Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 77  —  3. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

    Vegna þeirra aðstæðna sem sköpuðust vegna stjórnarslita og ótímabærra alþingiskosninga í haust hefur málið verið unnið af nefndinni í gríðarlegum flýti. Það er almennt vandamál á Alþingi að mál fá ekki þann tíma sem þau þurfa, tíðum vegna þess að skortur er á áreiðanlegu skipulagi eða fyrirsjáanlegum forgangi mála og eru fjölmörg pínleg mistök sem finna má í ákvörðunum Alþingis, stórum sem smáum, vitnisburður um þá staðreynd. Undir þeim kringumstæðum sem nú eru eykst þessi vandi svo mikið að ógerningur verður að afgreiða viðamikil mál sem þessi svo sómi sé af. 1. minni hluti hefur fullan skilning á aðstæðunum en það leysir ekki vandamálið sem blasir við. Því leggur hann til að í framtíðinni, þegar kosningar eru boðaðar með skömmum fyrirvara, verði þær tímasettar þannig að nýkjörið þing hafi tíma til þess að sinna málum sómasamlega að loknum stjórnarmyndunarviðræðum, í það minnsta ekki verr en hefð er fyrir. Af þessum ástæðum vill 1. minni hluti taka sérstaklega fram að við afgreiðslu þessa máls er ómögulegt að taka tillit til allra þeirra mikilvægu sjónarmiða sem hafa komið fram, þar á meðal í umsögnum sem sendar voru nefndinni.
    Ekki er dregið úr því að fjármála- og efnahagsráðuneytið og aðrar stofnanir ríkisins hafa einnig þurft að hraða vinnu sinni langt umfram það sem getur talist hóflegt sem enn eykur líkurnar á mistökum. Dæmi má nefna um umræðu sem hefur valdið ýmsu fólki áhyggjum, um að fullyrt sé í fjárlagafrumvarpi að hækka eigi lífeyristökualdur úr 67 árum í 70 ár, þegar ekkert slíkt er að finna í lagatextanum sjálfum hvort heldur sem er í fjárlagafrumvarpinu né þessu máli. Slík mistök eru skiljanleg í ljósi aðstæðna, en þau rata samt í fjölmiðla og valda fólki áhyggjum og sýna fyrst og fremst fram á að málið hefur fengið of lítinn undirbúning, of litla umræðu og of litla skoðun. Að því sögðu fylgir hér stutt umfjöllun um þau helstu atriði sem 1. minni hluti vill koma á framfæri umfram það sem kemur fram í áliti meiri hlutans.

Frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
    Í a-lið 30. gr. frumvarpsins er ákvæði 14. tölul. bráðabirgðaákvæðis í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, framlengt um eitt ár en ákvæðið varðar frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Samkvæmt þessum tölulið skal umrætt frítekjumark vera 1.315.200 kr. þrátt fyrir að ákvæði 2. málsl. b-liðar 2. mgr. 16. gr. laganna kveði á um að markið sé 300.000 kr. Ákvæðið varðar því verulega hagsmuni öryrkja sem þurfa á hverju ári að velkjast í vafa um hvort það verði endurnýjað.
    Ekkert bendir til áhuga af hálfu stjórnvalda á því að afnema þetta bráðabirgðaákvæði, enda er enn beðið eftir endurskoðun laganna sem vænta má að taki m.a. á þessum þætti. 1. minni hluti leggur til að 14. tölul. verði felldur brott úr ákvæðinu og krónutalan í 2. málsl. b-liðar 2. mgr. 16. gr. laganna uppfærð enda telur hann þá leið vænlegri en að hrella öryrkja á hverju ári.

