Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 3  —  3. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað orðanna „dómstóla að stefndum ríkisskattstjóra vegna ráðherra“ í 3. málsl. 2. mgr. 1. gr. og 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

2. gr.

    Í stað „20%“ í 1. málsl. 3. mgr. 66. gr. laganna kemur: 22%.

3. gr.

    Í stað „20/37“ í 4. málsl. 2. mgr. A-liðar 67. gr. laganna kemur: 22/37.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. A-liðar 68. gr. laganna:
     a.      Í stað „205.834 kr.“ og „245.087 kr.“ í 1. málsl. og „342.939 kr.“ og „351.787 kr.“ í 2. málsl. kemur: 223.300 kr.; 265.900 kr.; 372.100 kr.; og: 381.700 kr.
     b.      Í stað „5.400.000 kr.“ og „2.700.000 kr.“ í 3. málsl. kemur: 5.800.000 kr.; og: 2.900.000 kr.
     c.      Í stað „122.879 kr.“ í 7. málsl. kemur: 133.300 kr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
     a.      Í stað „20%“ í a-lið 5. tölul. kemur: 22%.
     b.      Í stað „20%“ í 6. tölul. kemur: 22%.
     c.      Í stað „20%“ í a-lið 7. tölul. kemur: 22%.
     d.      Í stað „18%“ í b-lið 7. tölul. kemur: 20%.
     e.      Í stað „10%“ í a-lið 8. tölul. kemur: 12%.
     f.      Í stað „10%“ í b-lið 8. tölul. kemur: 12%.
     g.      Í stað „20%“ í a-lið 10. tölul. kemur: 22%.
     h.      Í stað „18%“ í b-lið 10. tölul. kemur: 20%.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
     a.      Í stað „20%“ í 3. mgr. kemur: 22%.
     b.      Í stað „20%“ í 2., 4. og 5. málsl. 4. mgr. kemur: 22%.

7. gr.

    Í stað orðanna „fyrir lok hvers almanaksárs að loknu reikningsári“ í 1. málsl. 1. mgr. 91. gr. a laganna kemur: eigi síðar en 12 mánuðum frá lokum reikningsárs.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XLI í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „og 2017“ í 1.–5. mgr. kemur: 2017 og 2018.
     b.      Í stað orðanna „og 2016“ í 1.–5. mgr. kemur: 2016 og 2017.

II. KAFLI

Breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, með síðari breytingum.

9. gr.

    Í stað „20%“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: 22%.

10. gr.

    Í stað „20%“ í 3. og 4. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: 22%.

III. KAFLI

Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      Í stað „117,25 kr.“ í 1. tölul. kemur: 119,60 kr.
     b.      Í stað „106,80 kr.“ í 2. tölul. kemur: 108,95 kr.
     c.      Í stað „144,50 kr.“ í 3. tölul. kemur: 147,40 kr.

12. gr.

    Orðin „og aðila sem ríkisstjórn ákveður“ í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað „481,40 kr.“ í 1. tölul. kemur: 491,05 kr.
     b.      Í stað „26,75 kr.“ í 2. tölul. kemur: 27,30 kr.
     c.      Í stað „26,75 kr.“ í 3. tölul. kemur: 27,30 kr.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað „604,75 kr.“ í 1. tölul. kemur: 616,85 kr.
     b.      Í stað „33,60 kr.“ í 2. tölul. kemur: 34,25 kr.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum.

15. gr.

    Í stað „4. tölul.“ í 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: 1. og 3. tölul.

16. gr.

    Í stað „26,80 kr.“ í 14. gr. laganna kemur: 27,35 kr.

17. gr.

    Í stað „43,25 kr.“ og „45,85 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 44,10 kr.; og: 46,75 kr.

18. gr.

    Í stað orðanna „2016 og 2017“ í 1. málsl. og „500.000 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögunum kemur: 2016, 2017 og 2018; og: 500.000 kr. árin 2016 og 2017 og 250.000 kr. árið 2018.

V. KAFLI

Breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, með síðari breytingum.

19. gr.

    Í stað „60,10 kr.“ í 4. mgr. 1. gr. laganna kemur: 61,30 kr.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                 Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 3. tölul., skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald, kr. Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald, kr.
10.000–11.000 0,31 21.001–22.000 7,56
11.001–12.000 0,97 22.001–23.000 8,23
12.001–13.000 1,63 23.001–24.000 8,88
13.001–14.000 2,30 24.001–25.000 9,54
14.001–15.000 2,96 25.001–26.000 10,19
15.001–16.000 3,62 26.001–27.000 10,86
16.001–17.000 4,27 27.001–28.000 11,53
17.001–18.000 4,93 28.001–29.000 12,19
18.001–19.000 5,59 29.001–30.000 12,83
19.001–20.000 6,23 30.001–31.000 13,49
20.001–21.000 6,92 31.001 og yfir 14,15
     b.      6. mgr. orðast svo:
                 Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum ökutækjum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald, kr. Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetra
gjald, kr.
5.000–6.000 9,28 18.001–19.000 24,50
6.001–7.000 10,04 19.001–20.000 25,60
7.001–8.000 10,81 20.001–21.000 26,73
8.001–9.000 11,58 21.001–22.000 27,85
9.001–10.000 12,32 22.001–23.000 28,94
10.001–11.000 13,42 23.001–24.000 30,05
11.001–12.000 14,86 24.001–25.000 31,16
12.001–13.000 16,28 25.001–26.000 32,27
13.001–14.000 17,70 26.001–27.000 33,37
14.001–15.000 19,13 27.001–28.000 34,50
15.001–16.000 20,54 28.001–29.000 35,61
16.001–17.000 21,96 29.001–30.000 36,72
17.001–18.000 23,40 30.001–31.000 37,80
31.001 og yfir 38,93

21. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef ekki er komið með ökutæki til álestrar á öðru álestrartímabili ársins 2017, sem stendur frá 1. til 15. desember 2017, sbr. 1. mgr. 14. gr., skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir 1. janúar 2018.
    Við ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds skv. 13. gr. á álestrartímabilinu 1. júní til 15. júní 2018 skal ríkisskattstjóri deila eknum kílómetrum frá fyrri álestri með dagafjölda sama tímabils og reikna kílómetragjald af hverjum eknum kílómetra miðað við fjölda gjaldskyldra daga fyrir 1. janúar 2018 og fjölda gjaldskyldra daga eftir 1. janúar 2018.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988, með síðari breytingum.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað „5.810 kr.“ og „139 kr.“ í 2. mgr. kemur: 5.925 kr.; og: 142 kr.
     b.      Í stað „54.420 kr.“, „2,32 kr.“ og „85.660 kr.“ í 4. mgr. kemur: 55.510 kr.; 2,37 kr.; og: 87.375 kr.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 5. gr. laganna:
     a.      Í stað „0,0371%“ í a-lið 1. tölul. kemur: 0,0385%.
     b.      Í stað „0,0337%“ í b-lið 1. tölul. kemur: 0,0387%.
     c.      Í stað „0,452%“ í 2. tölul. kemur: 0,4403%.
     d.      Í stað „0,254%“ í 3. tölul. kemur: 0,35%.
     e.      Í stað „0,78%“ í 7. tölul. kemur: 0,8193%.
     f.      Í stað „0,84%“ í 8. tölul. kemur: 1,006%.
     g.      Í stað „0,0093% í 9. tölul. kemur: 0,0091%.
     h.      Í stað „0,0084%“ í 11. tölul. kemur: 0,0087%.
     i.      Í stað „0,0095%“ í 12. tölul. kemur: 0,01%.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað „300.000 kr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 500.000 kr.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði þessarar málsgreinar taka þó ekki til álagningar eftirlitsgjalds á fagfjárfestasjóði skv. 2. málsl. 6. tölul. 1. mgr. 5. gr., en árleg álagning eftirlitsgjalds á sjóðina miðast við formlega skrá Fjármálaeftirlitsins yfir þessa sjóði í byrjun álagningarárs og verður þeirri álagningu ekki breytt innan ársins.
     c.      Í stað orðanna „lokamálsliðar“ og „um fjármálagerninga“ í 4. mgr. kemur: 5. málsl.; og: um útgefendur fjármálagerninga.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, nr. 166/2011, með síðari breytingum.

25. gr.

    Í stað „0,03201%“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: 0,00888%.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

26. gr.

    Í stað „10.956 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 11.175 kr.

27. gr.

    Í stað „2016 og 2017“ í ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 2016, 2017 og 2018.

28. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Vegna útreiknings á dvalarframlagi skv. 21. gr. er á tímabilinu 1. janúar 2018 til og með 31. desember 2018 unnt að óska eftir því að Tryggingastofnun ríkisins beri saman útreikning dvalarframlags fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 120/2009. Ef samanburðurinn sýnir aukna kostnaðarþátttöku heimilismanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta dvalarframlag vegna framangreinds tímabils til samræmis við það.

X. KAFLI

Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

29. gr.

    Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal ellilífeyrisþegi hafa 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða í lögunum:
     a.      Í stað „2017“ í 14. tölul. kemur: 2018.
     b.      Í stað „2017“ þrívegis í 1. málsl. 18. tölul. kemur: 2018.
     c.      Í stað „25,8%“ í 1. málsl. 18. tölul. kemur: 31,75%.

XI. KAFLI

Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.

31. gr.

    Við 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna bætist: og um frítekjumörk vegna tekna fer skv. 1. mgr. 23. gr. sömu laga.

32. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum:
     a.      Í stað „2017“ þrívegis kemur: 2018.
     b.      Í stað „25,8%“ kemur: 31,75%.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum.

33. gr.

