Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 185  —  77. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um áhrif brúa yfir firði á lífríki.


     1.      Hafa áhrif brúa yfir firði á lífríki innar í firðinum verið rannsökuð?
     2.      Hafa áhrif breytinga á straumhraða og vatnsseltu í fjarðarbotnum verið rannsökuð?

    Fyrstu tveir liðir fyrirspurnarinnar varða báðir rannsóknir á áhrifum brúa og þverana á vistkerfi fjarða og er svarað hér í einu lagi.
    Í skýrslu sem verkfræðistofan VSÓ ráðgjöf gaf út í febrúar 2012 „Þverun fjarða, áhrif á náttúru, landslag og landnotkun“ er að finna yfirlit yfir margvíslegar rannsóknir og aðra vinnu sem unnin hefur verið í tengslum við þverun fjarða. Í skýrslunni má finna niðurstöður rannsóknaverkefnis sem styrkt var af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.
    Í skýrslunni kemur fram að farið hafi fram margvíslegar rannsóknir í tengslum við þverun fjarða og hafa þær rannsóknir sýnt fram á áhrif vegna þverana, allt frá óverulegum að verulegum umhverfisáhrifum. Þeir umhverfisþættir sem helst verða fyrir áhrifum af þverun eru: eðlisþættir sjávar, þ.m.t. sjávarföll, straumar, selta og alda, lífríki fjöru og sjávar, bæði með beinu raski og sem afleiðing af breytingum á eðlisþáttum sjávar, jarðmyndanir og landslag. Áhrif þverunar á lífríki sjávar og fjöru geti falist í breytingum á sjávarföllum, strauma, öldu og seltu. Auk þess getur þverun fjarða raskað sjávarbotni og haft þannig áhrif á far fiska, næringarefnaflutninga og valdið breytingum á vistkerfum. Gerðar hafa verið rannsóknir á lífríki innan fjarða sem hafa verið þveraðir sem sýna að þverun getur haft mikil áhrif á lífríkið og að við sumar framkvæmdir hafi töluvert af leirum farið forgörðum.
    Hægt er með mótvægisáhrifum að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð áhrif vegalagningar um firði. Framkvæmdaáætlanir sem fela í sér þverun fjarða byggjast undantekningarlítið á rökum um minni tíðni umferðarslysa, skemmri ferðatíma og styttingu vegalengda. Með auknum kröfum um umferðaröryggi hefur umfang vegamannvirkja aukist. Við undirbúning þverunarframkvæmda fara fram rannsóknir á umhverfisþáttum sem taldir eru líklegir til að verða fyrir áhrifum. Í skýrslu VSÓ kemur fram að ekki hafi verið mikil áhersla á rannsóknir á samspil eðlisþátta sjávar og lífríkis og því sé óvissa um áhrif þverana á þetta samspil.
    Mikilvægt er að tryggja full vatnsskipti við þverunarframkvæmdir. Full vatnsskipti eru skilgreind þannig að ekki verða breytingar á sjávarföllum við þverun, en þannig er talið að áhrif framkvæmda á lífríki haldist í lágmarki.

     3.      Hvaða reglum er fylgt við gerð brúa yfir firði til verndar lífríki í fjarðarbotnum?
    Samkvæmt vegalögum, nr. 80/2007, telst brú vera hluti af vegi og því eru brýr hluti af vegakerfi landsins. Um mat á umhverfisáhrifum vegaframkvæmda gilda lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Lagning vega er framkvæmd sem getur samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum verið matsskyld en einnig tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu. Í liðum 10.07–10.10 í viðauka 1 við lögin eru talin upp þau viðmiðunarmörk sem gilda um matsskyldu vegaframkvæmda. Ef vegaframkvæmd er háð mati á umhverfisáhrifum útbýr framkvæmdaraðili matsskýrslu framkvæmdarinnar þar sem gerð er grein fyrir kostum og göllum ákveðinna leiða, mögulegum umhverfisáhrifum þeirra og mótvægisaðgerðum. Þegar matsskýrslan liggur fyrir setur Skipulagsstofnun fram álit sitt á matsskýrslunni og umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun skal leita umsagnar leyfisveitenda og annarra aðila eftir því sem við á. Umsagnaraðilar skulu gefa álit á því hvort fjallað sé á fullnægjandi hátt í frummatsskýrslu um það sem er á starfssviði þeirra og jafnframt hvort fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir séu fullnægjandi. Vegaframkvæmd er háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórna sem skal við ákvörðun um útgáfu leyfis kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Leyfisveitanda er heimilt að binda framkvæmdaleyfið skilyrðum um mótvægisaðgerðir, vöktun og öryggisráðstafanir til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið.