Ferill 47. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 47  —  47. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að halda ráðstefnu um stöðu Íslands, Færeyja og Grænlands í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að halda ráðstefnu um stöðu Vestur-Norðurlanda (Íslands, Færeyja og Grænlands) í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2016 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 22. ágúst 2016 í Qaqortoq á Grænlandi.
    Eftir lok kalda stríðsins urðu vestnorrænu löndin þrjú í auknum mæli jaðarsvæði í alþjóðastjórnmálum þar sem sviðsljósið beindist að Mið-Austurlöndum og Kína. Rússar og Bandaríkjamenn skáru niður í vopnabúrum sínum og m.a. var í áföngum dregið úr starfsemi herstöðva í vestnorrænu löndunum þremur.
    Á síðustu árum hafa aftur orðið mikil umskipti í alþjóðastjórnmálum. Rússland hefur átt þátt í ýmsum átökum í Evrópu, straumur flóttamanna frá Mið-Austurlöndum og Afríku til Evrópu hefur aukist verulega og hryðjuverkaógnin virðist einnig hafa aukist. Í Tyrklandi gerði herinn tilraun til valdaráns og stefna Tyrkja gagnvart Evrópu hefur breyst verulega. Jafnframt hefur áhugi Kínverja á umheiminum aukist og þeir hafa m.a. beint sjónum sínum að Vestur-Norðurlöndum.
    Það eru einkum deilur Rússa og NATO sem hafa beint sjónum manna á ný að Vestur-Norðurlöndum í alþjóðastjórnmálunum, en flóttamannastraumurinn og aukinn áhugi Kínverja á vestnorrænu löndunum hefur einnig átt sinn þátt í þessari þróun.
    Það er viðbúið að fyrirspurnir sem tengjast alþjóðastjórnmálum muni berast löndunum þremur. Til dæmis er hugsanlegt að NATO vilji á ný efla herstöðvar við Norður-Atlantshaf.
Öll vestnorrænu löndin eru herlaus, eiga aðild að NATO og eru á sama landfræðilega svæði. Löndin gætu því gegnt sams konar hlutverki í átökum framtíðarinnar og markmið ráðstefnunnar væri að búa löndin undir að takast á við nýtt framtíðarhlutverk á vettvangi alþjóðastjórnmálanna.