    Í stað „1. janúar 2017 til 31. desember 2017“ í ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum kemur: 1. janúar 2018 til 31. desember 2018.

XIII. KAFLI

Breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum.

34. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði laganna skal skuldbinding ríkisins skv. 60. gr. á árinu 2018 samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar vera 1.811,1 millj. kr. Framlag til Kristnisjóðs skal vera 75 millj. kr. á árinu 2018.

XIV. KAFLI

Breyting á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum.

35. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, með síðari breytingum, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga vera 931 kr. á mánuði árið 2018 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

XV. KAFLI

Breyting á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum.

36. gr.

    Í stað „2017“ og „968 kr.“ í 4. mgr. 14. gr. laganna kemur: 2018; og: 627 kr.

XVI. KAFLI

Breyting á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, með síðari breytingum.

37. gr.

    Í stað „16.800 kr.“ í 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: 17.100 kr.

XVII. KAFLI

Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      5. tölul. orðast svo: Fyrir vegabréfsáritun, 6–12 ára     4.200 kr.
     b.      6. tölul. orðast svo: Fyrir vegabréfsáritun, 13 ára og eldri     7.800 kr.
     c.      7. tölul. orðast svo: Fyrir vegabréfsáritun, framlenging     4.200 kr.
     d.      8. tölul. orðast svo: Fyrir vegabréfsáritanir samkvæmt fyrirgreiðslusamningi     4.200 kr.
     e.      9. tölul. orðast svo: Fyrir langtímavegabréfsáritun     7.800 kr.
     f.      10.–13. tölul. falla brott.
     g.      Orðið „íslenskan“ í a- og b-lið 27. tölul. fellur brott.
     h.      Í stað „15.000 kr.“ í a-lið 27. tölul. kemur: 25.000 kr.
     i.      Í stað „7.500 kr.“ í b-lið 27. tölul. kemur: 12.500 kr.
     j.      32.–34. tölul. falla brott.
     k.      35. tölul. verður svohljóðandi:
              a.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um dvalarleyfi     15.000 kr.
              b.      Fyrir endurnýjun dvalarleyfis     15.000 kr.
              c.      Fyrir bráðabirgðadvalarleyfi     15.000 kr.
              d.      Fyrir dvalar- og atvinnuleyfi, flýtimeðferð     45.000 kr.
              e.      Fyrir endurútgáfu dvalarleyfisskírteinis     7.500 kr.
              f.      Fyrir dvalarskírteini fyrir aðstandendur EES-borgara sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar     15.000 kr.

39. gr.

    Í stað „5.–10. tölul. og 12.–15. tölul.“ í 2. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna kemur: 5.–9. tölul. og 14.–15. tölul.

XVIII. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

40. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögunum:
     a.      Í stað „31. desember 2017“ í 6. mgr. kemur: 31. desember 2020.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. er óheimilt að fella niður virðisaukaskatt eða telja fjárhæð til undanþeginnar veltu samkvæmt ákvæði þessu:
                  1.      Af rafmagnsbifreið frá og með sjötta virka degi næsta almanaksmánaðar eftir að samtals 10.000 slíkar bifreiðar hafa verið skráðar á ökutækjaskrá.
                  2.      Af vetnisbifreið frá og með sjötta virka degi næsta almanaksmánaðar eftir að samtals 10.000 slíkar bifreiðar hafa verið skráðar á ökutækjaskrá.
                  3.      Af tengiltvinnbifreið frá og með sjötta virka degi næsta almanaksmánaðar eftir að samtals 10.000 slíkar bifreiðar hafa verið skráðar á ökutækjaskrá.

XIX. KAFLI

Breyting á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, með síðari breytingum.

41. gr.

    Í stað „6,30 kr.“, „5,50 kr.“, „7,75 kr.“ og „6,90 kr.“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: 9,45 kr.; 8,25 kr.; 11,65 kr.; og: 10,35 kr.

XX. KAFLI

Breyting á lögum um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl., nr. 112/2016.

42. gr.

    Í stað orðanna „haustþingi 2017“ í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur: vorþingi 2019.

XXI. KAFLI

Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum.

43. gr.

    Í stað orðanna „og 2017“ í ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 2017 og 2018.

XXII. KAFLI

Breyting á lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012, með síðari breytingum.

44. gr.

    Í stað orðanna „áranna 2016 og 2017“ í ákvæði til bráðabirgða III í lögunum kemur: ársins 2018.

XXIII. KAFLI

Breyting á lögum um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005, með síðari breytingum.

45. gr.

    Í stað „2017“ í 2. málsl. 9. gr. laganna kemur: 2022.

XXIV. KAFLI

Gildistaka.

46. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 2.–3., 5. og 9.–10. gr. koma til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda 2018 og álagningu 2019.
    Ákvæði 4. gr. koma til framkvæmda við ákvörðun barnabóta í fyrirframgreiðslu og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018.
    Ákvæði 7. gr. kemur til framkvæmda á árinu 2018 vegna tekna ársins 2017.
    Ákvæði 26. gr. kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018 vegna tekna ársins 2017.
    Ákvæði 29. og 31. gr. öðlast gildi 1. janúar 2018 og koma til framkvæmda 1. febrúar 2018.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 1., 11., 13.–14., 16.–25., 30., 32.–33. og 36.–44. gr. gildi 1. janúar 2018.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í beinum tengslum við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018. Tillögur þess hafa bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Frumvarpið hefur auk þess að geyma nokkrar tillögur að breytingum sem talið er nauðsynlegt að samþykktar verði sem lög á haustþingi 2017.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:
          Úrskurðir ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti verði kæranlegir til yfirskattanefndar.
          Hækkun á tekjuskatti af fjármagnstekjum um tvö prósentustig.
          Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækkaðar og komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018.
          Breyting á tímamörkum skila á ríki-fyrir-ríki skýrslu til ríkisskattstjóra.
          Tímabundnar útreikningsreglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta verði framlengdar óbreyttar um eitt ár.
          Hækkanir á olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi á áfengi og tóbak verði 2% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.
          Afnám heimildar ríkisstjórnarinnar til að ákveða hvaða aðilar það eru sem njóta áfengiskaupafríðinda.
          Leiðrétting á tilvísun í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
          Álagning vörugjalds á bifreiðar sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum fari samkvæmt undanþáguflokki (0–30%) árið 2018 en ekki samkvæmt aðalflokki (0–65%) eins og orðið hefði að óbreyttu. Hámarks ívilnun vörugjalds á slíkar bifreiðar verði 250.000 kr. árið 2018.
          Breytingar á gjaldskrám Fjármálaeftirlitsins verði í samræmi við áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar.
          Lækkun gjaldhlutfalls vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara í samræmi við áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar.
          Hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra um 2% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.
          Framlenging á bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um að Framkvæmdasjóði aldraðra sé heimilt að verja fé til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða.
          Bráðabirgðaákvæði er kveður á um það að komið skuli í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar.
          Sérstakt 100.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega sem gildi einnig um greiðslu heimilisuppbótar sem greiðist þeim ellilífeyrisþegum sem halda einir heimili.
          Framlenging á ákvæði til bráðabirgða til að sporna við því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju.
          Framlenging bráðabirgðaákvæða um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
          Hækkun á framlagi til Kristnisjóðs.
          Hækkun á framlagi íslenska ríkisins til þjóðkirkjunnar.
          Hækkun á sóknargjöldum.
          Breytingar á fjárhæð losunargjalds samkvæmt lögum um loftslagsmál.
          Hækkun á sérstöku gjaldi til Ríkisútvarpsins samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu um 2% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.
          Breytingar á gjaldskrá fyrir ýmis vottorð og leyfi í tengslum við vegabréf, dvalarleyfi og veitingu ríkisborgararéttar.
          Tímabundin heimild til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða framlengd um þrjú ár og settar takmarkanir á fjölda bifreiða sem undir hana geta fallið.
          Hækkun á kolefnisgjaldi um 50%.
          Frestun á skyldu ráðherra til að leggja fram frumvarp byggt á tillögum starfshóps sem ætlað er að móta tillögur um heimildir tollyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga til vorþings 2019 í stað haustþings 2017.
          Framlenging á bráðabirgðaákvæðum þar sem kveðið er annars vegar á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2018 og hins vegar að atvinnurekendur, þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi og lífeyrissjóðir greiði áfram sama hlutfall af stofni til iðgjalds á árinu 2018 eða 0,10%.
          Framlenging á gildistíma laga um fjarskiptasjóð út árið 2022.

