Ferill 34. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 156  —  34. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Pandoru Baldursdóttur um dagvistunarúrræði og vinnumarkað.


     1.      Hversu margir foreldra eru ekki á vinnumarkaði, tímabundið eða varanlega, vegna skorts á dagvistunarúrræðum?
    Ekki liggja fyrir opinberar greiningar á því hversu margir foreldrar eru ekki virkir þátttakendur á vinnumarkaði af þeirri ástæðu að börn þeirra hafi ekki dagvistun.

     2.      Hafa verið mæld hagræn áhrif af skorti á dagvistunarúrræðum barna undir 24 mánaða aldri í tapi af vinnuframlagi foreldra sem geta ekki snúið aftur á vinnumarkað eftir barneignir og hversu miklum skatt- og útsvarstekjum ríki og sveitarfélög verða af vegna þessa? Ef ekki, hyggst ráðherra mæla hagræn og samfélagsleg áhrif tilneyddrar fjarveru foreldra vegna skorts á dagvistunarúrræðum?
    Hagræn áhrif af skorti á dagvistunarúrræðum barna undir 24 mánaða aldri hafa ekki verið mæld.

     3.      Hefur ráðherra undir höndum upplýsingar um áhrif skorts á dagvistunarúrræðum á jafnrétti kynjanna í ljósi þess að mæður eru oftast sá aðili sem er heima með ung börn áður en dagvistunarpláss fæst?
    Markmið laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, er að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína. Í því skyni að ná því markmiði var fæðingarorlofi skipt jafnt á milli foreldra þannig að báðir aðilar fá þriggja mánaða sjálfstæðan rétt auk þess sem þeir fá þrjá mánuði sameiginlega sem þeir geta skipt á milli sín að eigin vild. Þrátt fyrir þennan jafna rétt foreldra til fæðingarorlofs hefur tilhneigingin verið sú að mæður hafa í miklum meiri hluta nýtt sér sameiginlegan rétt foreldra. Þannig virðist því sem tilkoma nýs fjölskyldumeðlims hafi meiri áhrif á atvinnuþátttöku kvenna en karla og er mikilvægt að kanna ástæður þess að foreldrar skipti fæðingarorlofi ekki jafnar á milli sín.
    Í nýlegri skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði frá maí 2017 kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni vegna ársins 2015 voru langflest börn yngri en eins árs hvorki hjá dagforeldrum né á leikskóla. Það bendir til þess að þau séu heima hjá foreldrum sínum eða ættingjum. Það sama á við um rúmlega 23% barna sem eru eins árs. Í skýrslunni er jafnframt áætlað að börn komist að meðaltali í einhverja dagvistun frá 12–15 mánaða aldri. Því sé umönnunarbilið sem nýbakaðir foreldrar þurfi að brúa að meðaltali um 3–6 mánuðir. Það liggja hins vegar ekki fyrir opinberar upplýsingar um að það séu frekar mæður en feður sem eru heima með ung börn áður en dagvistunarpláss fæst þegar fæðingarorlofi foreldra sleppir en reynsla Fæðingarorlofssjóðs bendir til að almennt hefji mæður fæðingarorlof við fæðingu barns og dreifi því á 6–12 mánuði frá fæðingardegi. Algengt er hins vegar að feður taki eitthvað af fæðingarorlofi sínu við fæðingu barns og bíði síðan með frekari töku orlofsins þangað til síðar, svo sem þegar móðirin hefur lokið orlofi sínu, og taki þá afganginn af orlofinu í samfellu eða skipti upp á fleiri tímabil þar til barn nær 24 mánaða aldri.

     4.      Telur ráðherra þörf á úrbótum í þessum málaflokki og ef svo er, hvernig hyggst hann bregðast við?
    Samkvæmt 2. tölul. 5. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands fer mennta- og menningarmálaráðuneytið með málefni leikskóla og hefur félags- og jafnréttismálaráðherra því ekki heimildir til að grípa til aðgerða um fjölgun leikskólaplássa. Um daggæslu barna í heimahúsum hjá dagforeldrum fer samkvæmt reglugerð nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum, en nefnd er starfandi sem er að endurskoða reglugerðina. Helstu atriðin sem nefndinni er falið að skoða eru starfsskyldur og starfsskilyrði dagforeldra, skilyrði fyrir leyfisveitingu til dagforeldra og fyrir leyfissviptingu, framkvæmd og umfang eftirlits með starfsemi dagforeldra, menntun og símenntun þeirra og öryggi og velferð barna í daggæslu.