir verkefni fyrir landið í heild auðveldara og hægt verður að taka út stöðu verkefna eftir landshlutum, atvinnugreinum o.fl.
    Gert er ráð fyrir að framkvæmt verði mat á sóknaráætlunum á árinu 2018, m.a. til að undirbúa fyrirhugað framhald á samningum.

     5.      Verður lagt mat á hvernig gengur að ná markmiðum laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, sem eiga að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála, innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga, en jafnframt að færa til sveitarstjórna aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar?
    Mat á sóknaráætlunum byggist á því hvernig markmiðum einstakra áætlana hefur undið fram og vísast til svars við lið 4 í fyrirspurninni í því sambandi. Framvinda og árangur vega þyngst um áform um breytingar á umræddum samningum.