3. Nánar um einstaka liði frumvarpsins.
3.1. Úrskurðir um skattalega heimilisfesti verði kæranlegir til yfirskattanefndar.
    Lagðar eru til breytingar á 1. og 2. gr. tekjuskattslaga í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 9174/2017. Í álitinu var komist að þeirri niðurstöðu að frávísun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á kæru, á þeim grundvelli að 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, viki til hliðar almennri kæruheimild 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, væri ekki í samræmi við lög. Í ákvæðunum, sem fjalla annars vegar um skattskyldu einstaklinga og hins vegar um skattskyldu lögaðila, segir m.a. að úrskurði ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti megi skjóta til dómstóla að stefndum ríkisskattstjóra vegna ráðherra. Ákvæðin hafa ávallt verið skilin þannig í framkvæmd að deilur um skattalega heimilisfesti falli hvorki undir valdsvið ráðuneytisins né yfirskattanefndar og því beri að leysa úr ágreiningi varðandi skattalega heimilisfesti fyrir dómstólum. Í ljósi áður nefnds álits umboðsmanns Alþingis er í frumvarpinu lagt til að úrskurði ríkisskattstjóra megi skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

3.2. Fjármagnstekjuskattur.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur hækki um tvö prósentustig, úr 20% í 22%. Tekjuáhrif hækkunarinnar eru áætluð 1,6 milljarðar kr. á árinu 2018, en 2,6 milljarðar kr. á árinu 2019. Skýringin er sú að fjármagnstekjuskattur af vöxtum og arði er innheimtur í staðgreiðslu en af öðrum fjármagnstekjum með árs töf.
    Með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á skattalögum síðastliðin ár hefur dregið úr mismuni á skattlagningu fjármagnstekna annars vegar og launatekna hins vegar. Enn er þó til staðar nokkur munur, en samkvæmt gildandi lögum er lægra tekjuskattshlutfallið að meðtöldu útsvari við staðgreiðslu launatekna samtals 36,94%, en það hærra 46,24% samanborið við 20% fjármagnstekjuskatt. Hækkun fjármagnstekjuskatts í 22% mun draga úr þeim mun en þó ekki leiða til þess að fjármagnstekjur verði skattlagðar umfram launatekjur, lífeyri og aðrar almennar tekjur. Það á eins við þótt tekið sé tillit til verðbótaþáttar vaxtatekna, því þegar breytingar á fjármagnstekjuskatti eru skoðaðar þarf að hafa í huga að vaxtatekjur undir ákveðnum mörkum eru undanþegnar skattlagningu.
    Launatekjur bera sem fyrr segir 36,94%–46,24% jaðarskatt auk þess sem 6,85% tryggingagjald er lagt á launagreiðslur þannig að heildarjaðarskattlagning launa getur verið á bilinu 44–53%. Samanlagður skattur á hagnað félags og úthlutaðan arð er hins vegar í dag um 36%. Þessi mikli munur getur og hefur leitt til skattalegrar hagræðingar í formi tilfærslna á launatekjum yfir í rekstrarhagnað og arðgreiðslur hjá einkahlutafélögum sem endurspeglast m.a. í þeirri sprengingu sem orðið hefur í fjölda fyrirtækja á því félagaformi. Með hækkun fjármagnstekjuskattsins úr 20% í 22% er dregið úr þessum mun um 1,6% prósentustig. Samanlagður skattur á hagnað félags og úthlutaðan arð verður samkvæmt því 37,6% eða 0,66 prósentustigum hærri en neðra þrepið í tekjuskatti einstaklinga sem er í dag 36,94% með útsvari.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að hlutfall óráðstafaðs persónuafsláttar sem ráðstafað er til greiðslu fjármagnstekjuskatts breytist úr 20/37 í 22/37 og er það í samræmi við fyrrnefnda hækkun á fjármagnstekjuskatti.

3.3. Skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu.
    Ákvæði 91. gr. a í tekjuskattslögunum fjallar um skyldu móðurfélags heildarsamstæðu, sem er með heimilisfesti í fleiri ríkjum, til að skila svokallaðri ríki-fyrir-ríki skýrslu til ríkisskattstjóra með upplýsingum um tekjur og skatta í þeim ríkjum þar sem félög innan heildarsamstæðunnar eiga heimilisfesti. Þessar upplýsingar eru nýttar við mat skattyfirvalda á því hvort lagaákvæðum um milliverðlagningu sé beitt í viðskiptum milli aðila innan samstæðunnar.
    Við úttekt rýnihóps á vegum Efnahags- og framfarastofnunar OECD á íslenskum reglum um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslum kom fram sú ábending að ákvæðið í 1. málsl. 1. mgr. 91. gr. a laganna væri ekki í samræmi við viðmiðunarreglur OECD, sbr. 13. lið BEPS aðgerðaáætlunarinnar. Núgildandi ákvæði kveður á um að skil eigi að vera fyrir lok hvers almanaksárs að loknu reikningsári en í viðmiðunarreglum OECD segir að miða skuli við að skil eigi sér stað ekki síðar en 12 mánuðum frá lokum reikningsárs. Þetta þýðir að samkvæmt gildandi rétti hefði móðurfélag með annað reikningsár en almanaksár, sem lyki í nóvember, einungis einn mánuð til að skila skýrslunni í stað þess að hafa til þess 12 mánuði. Slíkt er ekki í samræmi við viðmiðunarreglur OECD og er með breytingum á ákvæðinu verið að koma til móts við ábendingar sem gerðar hafa verið.

3.4. Barnabætur og vaxtabætur.
    Í frumvarpinu er lögð til 8,5% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta og 7,4% hækkun á tekjuviðmiðunarmörkum sem koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018. Heildarútgjöld vegna barnabóta verða tæplega 10% hærri á næsta ári samanborið við yfirstandandi ár. Þannig er gert ráð fyrir að barnabætur í heild verði 10,5 milljarðar kr. á árinu 2018 eða svipað og gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022.
    Í lok árs 2010 voru gerðar margvíslegar breytingar á útreikningsreglum vaxtabóta. Þessar reglur áttu að gilda í tvö ár en hafa síðan verið framlengdar óbreyttar ár frá ári. Verði þessar útreikningsreglur ekki framlengdar nú taka við eldri reglur frá og með næstu áramótum með þeim afleiðingum að stuðningur ríkissjóðs í formi vaxtabóta dreifist á fleiri fjölskyldur, þ.e. fjölskyldur sem ekki njóta bóta í dag, en á sama tíma lækka bætur þeirra fjölskyldna sem notið hafa hámarksbóta (tekjulágar og eignalitlar fjölskyldur). Í ljósi þess að enn er unnið að heildarendurskoðun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda á ýmsum sviðum (vaxtabótakerfi, húsaleigubótakerfi, félagsleg aðstoð o.fl.) er lagt til að útreikningsreglur vaxtabóta verði framlengdar eitt ár í viðbót sem þýðir að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir kerfisins verði þær sömu á árinu 2018 og voru á þessu ári. Á grundvelli þeirra forsendna er áætlað að útgjöld vegna vaxtabóta nemi 4 milljörðum kr. á árinu 2018.

3.5. Leiðrétting á tilvísun.
    Í 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, er kveðið á um svokallaðan undanþáguflokk en í hann falla leigubílar, ökukennslubílar og sérútbúnir bílar til fólksflutninga. Í 3. mgr. 5. gr. er m.a. kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði um þau ökutæki sem falla undir lögin, svo sem um notkun ökutækis, búnað þess og hvað teljist vera aðalatvinna skv. 4. tölul. 2. mgr. Komið hefur í ljós að tilvísunin til aðalatvinnu skv. 4. tölul. 2. mgr. er röng og því er lagt til að hún verði leiðrétt með vísan til 1. og 3. tölul. 2. mgr. Í þeim töluliðum er gert að skilyrði lækkunar vörugjalds að annars vegar leigubílstjórar og hins vegar ökukennarar hafi starf sitt að aðalatvinnu.

3.6. Verðlagsuppfærsla krónutöluskatta.
    Í frumvarpinu er að finna tillögur um 2% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Er þá miðað við áætlaða tólf mánaða breytingu á vísitölu neysluverðs yfir árið 2017. Hér er um að ræða olíugjald, almennt og sérstakt bensíngjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald og gjald af áfengi og tóbaki. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði samanlagt 1,3 milljörðum kr. á ári að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt.

3.7. Afnám áfengiskaupafríðinda.
    Á grundvelli heimildar í lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, hafa m.a. nokkrar af æðstu stofnunum ríkisins um árabil verið undanskildar greiðslu á andvirði áfengisgjalds vegna áfengiskaupa, en slík áfengiskaupafríðindi fela í sér ívilnun sem jafna má til fjárstyrks úr ríkissjóði eða skattastyrks. Forstöðumönnum umræddra stofnana hefur þegar verið tilkynnt um að þessi heimild verði afnumið og er tillaga frumvarpsins í samræmi við þá tilkynningu.

