Ferill 10. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 502  —  10. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (kynferðisbrot).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði J. Friðjónsdóttur frá ríkissaksóknara, Ragnheiði Bragadóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Kolbrúnu Benediktsdóttur frá héraðssaksóknara, Páleyju Borgþórsdóttur frá Lögreglustjórafélagi Íslands, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur og Fríðu Rós Valdimarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Elvu Dögg Ásu- og Kristinsdóttur frá Samtökum um kvennaathvarf, Hrönn Stefánsdóttur frá Landspítalanum – neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis, Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti og Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, formann refsiréttarnefndar.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Barnaheillum, héraðssaksóknara, Kvenréttindafélagi Íslands, Lögreglustjórafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ragnheiði Bragadóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, refsiréttarnefnd, ríkissaksóknara og Samtökum um kvennaathvarf.
    Með frumvarpinu er lagt til að 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga verði breytt á þann veg að samþykki verði í forgrunni skilgreiningar á nauðgun. Þannig verði horfið frá megináherslu á verknaðaraðferð við nauðgun. Þess í stað verði aukin áhersla lögð á kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt einstaklings með því að skilgreina nauðgun út frá því hvort samþykki hafi verið fyrir hendi eða ekki. Lagt er til að gerð verði krafa um að samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum hafi legið fyrir þannig að samræði og önnur kynferðismök án samþykkis varði refsingu. Samþykki þarf að hafa verið tjáð af frjálsum vilja og eru sérstaklega nefndar tilteknar aðstæður þar sem samþykki telst ekki vera fyrir hendi.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um hvort sú nálgun sem lögð er til í frumvarpinu, þ.e. að byggja á skorti á samþykki í stað verknaðarlýsingar þegar kemur að skilgreiningu á nauðgun, sé rétt. Sú nálgun feli í sér að lögð sé meiri áhersla á háttsemi brotaþola, þ.e. hvað brotaþoli gerði eða gerði ekki, í stað þess að leggja áherslu á háttsemi sakbornings. Sömuleiðis komu fram sjónarmið um hið gagnstæða. Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að frumvarpið eigi ekki að leiða til þess að aukin áhersla verði lögð á að rannsaka háttsemi brotaþola umfram það sem nú er. Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið um að frumvarpið fæli í raun ekki í sér mikla breytingu en að í því fælist skýr stefnumörkun og breytt áhersla af hálfu löggjafans sem væri mikilvæg breyting. Þá var talið að verði frumvarpið að lögum muni sakfellingum ekki endilega fjölga. Slík skilgreining á samþykki fæli aftur á móti í sér aukna viðurkenningu á mikilvægi kynfrelsis og gæti, samhliða aukinni fræðslu, orðið til þess að ekki síst ungt fólk yrði meðvitað um mikilvægi þess að samþykki þyrfti að liggja fyrir. Slík skilgreining gæti því falið í sér aukið forvarnagildi og þar með fækkað brotum. Nefndin áréttar að markmið frumvarpsins er að við skilgreiningu á nauðgun verði samþykki í forgrunni og til að gæta samræmis við áskilnað 69. gr. stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda er nánar skilgreint að þegar ákveðnum verknaðaraðferðum hafi verið beitt teljist samþykki ekki vera fyrir hendi. Nefndin tekur fram að með frumvarpinu er ekki ætlunin að breyta sönnunarkröfum, enda hefur samþykki í reynd verið undirliggjandi skilgreiningaratriði nauðgunar allt frá því að ákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga var breytt með lögum nr. 61/2007. Nefndin bendir loks á mikilvægi þess að efla enn frekar fræðslu og upplýsingar um að kynferðislegt samneyti fólks eigi ávallt að grundvallast á gagnkvæmu samþykki þeirra sem taka þátt.
    Við meðferð málsins í nefndinni komu fram ábendingar um að ef markmiðið með frumvarpinu væri að leggja til að samræði eða önnur kynferðismök gætu varðað refsingu ef skýrt samþykki til þátttöku í kynferðislegri athöfn lægi ekki fyrir væri eðlilegra að flytja verknaðarlýsingu 1. gr. frumvarpsins um að beita blekkingu eða að notfæra sér villu viðkomandi undir 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Með lögum nr. 61/2007, um breytingu á almennum hegningarlögum, var 199. gr. almennra hegningarlaga, sem náði til slíkrar háttsemi, felld brott en svo virðist sem ætlunin hafi verið að slík háttsemi félli þar með undir 2. mgr. 194. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar nr. 620/2009 var því hafnað að slík brotalýsing varðaði við 2. mgr. 194. gr. laganna en hins vegar talið að háttsemin fæli í sér brot gegn blygðunarsemi, sbr. 209. gr. laganna. Þannig hefur ákvæði um blekkingu og villu verið talið sjálfstætt ákvæði og ekki skilgreint sem nauðgun auk þess sem brot gegn ákvæðinu varðaði lægri refsingu. Til að bregðast við framangreindum dómi Hæstaréttar og jafnframt til að gæta samræmis í uppbyggingu ákvæðis 194. gr. laganna sem og að ná því markmiði laga nr. 61/2007 sem að var stefnt leggur nefndin til að verknaðarlýsing um blekkingu og villu falli brott í 1. gr. frumvarpsins en bætist við ákvæði 2. mgr. 194. gr. laganna.
    Til viðbótar framangreindum breytingartillögum leggur nefndin til minni háttar orðalagsbreytingar, m.a. til að gæta samræmis við orðalag annarra ákvæða í almennum hegningarlögum.
    Frumvarpið hefur ekki í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.
    Andrés Ingi Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Guðmundur Ingi Kristinsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 1. gr.
     a.      3. efnismálsl. orðist svo: Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung.
     b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Á eftir orðunum „mælt er fyrir um í 1. mgr.“ í 2. mgr. 194. gr. laganna kemur: að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða.

Alþingi, 8. mars 2018.

Páll Magnússon,
form.
Jón Steindór Valdimarsson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.