Ferill 128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 198  —  128. mál.
Flutningsmenn.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum (umsagnir nánustu fjölskyldu).

Flm.: Vilhjálmur Árnason, Andrés Ingi Jónsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ólafur Ísleifsson, Bergþór Ólason, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Sigurður Páll Jónsson, Jón Steindór Valdimarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Við 4. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal leita umsagnar nánustu fjölskyldu skv. 2. mgr. 11. gr. sé annað foreldri látið eða bæði.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Nú er annað foreldri látið eða bæði og skal þá leita umsagnar nánustu fjölskyldu þess foreldris, enda sé barnið ekki orðið lögráða. Séu báðir foreldrar látnir skal leita umsagnar nánustu fjölskyldna beggja. Með nánustu fjölskyldu er átt við foreldra látna foreldrisins, eldri systkini barnsins, systkini hins látna foreldris og aðra sem geta talist til nánustu ættingja og aðstandenda barnsins.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Umsögn foreldris eða nánustu fjölskyldu.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpið var áður flutt á 146. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt óbreytt. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 7. og 11. gr. laga um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum. Breytingarnar eru tvenns konar. Í fyrsta lagi er lagt til að ef sótt er um ættleiðingu barns sem misst hefur annað foreldri sitt eða bæði, hvort sem um er að ræða frum- eða stjúpættleiðingu, skuli leita umsagnar nánustu fjölskyldu látins foreldris barnsins eða þeirra beggja ef bæði eru látin. Í öðru lagi er lagt til að í þeim tilvikum þar sem barn hefur verið í fóstri hjá umsækjendum og hagir þess mæla eindregið með ættleiðingunni skuli þó leita umsagnar nánustu fjölskyldu ef annað foreldri er látið eða bæði. Markmið frumvarpsins er að tryggja að ekki sé unnt að rjúfa varanleg tengsl barns við fjölskyldu látins foreldris eða foreldra, séu báðir foreldrar látnir, án nokkurrar aðkomu nánustu ættingja þess foreldris eða þeirra foreldra.
    Í umræðu um ættleiðingu barna hafa verið uppi sjónarmið um að hún eigi að vera háð ströngum skilyrðum, enda er ættleiðing í eðli sínu verndarúrræði fyrir barnið. Skv. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, skal börnum tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Með fullgildingu Íslands árið 1992 á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 1989 og síðar lögfestingu samningsins með lögum nr. 19/2013 og aðild Íslands að Haag-samningnum frá 1993, um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa, hefur verið tekin afstaða til þess hvernig þörfum barns verði best þjónað í þessu sambandi. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að barni sé almennt fyrir bestu að alast upp hjá foreldrum sínum eða fjölskyldu. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að reynt sé að tryggja barni fullnægjandi umönnun í heimalandi sínu til að tryggja tengsl barns við uppruna sinn og menningu.
    Talið er að milli 40 og 50 börn undir 18 ára aldri missi foreldra sína árlega hér á landi. Auk foreldramissis bíður þeirra oftar en ekki að tengsl rofni við nánustu fjölskyldu hins látna foreldris og við uppruna sinn.
    Í tölum sem Hagstofa Íslands birtir yfir ættleiðingar kemur fram að ættleiðingar á Íslandi voru alls 1.214 árin 1990–2015. Þar af voru stjúpættleiðingar alls 613, frumættleiðingar Íslendinga alls 170 og frumættleiðingar barna erlendis voru 431. Í meistaraprófsritgerð Helga Bjarts Þorvarðarsonar í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, um lagalega stöðu barna sem misst hafa foreldri sitt eru birtar tölulegar upplýsingar, unnar af Hagstofu Íslands, um það hversu mörg börn yngri en 18 ára, sem höfðu misst foreldri sitt, annað eða bæði, hefðu verið ættleidd frá árinu 2000. Úrvinnsla Hagstofu Íslands leiddi í ljós að á árabilinu 2000–2015 höfðu 15 börn sem misst höfðu móður eða föður verið ættleidd. Af þessum 15 ættleiðingum var í öllum tilfellum einungis annað foreldrið látið. Hjá þessum 15 börnum var um að ræða sex stjúpættleiðingar en um frumættleiðingu var að ræða hjá níu barnanna. Sex af þeim voru úr tveimur frumfjölskyldum, þ.e. tvö systkini eða fleiri voru ættleidd í hvort skiptið. Í heildina er því um að ræða tíu frumfjölskyldur sem þessi 15 börn tilheyra. 1
    Í 7. gr. laga um ættleiðingar er kveðið á um samþykki þess sem fer með forsjá barns eða sérstaks lögráðamanns. Í 4. mgr. 7. gr. er kveðið á um að veita megi leyfi til ættleiðingar, þrátt fyrir að samþykki skv. 1. eða 2. mgr. greinarinnar skorti, ef barn hefur verið í fóstri hjá umsækjendum og hagir þess mæla að öðru leyti eindregið með því að það verði ættleitt. Í athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um ættleiðingar kemur fram að ákvæðið eigi ekki við um stjúpættleiðingar. Á hinn bóginn á ákvæðið við í þeim tilvikum þar sem barn, sem misst hefur foreldri eða jafnvel bæði, er sett í fóstur. Slíkt barn má þannig ættleiða án samþykkis forsjárforeldris. Hvergi er vikið að því að leita skuli samþykkis eða umsagnar nánustu fjölskyldu foreldris eða foreldra í þeim tilvikum.
