Ferill 165. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 239  —  165. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum (stytting vinnutíma).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi taka til allra launþega í landinu.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað tölunnar „40“ í 1. mgr. og tvívegis í 3. mgr. kemur: 35.
     b.      Í stað tölunnar „8“ í 2. og 4. mgr. kemur: 7.

3. gr.

    Í stað tölunnar „40“ í 3. gr. laganna kemur: 35.

4. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um 35 stunda vinnuviku.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fyrir á 144. löggjafarþingi (259. mál) og á 145. löggjafarþingi (259. mál). Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu og er því lagt fram á ný óbreytt með ítarlegri greinargerð þar sem athugasemdum í umsögnum og ýmsu því sem gerst hefur í samfélaginu varðandi styttingu vinnutíma eru gerð betri skil.
    Frumvarpið felur í sér þá breytingu að í hverri viku skulu ekki vera fleiri en 35 dagvinnutímar sem vinna beri á dagvinnutímabili á virkum dögum og að jafnaði skuli unnar 7 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags.
    Þrátt fyrir að fjöldi vinnustunda á ári hafi dregist saman á undanförum árum er meðalvinnuvika á Íslandi um 40 stundir. Í skýrslum OECD sem mæla jafnvægi á milli vinnu og frítíma sést að Ísland kemur mjög illa út en þar er landið í 33. sæti af 38 þjóðum þegar kemur að lengd vinnutíma, þar sem hallar verulega á karlmenn. Íslendingar eru í 34. sæti í tíma aflögu til frístunda sem skiptist nokkuð jafnt á milli kynjanna. Í tölum OECD fyrir árið 2016 ( data.oecd.org/emp/hours-worked.htm) um meðalársfjölda vinnustunda er Ísland í 25. sæti með 1.883 vinnustundir á móti 1.363 vinnustundum í Þýskalandi þar sem vinnutíminn mælist stystur og 1.410 í Danmörku sem er með næststystan vinnutíma. Tölurnar eru þó ekki að fullu samanburðarhæfar á milli allra landanna þótt þær séu samanburðarhæfar fyrir sama land á milli ára. Það er hægt að skoða hvernig staða lands breytist með tilliti til hinna landanna og fylgjast með meðalfjölda vinnustunda á milli ára. Í tölunum fyrir Ísland sjást áhrif atvinnuleysisins í hruninu vel og hvernig meðalfjöldi vinnustunda eykst aftur. Það er erfitt að bera saman fjölda vinnustunda milli landa af ýmsum ástæðum en gögnin frá OECD eru þau bestu sem við höfum. Þegar fjöldi vinnustunda og jafnvægi milli vinnu og frítíma á Íslandi er borið saman við ástandið í öðrum löndum sjást greinileg merki um slæma stöðu Íslands.
    Framleiðni á Íslandi er undir meðaltali OECD-landa, þrátt fyrir langan vinnudag og mun verra vinnu- og einkalífshlutfall en þjóðir sem eru með meiri framleiðni en Íslendingar og þrátt fyrir að Ísland er ríkt af auðlindum. Í Frakklandi, þar sem vinnuvikan hefur verið 35 stundir síðan árið 2000, er framleiðni talsvert hærri en á Íslandi og er landið mun ofar í mati á jafnvægi milli vinnu og frítíma. Danmörk, Spánn, Belgía, Holland og Noregur eru efst á þessum lista. Í þessum löndum er vinnutíminn styttri en á Íslandi en framleiðnin meiri og greidd hærri laun nema á Spáni. Ekki er því hægt að útskýra meiri framleiðni né hærri laun með löngum vinnudegi. Þvert á móti bendir margt til þess að styttri vinnudagur leiði til meiri framleiðni og aukinna lífsgæða.
    Umsagnir bárust Alþingi um frumvarpið þegar það var lagt fram á 145. löggjafarþingi. Þrír umsagnaraðilar lögðust gegn samþykkt frumvarpsins, en það voru Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda, aðallega með þeim rökum að Alþingi væri á einhvern hátt að skipta sér af rétti samtaka atvinnurekenda og launþega að semja um kaup sín og kjör. Það sem frumvarpið gerir er bara að skilgreina hversu margir dagvinnutímar skuli teljast á dag og samtals á viku. Atvinnurekendur og launþegar hafa enn fullan rétt til þess að semja um kaup sín og kjör. Því er einnig haldið fram að krafa um styttingu vinnutíma hafi ekki verið áberandi í kröfugerðum stéttarfélaga. ASÍ hefur hins vegar greint frá því, a.m.k. á nefndarfundi fjárlaganefndar, að það samningsatriði sé alltaf það fyrsta sem atvinnurekendur slá út af borðinu. Það sé því tilgangslítið að halda þeirri kröfu til streitu. Þar af leiðandi ætti að vera eðlilegt að málið komi til kasta Alþingis.
    Hlutlausar athugasemdir bárust frá Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi háskólamanna. Þar var talað um tilraunaverkefni sem væru í gangi og nefnd sem ynni að endurskoðun vinnutímaákvæða. Nú hafa verið gefnar út nokkrar skýrslur sem gefa til kynna að tilraunaverkefnin gangi vel og hafi jákvæð áhrif á starfsmenn og vinnustaði. Það dró t.d. úr veikindafjarvistum, viðhorf starfsfólks vegna samræmingar vinnu og einkalífs varð mun jákvæðara og starfsánægja jókst.
    Jákvæðar umsagnir voru mun fleiri. Þeir sem studdu frumvarpið voru umboðsmaður barna, Öryrkjabandalag Íslands, Samtök psoriasis- og exemsjúklinga, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Jafnréttisstofa, Félag foreldra leikskólabarna í Reykjavík og Barnaheill.
    Frumvarp þetta felur í sér að almennur vinnutími er styttur um klukkutíma á dag, eða úr átta klukkutímum í sjö. Markmið breytingarinnar er ekki að kjör skerðist við styttingu vinnudags og ekki er gert ráð fyrir því að vinnudagur styttist sjálfkrafa við þessa breytingu. Samkomulag um lengd vinnutíma er á milli atvinnurekenda og launþega. Það eina sem þessi lög gera er að skilgreina fjölda dagvinnustunda. Að öllu öðru óbreyttu ætti starfsmaður sem vinnur áfram átta tíma á dag því að hækka í launum um sem nemur um það bil korters vinnu.
    Lög um 40 stunda vinnuviku voru sett árið 1971 en það var fyrst árið 2012 sem meðalvinnuvikan varð 40 stundir. Breytingin árið 1971 skilaði t.d. jákvæðum hagtölum, tekjur á mann jukust um 4–5% á ári að jafnaði (að undanskildu einu ári), framleiðni á hverja vinnustund jókst um 20% á tímabilinu og árlegum vinnustundum fækkaði á tímabilinu um 5% ( www.conference-board.org/data/economydatabase/index.cfm?id=27762).
    Markmið lagabreytingar þessarar er að auka markvisst framleiðni og lífsgæði launþega á Íslandi með styttingu vinnuvikunnar, en líkt og skýrslur OECD hafa sýnt fram á haldast ekki endilega í hendur lengri vinnutími og meiri framleiðni.