Ferill 112. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 112  —  112. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum (viðmiðunardagur umsóknar um kosningarrétt).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. og 3. mgr. 27. gr. skal umsókn um kosningarrétt skv. b-lið 2. mgr. 1. gr. sem berst Þjóðskrá Íslands í síðasta lagi 11. október 2017 gilda frá dagsetningu bréfs hennar um að umsækjandi skuli tekinn á kjörskrá. Að öðru leyti fer um kosningarréttinn skv. 2. gr. laganna.
    Fullnægjandi umsókn um að verða tekinn á kjörskrá sem berst Þjóðskrá Íslands eftir 11. október 2017 gildir frá 1. desember 2017.
    Umsókn um að verða tekinn á kjörskrá sem barst Þjóðskrá Íslands eftir 1. desember 2016 og var fullnægjandi skal nú gilda frá gildistöku þessa ákvæðis. Að öðru leyti fer um kosningarréttinn skv. 2. gr. laganna. Þjóðskrá Íslands tilkynnir umsækjanda þessa breytingu og hlutaðeigandi sveitarstjórn.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

3. gr.

    Lög þessi falla úr gildi 1. desember 2017.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lög um kosningar til Alþingis þess efnis að íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis verði teknir á kjörskrá ef þeir leggja fram fullnægjandi umsókn um kosningarrétt í síðasta lagi 11. október 2017. Öðlast þeir þá réttinn til að kjósa við þær alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru 28. október 2017.
    Frumvarp sama efnis var samþykkt 3. mars 2009 fyrir alþingiskosningar 25. apríl 2009 og var umsóknardagur um kosningarrétt þá miðaður við 25. mars sama ár. Einnig var samþykkt frumvarp 6. september 2016 fyrir alþingiskosningar 29. október 2016 og var umsóknardagur um kosningarétt þá miðaður við 29. september sama ár. Því frumvarpi fylgdi greinargerð þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:
    Í lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, var ákvæði um að íslenskir ríkisborgarar misstu kosningarrétt sinn hér á landi við fasta búsetu erlendis lengur en fjögur ár. Þá var viðmiðunardagur kjörskrár 1. desember. Með lögum árið 1989 var fjögurra ára tímabilið lengt í átta ár og þeim sem óskuðu að vera áfram á kjörskrá eftir það var gert það kleift miðað við 1. desember ár hvert eftir að umsókn var lögð fram. Skilyrði var að umsækjandi væri enn íslenskur ríkisborgari. Sá sem tekinn var á kjörskrá samkvæmt umsókn átti því kosningarrétt í fjögur ár og gat þá endurnýjað réttinn til næstu fjögurra ára og síðan koll af kolli. Árið 1991 var kosningalögunum breytt þannig að hætt var að miða kjörskrá við 1. desember og viðmiðunardagur færður nær kjördegi. Er viðmiðunardagurinn nú fimm vikum fyrir kjördag. Gildistími ákvörðunar um að einhver skuli tekinn á kjörskrá eftir meira en átta ára búsetu erlendis hefur þó ávallt verið 1. desember eftir að umsókn var lögð fram.
    Töluverð reynsla er komin á framkvæmdina samkvæmt ákvæðinu og hefur gefist vel að miða við 1. desember ár hvert. Hagræði er í því fyrir íslenska ríkisborgara sem hafa lengi verið búsettir erlendis að miða gildistíma umsóknar um kosningarrétt við tiltekna dagsetningu, sem þeir þekkja frá fyrri tíð, í stað þess að hafa hana breytilega frá einum tíma til annars. Viðkomandi á þá auðveldara með að muna hvenær hann þarf að sækja um aftur til að vera áfram á kjörskrá. Þetta leiðir hins vegar til þess að bregðast þarf sérstaklega við, ef þurfa þykir, þegar boðað er til kosninga á miðju reglulegu kjörtímabili.