Afnám skerðinga ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna.
    Hinn 25. október 2016 voru samþykktar á Alþingi allmiklar breytingar á ellilífeyrishluta almannatryggingakerfisins. Fyrir þær breytingar höfðu verið misjöfn frítekjumörk á ellilífeyri eftir uppruna tekna, en með lögfestingu þess frumvarps var frítekjumark ellilífeyris almannatrygginga sett 25.000 kr. óháð uppruna tekna. Þar áður hafði frítekjumark ellilífeyris almannatrygginga gagnvart atvinnutekjum verið 109.000 kr. Enn ríkir mikil óánægja vegna þessarar lækkunar á frítekjumarkinu og er auðséð að hún dregur verulega úr hvata þeirra eldri borgara, sem eru á annað borð vinnufærir, til þátttöku í atvinnulífinu.
    Í frumvarpinu er lagt til að frítekjumarkið verði hækkað í 100.000 kr. á mánuði og er það vel. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 kemur fram að sú hækkun muni auka útgjöld ríkissjóðs um 1,1 milljarð kr. á ári. Í svari félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar á á 146. löggjafarþingi (þskj. 361) kemur fram að fullt afnám skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna mundi kosta ríkissjóð 2.448 millj. kr. á ári. Aukning útgjalda ríkissjóðs vegna afnáms þessarar skerðingar miðað við frumvarpið eins og það liggur fyrir væri því ekki nema um 1,4 milljarðar kr. 1. minni hluti telur þann kostnað afar lágan miðað við málaflokkinn og þá búbót sem breytingin færði þeim eldri borgurum sem hafa getu og vilja til atvinnuþátttöku. 1. minni hluti leggur því til að í stað þess að hækka frítekjumarkið úr 25.000 kr. í 100.000 kr. verði skerðingar vegna atvinnutekna einfaldlega afnumdar.
    Aðalástæðan fyrir lækkun frítekjumarksins á sínum tíma var sú að einfalda átti kerfið með því að setja sama frítekjumark fyrir alla tekjuflokka. Hækkun á frítekjumarki á einum tekjuflokki mundi því flækja kerfið örlítið á ný. 1. minni hluti telur afnám skerðingar vegna atvinnutekna ekki haldið þeim sama vankanti og telur það styrkja enn frekar rökin fyrir fullu afnámi skerðingar vegna atvinnutekna.

Fjármagnstekjuskattur.
    Fyrsti minni hluti styður hækkun fjármagnstekjuskatts með eftirfarandi fyrirvara. Umræða nefndarinnar um fjármagnstekjuskatt hefur að mestu varðað vangaveltur um hugsanlegar breytingar sem hvergi eru aðgengilegar né yfirhöfuð fyrirliggjandi sem tillögur en voru hins vegar boðaðar opinberlega á sama tíma og tillaga um hækkun fjármagnstekjuskatts úr 20% í 22% var kynnt. Helsta álitamálið sem rætt var í nefndinni hvað það varðar var hvort skattstofninn ætti að vera nafnávöxtun eða raunávöxtun. Á því er grundvallarmunur. Ógerningur er hins vegar að ákvarða hæfilega skattprósentu án tillits til undirliggjandi kerfisþátta og er því ákvörðun um prósentuhlutfall í rauninni ótímabær þar til fyrirhugaðar kerfisbreytingar liggja fyrir. 1. minni hluti telur því að taka beri skattprósentuna til gagngerrar endurskoðunar fari svo að boðaðar breytingar á skattkerfinu verði lagðar til. Sérstaklega má geta þess að fari svo að raunávöxtun verði skattstofn fjármagnstekjuskatts frekar en nafnávöxtun ber ótvírætt að hækka fjármagnstekjuskattinn, jafnvel umtalsvert, þar sem óvíst er hvort tveggja prósentustiga hækkun samhliða breytingu þar sem raunávöxtun yrði skattstofn í stað nafnávöxtunar geti yfir höfuð talist vera hækkun á skattinum.
    Þótt 1. minni hluti styðji því hækkun fjármagnstekjuskatts úr 20% í 22% vill hann árétta að hann teldi mun heppilegra, bæði fyrir málsmeðferðina sjálfa sem og skattgreiðendur, ef tekist væri á við spurninguna um skattprósentuna og undirliggjandi kerfisþætti á sama tíma þar sem tíðar prósentu- og kerfisbreytingar í skattkerfinu eru atvinnulífinu til trafala óháð því hvort þær teljist góðar eða slæmar af þeim sem að þeim standa.
    Fyrsti minni hluti kallar eftir því að fjármálaráðherra geri grein fyrir tillögum sínum að frekari breytingum á fjármagnstekjuskatti sem fyrst.

Að lokum.
    Fyrsti minni hluti vill þrátt fyrir allt taka undir kafla um frítekjumark vaxtatekna, skattlagningu metanólbifreiða, skattalega hvata í þágu vistvænna almenningssamgangna, Viðlagatryggingu Íslands og kaflann „Annað“ í nefndaráliti meiri hlutans. Að því sögðu hvetur 1. minni hluti til samþykktar breytingartillagna hans sem gerð hefur verið grein fyrir að framan og lagðar verða fram í sérstöku þingskjali. Loks áréttar 1. minni hluti mikilvægi tímans við töku upplýstra ákvarðana almennt.

Alþingi, 20. desember 2017.

Helgi Hrafn Gunnarsson.