Ferill 474. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 682  —  474. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skattleysi launatekna undir 300.000 kr.


Flm.: Ólafur Ísleifsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Inga Sæland, Karl Gauti Hjaltason.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp fyrir lok árs 2018 um að mánaðartekjur einstaklinga undir 300.000 kr. verði undanþegnar tekjuskatti með það að markmiði að rétta hlut þeirra sem lægstar hafa tekjurnar og gera þeim betur kleift að ná endum saman.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillagan felur í sér að fjármála- og efnahagsráðherra geri tímasetta áætlun um að gera tekjur einstaklinga undir 300.000 kr. undanþegnar tekjuskatti og að lagt verði fram frumvarp þess efnis eigi síðar en fyrir lok árs 2018. Eðlilegt er að fyrsta skref í átt að þessu markmiði felist í tilfærslu fjár innan tekjuskattskerfisins með því að persónuafsláttur verði stiglækkandi eftir því sem tekjur eru hærri og falli niður við tekjumark eigi hærra en 1.500 þús. kr. á mánuði. Sparnaðurinn sem með þessu myndast innan tekjuskattskerfisins verði nýttur til að hækka persónuafslátt lægstu tekjuhópa.
    Samkvæmt gildandi skattalögum er persónuafsláttur 53.895 kr. á mánuði árið 2018. Þetta þýðir að skattleysismörk á mánuði eru 151.978 kr. miðað við launþega með 4% lífeyrissparnað.
    Í skýrslu ASÍ, Skattbyrði launafólks 1998–2016, sem út kom í ágúst 2017 kemur fram að enda þótt persónuafsláttur hafi hækkað samfellt frá aldamótum og meira en tvöfaldast að krónutölu hefur raunþróun verið öllu sveiflukenndari. Að raunvirði dróst persónuafsláttur saman á árunum 1998 2016. Skattleysismörkin hafa því lækkað að raungildi með árunum miðað við verðlag og væru miklu hærri ef persónuafsláttur hefði fylgt launum.
    Fram kemur í skýrslu ASÍ að skattbyrðin hafi aukist hjá öllum tekjuhópum á tímabilinu 1998 2016 en umtalsvert meira á lægri tekjur en þær hærri. Skattbyrði lágmarkslauna hefur á þessum mælikvarða aukist úr 4% árið 1998 í 16% árið 2016 eða um 14 prósentustig. Skattbyrði á laun við neðri fjórðungsmörk hefur á sama tíma aukist um 6 prósentustig en minnst er aukningin við efri fjórðungsmörk launa eða um 3 prósentustig.
    Niðurstöður rannsóknar hagdeildar ASÍ eru á sömu lund, þ.e. að heildarskattbyrði launafólks að teknu tilliti til tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar auk barna- og vaxtabóta hafi aukist í öllum tekjuhópum á tímabilinu og að aukningin sé langmest hjá hinum tekjulægstu. Skattbyrði para á lágmarkslaunum með tvö börn og lágmarks upphæð eigin fjár í húsnæði (20%) hefur í heild aukist um 21 prósentustig á umræddu tímabili. Skattbyrði hjá pörum í sömu stöðu með laun við neðri fjórðungsmörk hefur aukist um 14 prósentustig en við miðgildi launa er aukningin 9 prósentustig og við efri fjórðungsmörk 5 prósentustig. Skattbyrði einstæðra foreldra í sömu stöðu hefur aukist enn meira á tímabilinu og mest hjá hinum tekjulægstu. Ályktun ASÍ er að munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og hinna tekjuhærri hafi því minnkað og dregið hafi úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning undafarinna ára hafi þannig skilað sér síður til launafólks með lægri tekjur en hinna tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði.
    ASÍ lýsir því áliti í skýrslu sinni að þessa þróun megi einkum rekja til ýmissa þátta, þar á meðal að persónuafsláttur hafi ekki fylgt launaþróun, sem hafi aukið skattbyrði lægri launa mest. Samkvæmt lögum eiga fjárhæðarmörk skattþrepa að fylgja launaþróun en skattleysismörk, sem ákvarðast af upphæð persónuafsláttar, að fylgja verðlagi. Þetta misræmi veldur auknum ójöfnuði í ráðstöfunartekjum þegar frá líður.
    Niðurstaða ASÍ er að stuðningur vaxtabótakerfisins hafi minnkað verulega á tímabilinu og að fækkað hafi í þeim hópi sem fær greiddar vaxtabætur. Íslenska barnabótakerfið sé veikt og dragi eingöngu úr skattbyrði einstæðra foreldra og allra tekjulægstu para. Húsaleigubótakerfið hafi þróast með sama hætti og önnur tilfærslukerfi og hafi því dregið úr stuðningi við launafólk á leigumarkaði.