3.8. Vörugjald af fólksbifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum.
    Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 3. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., er vörugjald lagt á ökutæki samkvæmt aðalflokki í tíu gjaldbilum (A–J). Gjaldhlutfallið hækkar eftir því sem skráð koltvísýringslosun bifreiðar er meiri, frá 0% nemi losunin 0–80 g/km upp í 65% fari losunin yfir 250 g/km. Með lögum nr. 8/2000 var vörugjald lækkað á fólksbifreiðar sem ætlaðar voru til útleigu hjá ökutækjaleigum (þá nefndar bílaleigur). Það var gert með vísan til stefnu um að lækka vörugjald af ökutækjum sem notuð væru í atvinnurekstri og til að gera þjónustu ökutækjaleiga betur samkeppnishæfa í samanburði við slíka þjónustu í öðrum löndum. Frá gildistöku laga nr. 156/2010 hefur vörugjald verið lagt á bifreiðar til útleigu hjá ökutækjaleigum samkvæmt svokölluðum undanþáguflokki. Slíkar bifreiðar bera lægra vörugjald en almennt gerist. Gjaldið er lagt á í tíu gjaldbilum (A–J), í bilum A–D nemur gjaldið 0%, í bili E 5% en stighækkar í bilunum þar á eftir og fer hæst í 30% í bili J. Vörugjald sem lagt er á bifreiðar ökutækjaleiga hefur sætt töluverðri gagnrýni og m.a. hefur verið bent á að fyrirkomulagið dragi úr virkni hvata til minni koltvísýringslosunar, sem liggur til grundvallar meginreglu 1. mgr. 3. gr. laganna, og hefði óæskileg áhrif á eftirsölumarkað fólksbifreiða. Af þeim sökum m.a. samþykkti Alþingi með lögum nr. 125/2015 að fallið yrði frá fyrirkomulaginu og vörugjald yrði alfarið lagt á bifreiðarnar samkvæmt meginreglu 1. mgr. 3. gr. laganna frá og með 1. janúar 2018 (0–65%). Ökutækjaleigur hafa undanfarin ár staðið að baki verulegum hluta innflutnings fólksbifreiða. Má sem dæmi nefna að á tímabilinu frá janúar til loka október voru nýskráðar 23.487 fólksbifreiðar og af þeim voru 9.850 ætlaðar til útleigu hjá ökutækjaleigum eða sem nemur 42%. Hlutur ökutækjaleiga í nýskráningum hefur verið á bilinu 40–50% undanfarin ár og því hefur floti bifreiða til ökutækjaleigu vaxið hratt. Rétt er að taka fram að fastlega má gera ráð fyrir að hlutur ökutækjaleiga í nýskráningum verði umtalsvert stærri í nóvember og desember í ljósi þess að sú vörugjaldsívilnun sem þær hafa notið mun að óbreyttu renna sitt skeið.
    Meðal annars í ljósi stærðar og stöðu íslensks ökutækjaleigumarkaðar og fjarlægðar landsins frá öðrum ríkjum virðist rekstur ökutækjaleiga í meginatriðum hafa byggst á hámörkun leigunýtingar eigna, þ.e. bifreiða sem ekið er á innlendum samgöngumannvirkjum, og stöðugum eftirmarkaði innan lands. Vísbendingar eru um að ökutækjaleigur hafi offjárfest í fólksbifreiðum að undanförnu, a.m.k. ef litið er til stöðugleika eftirmarkaðar, og því þurfi greinin lengri tíma til að aðlaga sig að breyttum reglum. Af þeim sökum er lagt til að vörugjald verði lagt á bifreiðar sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum samkvæmt undanþáguflokki (0–30%) árið 2018 en ekki samkvæmt aðalflokki (0–65%) og að hámarksívilnun vörugjalds á slíkar bifreiðar verði 250.000 kr. árið 2018 en ekki 500.000 kr. eins og verið hefur.
    Verði tillagan samþykkt má ætla að hún leiði til 1,5 milljarða kr. lækkunar á tekjum ríkissjóðs á árinu 2018.

3.9. Gjaldskrár vegna kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins.
    Lagðar eru til breytingar á gjaldhlutföllum eftirlitsgjalds skv. 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. 2. gr. laganna. Breytingarnar endurspegla álagt eftirlitsgjald að fjárhæð 2,3 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að heildargjöld verði 2,4 milljarðar kr. og aðrar tekjur 56,4 millj. kr. Verði tilskipun um endurreisn og skilameðferð fjármála- og verðbréfafyrirtækja (tilskipun 2014/59/ESB), sem alla jafna gengur undir nafninu BRRD, innleidd í íslensk lög á komandi mánuðum mun sérstakt eftirlitsgjald vegna þess nema 50 millj. kr. Þannig er gert ráð fyrir að heildargjöld nemi 17,2 millj. kr. umfram samtölu tekna og verði mætt með lækkun á eigin fé stofnunarinnar, sem verði 116 millj. kr. í árslok 2018 eða sem nemur um 4,9% af áætluðu eftirlitsgjaldi næsta árs, sbr. heimild í 2. mgr. 3. gr. um ráðstöfun rekstrarafgangs og rekstrartaps. Gert er ráð fyrir að breytingarnar, sem taka mið af rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins, hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

3.10. Greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.
    Lögð er til lækkun á gjaldhlutfalli af álagningarstofni skv. 4. gr. laga nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við rekstur stofnunarinnar og er lagt á gjaldskylda aðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Í 7. gr. laga nr. 166/2011 er kveðið á um að tekið skuli tillit til rekstrarafgangs eða rekstrartaps af starfsemi umboðsmanns skuldara við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár. Innheimtar tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 277 millj. kr. á árinu 2018.

3.11. Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Lögð er til 2% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2018. Samkvæmt því verður gjaldið 11.175 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018 vegna tekna ársins 2017. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði um 50 millj. kr. viðbótartekjum á ári.

3.12. Rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna.
    Lagt er til nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VII verði framlengt. Það leiðir til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2018. Verði frumvarpið að lögum munu útgjöld ríkissjóðs því aukast um 200 millj. kr. frá því sem annars hefði orðið vegna þessara ákvæða.

3.13. Sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega.
    Með lögum nr. 116/2016, um breytingu á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, var sú breyting m.a. gerð á ellilífeyriskerfi almannatrygginga að öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna voru afnumin. Var þess í stað lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði og gildir það um allar tekjur ellilífeyrisþega, óháð tegund þeirra. Eftir samþykkt laganna hefur komið fram gagnrýni á þessa breytingu að því er atvinnutekjur varðar og hafa komið fram kröfur af hálfu hagsmunasamtaka aldraðra og fleiri aðila um að tekið verði upp að nýju sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara sem komi til viðbótar við almenna frítekjumarkið. Til stuðnings þessum kröfum hefur verið bent á að verði tiltekin fjárhæð atvinnutekna undanskilin við útreikning á fjárhæð ellilífeyris almannatrygginga, þannig að ekki komi til lækkunar ellilífeyris vegna atvinnuteknanna, sé það til þess fallið að hvetja eldra fólk til áframhaldandi þátttöku á vinnumarkaði eftir lífeyristökualdur.
    Óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Því er lagt til að ellilífeyrisþegar skuli hafa 100.000 kr. í sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna skv. 23. gr. laga um almannatryggingar sem gildi einnig um greiðslu heimilisuppbótar sem greiðist þeim ellilífeyrisþegum sem halda einir heimili.

3.14. Samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða.
    Með lögum nr. 106/2011, um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða), sem samþykkt voru í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Landssamtaka lífeyrissjóða um víxlverkun örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum annars vegar og hins vegar hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega í áföngum frá 3. desember 2010, var tímabundið komið í veg fyrir þá víxlverkun milli örorkubóta frá almannatryggingum og örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum sem orðið hafði í samspili þessara tveggja meginstoða í lífeyristryggingum.
    Víxlverkanir þessar lýsa sér þannig að samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum, lækka lífeyrisgreiðslur og bætur félagslegrar aðstoðar í mörgum tilfellum vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þá er mælt fyrir um það í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, að sjóðfélagi í lífeyrissjóði eigi rétt á örorkulífeyri úr viðkomandi sjóði hafi hann orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutaps sem er metið 50% eða meira. Ákvæðið hefur verið útfært nánar í samþykktum lífeyrissjóða þar sem kveðið er á um að heildartekjur örorkulífeyrisþega eftir orkutap verði ekki umfram þær tekjur sem hann hafði fyrir orkutap. Við samanburð á heildartekjum fyrir og eftir orkutap líta lífeyrissjóðir m.a. til greiðslna almannatrygginga sem oft hefur leitt til þess að greiðslur til örorkulífeyrisþega úr lífeyrissjóðum hafa lækkað eða jafnvel fallið niður. Við þá tekjulækkun öðlast hinir sömu einstaklingar aukin réttindi innan almannatryggingakerfisins sem aftur leiðir til enn frekari lækkunar á greiðslum frá lífeyrissjóðunum við næsta samanburð og síðan koll af kolli. Gagnkvæm tekjutenging almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum getur því leitt til tíðra breytinga á örorkulífeyrisgreiðslum og tilsvarandi óöryggis lífeyrisþega sem fyrst og fremst hafa komið örorkulífeyrisþegum illa.
    Til að komið verði í veg fyrir að framangreind víxlverkun eigi sér stað á árinu 2018 er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæða í lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð og ákvæðis til bráðabirgða XI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda verði framlengdur um eitt ár. Ef ekki væri gripið til þess að framlengja ákvæðið er gert ráð fyrir að nettó mundu útgjöld ríkissjóðs lækka um 500 millj. kr.
    Gert er ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á árinu 2018. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði. Verði það ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 1.315.200 kr. á ári í 328.800 kr. og leiða til lækkunar bóta hjá þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu. Að óbreyttu ákvæði hefðu útgjöldin lækkað um 1 milljarð kr. á árinu 2018.

3.15. Framlag til þjóðkirkjunnar og Kristnisjóðs.
    Í frumvarpinu er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2018 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 37,1 millj. kr. frá fjárlögum fyrir árið 2017. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs hækki um 1,7 millj. kr. á árinu 2018.

3.16. Sóknargjöld.
    Í frumvarpinu er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 920 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 931 kr. fyrir árið 2018. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2017, með breytingu á lögum nr. 91/1987, gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir samtals 3.256,1 millj. kr. framlagi til þeirra liða sem sóknargjald reiknast á að teknu tilliti til almennra aðhaldskrafna í forsendum frumvarpsins og nemur heildarhækkun sóknargjaldsins frá fjárlögum fyrir árið 2017 því 41,8 millj. kr.

