Ferill 60. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 60  —  60. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um brottnám líffæra, nr. 16/1991 (ætlað samþykki).

Flm.: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eygló Harðardóttir.


1. gr.


    1. og 2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Nema má brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings hafi hinn látni verið sjálfráða og ekki lýst sig andvígan því og það er ekki af öðrum sökum talið brjóta í bága við vilja hans.
    Ekki má þó nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til að nota við læknismeðferð annars einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.
    Fram að gildistöku laga þessara skal velferðarráðuneyti kynna efni þeirra fyrir landsmönnum.

Greinargerð.

I.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 145. löggjafarþingi (170. mál) og 146. löggjafarþingi (112. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú lagt fram nær óbreytt.
    Í gildandi lögum um brottnám líffæra, nr. 16/1991, er miðað við að líffæri eða lífræn efni verði ekki numin brott úr líkama látins manns nema fyrir liggi samþykki hans eða nánasta vandamanns hans fyrir því, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna. Því má segja að lögin miði nú við „ætlaða neitun“, þ.e. að hinn látni hefði ekki veitt samþykki fyrir brottnámi líffæris eða lífræns efnis að sér látnum, nema annað liggi fyrir.
    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á 2. gr. laganna að miðað verði við „ætlað samþykki“, þ.e. gert verði ráð fyrir að hinn látni hafi verið samþykkur brottnámi líffæris eða lífræns efnis að sér látnum nema tilefni sé til að ætla annað. Frumvarpinu til grundvallar liggur sú afstaða að eðlilegra sé að gera ráð fyrir því að fólk vilji koma náunga í neyð til hjálpar með því að gefa líffæri og lífræn efni að sér látnum en ekki. Af þessum sökum sé eðlilegra að löggjöf endurspegli viðhorf um „ætlað samþykki“ en „ætlaða neitun“ vegna líffæragjafar.
    Með frumvarpinu er staðinn vörður um sjálfsákvörðunarrétt fólks um eigin líkama með því að gera óheimilt að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látinna einstaklinga hafi þeir lýst sig andvíga því eða brottnám sé af öðrum sökum talið brjóta í bága við vilja þeirra. Embætti landlæknis hefur nú komið á fót gagnagrunni þar sem unnt er að skrá afstöðu til líffæragjafar og er tryggilegast að andstöðu sé komið á framfæri með þeim hætti. Einnig beri þó að virða það liggi áreiðanlega fyrir að hinn látni hafi lýst andstöðu sinni með öðrum hætti, t.d. við nánasta vandamann. Þá ætti ekki að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings væri af öðrum sökum sérstakt tilefni til að ætla að það hefði verið á móti vilja hans, t.d. ef fyrir lægi að það væri andstætt trúarbrögðum sem hann aðhylltist.
    Forsenda frumvarpsins er að einstaklingar geti sjálfir tekið upplýsta afstöðu til gjafar líffæra eða lífræns efnis úr eigin líkama að þeim látnum. Ekki er unnt að ætlast til þess af ósjálfráða einstaklingum. Brottnám líffæra eða lífrænna efna úr líkama þeirra að þeim látnum kynni því að vega að sjálfsákvörðunarrétti þeirra um eigin líkama. Því er lagt til að það verði óheimilt.
    Einnig er lagt til að óheimilt verði að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því. Gildir einu þótt hinn látni hafi lýst sig samþykkan því.

II.


    Fluttar voru tillögur til þingsályktunar um svipað efni á 140. og 141. löggjafarþingi en þær voru ekki afgreiddar (476. og 28. mál). Á 143. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra þar sem lagt var til að miðað yrði við ætlað samþykki einstaklinga fyrir líffæragjöf (34. mál). Í áliti velferðarnefndar um frumvarpið kom fram að hún teldi ekki tímabært að leggja til þá breytingu. Brýnt væri að leitað yrði leiða til að fjölga líffæragjöfum frá látnum einstaklingum. Reynsla annarra þjóða sýndi þó að ætlað samþykki eitt og sér hefði ekki tilætluð áhrif og gæti vegið að sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga. Lagabreyting í átt að ætluðu samþykki gæti verið ein þeirra aðferða sem kæmu til greina en nauðsynlegt væri að allar leiðir að markmiðinu yrðu skoðaðar ítarlega. Í því skyni lagði nefndin til að frumvarpinu yrði vísað til nánari skoðunar hjá ríkisstjórninni. Sú tillaga var samþykkt.
    Heilbrigðisráðherra skilaði skýrslu á 144. löggjafarþingi (773. mál) um hvernig fjölga mætti líffæragjöfum frá látnum einstaklingum á Íslandi. Í henni var lagt til að hafin yrði vinna við undirbúning á breytingum á gildandi löggjöf um líffæragjafir. Þó kom fram að til að fjölga líffæragjöfum frá látnum einstaklingum þyrfti frekari aðgerðir en ætlað samþykki eitt og sér. Lagt var til að embætti landlæknis yrði tryggt fjármagn til uppbyggingar aukinna verkefna á líffæragjafasviði, Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri yrði tryggt fjármagn til að bæta innra skipulag hvað varðar líffæragjafir, tryggt yrði að fræðsla um líffæragjafir yrði hluti af námsefni tilvonandi heilbrigðisstarfsmanna, tryggt yrði að heilbrigðisstarfsmenn fengju skipulagða og reglubundna þjálfun um líffæragjöf, tryggð yrði eftirfylgni og mælingar á árangri á einstökum þáttum og að 20. október yrði opinber dagur líffæragjafa hér á landi. Áætlað var að kostnaður við að ráðast í aðgerðirnar væri á bilinu 25–30 millj. kr.
    Velferðarráðuneytið hefur upplýst að ekki hafi verið gripið til neinna aðgerða sem byggjast á niðurstöðu skýrslu heilbrigðisráðherra um hvernig fjölga megi líffæragjöfum frá látnum einstaklingum á Íslandi síðan frumvarpið var síðast lagt fram. Hins vegar hefur verið unnið að innleiðingu reglugerðar hjá embætti landlæknis og Landspítala um gæði og öryggi líffæra við líffæraflutninga, einkum og sér í lagi varðandi rekjanleika líffæra við líffæraflutning. Byggist sú vinna á breytingu sem gerð var á lögum um heilbrigðisþjónustu á 144. löggjafarþingi og síðar innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins um kröfur varðandi gæði og öryggi líffæra úr mönnum sem eru ætluð til ígræðslu með reglugerð nr. 312/2015. Sú vinna stendur enn yfir og hefur verið haldið áfram á árinu 2017.
    Með frumvarpi þessu er hugað að breytingum á löggjöf um líffæragjafir en mikilvægt er að samhliða og í framhaldi verði jafnframt hugað að framkvæmd annarra tillagna í skýrslu heilbrigðisráðherra.