Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 902  —  264. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um endurnot opinberra upplýsinga.

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Odd Þorra Viðarsson frá forsætisráðuneyti, Ólaf Arnar Þórðarson frá Hagstofu Íslands, Margréti Hjálmarsdóttur frá Einkaleyfastofu, Ástríði Jóhannesdóttur og Höllu Björgu Baldursdóttur frá Þjóðskrá Íslands, Ólaf Pál Ólafsson og Ragnar Árna Sigurjónsson frá Seðlabanka Íslands, Sigurð Ingólfsson frá Gangverði ehf., Svandísi Nínu Jónsdóttur frá Reykjavíkurakademíunni, Hrafn Sveinbjarnarson frá Héraðsskjalasafni Kópavogs, Þorstein Tryggva Másson frá Héraðsskjalasafni Árnesinga, Guðjón Bragason og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hauk Arnþórsson.
    Umsagnir bárust frá Einkaleyfastofunni, Gangverði ehf., Hagstofu Íslands, Hauki Arnþórssyni, Héraðsskjalasafni Austfirðinga, Héraðsskjalasafni Kópavogs og Héraðsskjalasafni Árnesinga, Persónuvernd, Reykjavíkurakademíunni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands og Þjóðskrá Íslands.
    Með frumvarpinu er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/37/ESB frá 26. júní 2013 um breytingu á tilskipun 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Tilskipun 2013/37/ESB mælir fyrir um samræmdar lágmarksreglur sem gilda þegar einkaaðilar endurnota upplýsingar frá opinberum aðilum og er frumvarpinu ætlað að tryggja að á Íslandi gildi sömu lágmarksreglur um endurnot og í bandalagsrétti. Markmið tilskipana 2003/98/EB og 2013/37/ESB er jafnframt að auka möguleika til endurnota opinberra upplýsinga til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.

Almennt.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um endurnot opinberra upplýsinga verði færð úr upplýsingalögum í sérlög með þeim röksemdum m.a. að lögin hafi ekki sama gildissvið. Þannig ná upplýsingalögin til stjórnvalda en reglur um endurnot opinberra upplýsinga hafa víðtækara gildissvið þar sem það nær til opinberra aðila nema þeirra sem eru undanskildir. Hugtakið opinberir aðilar er afmarkað með sama hætti og í lögum um opinber innkaup en þó tekið fram að Alþingi, dómstólar og tilteknar stofnanir falli utan gildissviðs laganna.
    Þær efnisbreytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru að undir gildissviðið bætist söfn, skjalasöfn og bókasöfn, þ.m.t. háskólabókasöfn. Þá er lagt til að kveðið verði á um að afgreiða verði beiðnir um heimild til endurnota á opinberum upplýsingum innan ákveðins lögbundins frests, þ.e. 20 daga, auk þess sem lögð er til kæruleið verði beiðni um endurnot synjað eða hún hefur ekki verið afgreidd innan 40 daga.

Markmið endurnota opinberra upplýsinga.
    Á fundum nefndarinnar var nokkuð rætt um markmiðið með endurnotum opinberra upplýsinga. Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu kemur fram að það hafi verið að auka möguleika fyrirtækja og einkaaðila á að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera og gera þeim kleift að hagnýta möguleika þeirra til að stuðla að hagvexti og atvinnusköpun. Þannig geti miklir möguleikar verið fólgnir í að skapa ný verðmæti úr upplýsingum sem eru í vörslum stjórnvalda, t.d. með því að tengja þær við aðrar upplýsingar og búa þannig til nýjar afurðir. Nefndin sem samdi drög að frumvarpinu sem varð að gildandi lögum lagði áherslu á að opinberar upplýsingar verði skilgreindar sem eign almennings og ekki væri tekið sérstakt gjald á grundvelli laga um höfundarétt af upplýsingum sem háðar eru höfundarétti ríkis og sveitarfélaga. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að ákvæði frumvarpsins væru ekki nægilega í anda þess að opinberar upplýsingar sem eru aðgengilegar á opinberum vefjum megi endurnota m.a. vegna þess beiðnakerfis sem lagt er til að kveðið verði á um sem og vegna gjaldtökuákvæða frumvarpsins. Nefndin telur eðlilegt að leggja áherslu á meginregluna um endurnot, og leggur því til að skilgreining endurnota verði færð úr gildissviðsgrein frumvarpsins í markmiðsgrein þess, þ.e. úr 5. mgr. 2. gr. í 2. mgr. 1. gr., með smávægilegum breytingum á orðalagi.

