Ferill 110. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 110  —  110. mál.




Frumvarp til laga


um Almannaheillasjóð.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


1. gr.
Markmið.

    Tilgangur þessara laga er að styðja við verkefni í þágu almannaheilla með því að nýta óhreyfðar innstæður.

2. gr.
Almannaheillasjóður.

    Starfræktur skal sérstakur sjóður, Almannaheillasjóður, sem hefur það að markmiði að styðja við samfélagsleg verkefni. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Ráðherra hefur yfirumsjón með starfsemi sjóðsins.
    Sjóðurinn skal undanþeginn greiðslu tekjuskatts samkvæmt lögum um tekjuskatt.
    Bú sjóðsins verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta né gerð aðför í eignum hans.

3. gr.
Stjórn og framkvæmdastjóri.

    Ráðherra skipar fjóra menn í stjórn Almannaheillasjóðs til tveggja ára í senn. Samtök fjármálafyrirtækja, ráðuneyti sem fer með fjármálamarkað og heildarsamtök almannaheillasamtaka tilnefna hvert einn stjórnarmann en einn skipar ráðherra án tilnefningar og skal sá vera formaður stjórnar. Atkvæði formanns ráða úrslitum ef atkvæði falla jöfn. Varamann skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt.
    Stjórn sjóðsins er heimilt að ráða framkvæmdastjóra við sjóðinn eða semja við lögaðila um rekstur og vörslu hans.
    Stjórnarmenn, varamenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Þeir skulu hafa óflekkað mannorð og mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða staðgreiðslu opinberra gjalda.

4. gr.
Aðilar að sjóðnum og greiðslur í sjóðinn.

    Viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar lánastofnanir sem taka við innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, skulu vera aðilar að Almannaheillasjóði.
    Í sjóðinn skal greiða innstæðu af innlánsreikningi hjá aðila að sjóðnum ef reikningurinn hefur verið opinn í 15 ár og á því tímabili hafa engar færslur verið á reikningnum að frumkvæði eiganda hans.
    Sjóðurinn tekur yfir skuldbindingu um endurgreiðslu fjármunanna gagnvart eiganda þeirra við færslu þeirra til sjóðsins.

5. gr.
Ráðstöfun óhreyfðra innstæðna.

    Fjármunir Almannaheillasjóðs skulu nýttir til að styðja við verkefni í þágu almannaheilla á sviði heilbrigðis-, félags-, mennta- og umhverfismála á Íslandi með styrkjum og/eða lánum. Frjáls félagasamtök geta sótt um stuðning til sjóðsins.
    Stjórn sjóðsins skal samþykkja stefnu um ráðstöfun fjármuna hans þar sem fram komi hversu hátt hlutfall af höfuðstól sjóðsins og ávöxtun hans skuli nýtt til að styrkja einstaka málaflokka. Stefnan skal vera birt opinberlega.

6. gr.
Fjárfestingarstefna.

    Stjórn Almannaheillasjóðs ákveður fjárfestingarstefnu hans og gerir grein fyrir henni á aðalfundi hans. Ávöxtun á fé sjóðsins skal við það miðuð að sjóðurinn geti sem best sinnt hlutverki sínu. Fjárfestingarstefnan skal vera birt opinberlega.
    Almannaheillasjóðurinn skal gæta varkárni í fjárfestingum sínum og skal fjárfestingarstefnan tryggja að haldið sé eftir ákveðnu hlutfalli af fjármunum sjóðsins til að mæta hugsanlegum kröfum frá eigendum óhreyfðra innstæðna.
    Sjóðnum er heimilt að innheimta vexti af lánveitingum sínum.

7. gr.
Ársreikningur og endurskoðun.

    Reikningsár Almannaheillasjóðs skal vera almanaksárið. Löggiltur endurskoðandi sjóðsins skal kosinn á aðalfundi hans. Endurskoðaður ársreikningur skal samþykktur og áritaður af stjórn og staðfestur af ráðherra.

8. gr.
Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi Almannaheillasjóðs í samræmi við lög þessi og samþykktir fyrir sjóðinn.