3.17. Gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fjárhæð losunarheimilda skv. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 70/2012, um loftslagsmál. Í 14. gr. laganna er kveðið á um losunargjald sem lagt er á rekstraraðila starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir samkvæmt greininni. Í ljósi þess að losunargjaldið hefur einkenni skatts, sbr. 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, þarf að uppfæra gjaldið árlega og er því mælt fyrir um fjárhæð gjaldsins í frumvarpinu. Lagt er til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2018 skuli vera 627 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar. Nauðsynlegt er að lögfesta fjárhæð losunargjalds vegna losunar á árinu 2018 í síðasta lagi 31. desember 2017 svo rekstraraðilum starfsstöðva sem hafa verið undanskildar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir verði ljóst fyrir upphaf árs 2018 hver upphæð losunargjalds verður sem lagt verður á vegna losunar 2018.
    Í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, var lagt til að við ákvörðun losunargjaldsins yrði byggt á upplýsingum um markaðsverð losunarheimilda frá Intercontinental Exchange markaðnum í London (ICE) en þar fóru fram, þegar frumvarpið var flutt, rúmlega 90% af viðskiptum með losunarheimildir í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Fjárhæð losunargjalds var 1.042 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar árið 2016 en lækkaði niður í 968 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar árið 2017.
    Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. laga um loftslagsmál skal Umhverfisstofnun fyrir 31. maí ár hvert afhenda innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu um magn gjaldskyldrar losunar. Innheimtumaður ríkissjóðs í umdæmi starfsstöðvar skal því næst fyrir 1. júlí ár hvert leggja á og innheimta losunargjald af starfsstöðvum sem hafa verið undanþegnar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar um magn gjaldskyldrar losunar vegna innheimtu fyrir losun árið 2016 voru fjórar starfsstöðvar undanþegnar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Ein starfsstöð var með losun umfram þann fjölda heimilda sem henni hefði verið úthlutað endurgjaldslaust hefði starfsstöðin verið þátttakandi í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Starfsstöðinni sem bar að greiða losunargjald var Steinull hf. Gjaldskyld losun Steinullar hf. var 255 tonn CO2 og fjárhæð losunargjalds var 265.710 kr.
    Til að fá traustar og hlutlægar upplýsingar um markaðsverðið var samið við KPMG ehf. um að útbúa skýrslu um meðalverð losunarheimilda á tímabilinu 1. ágúst 2016 til 31. júlí 2017. Í skýrslu KPMG, dags. 1. ágúst 2017, kemur fram að meðalverð losunarheimilda á fyrrgreindu tímabili hafi verið 5,2 evrur á hvert tonn af koldíoxíði eða ígildi þess, eða 626,9 íslenskar krónur. Við útreikning meðalverðs var tekið mið af verðmyndun losunarheimilda í tveimur mismunandi kauphöllum.
    Lagt er til að framangreindir útreikningar KPMG verði lagðir til grundvallar við ákvörðun losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2018. Starfsstöðvar sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfisins, skv. 14. gr. laganna, skulu samkvæmt því greiða 627 kr. fyrir hvert tonn losunar gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð á tímabilinu 1. janúar 2018 til 31. desember 2018. Eins og fram kemur í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, er gert ráð fyrir að gjaldið verði endurskoðað á hverju ári miðað við nýjar upplýsingar. Gert er ráð fyrir því að breytingin muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.

3.18. Sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins.
    Lagt er til að sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 16.800 kr. í 17.100 kr. eða sem nemur almennum verðlagsbreytingum yfir árið 2017. Áætlaðar viðbótartekjur af hækkuninni nema um 85 millj. kr. árlega.

3.19. Breytingar á gjaldskrá Útlendingastofnunar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gjaldskrá Útlendingastofnunar samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, sem hefur verið óbreytt frá árinu 2009. Mikilvægt þykir að breyta núverandi gjaldskrá í samræmi við þróun á vísitölu neysluverðs frá árinu 2009 til júlí 2017 auk þess sem hún er ekki í samræmi við ný lög nr. 80/2016, um útlendinga, sem tóku gildi í byrjun árs 2017. Lög um útlendinga, nr. 80/2016, fólu í sér heildarendurskoðun á lögum nr. 96/2002. Við þá endurskoðun féllu ýmis ákvæði eldri laga brott eða þeim var breytt. Er því svo komið að í lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, er nú að finna gjaldtökuheimildir fyrir leyfum sem ekki eru lengur til eða heitum þeirra hefur verið breytt. Í samræmi við ný lög um útlendinga þykir því rétt að fella brott þau ákvæði í aukatekjulögum sem ekki eiga lengur við, ásamt tilvísunum til þeirra, og jafnframt aðlaga þau ákvæði sem þörf er á með tilliti til nýrra heita á útgefnum leyfum. Breytingin hefur ekki áhrif á tekjur ríkissjóðs.

3.20. Virðisaukaskattsívilnun vegna rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða.
    Í ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt er kveðið á um heimild til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ákvæðið kom inn í lög um virðisaukaskatt með gildistöku laga nr. 69/2012, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Tilgangur ákvæðisins er að styrkja samkeppnishæfni umræddra ökutækja gagnvart hefðbundnum bensín- og dísilknúnum ökutækjum með það að markmiði að efla og flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum.
    Gildissvið ákvæðisins er afmarkað þannig að aðeins ökutæki í tilteknum ökutækjaflokkum sem skilgreindir eru í reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, njóta þeirrar ívilnunar sem ákvæðið kveður á um. Upphaflega gátu kaupendur rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbifreiða sem flokkaðar voru sem þung bifhjól, fólksbifreiðar fyrir átta farþega eða færri og sendibifreiðar til vöruflutninga, að leyfðri heildarþyngd undir 3.501 kg, fengið virðisaukaskatt felldan niður við innflutning að tilteknu hámarki eða keypt þær án virðisaukaskatts að tilteknu hámarki í viðskiptum innan lands. Með 8. gr. laga nr. 126/2016 var gildissviðið hins vegar útvíkkað og njóta kaupendur strætisvagna og stærri gerða hópferðabifreiða um þessar mundir einnig ívilnunarinnar að því gefnu að þær teljist til rafmagns-, tengiltvinn- eða vetnisökutækja.
    Upphaflega var ákvæðinu aðeins ætlað að gilda út árið 2013 en frá því ári hefur gildistíminn verið framlengdur um eitt ár í senn. Það fyrirkomulag hefur sætt töluverðri gagnrýni. Bent hefur verið á að bæði kaupendur og innflytjendur þeirra bifreiða sem ívilnunar njóta samkvæmt ákvæðinu hafi lítt getað treyst á framlengingu gildistímans og því hafi innkaup slíkra bifreiða verið háð töluverðri óvissu.
    Sterkar vísbendingar eru um að ívilnunin hafi haft áhrif þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum og samdrætti skráðrar meðallosunar koltvísýrings vegna notkunar bifreiða. Hafa ber þó í huga að 0% vörugjald á ökutæki með skráða losun undir 81 g/km og lágt bifreiðagjald á ökutæki með skráða losun að 121 g/km hafa ótvírætt haft umtalsverð áhrif í sömu átt. Þeir skattar sem hafa áhrif á kaupverð ökutækja virðast hafa meiri áhrif á kauphegðun en þeir sem koma fram í rekstrarkostnaði á lengri tíma, a.m.k. í tilviki einstaklinga. Þá er til þess að líta að sambærileg ívilnun hefur verið í gildi í Noregi um nokkra hríð en gildistími hennar var nýverið framlengdur og gildissvið hennar breikkað. Þar í landi hefur rafmagnsbílum fjölgað mjög hratt á undanförnum árum en fjöldi þeirra nam í lok árs 2016 3,66% allra fólksbifreiða í landinu samkvæmt upplýsingum frá norsku hagstofunni. Þá er þess að geta að Danir féllu nýlega frá því að láta sérstakan afslátt rafmagnsbifreiða frá skráningargjaldi renna út í áföngum á árunum 2017–2020 þar sem þeir sáu fram á hrun í sölu rafmagnsbifreiða.
    Í lok árs 2016 voru 228.566 skráðar bifreiðar á Íslandi. Til viðmiðunar hefur verið nefnt að ef 5% bifreiðaflotans nýta tiltekinn orkugjafa skapist forsendur til rekstrar þjónustuinnviða á forsendum einkamarkaðar. Ljóst er að sú viðmiðun er háð nokkurri óvissu. Samlegðar gætir milli rafmagnsbifreiða og tengiltvinnbifreiða, sem báðar ganga fyrir rafmagni sem varðveitt er á rafgeymi, og þykir rétt að miða við að ívilnanir samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt falli úr gildi í kjölfar þess að 10.000 rafmagnsbifreiðar annars vegar og 10.000 tengiltvinnbifreiðar hins vegar hafa verið skráðar á ökutækjaskrá, eða sem nemur samtals um 8,8% bifreiðaflotans í lok árs 2016. Áframhaldandi fjölgun tengiltvinnbifreiða ætti að styðja við þá uppbyggingu hleðsluinnviða sem þegar er hafin. Í samræmi við þetta er lagt til að ívilnun vegna kaupa á vetnisbifreið falli úr gildi í kjölfar þess að 10.000 slíkar bifreiðar hafa verið skráðar. Þrátt fyrir að framangreindum fjölda bifreiða verði ekki náð í árslok 2020 mun ívilnunin þá falla niður og um skattlagningu þeirra fara eftir öðrum ákvæðum virðisaukaskattslaga þar eftir. Breytingin er talin lækka tekjur ríkissjóðs um 2 milljarða kr. á árinu 2018 en áhrifin munu aukast næstu ár þar á eftir miðað við að ívilnunin hefði að óbreyttu fallið niður um næstu áramót.

