Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 70  —  28. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks og lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (notendastýrð persónuleg aðstoð).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásmund Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, Ellý Öldu Þorsteinsdóttur, Rún Knútsdóttur, Sturlaug Tómasson og Þór Þórarinsson frá velferðarráðuneytinu, Guðjón Bragason, Sigrúnu Þórarinsdóttur og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Berglindi Magnúsdóttur og Regínu Ásvaldsdóttur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Árna Múla Jónasson og Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Katrínu Oddsdóttur, Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson frá NPA-miðstöðinni.
    Með frumvarpinu er kveðið á um næstu skref í lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) sem hefur verið rekin sem tilraunaverkefninu frá árinu 2012 á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Samhliða frumvarpi þessu eru lögð fram tvö önnur frumvörp, annars vegar frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir (26. mál) og hins vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga (27. mál). Fyrirhugað er að ákvæði þeirra taki gildi 1. júní 2018 og að með þeim verði notendastýrð persónuleg aðstoð lögfest endanlega.
    Samkvæmt samantekt samstarfsverkefnis um NPA frá 23. janúar 2017 er áætlað að á árinu 2018 sé þörf á 136 NPA-samningum. Í 1. gr. frumvarpsins er fjallað um að heimilt sé að gera nýja samninga í samræmi við heimildir í fjárlögum fyrir árið 2018. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir aukningu upp á um 70 millj. kr. frá árinu 2017 í því skyni að unnt verði að fjölga samningum um 25, eða úr 55 samningum í 80 samninga. Ljóst er að sú aukning er einungis 59% af áætlaðri þörf, samkvæmt fyrrnefndri samantekt samstarfsverkefnis um NPA.
    Fram kom á fundum nefndarinnar með hagsmunaaðilum að til að slá á brýnustu þörfina sé nauðsynlegt að fjölga samningum umtalsvert meira en um 25. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir og telur mikilvægt að bregðast við uppsafnaðri þörf síðustu ára. Nefndin telur fjölgun um 25 samninga hvorki til þessa fallna að bregðast við þeirri uppsöfnuðu þörf né gæta jafnræðis. Verði samningum einungis fjölgað um 25 á árinu 2018 er töluverð hætta á að einhverjir einstaklingar fái ekki samninga þrátt fyrir brýna þörf og þá er ljóst að markmiðum um jafnræði verður ekki náð. Þar af leiðandi leggur nefndin sérstaka áherslu á að samningum verði fjölgað og að þeir geti orðið allt að 100 á árinu 2018. Nefndin telur æskilegast að við fjárlagagerð verði tekið mið af þessum sjónarmiðum á árinu 2018 til að mæta uppsafnaðri þörf.
    Þá ræddi nefndin sérstaklega um einstaklinga sem þurfa sólarhringsmeðferð í öndunarvél. Að mati nefndarinnar er þetta gríðarlega viðkvæmur hópur sem þarf sérstaklega að huga að. Þar af leiðandi beinir nefndin því til sveitarfélaganna að setja þennan hóp í algjöran forgang við úthlutun NPA-samninga á árinu 2018.
    Að öllu framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 20. desember 2017.

Halldóra Mogensen,
form.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir.
Andrés Ingi Jónsson. Ásmundur Friðriksson. Guðjón S. Brjánsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.