Ferill 557. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1125  —  557. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um brunavarnaáætlanir.


     1.      Í hversu mörgum sveitarfélögum liggja fyrir samþykktar brunavarnaáætlanir fyrir slökkvilið og fyrir hversu mörg sveitarfélög hefur engin brunavarnaáætlun verið gerð?
    Í 13. gr. laga nr. 75/2000, um brunavarnir, er kveðið á um að á hverju starfssvæði slökkviliðs skuli liggja fyrir brunavarnaáætlun sem hafi fengið samþykki Mannvirkjastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar. Brunavarnaáætlun skal endurskoða eigi síðar en að fimm árum liðnum frá því að hún hlaut samþykki. Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þau verkefni sem því eru falin með lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Samkvæmt upplýsingum frá Mannvirkjastofnun er samþykkt brunavarnaáætlun í gildi hjá alls 12 slökkviliðum en starfssvæði þeirra nær til 25 sveitarfélaga. Ekki hefur verið lokið við gerð brunavarnaáætlunar hjá 11 slökkviliðum með starfssvæði sem nær til alls 22 sveitarfélaga. Þá er ekki rekið slökkvilið í einu sveitarfélagi og þar er ekki í gildi brunavarnaáætlun.

     2.      Hversu margar brunavarnaáætlanir hafa ekki verið endurskoðaðar eftir fimm ár eins og kveðið er á um í lögum um brunavarnir? Er einhver eftirfylgni með því að brunavarnaáætlanir séu gerðar og endurskoðaðar og ef svo er ekki, telur ráðherra rétta að beita sér fyrir stífari eftirfylgni?
    Brunavarnaáætlanir hafa verið gerðar hjá alls 16 slökkviliðum með starfssvæði í 26 sveitarfélögum en þær hafa ekki verið endurskoðaðar með reglubundnum hætti. Mannvirkjastofnun hefur sent árlega bréf til áminningar til þeirra sveitarfélaga sem hafa brunavarnaáætlanir sem fallnar eru úr gildi og til þeirra sem ekki hafa skilað brunavarnaáætlun til samþykktar.
    Á síðastliðnum árum hafa farið fram faglegar úttektir af hálfu Mannvirkjastofnunar á slökkviliðum og ástandi og stöðu brunavarnarmála. Má í þeim efnum nefna stöðuskýrslu um brunavarnaáætlanir frá 2015, sem unnin var á árunum 2013–2015, og áfangaskýrslu um úttektir á slökkviliðum 2016–2017. Ráðuneytið hefur á undanförnum árum rætt um stöðu á vinnu við gerð brunavarnaáætlana af hálfu sveitarfélaganna. Ráðuneytið hefur óskað eftir því við Samband íslenskra sveitarfélaga að það komi með tillögur um úrlausnir vegna lögbundinna skyldna um brunavarnir.

     3.      Býðst litlum slökkviliðum einhver stuðningur við að framfylgja brunavarnaáætlunum?
     4.      Er gert ráð fyrir kostnaði vegna brunavarnaáætlana í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga?

    Framfylgni og gerð brunavarnaáætlana er hluti af verkefnum slökkviliða sem eru á forræði sveitarfélaganna og kostuð af þeim.