3.21. Hækkun kolefnisgjalds.
    Kolefnisgjald er lagt á eldsneyti sem inniheldur kolefni af jarðefnauppruna, samkvæmt lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, ef notkun þess leiðir til losunar koltvísýrings í andrúmsloftið. Samkvæmt gildandi lögum nema fjárhæðir kolefnisgjalds 6,30 kr. á hvern lítra af gas- og dísilolíu, 5,50 kr. á hvern lítra af bensíni, 7,75 kr. á hvert kílógramm af brennsluolíu og 6,90 kr. á hvert kílógramm af jarðolíugasi og öðru loftkenndu kolvatnsefni. Við setningu laga nr. 129/2009 voru fjárhæðirnar mun lægri, eða 2,90 kr. á lítra gas- og dísilolíu, 2,60 kr. á bensínlítrann og 3,60 kr. á hvert kílógramm brennsluolíu en á þeim tíma var gjaldið ekki lagt á loftkennd kolvatnsefni. Með lögum nr. 164/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, voru fjárhæðir gjaldsins hækkaðar um 50%. Aftur voru þær hækkaðar með lögum nr. 164/2011 og frá þeim tíma hafa fjárhæðirnar sætt hækkun til samræmis við verðlagsbreytingar auk 2,5% sérstakrar hækkunar í upphafi árs 2017 sem ætlað var að stemma stigu við þenslu.
    Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 129/2009 sagði m.a.: Slíkan skatt má finna í flestum ríkjum Evrópu, þ.m.t. í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Gjaldtakan byggist á kolefnisinnihaldi hverrar tegundar eldsneytis fyrir sig og tekur mið af söluverði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB (EU ETS) eins og það hefur verið síðastliðið ár. Verð á losunarheimildum hefur verið um 13 evrur á hvert tonn CO2 eða um 48 evrur á hvert tonn af kolefni, en í frumvarpinu er miðað við 4.000 kr. á hvert tonn af kolefni. Þar af leiðandi verður skatturinn hærri á dísilolíu en t.d. bensín þar sem kolefnisinnihald við bruna á einum lítra af dísilolíu er meira en á einum lítra af bensíni.
    Um þessar mundir nemur verð ETS-losunarheimilda 5,75 evrum á tonnið. Verðið tók að falla á árinu 2010 og hefur frá miðju ári 2013 verið u.þ.b. 5–8 evrur á tonnið. Fjárhæðir kolefnisgjalds hafa ekki fylgt verði ETS-losunarheimilda á markaði.
    Í mynd 1 koma fram fjárhæðir kolefnisgjalds sem lagt er á hvern lítra eða kílógramm jarðefnaeldsneytis annars staðar á Norðurlöndunum, miðað við miðgengi íslensku krónunnar 5. desember 2017 gagnvart evru, danskri krónu, norskri krónu og sænskri krónu. Tekið skal fram að þó að skattlagning kolefnis sé í grundvallaratriðum keimlík í ríkjunum er hún misflókin, m.a. í ljósi sértækra undanþága og endurgreiðslna. Á myndinni sést hins vegar glöggt að vægi kolefnisgjalds í smásöluverði einstakra eldsneytistegunda er umtalsvert minna hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum.

Mynd 1. Kolefnisgjald á Norðurlöndunum 2017


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Finnska fjármálaráðuneytið (Valtiovarainministeriö), danska skattaráðuneytið (Skatteministeriet), sænsk skattyfirvöld (Skatteverket), norska lagasafnið (lovdata.no) og útreikningar fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

    Tillaga um helmings hækkun fjárhæða kolefnisgjalds beinist gegn losun koltvísýrings í andrúmsloftið og samræmist stefnu og skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Meginmarkmið aðgerðarinnar er að hvetja bæði heimili og fyrirtæki til þess að draga úr losun með orkuskiptum eða bættri orkunýtingu. Reiknað er með að þessi hækkun auki tekjur ríkissjóðs um 2 milljarða kr. á árinu 2018, en lagt er til að hún taki gildi í ársbyrjun 2018. Breytingin kemur til með að hækka útsöluverð á bensíni um 1,8% og dísil um 2%. Þá eru áhrif á vísitölu neysluverðs metin um 0,03% til hækkunar.

3.22. Framlenging á skilum starfshóps sem ætlað er að móta tillögur um heimildir tollyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga.
    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl., nr. 112/2016, skal fjármála- og efnahagsráðherra, að höfðu samráði við þann ráðherra sem fer með málefni lögreglu og löggæslu, skipa starfshóp þar sem sitji m.a. fulltrúar frá því ráðuneyti sem fer með málefni tolla og vörugjalda, því ráðuneyti sem fer með málefni lögreglu og löggæslu, Persónuvernd, lögreglu og tollstjóra. Starfshópnum er ætlað að móta tillögur um heimildir tollyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga og skal ráðherra leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp sem byggist á tillögum hópsins eigi síðar en á haustþingi 2017. Við vinnu starfshópsins hefur komið í ljós að um er að ræða umtalsverða vinnu sem m.a. tengist innleiðingu persónuverndargerða ESB og hlutverki tollstjóra sem fer bæði með löggæsluhlutverk á landamærum ásamt því að hafa hlutverk við öflun skatttekna. Að svo komnu máli er því nauðsynlegt að leggja til þá breytingu að bráðabirgðaákvæði laga nr. 112/2016 verði breytt á þann veg að framlagningarskylda ráðherra verði miðuð við vorþing 2019. Þá ætti innleiðingu persónuverndargerða ESB að vera lokið sem starfshópurinn tekur mið af við útfærslu frumvarpsins sem hann hefur unnið að.

3.23. Starfsendurhæfingarsjóðir.
    Atvinnurekendur og þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi, lífeyrissjóðir og ríkið standa straum af rekstri starfsendurhæfingarsjóða skv. II. kafla laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012. Lögin gera ráð fyrir að atvinnurekendur og þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi ásamt lífeyrissjóðunum greiði sem nemi 0,13% af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða á ári. Enn fremur gera lögin ráð fyrir að framlag ríkisins sé hluti af gjaldstofni tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. 7. gr. laganna. Fyrir liggur að VIRK starfsendurhæfingarsjóður ses., sem er eini starfandi starfsendurhæfingarsjóðurinn, hefur ekki þörf fyrir svo mikið fjármagn við rekstur sinn og hafði því verið gert samkomulag milli ríkis og samtaka aðila vinnumarkaðarins um að atvinnurekendur og þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi ásamt lífeyrissjóðum greiði sem nemur 0,10% í stað 0,13% af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða fyrir árin 2016 og 2017, sbr. 33. gr. laga nr. 124/2015, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld.
    Lögð er til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða í lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða og lögum um tryggingagjald sem kveða á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2018. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017. Eftir sem áður er áfram gert ráð fyrir óbreyttri fjármögnun frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum eða 0,10%. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra annars vegar og VIRK starfsendurhæfingarsjóðs ses. hins vegar verði breytt til samræmis og að á árinu 2018 leggi ríkissjóður starfsendurhæfingarsjóði til framlag af fjárlögum.

3.24. Sólarlagsákvæði laga um fjarskiptasjóð.
    Lögð er til framlenging á gildistíma sólarlagsákvæðis 9. gr. laga um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005, út árið 2022. Að óbreyttu mundu lögin falla úr gildi í árslok árið 2017.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar á ákvæðum skattalaga sem hafa verið í gildi um nokkra hríð. Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess gætt sérstaklega við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við þær kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum.
    Með 7. gr. frumvarpsins er verið að koma til móts við alþjóðlegar skuldbindingar. Ísland undirritaði þann 12. maí 2016 samkomulag á vegum OECD um skipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum um starfsemi alþjóðafyrirtækjasamstæðna. Skýrslunum er ætlað að auka gagnsæi á starfsemi slíkra fyrirtækjasamstæðna.
    Ákvæði 40. gr. frumvarpsins inniheldur breytingar sem þarf að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

5. Samráð.
    Við vinnslu þessa frumvarps var m.a. stuðst við drög að fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018. Við gerð þess var haft samráð við dómsmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, velferðarráðuneytið, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóra, tollstjóra og yfirskattanefnd.

