Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 19  —  19. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að láta vinna stefnumörkun um aðgerðir sem miði að því að Ísland verði kolefnishlutlaust í síðasta lagi árið 2040.
    Í stefnumörkuninni um kolefnishlutlaust Ísland verði verkefnið afmarkað og helstu þáttum þess og verkefnasviðum lýst, svo sem samgöngum, orkubúskap, framleiðslustarfsemi, skipulagsmálum o.fl. Einnig verði gerð drög að aðgerðaáætlunum með áfangaskiptingu, endurskoðunar- og endurmatsákvæðum, skilgreiningum á ábyrgð á framkvæmd og ákvæðum um eftirfylgni.
    Stefnumörkunin verði kynnt umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í síðasta lagi 1. október 2018.
    Fullmótuð aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland verði borin undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu eigi síðar en 15. febrúar 2019.

Greinargerð.

    Þessi þingsályktunartillaga var áður flutt á 145. löggjafarþingi af Katrínu Jakobsdóttur og öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (353. mál) en varð ekki útrædd. Tillagan var endurflutt lítið breytt á 146. löggjafarþingi (114. mál) en með nokkrum viðbótum og breytingum á greinargerð. Eftir að mælt hafði verið fyrir málinu á 146. löggjafarþingi var því vísað til umhverfis- og samgöngunefndar sem sendi út umsagnarbeiðnir vegna þess. Alls bárust átta umsóknir sem flestar voru jákvæðar í garð málsins og tekið var undir nauðsyn þess að gera Ísland kolefnishlutlaust enda er það mikilvægur þáttur í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum af völdum gróðurhúsalofttegunda sem Ísland er skuldbundið til samkvæmt alþjóðasamþykktum. Ábendingar komu um að helst til naumur tími væri ætlaður til að vinna verkefnið og því hafa tímamörk í tillögugreininni verið rýmkuð. Að öðru leyti er hún óbreytt frá 146. löggjafarþingi.
    Í þingsályktunartillögunni felst að umhverfis- og auðlindaráðherra marki stefnu og láti gera drög að áætlun um aðgerðir sem miði að því að Ísland verði kolefnishlutlaust í áföngum, í síðasta lagi fyrir árið 2040. Þannig verði miðað við 40% minni losun árið 2025 en árið 1990 sem er þá metnaðarfyllra markmið en Evrópusambandið hefur sett fram.
    Á grundvelli stefnumörkunarinnar og að undangenginni umfjöllun um hana á Alþingi verði síðan mótuð og samþykkt fullbúin aðgerðaáætlun þar sem verkefnið er afmarkað og skilgreint, því áfangaskipt og kveðið á um ábyrgð á framkvæmd, eftirfylgni og reglubundna endurskoðun. Einnig verði ákveðið hvernig hátta skuli þverfaglegri og þverpólitískri umræðu og ákvarðanatöku, kostnaður verði greindur og eftir atvikum fjallað um fjármögnun verkefna.
    Jafnframt er lagt til að fyrir 15. febrúar 2019 leggi umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland.
    Hlýnun loftslags vegna gróðurhúsaáhrifa af manna völdum er einn viðamesti vandi sem mannkynið stendur frammi fyrir. Til þess að ná árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum er mikilvægast að einblína fyrst á samdrátt í losun. Þar þarf að horfa á öll svið samfélagsins. Allar stofnanir ríkisins þurfa að flétta markmið um kolefnishlutleysi inn í áætlanir sínar og ákvarðanatöku. Samtök ólíkra atvinnugreina og verkalýðshreyfingin þurfa að taka þátt í aðgerðaáætluninni þannig að fyrirtæki á markaði geri sambærilegar áætlanir. Gera þarf slíkar áætlanir fyrir allar atvinnugreinar: landbúnað, sjávarútveg, ferðaþjónustu og hvers kyns iðnað. Byggja þarf upp innviði fyrir nýjar samgöngur og standa fyrir vitundarvakningu hjá almenningi um hvernig draga megi úr losun í hinu daglega lífi með minni neyslu og breyttum lífsstíl. Mikilvægt er að efla sjálfbærnimenntun á öllum skólastigum í takt við nýja aðalnámskrá og tryggja fjármagn til þróunarstarfs í menntun á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Endurskoða þarf fyrirkomulag grænna skatta og hækka verulega kolefnisgjald og afnema undanþágur þannig að allt fyrirkomulag ríkisfjármála styðji við markmið um kolefnishlutleysi. Taka þarf upp grænt bókhald og tryggja að allar nýfjárfestingar styðji við loftslagsmarkmið. Skipa þarf loftslagsráð samkvæmt þingsályktun nr. 46/145 til að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í loftslagsmálum. Enn fremur þarf að styrkja loftslagsmál og stefnumótun innan Stjórnarráðsins til að tryggja samhæfingu ráðuneyta og stofnana.

