Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 52  —  4. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum (faggilding, frestur).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hafstein Pálsson og William Frey Huntington-Williams frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Inspectionem ehf.
    Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um mannvirki, nr. 169/2010, að frestur Mannvirkjastofnunar og byggingarfulltrúa til að afla sér faggildingar í samræmi við ákvæði 19. gr. laganna verði framlengdur. Er þannig brugðist við athugasemdum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags byggingarfulltrúa sem hafa bent á nauðsyn framlengingarinnar í ljósi þess að undirbúningur embætta byggingarfulltrúa til að afla sér faggildingar er skammt á veg kominn og alvarleg staða mundi skapast fyrir byggingariðnað og stjórnsýslu byggingarmála vegna skorts á lögbærum aðilum til að annast verkefni sem krefjast faggildingar, verði fresturinn ekki framlengdur.
    Nefndin leggur áherslu á að um bráðabirgðalausn er að ræða og gengur út frá þeirri forsendu að ekki muni koma til frekari framlenginga en þeirra sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þess í stað verði kappkostað að tryggja grundvöll þeirra breytinga sem felast í faggildingarkröfunum, sbr. 19.–20. gr. laganna, og að undirbúningi að breyttu fyrirkomulagi verði lokið áður en hinir framlengdu frestir renna út.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að málið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 18. desember 2017.

Bergþór Ólason,
form., frsm.
Ari Trausti Guðmundsson. Hanna Katrín Friðriksson.
Helga Vala Helgadóttir. Jón Gunnarsson. Karl Gauti Hjaltason.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Vilhjálmur Árnason.