Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 935  —  389. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Ólaf Kr. Hjörleifsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Björn Óla Hauksson frá Isavia, Jónas Snæbjörnsson, Hrein Haraldsson og Stefán Erlendsson frá Vegagerðinni, Vigdísi Häsler frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gunnar Þorgeirsson frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga auk þess sem nefndin ræddi við Sæmund Helgason frá Sveitarfélaginu Hornafirði í gegnum síma.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Isavia ohf., Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sveitarfélaginu Hornafirði og Vegagerðinni. Þá barst nefndinni minnisblað frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum í því skyni að samræma og samþætta áætlanagerð í málaflokkum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem eru sveitarstjórnar- og byggðamál, samgöngur og fjarskipti. Lagt er til að gerðar verði sambærilegar áætlanir á hverju þessara sviða til fimm og fimmtán ára í senn sem endurskoðaðar verði á þriggja ára fresti hið minnsta. Þá er ætlunin að samhæfa stefnumótun og áætlanagerð við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015.
    Ljóst er að margar áætlanir sem varða sveitarstjórnar-, byggða-, fjarskipta- og samgöngumál eru í gildi og aðrar í vinnslu. Reynslan sýnir að gildandi áætlanir hafa jafnan verið nýttar án nægra samtenginga og að flestra mati kominn tími til að taka upp bætt vinnubrögð við stjórnsýsluna og hagnýtingu áætlananna. Nýtt og bætt verklag byggist á auknu samráði í hvívetna og á samræmingu markmiða í áætlunum á fjórum málefnasviðum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Breytingar á ýmsum lögum sem lúta að málefnum sveitarstjórna, byggða, fjarskipta og samgangna sem í frumvarpinu felast eru lágmarkaðar eins og unnt er og lúta fyrst og fremst að formi vinnubragða og samræmingu áætlana en snerta ekki innihald eða stefnu þeirra. Samtímis er þess gætt að samræmi verði milli allra breytinga sem frumvarpið tekur til og laga um opinber fjármál. Einnig er þess gætt að lagabreytingar þessar skerði ekki sjálfstæði sveitarfélaga. Nefndin telur að með frumvarpi þessu sé tekið framfaraskref í opinberri áætlanagerð.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að óljóst væri við hvað væri átt í 3. gr. frumvarpsins með orðalaginu „hverja stofnun og fyrirtæki samgöngumála sem eiga undir ráðuneytið“. Þá væri óeðlilegt að Isavia ohf. ætti beina aðild að samgönguráði, þótt rétt kynni að vera að forstjóri fyrirtækisins sæti þar sem áheyrnarfulltrúi. Nefndin áréttar að sama orðalag er að finna í 3. mgr. 3. gr. gildandi laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008, og hefur hingað til hvorki valdið misskilningi né vafa um hvort Isavia ohf. tilheyri þeim hópi. Þá gegnir Isavia veigamiklu hlutverki í samgöngumálum þjóðarinnar sem eigandi og rekstraraðili Keflavíkurflugvallar en mikilvægur hluti samgönguáætlunar er stefnumótun í flugmálum. Varðandi setu forstjóra Isavia í samgönguráði bendir nefndin á að samgönguráð er ekki stjórnsýslunefnd heldur vettvangur yfirmanna samgöngustofnana sem undirbúa tillögu ráðherra að samgönguáætlun og er forstjóri Isavia þar mikilvægur varðandi flugsamgöngur.
    Fram kom gagnrýni á að í frumvarpinu væri gert ráð fyrir samráði við landshlutasamtök sveitarfélaga við undirbúning byggðaáætlunar og við gerð tillagna að stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga og aðgerðaáætlun en hlutverk slíkra samtaka væri óljóst í íslensku stjórnkerfi. Þá var vægi Sambands íslenskra sveitarfélaga þar að lútandi gagnrýnt og bent á að hvergi væri minnst á aðkomu sveitarfélaganna sjálfra. Nefndin bendir á að Samband íslenskra sveitarfélaga er sameiginlegur málsvari sveitarfélaga í landinu skv. 98. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, og skal sem slíkur sjá til þess að sjónarmiðum sveitarfélaganna sé komið á framfæri við vinnu nefndra áætlana. Í ljósi þess að landshlutasamtök sveitarfélaga hafa ekki skýrt, afmarkað og lögbundið hlutverk í málefnum sveitarfélaga telur nefndin rétt að áskilnaður um samráð við landshlutasamtök verði felldur brott úr 9. og 10. gr. frumvarpsins. Í stað þess verði kveðið á um samráð við sveitarfélög, en samt sem áður er eðlilegt að það samráð fari fram í gegnum samstarf sveitarfélaganna í landshlutasamtökum.
