Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 326  —  156. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um lúðuveiðar.


     1.      Hefur stofnstærð hvítlúðu verið rannsökuð frá því að lúðuveiðar voru bannaðar?
    Lúðan er botnfiskur á sand-, leir- eða malarbotni og jafnvel hraunbotni. Einnig finnst hún allmikið upp um allan sjó. Hún lifir á 20–2.000 m dýpi við 2,5–9°C. Smálúðan elst upp á grunnunum til 3–5 ára aldurs en heldur þá út á djúpið. Á vorin og sumrin gengur stór lúða upp á grunnmið en dregur sig út á djúpið þegar haustar og kólnar.
    Stofnmæling botnfiska (SMB) fer að mestu fram innan 250 m dýpis, en á þessari slóð heldur unglúðan sig, það er einkum þriggja til sex ára lúða sem veiðist í SMB. Í upphafi SMB voru vísitölur lúðu háar, en fóru síðan lækkandi með hverju ári allt til ársins 1992. Minnkandi lúðugengd á grunnslóð kom fyrr fram í SMB en í aflatölum fiskiskipa. Eftir árið 1992 hafa vísitölur lúðu verið lágar og voru í sögulegu lágmarki árin 2010–2014 (Mynd 1). Vísitölur lúðu jukust milli 2014 og 2015 og hafa undanfarin þrjú ár verið á svipuðu róli og á árunum 2002–2007. Má leiða líkur að því að þetta sé árangur af löndunarbanni á lúðu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1. Lífmassavísitala lúðu í stofnmælingu botnfiska 1985–2017.


    Aldursgreindar vísitölur sýna að árgangar 1980–1985 voru stórir í samanburði við aðra árganga sem hægt hefur verið að fylgjast með í SMB. Eftir það varð viðkomubrestur í stofninum og allir árgangar litlir, að undanskildum árganginum frá 1990 (Mynd 2). Allir árgangar eftir 1990 hafa verið langt innan við helmingur af meðalstærð árganga fyrir þann tíma. Árgangur 2011 mældist í SMB 2015 þó einn stærsti árgangurinn síðan 1990.
    Sá hluti lúðustofnsins sem heldur sig uppi á landgrunninu er þannig rannsakaður á hverju ári, en þetta er fyrst og fremst ungur og ókynþroska fiskur. Lúður verða kynþroska seint eða 9–10 ára gamlar, og því verða áhrif veiðibannsins lengi að koma fram.

Mynd 2. Stærð árganga lúðu (í fjölda) 1981–2012 samkvæmt stofnmælingu botnfiska.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í lok árs 2013 óskaði ráðuneytið eftir því að Hafrannsóknastofnun tæki saman greinargerð um hvaða áhrif bann við veiðum á lúðu hafði haft á stofninn. Í þeirri skýrslu, sem kom út í apríl árið 2014, kom fram að á þeim tíma var árangur af friðun lúðu fyrst og fremst sá að landaður afli hafði dregist verulega saman. Ekki var hægt að leggja mat á árangur af friðun lúðustofnsins gagnvart nýliðun á þeim tíma. Ástæðan var sú að einungis tvær mælingar höfðu farið fram frá því að veiðibannið gekk í gildi og fór fyrri mælingin fram einungis þremur mánuðum eftir að bannið var sett á. Uppbygging lúðustofnsins er langtímaverkefni og ólíklegt að umtalsverður og mælanlegur bati náist þar fyrr en eftir 5–10 ár, m.a. vegna hægs vaxtar lúðunnar og þess hversu seint hún verður kynþroska. Þá ítrekaði Hafrannsóknastofnun að áfram yrði haldið uppi aðgerðum til verndunar lúðustofnsins og að ofangreind reglugerð yrði í gildi þar til merki um verulegan bata í lúðustofninum við Ísland kæmu fram.