Kolefnishlutleysi, koltvísýringur og gróðurhúsaáhrif.
    Kolefnishlutleysi felur í sér að jafnmikið magn koltvísýrings ( CO2) er bundið með mótvægisaðgerðum og berst út í andrúmsloftið frá tilteknum athöfnum sem verða til þess að koltvísýringur myndast. Kolefnishlutleysi íslenska samfélagsins fæli þannig í sér að jafnmikið magn koltvísýrings og losnar út í andrúmsloftið frá starfsemi Íslendinga yrði bundið með einhverjum hætti.
    Með auknum styrk koltvísýrings í lofthjúpi jarðarinnar hækkar hitastig á jörðinni sökum þess að koltvísýringur og aðrar gróðurhúsalofttegundir hindra að varmageislun frá yfirborði jarðar berist út í geiminn. Vaxandi magn koltvísýrings í lofthjúpi jarðarinnar er af öllum þorra vísindamanna talið meginástæða hækkandi hitafars á jörðinni þótt aðrar skilgreindar gróðurhúsalofttegundir hafi þar einnig áhrif, svo sem glaðloft ( N2O), metan ( CH4), vetnisflúorkolefni (HFC), flúorkolefni (PFC) og brennisteinshexaflúoríð ( SF6), sem Kyoto-bókunin við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá árinu 1997 tekur til.
    Talið er að styrkur koltvísýrings í andrúmslofti hafi aukist um 30–35% á síðustu tveimur öldum sem er tímabil iðnvæddra samfélaga í sögu mannkyns. Því er sterk og ótvíræð fylgni milli mannlegra athafna og aukins styrks koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar því enda þótt ljóst sé að mannlegar athafnir valdi einungis litlum hluta allrar koltvísýringslosunar ár hvert er það viðbótin af manna völdum sem raskar náttúrulegu jafnvægi og veldur vandkvæðum. Þar skiptir bruni jarðefnaeldsneytis miklu sem orsakavaldur en einnig eyðing skóga og annarra gróðursamfélaga, sem og losun frá framræstu landi. Aukinn styrkur gróðurhúsalofttegunda stafar þannig ekki einvörðungu af útblæstri frá iðnaði eða samgöngum heldur og frá skógarhöggi, landbúnaði og framræslu votlendis auk ýmissa annarra athafna.
    Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2012 er greind og flokkuð í svari á þskj. 215 á 145. löggjafarþingi. Þar kom fram að 42% þeirrar losunar sem félli undir losunarbókhald samkvæmt Kyoto-bókuninni stafaði frá iðnaði og efnanotkun. Mestri losun gróðurhúsalofttegunda olli hins vegar framræsla lands. Þannig var öll losun frá athöfnum sem falla undir Kyoto-bókhaldið ígildi 4.468 tonna koltvísýrings en losun frá framræstu mólendi ígildi 9.466 koltvísýringstonna.

Aðgerðir til kolefnisjöfnunar.
    Beinskeyttustu aðgerðirnar til að draga úr losun koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda og tjóni af þeirra völdum felast í að draga úr losun óháð því hvaða kerfi losunin fellur undir en eins og kunnugt er fellur losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju undir alþjóðlegt kerfi losunarheimilda. Ljóst er að markmið um kolefnishlutlaust Ísland nást ekki án þess að dregið verði úr koltvísýringslosun á öllum sviðum, bæði frá iðnaði og starfsemi sem heyrir undir hið séríslenska losunarbókhald. Aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland verður að fela í sér ráðstafanir í þessa veru, svo sem breyttar áherslur í atvinnuuppbyggingu, breytt neyslumynstur sem felur ekki aðeins í sér endurnýtingu og endurvinnslu heldur minni neyslu, bætta orkunýtingu, notkun kolefnisjafnaðs eldsneytis og orku sem veldur ekki losun gróðurhúsalofttegunda. Ætla má að orkuskipti verði snar þáttur í ráðstöfunum til að minnka koltvísýringslosun hér á landi þar sem völ er á raforku sem valkosti er kemur í stað orkugjafa sem valda koltvísýringslosun. Meðal ráðstafana til kolefnisjöfnunar má nefna landgræðslu, skógrækt, afgashreinsun og endurheimt votlendis auk ýmissa annarra ráða sem tiltæk eru til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna gegn áhrifum koltvísýringslosunar á hitafar í heiminum. Þar gegnir skattlagningarvald ríkisins stóru hlutverki og skal á það minnt að síðasta ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks lækkaði kolefnisgjald og svelti loftslagssjóð, sem ætlað er að veita fé til ráðstafana gegn losun á gróðurhúsalofttegundum, auk þess sem verkefnum um grænan vöxt hefur verið ýtt til hliðar. Sýnir þetta skort á vilja til að bregðast við þróun loftslagsmála á ábyrgan og afgerandi hátt og þessi afstaða þarf nauðsynlega að breytast til hins betra.
    Kolefnisjöfnun íslensks samfélags mun án efa reynast viðamikið og margþætt verkefni og sama gegnir um aðrar ráðstafanir sem verða nauðsynlegar vegna umhverfisbreytinga af völdum hlýnandi loftslags. Tvímælalaust verður brýn þörf fyrir rannsóknir á náttúrufari og á félagslegum og hagrænum afleiðingum hækkaðs hitafars og styrka stjórnsýslu í þessum málaflokki. Nýtt loftslagsráð getur haft þar mikilvægu hlutverki að gegna sem og samhæfð stjórnsýsla. Ekki væri óeðlilegt að leggja sérstaka áherslu á rannsóknir á þessu sviði, t.d. með því að taka upp sérstaka markáætlun á sviði þverfaglegra rannsókna á loftslagsmálum í anda þess sem nágrannaþjóðir okkar hafa ráðist í.

