Ferill 599. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 963  —  599. mál.
Frumvarp til laga


um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

Flm.: Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Willum Þór Þórsson, Ásmundur Friðriksson.


I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.

    Markmið laga þessara er að styðja við mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir félagasamtaka til almannaheilla og hvetja til þess að þau efli starfsemi sína eða bæti aðstöðu sína. Undanþegin gildissviði laga þessara er mannvirkjagerð eða aðrar framkvæmdir þar sem lögbundin starfsemi hins opinbera mun fara fram.

2. gr.

    Endurgreiða skal félagasamtökum til almannaheilla fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti sem þau hafa greitt vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda sem miða að því að efla starfsemi eða bæta aðstöðu samtakanna.

II. KAFLI
Umsókn og skilyrði endurgreiðslu.
3. gr.

    Umsókn um endurgreiðslu byggingar- og framkvæmdakostnaðar skal send ríkisskattstjóra. Endurgreiðslubeiðni ásamt fylgigögnum skal berast áður en framkvæmd hefst. Ríkisskattstjóri skal taka ákvörðun um hvort skilyrði til endurgreiðslu sé uppfyllt innan 60 daga frá því að öll gögn hafa borist.

4. gr.

    Við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af byggingar- og framkvæmdakostnaði skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:
     a.      að framkvæmd þjóni sannanlega þeim tilgangi að efla starfsemi félagasamtakanna eða bæta aðstöðu þeirra,
     b.      að fyrir liggi sundurliðuð kostnaðaráætlun og áætlun um fjármögnun,
     c.      að fyrir liggi skrifleg staðfesting sveitarfélags um að viðkomandi framkvæmd falli ekki undir lögbundnar skyldur sveitarfélaga,
     d.      að endurskoðað kostnaðaruppgjör liggi fyrir að framkvæmd lokinni.
    Sé skilyrðum 1. mgr. ekki fullnægt er heimilt að hafna endurgreiðslubeiðni eða eftir atvikum endurkrefja félagið um hana.
    Verði breyting á áætluðum kostnaði, sbr. b-lið 1. mgr., eftir að framkvæmdir hefjast skal senda ríkisskattstjóra nýja kostnaðaráætlun.

III. KAFLI
Endurgreiðsla.
5. gr.

    Endurgreiðsla nemur fjárhæð virðisaukaskatts vegna mannvirkjagerðar eða annarra framkvæmda.

6. gr.

    Ríkisskattstjóri ákvarðar endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum. Ákvörðun um endurgreiðslu skal byggjast á endurskoðuðu kostnaðaruppgjöri.
    Eigi síðar en 12 mánuðum eftir verklok skal senda ríkisskattstjóra greinargerð með sundurliðun byggingarkostnaðar. Skal greinargerðin staðfest af löggiltum endurskoðanda og stjórn.
    Endurgreiðsla fer fram að framkvæmd lokinni enda hafi ákvæði 2. mgr. verið uppfyllt. Frá endurgreiðslu skal draga vangreidda skatta og gjöld til ríkis og sveitarfélaga.

7. gr.

    Endurgreiðsla samkvæmt lögum þessum er óháð því hvort félagasamtökin hafa fengið styrk frá sveitarfélagi eða öðrum aðila til framkvæmdarinnar.

IV. KAFLI
Reglugerðarheimild og gildistaka.
8. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara þar sem m.a. verði kveðið á um framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt lögum þessum, heimildir ráðherra til að fresta endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni, skilyrði endurgreiðslna, umsóknir, afgreiðslu umsókna og ákvörðun um endurgreiðslu.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

    Markmið frumvarpsins er að styðja við og stuðla að uppbyggingu á vegum félagasamtaka til almannaheilla. Lagt er til að tekið verði upp sérstakt kerfi endurgreiðslna sem nemi virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda á vegum félagasamtaka til almannaheilla. Endurgreiðsla er bundin því skilyrði að um sé að ræða framkvæmdir sem bæta aðstöðu viðkomandi félags. Endurgreiðsla getur aldrei orðið vegna framkvæmda þar sem lögbundin starfsemi hins opinbera mun fara fram.
    Frumvarp sama efnis var lagt fram á 145. löggjafarþingi (896.mál) en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið sem nú er lagt fram er nokkuð breytt og ræður þar mestu að lagt er til að framkvæmdin verði í höndum ríkisskattstjóra.
    Flest félög sem starfa að almannaheillum, svo sem björgunarsveitir og íþróttafélög, eru utan virðisaukaskattskerfisins og eiga því ekki möguleika á að fá endurgreiðslu innskatts vegna framkvæmda við mannvirkjagerð. Með endurgreiðslukerfi því sem hér er lagt til mundi ríkissjóður veita félagasamtökum til almannaheilla fjárhagslegan stuðning við að byggja upp aðstöðu fyrir starfsemi sína.
    Stuðningurinn er gagnsær og einfaldur. Fordæmi fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts eru fyrir hendi, t.d. vegna kvikmyndagerðar og vegna vinnu iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði.
    Í frumvarpinu er lagt til að endurgreiddur verði sá kostnaður sem nemur virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar eða annarra framkvæmda á vegum félagasamtaka til almannaheilla. Beiðni um endurgreiðslu verður að berast áður en framkvæmdir hefjast og verður metið hvort framkvæmd uppfylli skilyrði fyrir endurgreiðslu. Með umsókn skulu fylgja gögn, svo sem kostnaðaráætlun, sem gefi glögga mynd af umfangi verksins, hvernig fjármögnun verði háttað, staðfestingu fjármögnunaraðila o.fl. Einnig skal liggja fyrir skrifleg staðfesting viðkomandi sveitarfélags um að mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir falli ekki undir lögbundnar skyldur sveitarfélaga.
    Telji ríkisskattstjóri viðkomandi framkvæmd falla undir skilyrði laganna gefur hann út vilyrði til félagasamtakanna um endurgreiðslu. Félagasamtökum er skylt að tilkynna breytingar á kostnaðaráætlun og leggja fram endurskoðað kostnaðaruppgjör þar sem fram komi skipting kostnaðar. Þá er sú krafa gerð að eigi síðar en 12 mánuðum eftir að framkvæmd lýkur leggi félagasamtök, sem njóta endurgreiðslu virðisaukaskatts, fram sérstaka greinargerð með sundurliðun byggingarkostnaðar. Skal greinargerðin staðfest af löggiltum endurskoðanda og stjórn viðkomandi félagasamtaka. Endurgreiðsla getur ekki komið til framkvæmda fyrr en að loknum framkvæmdum og skilum á greinargerð um byggingarkostnað.