Gildissvið.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað nokkuð um gildissvið frumvarpsins og hvort það væri nægilega skýrt hvaða upplýsingar féllu undir reglur um endurnot opinberra upplýsinga. Fyrir liggur að með frumvarpinu er ekki verið að leggja skyldur á opinbera aðila til að búa til upplýsingar í þessu skyni heldur er einungis um að ræða upplýsingar sem þegar eru til hjá opinberum aðilum. Nefndin telur þó að til þess að auka skýrleika frumvarpsins sé rétt að leggja til að við gildissviðsgreinina bætist ný málsgrein sem verði 1. mgr. þeirrar greinar þess efnis að tiltekið verði að lögin gilda um endurnot á fyrirliggjandi upplýsingum sem eru í vörslum stjórnvalda og almenningur á rétt til aðgangs að.

Takmarkanir vegna sérlaga.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að ekki væri nægilega skýrt kveðið á um takmörkun á gildissviðinu vegna ákvæða sérlaga. Á það benti Einkaleyfastofa sem fer með hugverkaréttindi á sviði iðnaðar samkvæmt sérlögum þ.e. lögum um einkaleyfi, um vörumerki og um hönnun. Opið er fyrir aðgang almennings að tilteknum gögnum varðandi vörumerki en í samræmi við ákvæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga um aðgang að gögnum skal leynd hvíla yfir gögnum einkaleyfis- og hönnunarumsókna í tiltekinn tíma þ.e. allt frá sex mánuðum upp í 18 mánuði. Nefndin leggur til að kveðið verði skýrt á um að gildissvið almennra laga um aðgengi eða endurnot geti ekki gengið lengra en ákvæði sérlaga sem kveða á um gagnaleynd. Nefndin leggur því til að við lokamálsgrein 2. gr. bætist nýr málsliður þess efnis.

Trúnaðargögn og -upplýsingar.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað um gildissvið frumvarpsins varðandi gögn sem háð eru þagnarskyldu. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að gögn sem ætluð eru til hagskýrslugerðar séu trúnaðargögn samkvæmt lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Í tilskipuninni er sérstakt undanþáguákvæði um tölfræðileg gögn sem um gildir trúnaður (e. Statistical confidentiality). Með því er átt við að ekki megi vera beinn eða óbeinn rekjanleiki í gögnum sem gerir þau rekjanleg til einstaklings eða fyrirtækis. Með beinum auðkennum er t.d. átt við kennitölu, nafn eða mynd en með óbeinum auðkennum er átt við gögn sem geta kallað á meiri greiningu þegar horfa þarf til samspils upplýsinga sem saman geta myndað rekjanleika, t.d. búsetu, starfs og tekna. Nefndin telur nauðsynlegt að leggja til að slíkt undanþáguákvæði bætist við 3. gr. og leggur því til að réttur til endurnota upplýsinga nái ekki til tölfræðilegra upplýsinga sem um gildir trúnaður.

Hugverkaréttindi.
    Fyrir nefndinni komu einnig fram ábendingar frá Einkaleyfastofu um ákvæði 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins þar sem tilgreindar eru undantekningar á rétti almennings til endurnota opinberra upplýsinga. Í ákvæðinu er lagt til að rétturinn taki ekki til gagna, skráa og upplýsinga úr gagnagrunnum sem þriðji maður á lögvarin réttindi yfir samkvæmt höfundalögum. Kom fram að í endurnotatilskipuninni sé vísað til alþjóðlegra samninga á sviði hugverkaréttar einkum Bernarsáttmálans sem taki til höfundaréttar og TRIPS-samningsins sem hafi víðara gildissvið. Þannig nái tilskipunin yfir hugverkaréttindi í heild sinni, höfundarétt sem einkaleyfi, vörumerki, hönnun, félagamerki, afurðaheiti, viðskiptaleyndarmál o.fl. Sömu sjónarmið eigi við um upptalningu varðandi almenn skilyrði fyrir endurnotum opinberra upplýsinga í 1. tölul. 4. gr. frumvarpsins. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að í stað þess að tilgreina höfundalög í 3. og 4. gr. frumvarpsins verði tilgreint að takmörkunin á rétti til endurnota nái ekki til laga um vernd hugverkaréttinda.

