Ferill 604. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1115  —  604. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Óla Halldórssyni um fráveitumál í Mývatnssveit og á friðlýstum svæðum.


     1.      Mun ríkissjóður leggja fram fjármuni, og þá hve mikla, til nauðsynlegra framkvæmda við fráveitu í Mývatnssveit?
    Almennt gildir sú regla að sveitarfélög bera ábyrgð á uppbyggingu fráveitna og kostnað við framkvæmdir og rekstur þeirra en innheimta gjöld frá notendum, heimilum og atvinnurekstri, sbr. 4. gr., 5. gr., 13. gr. og 14. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Eigendur fráveitna eru ábyrgir fyrir því að losun frá fráveitunum sé í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp og skilyrði sem sett eru í starfsleyfi viðkomandi fráveitu.
    Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur óskað eftir liðsinni ríkisvaldsins við fjármögnun á fráveitum við Mývatn á fundum, í innsendum erindum og í samþykktum sveitarstjórnar og nú síðast í fimm ára tímasettri umbótaáætlun varðandi fráveitur sem sveitarstjórnin lagði fram ásamt rekstraraðilum fráveitna 15. júní sl. Í þessari umræðu hefur verið nefnt að auknar kröfur séu gerðar um fráveitur við Mývatn, m.a. í reglugerð sem byggist á lögum um vernd Mývatns og Laxár. Einnig hafa verið nefnd almenn sanngirnissjónarmið, að framkvæmdir séu mjög dýrar vegna aukinna krafna og sveitarstjórn fámennrar byggðar hafi takmarkað bolmagn til að takast á við svo dýrar framkvæmdir.
    Lög gefa ekki skýra leiðsögn um hugsanlega hlutdeild ríkisvaldsins í kostnaði við framkvæmdir og rekstur fráveitna við Mývatn. Umhverfis- og auðlindaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra brugðust við erindum sveitarstjórnar Skútustaðahrepps á þann hátt að fara með minnisblað um málið fyrir ríkisstjórn 5. maí sl. Þar fengu ráðherrarnir tveir heimild til að ræða við sveitarstjórnina um hugsanlega aðkomu ríkisins að umbótum í fráveitumálum. Ráðherrarnir hafa síðan fundað með sveitarstjórninni þar sem farið var yfir stöðu mála. Sveitarstjórnin og rekstraraðilar við Mývatn lögðu fram tillögur um umbætur í fráveitumálum til heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra 15. júní sl. Þar er óskað eftir aðkomu ríkisins að umræðu um framkvæmd og fjármögnun aðgerða. Augljóslega er ekki hægt að segja til um á þessu stigi hvort og hve mikla fjármuni ríkissjóður muni leggja til framkvæmda í fráveitumálum við Mývatn. Hins vegar er ljóst að fullur vilji er hjá ríkisstjórninni til að skoða beiðni sveitarstjórnarinnar í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem eru við Mývatn, vegna ákvæða í sérlögum um vernd Mývatns og Laxár, vegna áhyggna af ástandi lífríkis vatnsins og vegna þrýstings á skjótar aðgerðir

