Ferill 390. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 894  —  390. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum (EES-reglur, nethlutleysi, CE-merkingar á fjarskiptabúnaði).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurjón Ingvason, Guðbjörgu Sigurðardóttur og Ottó V. Winther frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Unni Elfu Hallsteinsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum iðnaðarins og Hrafnkel V. Gíslason, Björn Geirsson og Unni Kristínu Sveinbjarnardóttur frá Póst- og fjarskiptastofnun.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Persónuvernd, Póst- og fjarskiptastofnun, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins. Þá bárust nefndinni minnisblöð frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, vegna innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2015/2120/EB að því er varðar nethlutleysi (TSM-reglugerð) og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/53/ESB um þráðlausan fjarskiptabúnað (RED-tilskipun). Í frumvarpinu er m.a. að finna reglur um nethlutleysi sem er nýmæli í íslenskum rétti.
    Fram kom að með 2. gr. frumvarpsins væri gengið lengra en nauðsyn bæri til samkvæmt reglugerð ESB um nethlutleysi (TSM-reglugerðinni). Samkvæmt greininni skal í samtengisamningi og samningi um aðgang að netum geta um þá stýringu fjarskiptaumferðar sem aðilar áskilja sér rétt til að viðhafa í almennum fjarskiptanetum og skal stýringin uppfylla skilyrði um nauðsyn og meðalhóf. Þá skal senda slíka samninga um samtengingu og aðgang til Póst- og fjarskiptastofnunar eigi síðar en viku eftir undirritun þeirra. Nefndin áréttar að með frumvarpinu er stuðlað að aukinni neytendavernd en hún felst m.a. í því að gerðar eru mun meiri kröfur til fjarskiptafyrirtækja um að upplýsa viðskiptavini sína um þær ráðstafanir sem gerðar eru varðandi flæði fjarskiptaumferðar og geta takmarkað gagnaflutningshraða. Ákvæði 2. gr. er ætlað að tryggja að þjónustuveitandi geti veitt fullnægjandi upplýsingar til neytenda um umferðarstýringar á netinu. Þeir þjónustuveitendur sem kaupa aðgang að netum annarra fjarskiptafyrirtækja verða að fá upplýsingar frá þeim fyrirtækjum til að geta miðlað þeim áfram til neytenda. Nefndin áréttar að þessi útfærsla er nauðsynleg til að tryggja réttindi neytenda og ná þeim markmiðum sem stefnt er að, sbr. 4. gr. TSM-reglugerðarinnar. Nefndin bendir á að það er ekki nýmæli að senda skuli samtengisamninga til Póst- og fjarskiptastofnunar. Slíkt ákvæði hefur verið lengi í lögum um fjarskipti, sbr. 6. mgr. 24. gr. laganna. Eina breytingin með þessu ákvæði er að geta skal um umferðarstýringar í samningum.
    Nokkrir umsagnaraðilar gagnrýndu að með b-lið 3. gr. frumvarpsins væru einungis meginreglur 3. gr. TSM-reglugerðarinnar innleiddar en ekki tekinn upp allur texti ákvæðisins. Sama gagnrýni var viðhöfð um 7. gr. frumvarpsins um markaðseftirlit með þráðlausum búnaði en þar var bent á að ákvæði RED-tilskipunarinnar sem 7. gr. byggist á væru mun ítarlegri. Nefndin áréttar að hér er um eina tegund innleiðingaraðferðar að ræða. Reglugerðina ber að innleiða að fullu samkvæmt þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist með EES-samningnum og verða ítarlegri ákvæði TSM-reglugerðarinnar innleidd með reglugerð ráðherra. Með sama hætti verða nánari ákvæði um markaðseftirlit skilgreind í reglugerð. Brýnt er að sú reglugerð verði sett sem allra fyrst.
    Fram kom að með 6. gr. frumvarpsins, þar sem m.a. er gerð krafa um að framleiðandi þráðlauss fjarskiptabúnaðar sem settur er á markað hér á landi tryggi að honum fylgi upplýsingar fyrir notendur á íslensku, væri gengið lengra en þörf væri á skv. 10. gr. RED-tilskipunarinnar sem ákvæðinu væri ætlað að innleiða. Í 8. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar er gerð krafa um að búnaðinum fylgi leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál á tungumáli sem er auðskiljanlegt fyrir neytendur og aðra endanlega notendur. Nefndin áréttar að íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál hér á landi auk þess sem stjórnvöldum ber skylda til þess að varðveita hana og sjá til þess að hún sé notuð, sbr. lög nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Með frumvarpinu er stuðlað að aukinni neytendavernd. Svo að hún nái markmiði sínu verða neytendur að skilja þær upplýsingar sem þeim eru veittar en ljóst er að hluti neytenda hefur þörf fyrir íslenskar leiðbeiningar. Nefndin telur þó eðlilegt að heimilt verði að veita undanþágur frá kröfunni um íslenskar leiðbeiningar gagnvart fagmönnum, þ.e. notendum sem ætlast má til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar, starfa sinna eða annarrar sérhæfingar. Nefndin leggur því til að við 6. gr. bætist ákvæði um að ráðherra sé heimilt með reglugerð að veita undanþágu að því er varðar fagmenn frá meginreglu laganna um íslenskar leiðbeiningar.
    Nefndinni var bent á að nauðsynlegt væri að veita fjarskiptafyrirtækjum svigrúm til að bregðast við breyttu lagaumhverfi verði frumvarpið að lögum og gera viðeigandi breytingar á skilmálum sínum. Nefndin fellst á það og leggur til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2018.
    Að auki leggur nefndin til tvenns konar breytingar í því augnamiði að tryggja skýrleika laganna. Skilgreiningu á netaðgangsþjónustu verði bætt við lögin og jafnframt verði tilgreint í lögunum að réttur notenda skv. 1. mgr. b-liðar 3. gr. frumvarpsins gildi ekki um notkun eða aðgang að efni eða þjónustu sem brýtur gegn öðrum lögum eða dómsúrskurði.
    Að lokum leggur nefndin til breytingu á 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins tæknilegs eðlis sem þarfnast ekki skýringar.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 30. apríl 2018.

Jón Gunnarsson,
1. varaform.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Helga Vala Helgadóttir. Karl Gauti Hjaltason.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Vilhjálmur Árnason.