Heimshlýnun: orsakir, þróun og viðbrögð.
    Undanfarin ár hafa verið hvert öðru hlýrra um leið og sjá má auknar öfgar í veðurfari um heim allan. Meðvitund almennings og stjórnvalda hefur samhliða farið vaxandi þannig að segja má að fáir efist lengur um loftslagsbreytingar af manna völdum og nauðsyn þess að bregðast við þeim.
    Margir þeirra sem fást við loftslagsmál telja að hækki ársmeðalhiti á jörðinni meira en sem nemur 1,5–2°C frá ársmeðalhita fyrir iðnbyltingu muni mannkyninu stafa veruleg hætta af. Um þessar mundir hefur meðalhitastig jarðar hækkað um 0,85°C frá árinu 1880, en áreiðanlegar mælitölur eru til fyrir þetta tímabil, og allar líkur eru á að á árunum 1983–2012 hafi meðalhitinn á jörðinni verið hærri en hann hefur nokkru sinni verið á jafnlöngu tímabili í 1400 ár. 1 Þessi uggvænlega þróun meðalhita á jörðinni hefur vissulega vakið viðbrögð á alþjóðlegum vettvangi enda veldur hún margvíslegum breytingum á veðurfari og lífsskilyrðum mannkyns. Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change – IPCC) hefur starfað innan vébanda Sameinuðu þjóðanna frá 1988 í því skyni að afla fræðilegrar vitneskju um þróun hitafars á jörðinni og þær breytingar sem hækkandi hiti veldur á náttúrufari og samfélögum manna. Fjöldi vísindamanna um allan heim starfar á vegum milliríkjanefndarinnar og lætur henni í té gögn og rannsóknarniðurstöður.
    Á loftslagsráðstefnunni í París sem haldin var í desember 2015 var skrifað undir nýjan rammasamning Sameinuðu þjóðanna um viðbrögð við loftslagsbreytingum sem felur í sér ótvíræðar skuldbindingar fyrir ríki heims. Ísland hefur fullgilt þennan samning og hefur tækifæri ekki aðeins til að uppfylla þau markmið sem þar eru sett fram heldur að ganga lengra og ná fram kolefnishlutleysi. Langflest ríki heims hafa þegar viðurkennt heimshlýnunina sem aðkallandi alþjóðlegt vandamál og sameiginlegt úrlausnarefni mannkynsins og mörg hafa þau gert ráðstafanir í samræmi við það þótt vissulega mættu þær vera víðtækari og ganga lengra. Íslendingum ber að sjálfsögðu að axla ábyrgð á hnattrænni hlýnun eins og öðrum þjóðum, enda engir eftirbátar annarra þegar kemur að losun koltvísýrings. 2 Spár ganga út á að veðurfarsbreytingar verði meiri á norðlægum slóðum en víða annars staðar á hnettinum og munu áhrif hnattrænnar hlýnunar því gera vart við sig hér á landi. Gætu sumar þessara breytinga reynst erfiðar viðfangs fyrir íslenskt samfélag, svo sem meiri úrkoma og tíðari stormar, að ógleymdri súrnun sjávar sem Íslandi stafar eðli málsins samkvæmt mikil ógn af. Þá má ekki gleyma þeim áhrifum sem ríkari lönd kunna að verða fyrir vegna fólksflutninga frá fátækari ríkjum sem eru verr í stakk búin til að mæta afleiðingum loftslagsbreytinga. Það er mikilvægt og raunar óhjákvæmilegt að gerðar verði ráðstafanir til að draga úr losun koltvísýrings og eyða áhrifum þess koltvísýrings sem berst út í lofthjúp jarðar frá íslensku samfélagi. Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að þegar verði tekið til við að skipuleggja ráðstafanir í þessa veru, undirbúa þær með markvissum hætti í samstarfi framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og hrinda þeim síðan í framkvæmd.

1     Climate Change 2013. The Physical Science Basis. Summary for Policymakers. Intergovernmental Panel on Climate Change, bls. 3.
2     European Commission: Edgar – Emission Database for Global Atmospheric Research: edgar.jrc.ec.europa.eu/overview.php?v=CO2ts_pc1990-2013