Ferill 48. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 48  —  48. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.


Flm.: Þórunn Egilsdóttir, Eygló Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Elsa Lára Arnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samvinnu við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að móta eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.
    Ráðherra leggi stefnuna fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu eigi síðar en 1. október 2018.

Greinargerð.

    Málið var áður lagt fram á 146. löggjafarþingi (414. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt óbreytt að efni til. Við fyrri framlagningu bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, Ísafjarðarbæ, Landgræðslu ríkisins, Seyðisfjarðarkaupstað og Umhverfisstofnun. Tóku umsagnaraðilar ýmist undir markmið þingsályktunartillögunnar og mæltu með framgangi hennar eða gerðu ekki athugasemdir við efni hennar. Tillögunni fylgdi eftirfarandi greinargerð:
    Með tillögu þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að móta eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Þróun síðustu ár hefur verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð og það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu. Síðasta áratug hafa orðið miklar breytingar á landnotkun í dreifbýli en sú breyting sem hefur hvað víðtækust áhrif er mannfjöldi sem ræðst að verulegu leyti af atvinnumöguleikum fólks.
    Markmið tillögu þessarar er einkum það að ríkið marki sér stefnu sem tryggi möguleika fólks til að hefja búskap. Einnig þarf að horfa til náttúruverndar og uppbyggingar ferðamannasvæða. Sömuleiðis þarf að skilgreina hvers konar landsvæði skuli vera í eigu ríkisins og þar með hvaða landsvæði sé heppilegra að sé í eigu einkaaðila.
    Árið 2013 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp um landnotkun í dreifbýli og sjálfbæra landnýtingu. Í lokaskýrslu starfshópsins frá ágúst 2015 kemur fram að mikilvægt sé að móta eigendastefnu fyrir landareignir í eigu ríkisins, hvernig beri að nýta og ráðstafa þeim, þar með talið hvort og hvaða jarðir skuli vegna sérstöðu sinnar vera í eigu ríkisins, hverjar megi selja og hverjar leigja, og þá eftir atvikum, með hvaða kvöðum.
    Margar jarðir í eigu ríkisins hafa mikla sérstöðu með tilliti til náttúru, sögu og menningar, en flestar bújarðir og jarðahlutar eru í umsjón stofnana ríkisins eða ábúenda sem hafa þær til afnota gegn leigugjaldi. Samkvæmt jarðalögum, nr. 81/2004, fer fjármála- og efnahagsráðuneytið með forræði ríkisjarða og kveða lögin á um kaup, sölu og aðra ráðstöfun ríkisjarða. 1 Lögin kveða hins vegar ekki á um að ríkið setji sérstaka stefnu fyrir sínar jarðir.
    Flutningsmenn telja eðlilegt að við mótun stefnunnar verði haft samráð t.d. við Bændasamtök Íslands, Landgræðslu ríkisins, Samband íslenskra sveitarfélaga og Skógræktina.

Jarðakaup útlendinga.
    Umræða um jarðakaup útlendinga er ekki ný af nálinni. Hinn 17. apríl 2013 setti þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, nýja reglugerð um kaup útlendinga með lögheimili á EES-svæðinu á fasteignum hér á landi. Samkvæmt henni máttu EES-borgarar ekki kaupa land á Íslandi nema þeir hefðu lögmæta dvöl eða starfsemi hérlendis. Reglugerðin var numin úr gildi nokkrum mánuðum síðar af þáverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem taldi reglugerðina ekki samræmast skuldbindingum landsins vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.
    Í janúar 2017 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp með það að markmiði að endurskoða lög og reglur um kaup erlendra aðila á bújörðum á Íslandi. Starfshópnum er ætlað að leggja mat á það hvaða takmarkanir komi helst til greina til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Í því sambandi má nefna að eignarhald á landbúnaðarlandi er takmarkað í dönskum jarðalögum og skilyrði sett fyrir kaupum erlendra ríkisborgara.

Fjöldi ríkisjarða.
    Á 145. löggjafarþingi (541. mál) kom fram í skriflegu svari þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra að ríkissjóður ætti 450 jarðir og að stór hluti þeirra væri nýttur til landbúnaðar. Ríkiseignir annast daglega umsýslu stærsta hluta jarðeigna ríkisins eða um 315 jarða. Þá eru í gildi 122 ábúðarsamningar hjá Ríkiseignum vegna bújarða. Samkvæmt 12. gr. ábúðarlaga, nr. 80/2004, ber ábúanda að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð og stunda þar landbúnað nema annað hafi verið samþykkt. Fjölmargir leigusamningar hafa verið gerðir um ríkisjarðir þar sem leigutaki býr á jörðinni. Einnig er algengt að jarðir séu leigðar til slægna og beitar til aðila sem búa á aðliggjandi jörðum. Húsakostur er forsenda þess að geta hafið ábúð á jörð og því henta eyðijarðir almennt ekki til ábúðar. 2

1     Lokaskýrsla ágúst 2015: www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/sk150817_landnotkun-og-sjalfbaer-landnyting.pdf
2     Svar við skriflegri fyrirspurn um ríkisjarðir: www.althingi.is/altext/145/s/1131.html