    Með frumvarpinu er lagt til að með nýju ákvæði til bráðabirgða verði leyst úr vandasamri stöðu íslenskra ríkisborgara sem búsettir hafa verið erlendis lengur en átta ár og sækjast nú eftir að komast á kjörskrá. Samkvæmt almennu ákvæði í 2. gr. og 3. mgr. 27. gr. laga um kosningar til Alþingis hefðu þeir ekki öðlast kosningarrétt fyrr en frá 1. desember 2017. Með frumvarpinu er komið til móts við hagsmuni tveggja hópa: Annars vegar þeirra sem búsettir eru erlendis og hafa sent fullnægjandi umsókn eftir 1. desember 2016 og hafa nú fengið bréf Þjóðskrár Íslands um að þeir eigi kosningarrétt frá 1. desember 2017. Þeir fá nú kosningarrétt frá gildistöku þessa ákvæðis og geta því kosið við þær alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru í haust. Hins vegar tekur frumvarpið á hagsmunum þeirra íslensku ríkisborgara sem búsettir hafa verið lengur en átta ár erlendis en hafa ekki enn sent Þjóðskrá umsókn um að verða teknir á kjörskrá. Nú munu þeir eiga þess kost að senda inn fullnægjandi umsóknir og öðlast kosningarrétt í tæka tíð. Þjóðskrá Íslands mun tilkynna hlutaðeigandi umsækjendum um þessar breytingar og kosningarrétt þeirra, sem og hlutaðeigandi sveitarstjórnum.
    Rétt þykir að taka fram að kosningarrétturinn, sem menn geta öðlast samkvæmt umsókn ef frumvarp þetta verður samþykkt, gildir til 1. desember 2017 og síðan áfram í fjögur ár skv. 2. gr. kosningalaga. Þetta þýðir að kjósandi heldur kosningarrétti sínum til 1. desember 2021. Til þess að vera áfram á kjörskrá eftir það verður kjósandi að sækja aftur um til Þjóðskrár Íslands eftir 1. desember 2020, sbr. 1. mgr. 2. gr. kosningalaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til ákvæði til bráðabirgða um að íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis verði teknir á kjörskrá ef þeir leggja fram fullnægjandi umsókn um kosningarrétt í síðasta lagi 11. október 2017. Öðlast þeir þá réttinn til að kjósa við þær alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru á hausti komanda. Að öðru leyti fer um kosningarréttinn skv. 2. gr. kosningalaga. Kosningarrétturinn fæst með þessu ákvæði ef umsókn berst Þjóðskrá Íslands fyrir miðnætti 11. október 2017 að íslenskum tíma. Umsækjendur eiga þess nú kost, sem hingað til, að sækja eyðublað á vef Þjóðskrár Íslands, www.skra.is. Eyðublaðið þarf að fylla út og undirrita eigin hendi og senda til Þjóðskrár með pósti eða sem skannað viðhengi í tölvupósti eða senda rafrænt í gegnum netskil. Mikilvægt er að umsókn berist áður en frestur er liðinn. Að öðrum kosti gildir fullnægjandi umsókn sem berst eftir að frestur er liðinn frá 1. desember 2017.
    Íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis og höfðu þegar sent fullnægjandi umsókn um kosningarrétt, sem átti að gilda frá 1. desember 2017, öðlast á sama hátt kosningarrétt fyrir þær alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru 28. október nk. Að öðru leyti fer um kosningarréttinn skv. 2. gr. kosningalaga. Þjóðskrá Íslands tilkynnir umsækjendum þessa breytingu og hlutaðeigandi sveitarstjórnum.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Nýtt ákvæði til bráðabirgða skv. 1. gr. er tímabundið vegna alþingiskosninga sem fyrirhugaðar eru 28. október nk. Er með því verið að veita umsækjendum kost á því að verða teknir á kjörskrá sem þeir hefðu annars ekki haft samkvæmt gildandi lögum og greiða atkvæði við alþingiskosningarnar. Af þessum sökum er eðlilegt að hafa sólarlagsákvæði í lögunum og fellur bráðabirgðaákvæðið því brott þegar hefðbundinn frestur skv. 2. gr. kosningalaganna kemur á ný til framkvæmdar, þ.e. 1. desember 2017.