    Gerðar voru athugasemdir við að með frumvarpinu væri verið að fjölga sérstökum fulltrúum ráðherra í samgönguráði og fjarskiptaráði í tvo auk þess sem gert væri ráð fyrir tveimur fulltrúum ráðherra í hinu nýja byggðamálaráði. Gagnrýnt var að sú fjölgun hefði ekki verið rökstudd með greinargóðum hætti í greinargerð. Í minnisblaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til nefndarinnar kom fram að tilgangur breytinganna væri að ná fram því markmiði að tryggja að við mótun tillagna að samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun væri byggt á áherslum ráðherra hverju sinni og þeim fjárhagsramma sem hann leggur fram. Nefndin áréttar að nefndar áætlanir eru tillögur ráðherra til Alþingis um stefnumótun í viðkomandi málaflokkum og rétt að við undirbúning gerðar þeirra komi sjónarmið ráðherra skýrt fram.
    Ákvæði frumvarpsins um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga er nýmæli. Ekki er gert ráð fyrir að sérstakt ráð undirbúi tillögur til ráðherra að þeirri áætlun ólíkt byggðaáætlun, samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun, heldur verði þær unnar af ráðuneytinu en haft samráð við tiltekna aðila, m.a. Samband íslenskra sveitarfélaga. Á fundi nefndarinnar og í umsögn sinni lýsti Sambandið sig sammála efni 10. gr., en taldi þó nauðsynlegt að sett yrðu nánari stjórnvaldsfyrirmæli um markmið og verklag við gerð slíkrar áætlunar til þess að festa niður verklag og auka fyrirsjáanleika við vinnslu áætlana. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til að við 10. gr. frumvarpsins bætist ákvæði um að ráðherra skuli setja reglugerð með nánari ákvæðum um gerð stefnumótandi áætlunar og aðgerðaáætlunar í málefnum sveitarfélaga.
    Samkvæmt núgildandi lögum skal greiðsluþátttaka ríkissjóðs í einstökum verkefnum tekin til endurskoðunar á tveggja ára fresti við endurskoðun samgönguáætlunar. Með frumvarpinu er lagt til að sá tímafrestur verði felldur brott. Bent var á að miklar breytingar geta verið á umhverfi hafna sem kalla á að greiðsluþátttaka ríkisins endurskoðist reglulega auk þess sem töluverðar breytingar geta verið nauðsynlegar á hafnahluta samgönguáætlunar. Bent var á að vegna þessa væri nauðsynlegt að kveða á um endurskoðun greiðsluþátttöku á að lágmarki þriggja ára fresti í samræmi við ákvæði frumvarpsins um endurskoðun samgönguáætlunar. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til orðalagsbreytingu í því skyni.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „landshlutasamtök sveitarfélaga“ í 2. málsl. 2. efnismgr. c-liðar 9. gr. og 1. málsl. 2. efnismgr. 10. gr. komi: sveitarfélög.
     2.      Á eftir 2. efnismgr. 10. gr. komi ný málsgrein sem orðist svo:
             Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um gerð stefnumótandi áætlunar og aðgerðaáætlunar, sbr. 4. og 5. mgr.
     3.      11. gr. orðist svo:
              Í stað orðsins „tveggja“ í 3. mgr. 25. gr. laganna komi: að lágmarki þriggja.

    Jón Gunnarsson og Hanna Katrín Friðriksson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Björn Leví Gunnarsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.


Alþingi, 8. maí 2018.

Bergþór Ólason,
form.
Ari Trausti Guðmundsson,
frsm.
Helga Vala Helgadóttir.
Karl Gauti Hjaltason. Líneik Anna Sævarsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.