     2.      Hver er ástæða þess að ekki er leyfð löndun á hvítlúðu sem veiðst hefur sem meðafli við krókaveiðar?
    Frá árinu 1997 hefur Hafrannsóknastofnun lagt til að bein sókn í lúðu verði óheimil. Hafrannsóknastofnun hefur bent á að viðkomubrestur hafi orðið í lúðustofninum og að lítil nýliðun sé í stofninum. Á árinu 2008 jókst bein sókn með haukalóðum verulega og árið 2010 voru 46% lúðuaflans veidd með haukalóðum. Í júní árið 2010 setti ráðherra á laggirnar starfshóp sem fjalla átti um stöðu lúðustofnsins. Í niðurstöðum starfshópsins kom fram að erfitt væri að eiga við lúðuveiðar þar sem ákveðinn hluti landaðs afla væri meðafli þar sem lágt hlutfall landaðs afla væri lúða og því hefðu lokanir á ákveðnum svæðum takmörkuð áhrif til verndunar lúðustofnsins en merkjanleg áhrif á aðrar veiðar. Einnig komu fram hugmyndir um að lúðu yrði sleppt, en slíkt getur verið erfitt í framkvæmd hvað varðar eftirlit og einnig hæpið að stærri fiskur myndi lifa af slíka meðferð. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að vernda lúðustofninn væri að banna beina sókn í lúðu með haukalóðum þar sem sýnt þótti að það væri helst stórlúða úr hrygningarstofni sem veiddist með haukalóðum. Í kjölfarið var sett reglugerð nr. 477/2011, um bann við notkun haukalóða.
    Í júlí árið 2011 óskaði ráðherra eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar um næstu skref í friðun á lúðu. Eftir umfangsmikla skoðun stofnunarinnar á málefninu var einkum tvennt sem talið var koma til greina í þessu sambandi. Í fyrsta lagi lokun veiðisvæða þar sem unglúða heldur sig fyrir öllum veiðum og í öðru lagi sleppingar á allri lífvænlegri lúðu sem veiðist sem meðafli. Skoðun leiddi í ljós að erfitt yrði að draga frekar úr lúðuveiðum, þannig að ætla mætti að það hefði áhrif á þróun stofnstærðar, nema með því að loka stórum veiðisvæðum fyrir öllum veiðum með botnvörpu, línu og dragnót. Hvað sleppingar áhrærir, þá hafa Kanadamenn og Bandaríkjamenn gert margar athuganir á því hvernig lúðunni reiðir af eftir slíkar sleppingar. Niðurstöður þeirra voru þær að hlutfall þeirra sem lifa af væri hátt, sérstaklega af línu, en þetta hlutfall lækkaði hratt eftir því hve lengi fiskurinn væri í meðhöndlun. Stofnunin kallaði til samráðs reynda skipstjórnarmenn til að fá umræðu um mismunandi leiðir til frekari verndunar lúðustofnsins. Fundað var með skipstjórnarmönnum dragnótarbáta, smábáta, stórra línubáta og togara. Heildarniðurstöður eftir fundi með þessum hópum var að þeir töldu svæðalokanir slæman kost þar sem sú aðgerð myndi þýða umtalsverðar hömlur á veiðum annarra tegunda. Sleppingar á lífvænlegri lúðu þóttu skárri kostur, þó að á honum væru ýmsir gallar, t.d. hvað varðaði botnvörpuveiðar.
    Hafrannsóknastofnun mælti þess vegna með því við ráðherra að við línuveiðar skyldi lúðu sleppt með því að skera á línu áður en lúða kæmi um borð. Í reglugerð nr. 470/2012, um veiðar á lúðu, kemur því fram að við línuveiðar skuli sleppa allri lúðu með því að skera á taum línunnar. Við handfæra- og sjóstangaveiðar skal losa lúðuna varfærnislega af krókum eða skera á lykkju slóðans áður en lúða kemur um borð.
    Reglugerðin mælir ekki fyrir um viðurlög nema í þeim tilfellum þar sem um beinar lúðuveiðar er að ræða, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar, þar sem segir: „Með mál sem kunna að rísa út af brotum á ákvæðum reglugerðar þessarar skal farið að hætti sakamála. Brot varða viðurlögum samkvæmt 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum.“ Þar sem ákvæðið mælir fyrir um að farið skuli með brot gegn reglugerðinni að hætti sakamála verður að sanna ásetning til lúðuveiða, en slíkt er ekki ef um óverulegar meðaflaveiðar er að ræða.
    Ef svo vill til að lúðu er landað þrátt fyrir framangeind fyrirmæli, er kveðið á um í 4. gr. reglugerðarinnar að lúðuafli skuli seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir. Lúðuafli sætir álagningu gjalds samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Það skal nema andvirði gjaldskylds afla. Forráðamenn uppboðsmarkaðar þar sem afli er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 20% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar.
    Af framangreindu er ljóst að valin var sú leið sem Hafrannsóknastofnun mælti með við ráðuneytið til að reyna að ná sem mestum árangri í friðun á lúðu og reyna að koma stofninum upp aftur. Líkt og að framan greinir hafa rannsóknir sýnt að hlutfall þeirrar lúðu sé hátt sem lifir af við að veiðast en er sleppt aftur. Sérstaklega á það við um línu- og krókaveiðar.