    Þá er kveðið á um í 11. gr. laga um ættleiðingar að leita skuli umsagnar þess foreldris sem ekki fer með forsjá barns, ef unnt er, áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar. Á þetta bæði við um frum- eða stjúpættleiðingu. Þannig eru engin ákvæði um hvað gera skal ef sótt er um ættleiðingu, frum- eða stjúpættleiðingu barns, sem misst hefur annað foreldri sitt eða jafnvel bæði. Af því leiðir að hægt er að frum- eða stjúpættleiða barn sem orðið hefur fyrir slíkum missi án þess að leitað sé umsagnar nákominna ættingja í fjölskyldu hins látna foreldris.
    Í athugasemdum við 11. gr. frumvarps til laga um ættleiðingar kemur fram að mjög sjaldgæft er að fallist sé á umsókn um ættleiðingu ef foreldri sem ekki hefur forsjá barns lýsir sig mótfallið ættleiðingu, nema í sérstökum undantekningartilvikum. Fram kemur að meta beri hvert einstakt mál en tekið fram að öll lagaleg tengsl milli barnsins og kynforeldris rofna og því þurfi veigamiklar ástæður að liggja til grundvallar slíkri ákvörðun þannig að þau tengsl verði rofin í andstöðu við kynforeldrið. Þá er rakið álit meiri hluta Mannréttindanefndar Evrópu frá 22. október 1997 í málinu Per Söderbeck gegn Svíþjóð þar sem leyfi til stjúpættleiðingar hafði verið samþykkt þrátt fyrir andstöðu kynföður sem hafði verið í litlum tengslum við barnið en hafði þó reynt að koma á umgengni með aðstoð yfirvalda án árangurs. Í álitinu var talið að réttur til friðhelgis fjölskyldu tæki til tengsla foreldris og barns sem og að ekki væri hægt að miða við að ákvæðið tæki aðeins til þess fjölskyldulífs sem þegar hefði komist á heldur lyti að því að vernda það samband sem hugsanlega gæti þróast á milli kynföður og barns sem fætt er utan hjónabands. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að annarri niðurstöðu með dómi frá 28. október 1998 þar sem litið var til markmiðs ættleiðingarinnar sem var að styrkja tengsl stjúpföður og barnsins. Með vísan til þess og forsögu málsins, mats sænskra dómstóla um hvað teldist barninu fyrir bestu og takmarkaðra tengsla barnsins og kynföður var ekki talið að neikvæð áhrif ættleiðingarinnar á samband kynföður og barnsins hefðu verið meiri en þau jákvæðu áhrif sem framangreindu markmiði var ætlað að ná. Því var ekki fallist á að brotið hefði verið á rétti kynföður til fjölskyldulífs með ættleiðingunni.
    Af framangreindu má ráða að í lögum um ættleiðingar hafi ekki verið gert ráð fyrir að afla afstöðu nánustu fjölskyldu þegar óskað væri frum- eða stjúpættleiðingar á barni sem hefði misst annað foreldri sitt eða jafnvel bæði. Hvorki er í 7. né 11. gr. laganna gerð krafa um að leitað skuli umsagnar nánustu fjölskyldu látins foreldris í tilviki frum- eða stjúpættleiðingar eða nánustu fjölskyldna beggja foreldra í tilviki frumættleiðingar þegar báðir foreldrar eru látnir. Að sama skapi er ekki gert ráð fyrir að leita umsagnar nánustu fjölskyldu í þeim tilvikum þegar barn, sem misst hefur foreldri eða jafnvel báða foreldra, hefur verið sett í fóstur og fósturforeldrar sækja síðar um leyfi til ættleiðingar.
    Til að tryggja hagsmuni barnsins og rétt þess til uppruna síns, fjölskyldu og persónueinkenna er í frumvarpi þessu mælt fyrir um aðkomu nánustu fjölskyldu látins foreldris eða foreldra, séu báðir foreldrarnir látnir, áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar. Það er síðan sýslumanns í samræmi við ákvæði 1. gr. laganna að meta heildstætt allar aðstæður, umsagnir og vilja aðila. Til að gæta samræmis er með frumvarpi þessu áréttað að slík umsögn þurfi einnig að liggja fyrir ef barn hefur verið í fóstri hjá umsækjendum og hagir þess mæla að öðru leyti eindregið með því að það verði ættleitt. Verði frumvarpið að lögum telja flutningsmenn að um sé að ræða réttarbót á réttarstöðu barna.

1     Helgi Bjartur Þorvarðarson, Hver á að gæta mín? Lagaleg staða barna sem misst hafa foreldri sitt. Reykjavík, 2017. Tölulegar upplýsingar birtar með góðfúslegu leyfi höfundar.