    Í skýrslu ASÍ eru reiknuð ýmis dæmi um þróun skattbyrði á tímabilinu 1998 2016. Tvö slík dæmi skulu tilfærð hér: Fram kemur að þegar borin eru saman umrædd tvö ár, 1998 og 2016, sést að heildarskattbyrði para með tvö börn og 20% eigið fé í húsnæði hefur aukist um 14 prósentustig. Það þýðir að ráðstöfunartekjur fjölskyldna með tekjur við neðri fjórðungsmörk eru nú ríflega 130.000 kr. lægri á mánuði en þær væru ef skattbyrði væri hin sama og árið 1998. Þegar borin eru saman umrædd tvö ár, 1998 og 2016, sést að heildarskattbyrði einstæðra foreldra með tvö börn, 20% eigið fé í húsnæði og tekjur við neðri fjórðungsmörk hefur aukist um 28 prósentustig. Það þýðir að ráðstöfunartekjur einstæðra foreldra með tvö börn og 20% eigið fé í húsnæði með tekjur við neðri fjórðungsmörk eru um 135.000 kr. lægri á mánuði en þær væru ef skattbyrði væri hin sama og árið 1998. Gefur auga leið að þessi þynging á skattbyrði kemur illa niður á fólki í þessum tekjuflokki.
    Á vefsíðu velferðarráðuneytisins kemur fram að framfærsluviðmið einstaklings á mánuði nemi 222.764 kr. og sé þá ekki tekið tillit til húsnæðiskostnaðar. Fram kemur á vef ráðuneytisins að dæmigert viðmið eigi að endurspegla og gefa sem heildstæðasta mynd af útgjöldum íslenskra heimila. Fyrir flesta útgjaldaflokka er dæmigert viðmið reiknað þannig að fyrst eru lægstu og hæstu útgjaldafjórðungarnir, miðað við heildarútgjöld, teknir út og síðan miðgildi útgjalda fyrir hvern útgjaldaflokk reiknað. Þessu til viðbótar er kostnaður vegna rekstrar bifreiða og skólatengdur kostnaður barna reiknaður sérstaklega. Segir á vefsíðu ráðuneytisins að hér sé því hvorki um lágmarks- né lúxusviðmið að ræða.
    Neysluviðmið velferðarráðuneytis eru reist á skýrslu sérfræðingahóps frá árinu 2011 um neysluviðmið fyrir heimili á Íslandi. Gildandi neysluviðmið hafa verið uppfærð á grunni rannsóknar Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna. Fram kemur á vefsíðu velferðarráðuneytis að beitt var svonefndri útgjaldaaðferð þar sem byggt er á upplýsingum um raunveruleg útgjöld íslenskra fjölskyldna. Útgjöldin eru nú sundurliðuð í 12 útgjaldaflokka, í stað 15 útgjaldaflokka áður. Í hverjum útgjaldaflokki er tekið miðgildi útgjalda sem felur í sér að helmingur heimila er með jafnhá eða lægri útgjöld í viðkomandi útgjaldaflokki. Flokkarnir eru þessir: 1) matur, drykkjarvörur og aðrar dagvörur til heimilishalds; 2) föt og skór; 3) heimilisbúnaður; 4) raftæki og viðhald raftækja; 5) lyf, lækningavörur og heilbrigðisþjónusta; 6) sími og fjarskipti; 7) menntun og dagvistun; 8) veitingar; 9) önnur þjónusta fyrir heimili; 10) tómstundir og afþreying; 11) ökutæki og almenningssamgöngur; 12) annar ferðakostnaður. Liðirnir húsaleiga/reiknuð húsaleiga, viðhaldskostnaður húsnæðis og rafmagn og hiti eru ekki hluti af íslensku neysluviðmiði eftir uppfærslu þess í maí 2012.
    Áhersla var lögð á að viðmiðin gæfu sem heildstæðasta mynd af útgjöldum fjölskyldna. Hjá nágrannaþjóðum okkar er algengt að húsnæðisútgjöld séu undanskilin við gerð neysluviðmiða með þeim rökum að sá kostnaður sé of breytilegur til þess að setja megi raunhæf viðmið og á hið sama við hér á landi. Þar sem neysluviðmiðin byggjast á ráðstöfunartekjum, koma greiðslur beinna skatta og opinberra gjalda ekki inn í útreikning neysluviðmiða.
    Hið dæmigerða viðmið sem hér er stuðst við á að endurspegla og gefa sem heildstæðasta mynd af útgjöldum íslenskra heimila. Hér er því hvorki um lágmarks- né lúxusviðmið að ræða. Dæmigert viðmið fyrir útgjöld einstaklings með engin börn sem býr á höfuðborgarsvæðinu er 222.764 kr. Dæmigert viðmið fyrir útgjöld hjóna með tvö börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu með annað barnið á leikskóla, en hitt í grunnskóla þar sem keyptar eru skólamáltíðir og frístundavistun, er 494.821 kr. Nokkur lækkun útgjalda er frá síðustu útgáfu neysluviðmiða, en hún er mismunandi eftir heimilisgerðum og útgjaldaflokkum.
    Lágmarksframfærsla samkvæmt þessu verður naumast metin undir 300.000 kr. og má telja þá fjárhæð síst ofáætlaða miðað við þróun húsnæðiskostnaðar á umliðnum misserum og árum. Þetta þýðir að samkvæmt gildandi ákvæðum laga um tekjuskatt eru skattlagðar tekjur sem ekki hrökkva fyrir lágmarksframfærslu. Á mæltu máli má segja að hér sé verið að skattleggja fátækt. Ekkert ríki sem vill kenna sig við velferð getur verið staðið að slíkri skattlagningu. Þessi þingsályktunartillaga er því lögð fram með það að markmiði að fólki verði gert kleift að komast betur af og að enginn þurfi að sjá dreginn skatt af tekjum sem duga ekki fyrir nauðþurftum.