Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1318  —  570. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um sértæka skuldaaðlögun.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margir einstaklingar sóttu um sértæka skuldaaðlögun, sbr. lög nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, og í hversu mörgum tilfellum komst á samningur um sértæka skuldaaðlögun? Í hversu mörgum þeirra tilfella hefur fasteign í eigu skuldara verið seld eða ráðstafað til kröfuhafa? Svar óskast sundurliðað eftir árum, mánuðum, lánveitendum og landsvæðum.

    Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. þingskapalaga nr. 55/1991 getur alþingismaður óskað upplýsinga eða svars frá ráðherra um opinbert málefni. Í 3. mgr. 49. gr. laganna er opinbert málefni skilgreint sem „sérhvert málefni er tengist hlutverki og starfsemi ríkisins og stofnana þess, svo og félaga og annarra lögaðila sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins og annast stjórnsýslu eða veita almenningi opinbera þjónustu á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings“.
    Þar sem fyrirspurnin varðar ekki ráðstafanir félaga eða stofnana sem annast stjórnsýslu eða veita opinbera þjónustu, eða upplýsingar sem eru opinberar lögum samkvæmt, heldur ákvarðanir og samninga einkaréttarlegs eðlis, telst efni hennar ekki til opinbers málefnis og getur ráðuneytið ekki krafist þess að lánveitendur láti umbeðnar upplýsingar í té.
    Úrræðið sértæk skuldaaðlögun samkvæmt lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, stóð lántökum til boða frá 30. október 2009 til 31. desember 2011. Samtök fjármálafyrirtækja söfnuðu að beiðni félags- og tryggingamálanefndar Alþingis þeim upplýsingum um ýmsar leiðir til lækkunar skulda heimila eða aðlögunar þeirra sem fjármálafyrirtækin voru tilbúin að veita og miðlaði þeim til stjórnvalda á tímabilinu frá 15. október 2010 til 12. mars 2012 vegna stöðu afgreiðslu þessara mála á tímabilinu frá 1. október 2010 til 31. janúar 2012. Samtökin birtu jafnframt þessar upplýsingar á vef sínum 8. febrúar 2012. Eftirfarandi eru þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um sértæka skuldaaðlögun og sýna stöðuna 31. janúar 2012. Á þeim tíma var búið að loka fyrir nýjar umsóknir og því ekki talin ástæða til að halda áfram upplýsingasöfnun um endanlegar niðurstöður.
    Umsóknir um sértæka skuldaaðlögun voru 1.341. Af þeim höfðu 884 verið samþykktar, 86 verið hafnað og 371 var enn í vinnslu. Fjárhæð niðurfærslu samkvæmt þessari leið nam liðlega 7,2 milljörðum kr.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um sölu eigna eða ráðstöfun til kröfuhafa. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um sundurliðun eftir mánuðum, lánastofnunum eða landsvæðum.
    Þess má geta að samhljóða fyrirspurn var svarað af hálfu félags- og jafnréttismálaráðherra á yfirstandandi löggjafarþingi á þskj. 880 (378. mál) að því er varðar Íbúðalánasjóð. Þá spurði Guðlaugur Þór Þórðarson um sértæka skuldaaðlögun á 138. löggjafarþingi, sbr. svar efnahags- og viðskiptaráðherra á þskj. 986 (412. mál). Á þeim tíma lágu ekki aðrar tölulegar upplýsingar fyrir um úrræðið en þær að 277 heimili hefðu nýtt sér það.