Listar yfir gögn.
    Í 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um að opinberir aðilar skuli birta lista yfir þau gögn sem hafa að geyma upplýsingar í þeirra vörslum sem heimilt er að endurnota, svo og þau skilyrði sem endurnot eru bundin. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að slík viðbótarskráning umfram skráningu sem leiði af framkvæmd upplýsingalaga og lögum um opinber skjalasöfn verði tæplega framkvæmanleg og hefði í för með sér mikinn kostnað fyrir opinbera aðila. Nefndin tekur í því sambandi fram að með skyldu til birtingar lista yfir gögn sem heimilt er að endurnota er ekki verið að leggja viðbótarskyldur á aðila nema að því leyti að bæta við lista upptalningu á gögnum eftir því sem veittur er aðgangur að gögnum sem hefur ekki verið veittur áður. Því er ekki um að ræða nýjar skyldur heldur einungis skyldur til að uppfæra fyrirliggjandi lista eftir því sem ákvarðanir eru teknar um aðgengi, hvort sem beiðni hefur borist eða ekki. Nefndin telur þó nauðsynlegt vegna skýrleika að leggja til lagfæringu á ákvæðinu þannig að orðalagið beri það með sér að átt sé við gögn sem sérstök ákvörðun hefur verið tekin um að endurnota megi og leggur því til breytingartillögu þess efnis.

Beiðni um endurnot.
    Í frumvarpinu er í 7. gr. lagt til að sá sem vill nýta rétt sinn til endurnota opinberra upplýsinga skuli beina beiðni þess efnis til þess opinbera aðila sem hefur þær í vörslum sínum eða ber lögum samkvæmt ábyrgð á færslu og vinnslu þeirra í skrá. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að með slíkri skyldu sé í reynd verið að takmarka rétt til endurnota. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og telur eðlilegra að líta þannig á að heimilt sé að endurnota þær upplýsingar sem birtar eru á vef stjórnvalda, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Nefndin leggur því til breytingu á orðalaginu þannig að ljóst sé að ekki þurfi að leggja fram beiðni til endurnota opinberra upplýsinga sem þegar eru aðgengilegar til endurnota.

Gjaldtaka.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað sérstaklega um gjaldtökuheimildir frumvarpsins sem kveðið er á um í 10. gr., þ.e. almenn heimild í 1. mgr. og sérstök heimild í 2. mgr. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að með gjaldtöku væri verið að takmarka möguleika einstaklinga og frumkvöðla til að endurnýta opinberar upplýsingar í þágu nýsköpunar. Var bent á að óhófleg skattheimta á nýjar atvinnugreinar geti verið miklu dýrari fyrir almenning en það sem fengist með stuðningi við þær. Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið um að stjórnsýslan er í reynd veikburða og umfangsmiklar upplýsingabeiðnir til stjórnsýslunnar geti dregið úr skilvirkni hennar og verið of íþyngjandi og því þurfi að heimila hóflega gjaldtöku. Nefndin tekur undir sjónarmið um að líta eigi á opinberar upplýsingar sem eign almennings þar sem þær hafi verið unnar á kostnað almennings með beinum sköttum og þjónustugjöldum. Nefndin telur því ekki rétt að heimila gjaldtöku sem felur í sér sanngjarnan hagnaðarhluta eins og lagt er til að kveðið verði á um í 2. mgr., heldur einungis gjald sem nemur beinum kostnaði sem hlýst af fjölföldun, afhendingu og dreifingu upplýsinganna, þ.e. jaðarkostnað (e. marginal cost). Nefndin leggur því til að 2. mgr. 10. gr. falli brott.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 2. maí 2018.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Jón Þór Ólafsson.
Brynjar Níelsson. Jón Steindór Valdimarsson. Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Óli Björn Kárason. Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.