Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 1003  —  520. mál.
Tafla bls. 2.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um útgjöld vegna hælisleitenda.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver voru árleg heildarútgjöld ríkissjóðs og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árin 2012–2017 vegna málefna hælisleitenda og hverjir eru einstakir þættir þeirra útgjalda á sviði löggæslumála, landamæravörslu, skólamála, heilbrigðismála og velferðarmála?

    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála vegna fyrirspurnarinnar. Svörin eiga eingöngu við um heildarútgjöld ríkissjóðs en í þeim eru meðtaldar greiðslur til sveitarfélaga vegna þeirrar þjónustu sem þau veita umsækjendum um alþjóðlega vernd.
    Heildarútgjöld vegna fjárlagaliðarins 06-399 Hælisleitenda voru árin 2012–2017 eins og hér greinir (þ.m.t. eru greiðslur til sveitarfélaga vegna samninga um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd):

2012 2013 2014 2015 2016 2017
220.736.741 436.092.347 463.557.701 714.925.061 1.862.405.039 3.089.002.501

    Greiðslur af Hælislið 06-399 til Reykjavíkurborgar og Hafnarfjarðarkaupstaðar, þeirra tveggja sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem hafa gert þjónustusamning við stofnunina, voru sem hér segir:

2012 2013 2014
Reykjavíkurborg 0 0 154.929.441
Hafnarfjarðarkaupstaður 0 0 0
2015 2016 2017
Reykjavíkurborg 201.327.053 263.625.052 410.496.113
Hafnarfjarðarkaupstaður 4.065.626 42.388.050 43.579.785

    Til upplýsingar þá er Útlendingastofnun einnig með þjónustusamning við Reykjanesbæ.
    Útlendingastofnun er með samning við embætti ríkislögreglustjóra um framkvæmd frávísana og brottvísana, og við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og lögregluna á Suðurnesjum um móttöku umsækjenda um vernd, um skráningu þeirra og um framkvæmd birtinga, frávísana og brottvísana. Ekki er um að ræða samninga eða útgjöld vegna löggæslumála eða landamæravörslu.
    Útlendingastofnun og sveitarfélögin þrjú tryggja ákveðna grunnþjónustu á meðan umsækjandi sem bíður niðurstöðu vegna umsóknar sinnar dvelur í úrræði á vegum Útlendingastofnunar eða sveitarfélags sem stofnunin hefur gert þjónustusamning við. Kemur þetta m.a. fram í VI. kafla reglugerðar nr. 540/2017, um útlendinga, og í viðaukum með þjónustusamningunum. Ef undan er skilin sú grunnþjónusta sem snýr að húsnæði, uppihaldi, skólagöngu og heilbrigðisþjónustu, þá eru umsækjanda tryggðar án endurgjalds samgöngur vegna erinda sem varða umsókn hans, félagsleg ráðgjöf hjá sveitarfélagi, túlkaþjónusta, íslenskukennsla, internetaðgangur og upplýsingastreymi um afþreyingu í nærumhverfinu. Sveitarfélag getur veitt aukna þjónustu, ákveði það svo.
    Börnum sem sækja um alþjóðlega vernd og falla undir skólaskyldu er tryggð skólaganga. Er ákvæði um skólagöngu barna í öllum þjónustusamningum sem stofnunin hefur gert við sveitarfélögin sem áður er getið. Áður en barn fer í skóla hefur það farið í læknisskoðun samkvæmt reglum sóttvarnalæknis. Í þeim tilvikum þar sem barn er búsett í úrræði á vegum Útlendingastofnunar er barninu tryggð skólaganga í Hafnarfirði. Alla jafna hefst skólaganga 4–6 vikum eftir komu, en það ræðst af því hversu fljótt læknisskoðun fer fram og niðurstaða liggur fyrir.
    Útgjöld til heilbrigðismála greidd af Hælislið 06-399 vegna áranna 2012–2017 voru eftirfarandi:

2012 2013 2014 2015 2016 2017
Heilbrigðismál 0 94.790 2.011.411 14.911.121 93.974.044 186.273.910

    Þess ber að geta að árið 2016 fékk Landspítalinn 100 millj. kr. af fjáraukalögum vegna ógreiddra reikninga sem stofnað hafði verið til af umsækjendum um alþjóðlega vernd. Reikningarnir voru vegna þjónustukaupa árin 2013–2016.
    Í töflu hér á eftir má sjá yfirlit um heildarútgjöld vegna málefna umsækjenda um alþjóðlega vernd og sundurliðaðan kostnað fyrir alla liði í málaflokknum. Hjá kærunefnd útlendingamála er ekki haldið sérstaklega utan um kostnað vegna mála umsækjenda um vernd en það er mat nefndarinnar að um 85% alls kostnaðar tilheyri því verkefni. Hjá Útlendingastofnun er gerð grein fyrir þeim kostnaði sem sérstaklega fellur til vegna málarekstrar umsækjenda um vernd hjá stofnuninni. Taflan sýnir því þróun kostnaðar frá 2012–2017.

2012 2013 2014
Kærunefnd útlendingamála*
Útlendingastofnun* 19.381.208 32.305.224 42.080.978
Hælisliður 220.736.741 436.092.347 463.557.701
Heildarútgjöld 240.117.949 468.397.571 505.638.679
2015 2016 2017
Kærunefnd útlendingamála* 59.535.521 144.493.097 211.543.091
Útlendingastofnun* 57.174.017 90.646.261 136.205.636
Hælisliður 714.925.061 1.862.405.039 3.089.002.501
Heildarútgjöld 831.634.599 2.097.544.397 3.436.751.228
*Hlutfall af heildarkostnaði.