Ferill 514. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1127  —  514. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Einari Brynjólfssyni um samninga ráðuneytisins og undirstofnana þess við sveitarfélög.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða samningar ráðuneytisins og undirstofnana þess við sveitarfélögin voru í gildi 1. apríl 2017, hvaða samningar milli þessara aðila runnu út á tímabilinu 1. janúar 2006 til og með 1. apríl 2017 og eftir hvaða samningum var enn greitt 1. apríl 2017 þótt gildistími þeirra væri liðinn? Óskað er eftir stuttri lýsingu á efni hvers samnings fyrir sig.

    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá undirstofnunum og byggist eftirfarandi svar á þeim. Athygli er vakin á að núverandi embætti lögreglustjóra og sýslumanna voru stofnuð með lögum sem tóku gildi 1. janúar 2015.
    Ráðuneytið og dómsmálahluti forvera þess, innanríkisráðuneytis, hafa frá 1. janúar 2006 ekki gert samninga við sveitarfélög. Á hinn bóginn hafa undirstofnanir ráðuneytisins gert ýmsa samninga við sveitarfélög sem taldir eru upp hér á eftir.

     Samningar sem voru í gildi 1. apríl 2017:
     *      Héraðssaksóknari við Reykjavíkurborg. Samningur um langtímastæði í bílastæðahúsi fyrir starfsmenn embættisins. Samningurinn er frá 22. september 2011 og er ótímabundinn.
     *      Lögreglustjórinn á Austurlandi við Djúpavogshrepp. Húsaleigusamningur vegna varðstofu lögreglunnar á Djúpavogi, endurnýjaður 1. júní 2012, ótímabundinn.
     *      Landhelgisgæsla Íslands við Sveitarfélagið Skagafjörð. Samningur um hafnarþjónustu á Sauðárkróki fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar. Samningur, án endurgjalds, nema greitt er fyrir rafmagnsnotkun, frá 2. september 2016 til 31. desember 2020. Samningurinn er uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara fyrir hver áramót.
     *      Landhelgisgæsla Íslands við Brunavarnir Suðurnesja. Samningur um eldvarnaeftirlit, útkallsþjónustu, þjálfun og ráðgjöf varðandi mannvirki á öryggissvæðunum á Keflavíkurflugvelli, Miðnesheiði, Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli og Stokksnesi frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2018.
     *      Útlendingastofnun við Reykjanesbæ vegna hælisleitenda. Samningur um þjónustu við umsækjendur um vernd, endurnýjaður 1. janúar 2014 til eins árs í senn, endurnýjast sjálfkrafa árlega og er í gildi.
     *      Útlendingastofnun við Reykjavíkurborg vegna hælisleitenda. Samningur um þjónustu við umsækjendur um vernd frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2018.
     *      Sýslumaður Vesturlands við Snæfellsbæ. Samningur um tilraunaverkefni þess efnis að starfsmaður Snæfellsbæjar á skrifstofu sveitarfélagsins verði jafnframt starfsmaður sýslumannsins á Vesturlandi árið 2017, dagsettur 3. febrúar 2017. Samningur er í gildi.
     *      Sýslumaður Vestfjarða við Bolungarvíkurkaupstað. Húsaleigusamningur, rennur út 31. júlí 2017.
     *      Sýslumaður Norðurlands vestra við Blönduósbæ. Húsaleigusamningur vegna níu fermetra geymslu, frá 8. febrúar 2011, ótímabundinn.
     *      Sýslumaður Norðurlands eystra við Dalvíkurbyggð. Húsaleigusamningur vegna 24,5 fermetra skrifstofu- og þjónustuhúsnæðis auk sameignar, vegna útibús embættisins í Stjórnsýsluhúsinu á Dalvík, frá 15. febrúar 2016, ótímabundinn.
     *      Héraðsdómstólar og Sveitarfélagið Skagafjörður. Húsaleigusamningur frá 1. júlí 1994, ótímabundinn.

     Samningar sem runnu út á tímabilinu 1. janúar 2006 til og með 1. apríl 2017:
     *      Lögreglustjórinn á Suðurnesjum við Reykjanesbæ. Samningur um lokunartíma veitinga- og skemmtistaða, eftirlit með skilríkjum og áfengissölu til að koma í veg fyrir dvöl ungmenna á skemmtistöðum, rann formlega út 30. nóvember 2016.
     *      Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra. Samningar við þrjú sveitarfélög um verklag í heimilisofbeldismálum, án greiðslna. Nú komið inn í verklag:
        –        Við Akureyrarbæ, 1. mars 2015 til 28. febrúar 2016.
        –        Við Dalvíkurbyggð, 20. október 2015 til 19. október 2016.
        –        Við Fjallabyggð, 20. október 2015 til 19. október 2016.
     *      Lögreglustjórinn á Austurlandi við Djúpavogshrepp. Húsaleigusamningur vegna varðstofu lögreglu á Djúpavogi, 15. desember 2006 til 31. maí 2012. Var endurnýjaður.
     *      Útlendingastofnun við Reykjanesbæ vegna hælisleitenda. Samningur um þjónustu við umsækjendur um vernd, 1. janúar 2005 til árs, endurnýjaðist sjálfkrafa árlega til 31. desember 2013. Var endurnýjaður.
     *      Útlendingastofnun við Hafnarfjarðarkaupstað vegna hælisleitenda. Samningur um þjónustu við umsækjendur um vernd, rann út 31. desember 2016.
     *      Sýslumaður Vestfjarða við Bolungarvíkurkaupstað. Samningur um innheimtu fasteignagjalda, rann út 31. desember 2014.
     *      Sýslumaður Vestfjarða við Reykhólahrepp. Samningur um húsaleigu, rann út 31. janúar 2015.

     Samningar sem enn var greitt eftir 1. apríl 2017 þótt gildistími þeirra væri liðinn:
     *      Lögreglustjórinn á Suðurnesjum við Reykjanesbæ. Samningur um lokunartíma veitinga- og skemmtistaða, eftirlit með skilríkjum og áfengissölu til að koma í veg fyrir dvöl ungmenna á skemmtistöðum, rann formlega út 30. nóvember 2016. Greiddar voru um 200.000 kr. í eingreiðslu vegna öryggismyndavéla á almannafæri.
     *      Útlendingastofnun við Hafnarfjarðarkaupstað vegna hælisleitenda. Samningur um þjónustu við umsækjendur um vernd rann út 31. desember 2016, en unnið er að endurnýjun hans. Þjónusta er enn veitt.