     2.      Hver er afstaða ráðherra til ábyrgðar ríkisins í fráveitumálum í Mývatnssveit í ljósi friðlýsingar svæðisins og gildi þess sem RAMSAR-verndarsvæðis?
    Lög um vernd Mývatns og Laxár leggja skýra skyldu á herðar stjórnvalda að vernda Mývatn og Laxá og lífríkið þar. Það gildir um bæði ríkisvaldið og sveitarstjórnir. Með tilnefningu svæðisins á skrá RAMSAR-samningsins um vernd votlendissvæða skapast einnig skylda til að vernda svæðið samkvæmt ákvæðum samningsins.
    Ábyrgð ríkisins nær m.a. til vöktunar á Mývatni og Laxá og lífríki þess og álagi og ógnum. Vöktun hefur verið lengi í gangi, einkum á vegum Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ), en fleiri aðilar leggja þar lið. Umhverfis- og auðlindaráðherra ákvað nýlega að efla vöktun á Mývatni og verja til þess auknu fé. Sérstaklega verður horft til þess að vakta styrk og innstreymi næringarefna í vatnið og bæta mat á uppsprettum þeirra, auk efldra mælinga á styrk baktería og þörunga í vatninu. RAMÝ mun þegar í sumar bæta við mælingum í þessu skyni og er fyrirhugað að fara betur yfir þetta mál með RAMÝ og Umhverfisstofnun í haust varðandi vöktun á næstu árum.
    Ekki er fjallað sérstaklega um fráveitumál í lögum um vernd Mývatns og Laxár, en kröfur um fráveitur eru tilteknar í reglugerð á grundvelli laganna og þær kröfur hafa verið nánar skýrðar í minnisblaði frá Umhverfisstofnun. Hvergi er sérstaklega fjallað um hugsanlega aðkomu ríkisins að fjárveitingu varðandi framkvæmdir við fráveitur eða rekstur fráveitna. Skoða þarf aðkomu ríkisins þar með tilliti til almennra laga og réttarreglna, auk sanngirnissjónarmiða. Ráðherra telur eðlilegt að gert sé ráð fyrir að atvinnurekstur, svo sem á sviði ferðaþjónustu, sem nýtur nálægðar við Mývatn greiði sinn hlut í kostnaði við fráveitur í samræmi við mengunarbótareglu. Hins vegar er ljóst að sveitarstjórn stendur frammi fyrir stóru verkefni og ströngum tímafrestum sem önnur sveitarfélög búa ekki við nú. Í því ljósi samþykkti ríkisstjórn að verða við ósk sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að hefja viðræður um væntanlegar úrbætur í fráveitumálum og fjármögnun þeirra.
    Ráðuneytið setti á fót starfshóp árið 2016 með þátttöku sveitarstjórnar og heimamanna, sem dró saman helstu upplýsingar og kom með ábendingar sem unnið hefur verið eftir. Ráðuneytið bað í kjölfarið verkfræðistofuna Eflu að gera úttekt á fráveitumálum við Mývatn og koma með tillögur að úrbótum. Skýrslan kom út í mars 2017 og þar er greinargott yfirlit og tillögur varðandi fráveitur á sjö stöðum við Mývatn. Ljóst er að kostnaður við allar framkvæmdir verður mörg hundruð milljónir króna.
    Staða mála er mun skýrari nú en fyrir rúmu ári þegar umræða var á Alþingi og víðar um slæmt ástand lífríkis Mývatns og mögulegan þátt fráveitu þar. Nú liggur fyrir leiðsögn um farveg málsins, verkfræðileg úttekt á stöðu mála og mögulegar úrbætur á sjö stöðum við vatnið, vilji ríkisstjórnar og sveitarstjórnar Skútustaðahrepps til að takast á við málið sameiginlega og úrbótaáætlun sveitarstjórnar og rekstraraðila. Engu að síður er ljóst að ýmis álitamál – verkfræðileg, lögfræðileg og varðandi kostnað – eru enn uppi og þarf að greiða úr þeim.
    Vandi Mývatns snýst ekki um bráðamengun heldur langtímaþróun sem vísindamenn telja sig sjá og þar sem fráveitumál kunna að vera einn orsakavaldur. Grípa þarf til aðgerða, en vanda jafnframt til áætlana og verka. Unnið verður að málinu af hálfu ríkisvaldsins í samvinnu við sveitarstjórn og sérfræðinga með það að leiðarljósi að finna bestu og hagkvæmustu lausnina til langs tíma.

     3.      Hver er stefna ráðherra varðandi ábyrgð og aðkomu ríkisins að fráveitumálum á friðlýstum svæðum og svæðum sem ríkið hefur tilnefnt til alþjóðlegrar verndunar?
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur ekki markað sérstaka stefnu um aðkomu ríkisins í fráveitumálum á friðlýstum svæðum og svæðum sem njóta alþjóðlegrar verndunar. Ekki er víst að þörf sé á slíku þar sem ástæður verndar eru margvíslegar og lúta ekki alltaf að vatni og lífríki þess. Ekki er heldur víst að álag sé af völdum fráveitna á öllum friðlýstum svæðum. Í því ljósi er það mat ráðherra að frekar en að setja almenna stefnu varðandi öll svæði sem eru friðlýst eða njóta annarrar verndar skuli, ef þar til bærar stofnanir meta svo, fjalla sérstaklega um þennan þátt í friðlýsingarskilmálum og/eða verndaráætlunum viðkomandi svæðis.
    Skýrar almennar reglur um vatnsvernd og fráveitumál eiga að geta átt við alls staðar, innan sem utan friðlýstra svæða. Þá gildir sú regla að krafist er ítarlegrar hreinsunar þar sem þess er talið þörf út frá vísindalegu mati, hvort sem viðkomandi svæði nýtur verndar samkvæmt lögum eða ekki. Í drögum að nýrri fráveitureglugerð er leitast við að skýra þetta.
    Ljóst er að staðan nú varðandi Mývatn er nokkuð sérstök. Þar eru í gildi sérlög um vernd Mývatns og Laxár og vísbendingar eru um hnignun lífríkisins, sem er sérstætt og verðmætt á heimsvísu, m.a. vegna fráveitna. Krafa er uppi af hálfu stjórnvalda um úrbætur og framkvæmdir þar sem kostnaðarmat er hátt og mörg álitamál uppi. Því er þörf á sértækri úrlausn á þeim málum og er unnið að henni með aðkomu sveitarstjórnar og ríkisvaldsins.