Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 409 — 307. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um skipun starfshóps til að endurmeta kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum.
Flm.: Una Hildardóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Willum Þór Þórsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson.
Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa þverfaglegan starfshóp sem endurmeti kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum og geri eftir atvikum tillögur um breyttar áherslur og fyrirkomulag þessa þáttar skólastarfs. Starfshópurinn leggi niðurstöður sínar fyrir ráðherra í síðasta lagi 1. nóvember 2018 og skal ráðherra kynna þær fyrir Alþingi.
Greinargerð.
Efla þarf kynfræðslu á öllum skólastigum og gera henni góð skil í námskrám með jafna áherslu á félagslega, tilfinningalega og líkamlega þætti. Samræma þarf kennsluna svo að allir nemendur fái svipaða fræðslu. Mikilvægt er að nýta sérsvið ólíkra fagstétta og efla samstarf heilsugæslu, skóla, skólahjúkrunarfræðinga og frístundasviða. Mikilvægt er að fræðslan sé samfelld og taki mið af þörfum og þroska barna og ungmenna á ólíkum aldri.
Mikilvægt er að þverfaglegur starfshópur auki hlut kynfræðslu í námskrá grunn- og framhaldsskóla, en samkvæmt aðalnámskrá er kynfræðsla að mestu leyti miðuð út frá líffræðilegum þáttum eins og kynþroska, kynsjúkdómum og getnaðarvörnum. Taka þarf mið af samskiptum, tilfinningum, mörkum, sjálfsmynd, kynverund, kynhneigð og ofbeldi.