Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 30  —  30. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.


Flm.: Willum Þór Þórsson, Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem skipuleggi stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ráðherra ákveði skipan starfshópsins en í honum sitji a.m.k. einn fulltrúi frá Ungmennafélagi Íslands og einn frá Bláskógabyggð. Hópurinn taki m.a. mið af yfirstandandi vinnu við lagafrumvarp um lýðháskóla, nýtingu mannvirkja og skólans á Laugarvatni við rekstur sumarbúða Ungmennafélags Íslands, rannsóknum á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum og reynslu af stofnun og rekstri annarra lýðháskóla hér á landi, einkum á Flateyri og Seyðisfirði. Starfshópurinn skili ráðherra niðurstöðum sínum eigi síðar en 31. maí 2019.

Greinargerð.

    Mál þetta var lagt fram á 148. löggjafarþingi en ekki var mælt fyrir því (482. mál). Málið er nú endurflutt lítillega breytt.
    Tillaga þessi er lögð fram þó svo að á Íslandi séu engin lög um lýðháskóla. Með þingsályktunartillögu nr. 41/145 um lýðháskóla frá 2. júní 2016 (17. mál á 145. löggjafarþingi) var mennta- og menningarmálaráðherra falið að hefja vinnu við gerð frumvarps til laga um lýðháskóla á Íslandi að norrænni fyrirmynd. Markmiðið með því var að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntakerfinu sem njóti lagalegrar umgjarðar og opinbers stuðnings, eins og segir í inngangi greinargerðar með tillögunni. Samkvæmt henni er ráðherra falið að leggja fram frumvarp í síðasta lagi á vorþingi 2017. Sú tímasetning hefur ekki staðist en vinna við samningu frumvarps til laga um lýðháskóla fer fram í ráðuneytinu um þessar mundir. Starfshópurinn sem skipuleggi stofnun lýðháskóla á Laugarvatni skal fylgjast með samningu löggjafar um lýðháskóla og taka mið af henni í vinnu sinni.

Lýðháskólar og ungmennabúðir.
    LungA-skólinn sem stofnaður var árið 2013 er lýðháskóli sem er starfræktur á Seyðisfirði og er rekinn á styrkjum frá opinberum aðilum og einkaaðilum auk skólagjalda. Þar er lögð áhersla á sjálfskoðun í gegnum listir og skapandi vinnu. Mikið og gott starf hefur farið þar fram.
    Haustið 2018 hóf Lýðháskólinn á Flateyri starfsemi sína. Þar eru í boði tvær ólíkar námsleiðir sem hvor um sig taka við að hámarki 20 nemendum. Önnur námsleiðin byggist á styrkleikum staðarins, þ.e. samfélagi, náttúru og menningu, en hin námsleiðin byggist á hugmyndavinnu og sköpun. Skólinn nýtir vannýtt húsnæði í þorpinu fyrir starfsemi sína.
    Í gegnum tíðina hefur Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) reglulega viðrað áhuga á því að stofna lýðháskóla. Í nokkur skipti hefur verið farið af stað með verkefnið en það hefur jafnan stöðvast, því að ekki er til lagaumgjörð um þetta skólaform á Íslandi, eins og fram hefur komið. UMFÍ leggur áherslu á að hlutirnir gerist í réttri röð og að lagaumgjörð sé fyrsta skrefið. Áhugi er fyrir stofnun lýðháskóla á Laugarvatni með aðkomu menntamálayfirvalda og Bláskógabyggðar. UMFÍ hefur nú þegar myndað samstarfsteymi við lýðháskóla í Danmörku sem er tilbúinn að leggja sitt af mörkum í undirbúningi og framkvæmd, enda er rík hefð fyrir lýðháskólum í Danmörku og víðar á Norðurlöndunum. UMFÍ hefur rekið ungmennabúðir á Laugum í Sælingsdal til fjölda ára. Þar koma skólahópar í 9. bekk í tæplega vikudvöl með kennurum sínum. Eftirsóknarvert hefur verið að koma í búðirnar en þar er lögð áhersla á félagsfærni, útivist og upplifun án nútímatæknibúnaðar. Öll viðfangsefnin eru unnin í óformlegu námi. Nú hefur Dalabyggð selt eignirnar að Laugum og óvissa er uppi um hvað við tekur. Rætt hefur verið um að færa búðirnar að Laugarvatni.
    Með aðkomu UMFÍ á Laugarvatni myndast tækifæri til þess að koma að stofnun lýðháskóla og rekstri ungmennabúða og tryggja um leið að ýmis verkefni stöðvist ekki heldur geti haldið áfram í óbreyttri mynd. Þar má t.d. nefna stuttar ferðir, samkomur og fundi íþrótta- og ungmennafélaga, og ekki síst sumarbúðir Íþróttasambands fatlaðra en fram hefur komið eindreginn vilji forsvarsmanna sambandsins til að halda búðunum starfræktum áfram.

Kostir lýðháskóla.
    Í lýðháskóla er unnið út frá öðrum áherslum og markmiðum en viðgengst í hefðbundnum bók- og verknámsskólum. Þar er mikil áhersla lögð á mannrækt, sjálfsrækt og virka þátttöku nemenda. Lýðháskóli er góð millilending fyrir nemendur sem vita ekki í hvaða átt þeir vilja stefna og fyrir ungt fólk sem flosnað hefur upp úr námi. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar um áhrif þess að fara í lýðháskóla sýna marktæk jákvæð áhrif af veru í lýðháskóla í tengslum við brottfall úr námi. Ungt fólk sem flosnað hefur úr námi eykur líkur sínar á því að fara aftur í nám og ljúka því með því að fara í lýðháskóla.