Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1209  —  581. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (upprunatengdir ostar, móðurmjólk).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elísabetu Jónsdóttur og Ólaf Friðriksson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökum Íslands og Arnar Árnason og Margréti Gísladóttur frá Landssambandi kúabænda. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Landssambandi kúabænda, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf., Samtökum mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að við tollalög bætist ákvæði til bráðabirgða. Í því felst að heildaraukning tollkvóta fyrir svonefnda upprunatengda osta verði heimiluð strax á gildistökuári samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur í stað þess að þeirri aukningu verði náð á fjórum árum. Þá er kveðið á um að móðurmjólk sem er flutt inn handa hvítvoðungum verði tollfrjáls.
    Tilefni 1. gr. frumvarpsins er yfirlýsing þáverandi meiri hluta atvinnuveganefndar þegar ákvæði búvörusamninga voru lögfest haustið 2016 (680. mál á 145. löggjafarþingi). Í áliti meiri hlutans kom fram að sammælst hefði verið um það við ráðherra að hraða innleiðingu á auknum kvótum fyrir innflutning á sérostum þannig að hún kæmi til framkvæmda á fyrsta ári gildistíma samnings Íslands við Evrópusambandið. Með frumvarpi þessu er veitt lagastoð fyrir þeirri breytingu.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að viðbót árið 2018 verði 105 tonn og að viðbót árið 2019 verði 105 tonn. Magnið yrði samkvæmt því innleitt á tveimur árum en ekki einu. Því yrði tollkvótinn frá og með árinu 2019 230 tonn. Jafnframt leggur nefndin til viðbætur við frumvarpið, annars vegar að með hliðsjón af lögum geti ráðherra sett nánari ákvæði um útfærslu ákvæðisins í reglugerð og hins vegar að fyrir 1. nóvember 2018 skuli ráðherra hafa látið vinna úttekt þar sem metin verði þau áhrif á íslenskan markað sem orsakast af innflutningskvótum á ostum sem eru verndaðir með upprunatáknum eða með vernduðum landfræðilegum merkingum. Úttektin skuli kynnt atvinnuveganefnd. Við matið skuli leitað eftir sjónarmiðum þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Atvinnuveganefnd muni á grunni úttektarinnar taka til umræðu hvort tilefni sé fyrir löggjafann að bregðast við með einhverjum hætti.
    Meiri hlutinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að hraða eins og mögulegt er aðgangsheimildum að innri markaði Evrópusambandsins fyrir mjólkurafurðir. Ítrekar meiri hlutinn þannig álit þáverandi meiri hluta atvinnuveganefndar frá 7. september 2016 þegar ákvæði búvörusamninga voru lögfest.
    Meiri hlutinn bendir á að verðlagsnefnd búvara ákveður heildsöluverð á brauðosti hérlendis og því gæti íslenskum afurðastöðvum reynst erfitt að bregðast við snaraukinni samkeppni á brauðostamarkaði að öllu óbreyttu. Meiri hlutinn beinir því til verðlagsnefndar að huga að því hvort bregðast þurfi sérstaklega við þessum aukna innflutningi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.:
     a.      Í stað orðanna ,,verði 210 tonn, hlutfallslega í samræmi við dagsetningu gildistöku samnings, og tollkvóti á ári eftir gildistöku samnings verði 230 tonn“ komi: verði 105 tonn og viðbót árið 2019 verði 105 tonn. Tollkvóti á ári frá og með árinu 2019 verður því 230 tonn.
     b.      Við bætist tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Ráðherra sem fer með málefni landbúnaðar setur nánari ákvæði í reglugerð.
             Ráðherra sem fer með málefni landbúnaðar skal fyrir 1. nóvember 2018 láta vinna úttekt um áhrif innflutningskvóta á ostum, sem eru verndaðir með upprunatáknum eða með vernduðum landfræðilegum merkingum, á íslenskan markað og kynna atvinnuveganefnd. Við gerð úttektarinnar skal leita eftir sjónarmiðum þeirra sem eiga hagsmuna að gæta.

    Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Smári McCarthy skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 8. júní 2018.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Inga Sæland.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir,
með fyrirvara.
Ásmundur Friðriksson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Smári McCarthy,
með fyrirvara.