6. Mat á áhrifum tillagna frumvarpsins.
    Eins og fram er komið eru tillögur frumvarpsins af margvíslegum toga og sama má segja um áhrif þeirra á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.
    Erfitt er að meta af einhverri nákvæmni hvaða áhrif hækkun á fjármagnstekjuskatti hefur á einstakar efnahagsstærðir eins og ráðstöfunartekjur heimilanna, verðlag eða kaupmátt ráðstöfunartekna sem aftur hafa áhrif á framvindu efnahagsmála. Hækkunin mun skerða ráðstöfunartekjur þess hluta heimila sem hefur hæstar fjármagnstekjur. Tekjuáhrif hækkunarinnar á ríkissjóð eru áætluð 1,6 milljarðar kr. árið 2018 en 2,6 milljarðar kr. árlega eftir það.
    Hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum og tekjuviðmiðunarmörkum barnabóta leiða til þess að heildarútgjöld vegna barnabóta verða tæplega 10% hærri á næsta ári samanborið við yfirstandandi ár. Þannig er gert ráð fyrir að barnabætur í heild verði 10,5 milljarðar kr. á árinu 2018 eða svipað og gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022. Tillaga frumvarpsins um óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiðir til þess að útgjöld vegna vaxtabóta lækka um 500 millj. kr. á milli ára.
    Hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra nemur samtals 135 millj. kr. en þau gjöld hafa ekki áhrif á vísitölu neysluverðs. Þá mun verðlagsuppfærsla krónutölugjalda (áfengi, tóbak, eldsneyti og bifreiðagjöld) auka tekjur ríkissjóðs um 1,3 milljarða kr. Þessar ráðstafanir munu óhjákvæmilega hafa áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs og eru þau áhrif áætluð 0,04%.
    Sú lagabreyting sem lögð er til í frumvarpinu um undanþágu frá virðisaukaskatti að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða að tilteknum skilyrðum uppfylltum er talin lækka tekjur ríkissjóðs um 2 milljarða kr. á árinu 2018 en áhrifin munu aukast næstu ár þar á eftir. Er þá miðað við að ívilnunin hefði að óbreyttu fallið niður um næstu áramót. Tekið skal fram að þessar tölur eru sá virðisaukaskattur sem gefinn er eftir af þeim innflutningi og sölu sem á sér stað þegar ívilnunarinnar nýtur við, en nyti hennar ekki við mundi þessi innflutningur og sala eiga sér stað í minni mæli og eftirspurnin beinast að einhverju leyti að bílum sem bera fullan virðisaukaskatt, en hér er ekki gerð tilraun til að meta slík áhrif. Miðað við þróun innflutnings rafmagns- og tengiltvinnbifreiða á undanförnum mánuðum má ætla að áhrif ívilnunarinnar á ríkissjóð á árinu 2017 verði neikvæð um 1,5 milljarða kr.
    Viðbótartekjur ríkissjóðs af tillögu um helmingshækkun kolefnisgjalds eru áætlaðar vera um 2 milljarðar kr. árlega að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Þar af mun meira en helmingur koma til vegna samgangna á landi, þ.e. aksturs bæði heimila og fyrirtækja. Enn fremur mun sjávarútvegurinn bera talsverðan hluta hækkunarinnar og ljóst að rekstrarkostnaður vegna fiskveiða mun því hækka, en virðisaukaskattur ofan á kolefnisgjald af skipaeldsneyti er þó endurgreiddur fyrirtækjunum sem innskattur. Erfitt er að fanga öll þau óbeinu áhrif á verðlag sem hækkunin gæti haft í för með sér en lauslegt mat gefur til kynna að þau gætu numið 0,03% til hækkunar 2018 miðað við að hækkuninni verði velt áfram út í verðlag. Samanlögð verðlagsáhrif hækkana krónutölugjalda og kolefnisgjalds eru því áætluð 0,07% eins og sýnt er í meðfylgjandi töflu.
    Verði tillaga frumvarpsins um eins árs framlengingu á bráðabirgðaákvæði sem kveður á um lækkun vörugjalds af fólksbifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum samþykkt má ætla að hún hafi neikvæð áhrif á ríkissjóð sem nemi um 1,5 milljörðum kr.
    Áætlaður kostnaður vegna sérstaks frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega nemur um 1,5 milljörðum kr. á ári.
    Þá mun sú breyting að afnema heimild ríkisstjórnarinnar til að ákveða hvaða aðilar það eru sem njóta áfengiskaupafríðinda hafa minni háttar áhrif á tekjur ríkissjóðs til hækkunar. Ekki er gert ráð fyrir að tillagan leiði til kostnaðar sem einhverju nemur hjá þeim stofnunum sem málið varðar.
    Aðrar breytingar eru taldar hafa óveruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs. Áhrif skattkerfisbreytinga þessa frumvarps á tekjur ríkissjóðs og verðlag á árinu 2018 má sjá í eftirfarandi töflu:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Gert er ráð fyrir því að úrskurðum ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti manna og lögaðila megi skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd. Núgildandi ákvæði kveða á um að úrskurðum ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti megi skjóta til dómstóla að stefndum ríkisskattstjóra vegna ráðherra. Verði frumvarpið að lögum getur skattaðili því nýtt sér kærurétt innan stjórnsýslunnar en eftir sem áður er honum frjálst að skjóta úrskurði ríkisskattstjóra til dómstóla kjósi hann það.

Um 2. gr.

    Ákvæðið gerir ráð fyrir að tekjuskattur af fjármagnstekjum hækki úr 20% í 22% vegna tekna sem falla til frá og með 1. janúar 2018. Gert er ráð fyrir að hækkunin komi til framkvæmda við álagningu á árinu 2019.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að hlutfall óráðstafaðs persónuafsláttar sem ráðstafað er til greiðslu fjármagnstekjuskatts breytist úr 20/37 í 22/37.

Um 4. gr.

    Með ákvæði þessu er lögð til hækkun á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta sem koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018. Gert er ráð fyrir því að viðmiðunarfjárhæðir barnabóta verði hækkaðar um 8,5% auk 7,4% hækkunar á tekjuviðmiðunarmörkum bótanna.

Um 5. gr.

    Hér er lögð til hækkun á fjármagnstekjuskatti aðila með takmarkaða skattskyldu sem nemur tveimur prósentustigum í samræmi við aðrar hækkanir frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Gert er ráð fyrir því að tekjuskattur lögaðila í 3., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna af fengnum arði hækki í samræmi við almenna hækkun skatts á fjármagnstekjur úr 20% í 22%. Á sama hátt er gert ráð fyrir að tekjuskattur af fjármagnstekjum þeirra lögaðila sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt tilteknum ákvæðum 4. gr. hækki úr 20% í 22%.

Um 7. gr.

    Lagt er til að tímamörkum skila á ríki-fyrir-ríki skýrslu sem móðurfélag heildarsamstæðu þarf að skila til ríkisskattstjóra verði breytt. Þannig verður skattaðilum heimilt að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu eigi síðar en 12 mánuðum frá lokum reikningsárs í stað loka hvers almanaksárs að loknu reikningsári.

Um 8. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að tímabundin hækkun á vaxtabótum sem að óbreyttu hefði fallið niður um næstu áramót verði framlengd um eitt ár. Því er ártalinu 2018 bætt við ákvæði til bráðabirgða XLI í lögunum, en það hefur að geyma ákvæði um vaxtabætur á árunum 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017. Gert er ráð fyrir að ákvæðið komi til framkvæmda við ákvörðun á fyrirframgreiðslu vaxtabóta og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018.

Um 9. og 10. gr.

    Í greinunum er lagt til að staðgreiðsla tekjuskatts á fjármagnstekjur hækki úr 20% í 22% vegna tekna sem falla til frá og með 1. janúar 2018. Gert er ráð fyrir að hækkunin komi til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2018.

Um 11.–14. gr.

    Með greinunum er lagt til að fjárhæðir áfengisgjalda og tóbaksgjalda verði hækkaðar. Er um að ræða 2% hækkun gjalda til samræmis við almennar verðlagsbreytingar.
    Þá er í 12. gr. lagt til að felld verði brott heimild ríkisstjórnarinnar til að ákveða hvaða aðilar það eru sem við áfengiskaup geta notið undanþágu frá greiðslu á andvirði áfengisgjalds sem lagt hefur verið á áfengar vörur.

Um 15. gr.

    Lögð er til leiðrétting á tilvísun í lögunum. Í ljós hefur komið að tilvísunin til aðalatvinnu skv. 4. tölul. 2. mgr. er röng og því er lagt til að hún verði leiðrétt með vísan til 1. og 3. tölul. 2. mgr. Í þeim töluliðum er gert að skilyrði lækkunar vörugjalds að annars vegar leigubílstjórar og hins vegar ökukennarar hafi starf sitt að aðalatvinnu.

Um 16. og 17. gr.

    Lagt er til að almennt vörugjald af bensíni hækki um 0,55 kr. á hvern lítra, úr 26,80 kr. í 27,35 kr., og að sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni hækki um 0,85 kr. á hvern lítra, úr 43,25 kr. í 44,10 kr. Einnig er lagt til að sérstakt vörugjald á hvern lítra af öðru bensíni hækki um 0,90 kr., úr 45,85 kr. í 46,75 kr. Hækkunin nemur 2% vegna almennra verðlagsbreytinga í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.

Um 18. gr.

    Í greininni er lagt til að gildistími sem skilgreindur er í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., verði lengdur um eitt ár, þ.e. út árið 2018. Af því leiðir að vörugjald verður lagt á bifreiðar sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum samkvæmt undanþáguflokki 3. gr. laganna (0–30%) árið 2018. Að því ári liðnu mun vörugjald hins vegar verða lagt á slíkar bifreiðar samkvæmt aðalflokki 1. mgr. 3. gr. laganna (0–65%) enda mun gildistími bráðabirgðaákvæðisins þá verða liðinn. Jafnframt er lagt til að lækkun vörugjalds á bifreiðarnar, skv. 2. málsl. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins, geti aldrei numið hærri fjárhæð en 250.000 kr. árið 2018.

Um 19. gr.

    Í greininni er lögð til hækkun á fjárhæð olíugjalds sem greiða skal í ríkissjóð sem vörugjald af gas-, dísil- og steinolíu skv. 1. gr. laga um olíugjald og kílómetragjald. Lagt er til að fjárhæðin verði hækkuð um 2% vegna almennra verðlagsbreytinga í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.

Um 20. gr.

    Hér er gerð tillaga um hækkun á fjárhæðum kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds um 2% vegna almennra verðlagsbreytinga í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.

Um 21. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um hvernig kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald skuli reiknað við áætlun og ákvörðun samkvæmt álestri ef ekki er komið með ökutæki til álestrar innan álestrartímabila.

Um 22. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að bifreiðagjald hækki um 2% vegna almennra verðlagsbreytinga í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.

Um 23. gr.

    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir hækkun gildandi álagningarhlutfalla viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja, vátryggingamiðlara, verðbréfamiðstöðva, kauphalla, Íbúðalánasjóðs og Lánasjóðs sveitarfélaga. Lögð er til lækkun á gildandi álagningarhlutfalli vátryggingafélaga og lífeyrissjóða og að álagningarhlutfall verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana og rekstrarfélaga verðbréfasjóða og fagfjárfestasjóða haldist óbreytt.
    Framangreindar breytingar taka mið af endurmati á skiptingu kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins í samræmi við ákvæði laga nr. 99/1999.