9. gr.
Skriflegar upplýsingar til reiðu.

    Aðildarfyrirtæki skulu hafa til reiðu upplýsingar á afgreiðslustöðum sínum um aðild að Almannaheillasjóði og hvernig eigandi fjármuna hjá sjóðnum geti snúið sér í að endurheimta þá.

10. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra setur með reglugerð frekari ákvæði um starfsemi Almannaheillasjóðs, þar á meðal um greiðslur í sjóðinn og úthlutun styrkja, að fenginni umsögn stjórnar sjóðsins.

11. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

    Tugir þúsunda innlánsreikninga á Íslandi hafa staðið óhreyfðir í 15 ár eða lengur. Í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn um óhreyfða innlánsreikninga árið 2012 (477. mál á 140. löggjafarþingi) kom fram að þá voru reikningarnir 100.084. Á þessum reikningum var yfir 1,5 milljarður kr.
    Þessi staða er ekki einsdæmi hér á landi. Stjórnvöld víðs vegar um heim hafa því sett sérlög til að efla rétt neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum, koma í veg fyrir að kröfurnar fyrnist og styðja jafnframt við samfélagslega mikilvæg verkefni.
    Í Kaliforníu færast óhreyfðar eignir til ríkisins lögum samkvæmt að þremur árum liðnum. Það á ekki aðeins við um óhreyfðar innstæður heldur einnig hlutabréf, skuldabréf, tryggingabætur, dánarbú, greiðslur vegna höfundarréttar sem eigendur hafa ekki nálgast og þeir ekki fundist o.fl. Þessi nálgun hefur verið gagnrýnd þar sem lítill hvati er fyrir ríkið til að leita uppi eigendur enda mynda óhreyfðu eignirnar tekjulind fyrir það.
    Árið 2008 samþykkti breska þingið lög til þess að stuðla að því að óhreyfðar innstæður nýttust til samfélagslega mikilvægra verkefna í stað þess að liggja hjá fjármálafyrirtækjum. Óhreyfðar innstæður bættust við þá fjármuni sem Stóri happdrættissjóðurinn hafði til ráðstöfunar. Árið 2012 var sett á fót sérstök fjármálastofnun til þess að styðja enn frekar við og fjármagna félagsleg fyrirtæki og frjáls félagasamtök í samstarfi við hagnaðardrifin fjármálafyrirtæki.
    Með þessu frumvarpi er horft til bresku löggjafarinnar sem fyrirmyndar. Lagt er til að settur verði á stofn sérstakur sjóður, Almannaheillasjóður, sem taki við óhreyfðum innstæðum frá fjármálafyrirtækjum, gæti að kröfuréttindum innstæðueiganda og nýti ákveðið hlutfall af ávöxtun og/eða höfuðstól sjóðsins til að styðja mikilvæg samfélagsleg verkefni.
    Frjáls félagasamtök sem starfa í þágu almannaheilla hafa mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku samfélagi, ekki síst þegar kemur að verkefnum í þágu þeirra sem eiga um sárt að binda félagslega og fjárhagslega. Bent hefur verið á að starfsumhverfi frjálsra félagasamtaka er að mörgu leyti erfiðara hér á landi en í samanburðarlöndum. Skattaívilnanir hafa verið takmarkaðar og ekki hefur verið sett sérstök löggjöf um almannaheillasamtök. Á árunum eftir hrun dró einnig úr framlögum hins opinbera til frjálsra félagasamtaka og framlögum einstaklinga. Enn er langt í land að snúa við þeirri þróun.
    Frjáls félagasamtök auka félagsauð samfélagsins, hvetja til samhyggju frekar en efnishyggju, samhjálpar og sjálfsábyrgðar á því hvernig samfélagi við búum í.
    Því er hér lagt til að í stað þess að óhreyfðar innstæður haldi áfram að stækka efnahagsreikninga fjármálafyrirtækja verði þær nýttar til góðra verka ásamt því að kröfuréttindi innstæðueiganda haldi sér um ókomna tíð.