Ferill 662. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1337  —  662. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um „veigamiklar ástæður“.


     1.      Hverjar telur ráðherra vera „veigamiklar ástæður“ í skilningi ákvæða 24. og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993?

Veigamiklar ástæður í skilningi 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Í 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um rétt aðila stjórnsýslumáls til endurupptöku þess þannig að ákvörðunin verði endurskoðuð. Meginreglan kemur fram í 1. mgr. 24. gr., þar sem segir að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun og hún tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef annað tveggja skilyrða er uppfyllt:
     1.      ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
     2.      íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
    Í athugasemdum við 24. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/1993 er tekið fram að aðili máls geti þó átt rétt til endurupptöku máls í fleiri tilvikum en talin eru upp í 24. gr., annaðhvort á grundvelli lögfestra reglna eða óskráðra. 1
    Í 2. mgr. 24. gr. er mælt fyrir um tímafrest til endurupptöku máls. Er þar að finna tvenns konar tímafrest sem takmarkar rétt aðila máls til endurupptöku stjórnsýslumáls auk reglna um við hvaða tímamark fresturinn hefst. Meginreglan er sú að beiðni um endurupptöku verður að berast innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á. Eftir að fyrrgreindur þriggja mánaða frestur er liðinn verður beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki annarra aðila málsins. Eftir að eitt ár er liðið frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun sem 1. tölul. 1. mgr. nær til eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun er byggð á, sbr. 2. tölul. 1. mgr., verður mál ekki endurupptekið nema fyrir liggi samþykki annarra aðila málsins og veigamiklar ástæður mæli með því.
    Í athugasemdum við 2. mgr. 24. gr. í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, kemur fram hvert meginmarkmið ákvæðisins er. Í greinargerðinni segir: „Í 2. mgr. 24. gr. er að finna skilyrði sem sett eru til þess að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd og er ætlað að koma í veg fyrir að verið sé að endurupptaka mjög gömul mál sem erfitt getur verið að upplýsa. Markmiðið með ákvæðum 2. mgr. er að stuðla að því að mál séu til lykta leidd svo fljótt sem unnt er. Telji aðili þörf á endurupptöku máls ber honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar.“ 2
    Ákvæði um tímafrest þjóna því þeim tilgangi að hvetja aðila máls til að halda fram rétti sínum innan vissra tímamarka og koma í veg fyrir að mjög gömul mál verði tekin upp aftur. Af ákvæði 2. mgr. 24. gr. má ráða að meira en ársgömul mál þyki almennt gömul í þessum skilningi. Í ákvæðinu er þó gert ráð fyrir að tómlæti aðila leiði ekki alltaf til þess að stjórnvald geti synjað um endurupptöku máls, enda séu veigamiklar ástæður fyrir því að málið verði tekið upp að nýju.
    Hvorki í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né heldur í greinargerð með frumvarpi til laganna er að finna tilgreiningu á því hvaða ástæður teljist til veigamikilla ástæðna. Við skýringu á orðalaginu má líta til 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem sama orðalag er notað. Auk þess er rétt að líta til ólögfestra reglna stjórnsýsluréttarins um rétt til endurupptöku máls en þær eru ekki tæmandi taldar. Slíkar aðstæður geta til að mynda verið fyrir hendi þegar lagalegar forsendur ákvörðunar hafa breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Einnig kunna rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds að leiða til þess að því sé skylt að taka mál upp að nýju. Sama getur átt við um þau tilvik þegar fyrir liggur að ákvörðun hafi byggst á röngum lagagrundvelli eða verulegt misræmi er á milli úrlausna stjórnvalds í sambærilegum málum þannig að fari í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. 3 Verulegir annmarkar á ákvörðun geta því leitt til þess að veigamiklar ástæður verði taldar vera fyrir hendi.

Veigamiklar ástæður í skilningi 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um réttaráhrif þess að kæra berist að liðnum kærufresti en meginreglan er sú að slíkri kæru skuli vísað frá. Frá þessari meginreglu eru tvær undantekningar, annars vegar ef afsakanlegt verður talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul., og hins vegar ef veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. Í 2. mgr. 28. gr. kemur fram sú regla að mál skuli ekki tekið til kærumeðferðar ef meira en eitt ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila máls.
    Í athugasemdum við 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, er tekið það dæmi um 1. tölul. að lægra stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Engar útskýringar eru í athugasemdunum um hvaða ástæður geti réttlætt undantekninguna skv. 2. tölul. Í athugasemdunum er þó tekið fram að við mat á því hvort skilyrði 1. og 2. tölul. séu fyrir hendi þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu eru fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo væri rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Ef aðili er aðeins einn yrði mál frekar tekið til meðferðar. Af þessu má ráða að máli skipti hvort aðili hafi veigamikla hagsmuni af því að mál verði tekið til meðferðar og hvort veigamiklir hagsmunir annarra aðila standi í vegi fyrir því.
    Við mat á því hvort veigamiklar ástæður eru fyrir hendi ber ekki aðeins að líta til hagsmuna aðila máls heldur einnig til almannahagsmuna af því að mál verði aftur upp tekið, til að mynda hvort um fordæmisgefandi mál sé að ræða. 4 Þá hefur umboðsmaður Alþingis lagt það til grundvallar að heimilt sé að líta til þess hvort verulegir form- eða efnisannmarkar séu á málsmeðferð hins lægra setta stjórnvalds, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis, UA 5. júní 2009 (5471/2008). Undir þetta gætu fallið tilvik þar sem lægra sett stjórnvald hefur ekki fellt meðferð mála að breyttum lagareglum, sbr. UA 17. júlí 2012 (6433/2011).

     2.      Hvernig metur ráðherra hvort um er að ræða veigamiklar ástæður í skilningi framangreindra ákvæða? Er miðað við staðlaðan réttindalista og ef svo er, hvar er sá listi aðgengilegur? Ef ekki, hvar má nálgast upplýsingar um þau réttindi sem teljast veigamikil?
    Af ákvæðum 24. og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, leiðir að stjórnvaldi ber að meta hverju sinni hvort aðstæður séu þess eðlis að þær réttlæti undantekningu frá þeim tímafresti sem settur er í ákvæðunum. Það mat er óneitanlega atviksbundið og er því stjórnvöldum skylt að meta það sjálfstætt hverju sinni hvort slíkar ástæður séu fyrir hendi. Hvaða ástæður teljast veigamiklar fer því eftir eðli málsins og málsatvikum öllum. Við skýringu á því hvaða ástæður teljist veigamiklar verður að taka mið af þeim sjónarmiðum sem leiða má af fyrrgreindum lagaákvæðum um tímafrest og sem fram koma í greinargerð með stjórnsýslulögum. Auk þess er horft til þeirra sjónarmiða sem tilgreind hafa verið í álitum umboðsmanns Alþingis.
    Ekki liggur fyrir „staðlaður réttindalisti“ eða samantekt yfir þau tilvik þar sem veigamiklar ástæður hafa verið taldar vera fyrir hendi. Hér ber að nefna að sjónarmið um hagsmuni aðila er ekki það eina sem réttlætt getur að vikið sé frá tímafresti ákvæðanna heldur kann annmarki á ákvörðuninni sjálfri einnig að leiða til þess að veigamiklar ástæður verði taldar mæla með því að vikið verði frá tímafresti lagaákvæðanna tveggja.
1    Alþt. 1992–93, A-deild, bls. 3305.
2    Alþt. 1992–93, A-deild, bls. 3305.
3    Sjá álit umboðsmanns Alþingis, UA 7. apríl 2000 (2370/1998).
4    Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin – skýringarrit, bls. 272.