Um 24. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til hækkun á lágmarki fjárhæðar vegna greiðsluskiptingar sem kveðið er á um í 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. Þessi fjárhæð hefur ekki tekið hækkunum á liðnum árum í takt við önnur gjöld og er lagt til að hún hækki úr 300.000 kr. í 500.000 kr.
    Fagfjárfestasjóðir eru ýmist reknir af rekstrarfélögum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða eða starfa sem lögaðilar. Mun færri fagfjárfestasjóðir hafa til þessa verið reknir sem lögaðilar. Umsjón rekstrarfélaga með fagfjárfestasjóðum svipar til umsjónar með öðrum sjóðum sem falla undir umsjón þeirra. Samkvæmt lögunum er ekki gert ráð fyrir að eftirlitsgjaldi á rekstrarfélög sé breytt innan árs vegna nýskráningar/stofnunar eða afskráningar einstakra verðbréfa- og/eða fjárfestingarsjóða í umsjón þessara félaga. Ætla má að slíkt yrði örðugt í framkvæmd vegna tíðra breytinga hvað þetta varðar. Þessu ákvæði er því ætlað að koma á eðlilegu samræmi varðandi framkvæmd álagningar eftirlitsgjalds sem varðar nefnda sjóði.
    Í 4. mgr. 6. gr. er átt við útgefendur fjármálagerninga en ekki afurðina. Það vantar því orðið útgefandi í málsgreinina.

Um 25. gr.

    Lögð er til breyting á því hlutfalli af álagningarstofni skv. 4. gr. laga nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, sem miðað er við þegar gjald sem ætlað er að standa undir kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara er lagt á gjaldskylda aðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Um 26. gr.

    Hér er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, verði hækkað um 2% og nemi 11.175 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018 vegna tekna ársins 2017.

Um 27. og 28. gr.

    Lögð er til framlenging á gildistíma ákvæðis til bráðabirgða VII í lögum um málefni aldraðra þar sem kveðið er á um að Framkvæmdasjóður aldraðra hafi tímabundna heimild til að kosta rekstur hjúkrunarrýma aldraðra. Ástæða þessara ráðstafana er fjárhagsvandi ríkissjóðs og sparnaðarkrafa fjárlagaheimilda.
    Þá er gert ráð fyrir nýju ákvæði til bráðabirgða í lögum um málefni aldraðra. Í ákvæðinu er kveðið á um að á tímabilinu frá 1. janúar 2018 til og með 31. desember 2018 sé unnt að óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin geri samanburð á útreikningi á kostnaðarþátttöku heimilismanna fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 120/2009. Með lögum nr. 166/2006 var dregið úr tengingum við tekjur maka heimilismanna og þær síðar afnumdar með lögum nr. 120/2009. Sýni samanburðurinn aukna kostnaðarþátttöku heimilismanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta dvalarframlag vegna ársins 2018 til samræmis við það. Sú niðurstaða sem er hagstæðari fyrir heimilismanninn verður því ætíð valin við útreikning á kostnaðarþátttöku hans og útreikning dvalarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Hér er um sams konar bráðabirgðaákvæði að ræða og í gildi er vegna ársins 2017. Gildandi ákvæði um heimild til samanburðar á útreikningi á kostnaðarþátttöku heimilismanna samkvæmt eldri og yngri lögum rennur út 31. desember 2017.

Um 29. og 31. gr.

    Lagt er til að ellilífeyrisþegar skuli hafa 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna skv. 23. gr. laga um almannatryggingar. Um er að ræða sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara sem kemur til viðbótar við hið almenna frítekjumark laganna sem nemur 25.000 kr. á mánuði.
    Lagt er til að kveðið verði sérstaklega á um að frítekjumörk vegna tekna ellilífeyrisþega gildi einnig um greiðslu heimilisuppbótar sem greiðist þeim ellilífeyrisþegum sem halda einir heimili. Almenna frítekjumarkið sem lögfest var 1. janúar 2017 hefur gilt um greiðslu heimilisuppbótar og einnig er ætlunin að hið nýja frítekjumark vegna atvinnutekna muni gera það. Því er lagt til að kveðið verði skýrt á um þetta í 2. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð sem fjallar um greiðslu heimilisuppbótar til ellilífeyrisþega.

Um 30. gr.

    Lögð er til framlenging á 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar út árið 2018 en að öðrum kosti hefði það runnið sitt skeið í lok árs 2017. Ákvæðið kveður á um það að þrátt fyrir ákvæði laganna skuli örorkulífeyrisþegi hafa 1.315.200 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
    Samkvæmt ákvæðinu skal við útreikning tekjutryggingar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum á tímabilinu 1. janúar 2018 til og með 31. desember 2018 gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2018 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 31,75% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna fyrir lífeyrisþega skal beitt.

Um 32. gr.

    Vísað er til skýringa við 30. gr. frumvarpsins en í 32. gr. er kveðið á um útreikning heimilisuppbótar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Skal sömu reglu beitt og getið er um í 30. gr. frumvarpsins.

Um 33. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða XI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða verði framlengt um eitt ár og gildi út árið 2018. Það mun hafa þau áhrif að óheimilt verður á árinu 2018 að láta almennar hækkanir sem kunna að verða á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóði.

Um 34. gr.

    Í greininni er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2018 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 37,1 millj. kr. frá fjárlögum fyrir árið 2017. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs hækki um 1,7 millj. kr. á árinu 2018.

Um 35. gr.

    Í greininni er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 920 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 931 kr. fyrir árið 2018. Ákvörðuð hækkun nemur því um 1,2%.

Um 36. gr.

    Lagt er til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar skv. 4. mgr. 14. gr. laga um loftslagsmál verði breytt til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður. Gert er ráð fyrir að breytingin muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Um nánari skýringar vísast til kafla 3.17 í greinargerðinni.

Um 37. gr.

    Lagt er til að sérstakt gjald sem ríkisskattstjóri leggur á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu og rennur til Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 16.800 kr. í 17.100 kr. til samræmis við almennar verðlagsbreytingar.

Um 38. og 39. gr.

    Lagðar eru til breytingar á gjaldskrá fyrir ýmis vottorð og leyfi í tengslum við vegabréf, dvalarleyfi og veitingu ríkisborgararéttar í samræmi við þróun á vísitölu neysluverðs frá árinu 2009 til júlí 2017. Þá eru lagðar til breytingar á orðalagi og brottfall töluliða ásamt leiðréttingum á tilvísunum til samræmis við lög nr. 80/2016, um útlendinga.

Um 40. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt verði framlengdur út árið 2020. Frá og með upphafi árs 2021 munu innflytjendur og kaupendur þeirra bifreiða sem undir ákvæðið falla því ekki njóta sérstakrar ívilnunar þegar að virðisaukaskatti kemur heldur mun þá fara um skattlagningu þeirra eftir öðrum ákvæðum laga um virðisaukaskatt. Skiptir þá engu þótt fjöldatakmörkunum skv. b-lið greinarinnar hafi ekki verið náð.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að settar verði fjöldatakmarkanir á bifreiðar sem notið geti ívilnunar samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu. Í því felst að þrátt fyrir að það sé enn í gildi, t.d. á árinu 2019, getur komið til þess að réttur til virðisaukaskattsívilnunar falli niður hafi tiltekinn fjöldi bifreiða verið skráður á ökutækjaskrá. Með skráningu á ökutækjaskrá er átt við nýskráningu skv. 7. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja. Fjöldatakmörkunin er þríþætt. Í fyrsta lagi getur komið til þess að innflytjendur og kaupendur rafmagnsbifreiða fái ekki notið ívilnunar samkvæmt ákvæðinu, þrátt fyrir að gildistími þess sé ekki liðinn, hafi 10.000 slíkar bifreiðar verið skráðar á ökutækjaskrá. Í öðru lagi getur komið til þess að innflytjendur og kaupendur vetnisbifreiða fái ekki notið ívilnunar samkvæmt ákvæðinu, þrátt fyrir að gildistími þess sé ekki liðinn, hafi 10.000 slíkar bifreiðar verið skráðar á ökutækjaskrá. Í þriðja lagi getur komið til þess að innflytjendur og kaupendur tengiltvinnbifreiða fái ekki notið ívilnunar samkvæmt ákvæðinu, þrátt fyrir að gildistími þess sé ekki liðinn, hafi 10.000 slíkar bifreiðar verið skráðar á ökutækjaskrá. Með þessum fjöldatakmörkunum er annars vegar ætlunin að setja fram framtíðarsýn um á hvaða tímapunkti teljist æskilegt að eigendur framangreindra bifreiða leggi jafnmikið af mörkum til ríkissjóðs í formi virðisaukaskatts og aðrir innflytjendur og kaupendur bifreiða og hins vegar að setja ákveðin öryggismörk með tilliti til tekjuþarfa ríkisins.
    Um frekari skýringar vísast til kafla 3.20 í greinargerðinni.

Um 41. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að þær fjárhæðir kolefnisgjalds sem tilgreindar eru í 2. mgr. 1. gr. laga um umhverfis- og auðlindaskatta verði hækkaðar um helming. Um frekari skýringar vísast til kafla 3.21 í greinargerðinni.

Um 42. gr.

    Lögð er til sú breyting á ákvæði til bráðabirgða í lögum um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl. að framlagningarskylda ráðherra vegna vinnu starfshóps sem móta á tillögur um heimildir tollyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga verði miðuð við vorþing 2019 í stað haustþings 2017.

Um 43. gr.

    Lögð er til framlenging á ákvæði til bráðabirgða IV í lögum um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2018. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að á árinu 2018 leggi ríkissjóður til starfsendurhæfingarsjóða framlag að fjárhæð 691,2 millj. kr.

Um 44. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða III í lögunum verði framlengt um eitt ár. Atvinnurekendur, þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi og lífeyrissjóðir munu því greiða áfram sama hlutfall af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða á árinu 2018 eins og á árunum 2016 og 2017 eða 0,10%.

Um 45. gr.

    Lögð er til framlenging á gildistíma laga um fjarskiptasjóð út árið 2022.

Um 46. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.