Ferill 549. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1140  —  549. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um aðgengi fatlaðs fólks.


     1.      Hvernig tryggir ráðherra fullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk að manngerðu umhverfi í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra, sem og að upplýsingum og gögnum?
    Ríkiseignir er stofnun sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Hún hefur það hlutverk að hafa umsjón með og viðhalda fasteignum í eigu ríkisins. Ráðuneytið og stofnanir á málefnasviði þess leita því til Ríkiseigna þegar kemur að því að velja húsakost. Undanfarin ár hefur stefnan verið sú að fela Ríkiseignum að annast milligöngu um húsnæði fyrir ríkisstofnanir til að tryggja örugga og hagkvæma umsýslu eigna. Þetta á jafnframt að stuðla að betri nýtingu eigna ríkisins innan þeirra reglna og viðmiða sem sett eru. Á það jafnframt að tryggja sem best aðgengi fatlaðs fólks að þeim byggingum sem opinberar stofnanir nýta sér.

Ráðuneytið.
a. Aðgengi fyrir fatlað fólk að manngerðu umhverfi ráðuneytisins.
    Ráðuneytið er til húsa að Sölvhólsgötu 7 ásamt dómsmálaráðuneytinu. Aðgengi að ráðuneytinu sjálfu hefur á síðustu árum verið bætt með sjálfvirkri hurðaropnun í anddyri ráðuneytisins. Lyfta er í húsinu og allt aðgengi með besta móti inni í húsinu. Gott aðgengi er að salernisaðstöðu og kaffistofu. Ekki er að finna bílastæði fyrir fatlaða nálægt húsnæði ráðuneytisins og telur ráðherra mikilvægt að skoða úrbætur á því í samráði við Rekstrarfélag Stjórnarráðsins og eignaumsýslu ríkisins. Í ráðuneytinu hafa starfað einstaklingar með fötlun og hefur eftir atvikum verið komið til móts við þá einstaklinga til að trygga aðstöðu við hæfi.

b. Aðgengi fyrir fatlað fólk að upplýsingum og gögnum ráðuneytisins.
    Aðgengisstefna um opinbera vefi var samþykkt í ríkisstjórn í maí 2012. Í aðgengisstefnunni felst að aðgengi sé tryggt, m.a. fyrir blinda, sjónskerta og aðra sem þurfa að nota hjálpartæki. Unnið hefur verið eftir henni samkvæmt upplýsingum frá Rekstrarfélagi Stjórnarráðsins. Í könnun á opinberum vefjum síðastliðið haust, þar sem aðgengi er m.a. metið út frá þeim atriðum sem fram koma í fyrrnefndri stefnu, fékk vefur Stjórnarráðsins stjornarradid.is fullt hús stiga. Inn á vef Stjórnarráðsins er hægt að fá ýmsar upplýsingar um málaflokka ráðuneytisins og boðið er upp á vefþulu svo hægt er að hlusta á þær upplýsingar sem þar er að finna.
    Í 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, segir að stjórnvaldi beri að veita aðila máls að stjórnsýslumáli leiðbeiningar, m.a. vegna aðgangs að upplýsingum og gögnum í viðkomandi máli. Þá er í 2. mgr. 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, kveðið á um að starfsmanni sé skylt að veita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar þeim sem til hans leitar. Slík framkvæmd innan stjórnsýslunnar stuðlar enn fremur að fullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk að upplýsingum og gögnum.


     2.      Er í gildi stefna eða aðgerðaáætlun í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra um aðgengi fatlaðs fólks?
    Á 146. löggjafarþingi 2016–2017 var samþykkt þingsályktun nr. 16/146, um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021. Ráðuneytið lítur svo á að þar birtist almenn stefna í málaflokkum sem ráðuneytinu og stofnunum þess beri að virða og hafa hliðsjón af við alla ákvörðunartöku er varðað getur aðgengismál fatlaðs fólks.

Stofnanir.
Aðgengi fyrir fatlað fólk að manngerðu umhverfi í stofnunum á málefnasviði ráðuneytisins, stefna og aðgerðaáætlun.
    Í kjölfar fyrirspurnarinnar sendi ráðherra fyrirspurn á stofnanir sínar til að kanna aðgengi fatlaðs fólks að þeim. Undirstofnanir ráðuneytisins eru Samgöngustofa, Vegagerðin, Byggðastofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, Þjóðskrá Íslands og Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Svar miðast eftir atvikum við höfuðstöðvar stofnana og má sjá í eftirfarandi töflu.

Spurning Svar: Já Svar: Nei
Bílastæði merkt fötluðum fyrir framan aðalinngang. Samgöngustofa.
Byggðastofnun.
Þjóðskrá Íslands.
Vegagerðin.
Póst- og fjarskiptastofnun. Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Tryggt að þar sé rutt snjó þegar svo viðrar og/eða hálkuvörn notuð. Samgöngustofa.
Byggðastofnun.
Póst- og fjarskiptastofnun.
Þjóðskrá Íslands.
Vegagerðin.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Óhindrað aðgengi fyrir hjólastóla frá bílastæði. Samgöngustofa.
Póst- og fjarskiptastofnun. Þjóðskrá Íslands.
Vegagerðin.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Byggðastofnun.
Sjálfvirkur hurðaropnari á hurðum sem eru búnar hurðarpumpum. Samgöngustofa.
Þjóðskrá Íslands.
Vegagerðin.
Byggðastofnun.
Póst- og fjarskiptastofnun.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Lyfta eða annar búnaður til að komast í hjólastól á milli hæða. Samgöngustofa.
Byggðastofnun.
Póst- og fjarskiptastofnun.
Þjóðskrá Íslands.
Vegagerðin.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Stofnunin getur verið með starfsfólk bundið hjólastól í vinnu án aðstoðar og tryggt viðkomandi almennt aðgengi innan starfsstöðvar. Samgöngustofa.
Póst- og fjarskiptastofnun. Þjóðskrá Íslands.
Vegagerðin.
Byggðastofnun.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Stofnunin hefur markað sér skýra stefnu (og framtíðarsýn) um aðgengi fatlaðra. Samgöngustofa. Byggðastofnun.
Póst- og fjarskiptastofnun. Þjóðskrá Íslands.
Vegagerðin.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Uppfyllir kröfur um aðgengi að upplýsingum, sbr. aðgengisstefnu um opinbera vefi. Samgöngustofa.
Póst- og fjarskiptastofnun. Þjóðskrá Íslands.
Byggðastofnun.
Vegagerðin.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa.