Ferill 124. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 124  —  124. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., nr. 76/2008 (fríhafnarverslun).

Flm.: Teitur Björn Einarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Orðin „þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á flugvallarsvæðinu“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Félagið skal bjóða út allan rekstur verslunar með tollfrjálsar vörur og þjónustu í flugstöðinni í samræmi við ákvæði laga um opinber innkaup. Um val á verslunarrekendum og þjónustusölum, staðsetningu þeirra, vöruval, rekstur að öðru leyti og önnur samskipti skal gæta virkrar samkeppni, jafnræðis, meðalhófs og gagnsæis. Við ákvarðanatöku skal félagið einnig leggja til grundvallar að sem mest fjölbreytni ríki í vöruvali og þjónustu auk þess sem rekstrarhagsmunir félagsins séu tryggðir.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2019.

Greinargerð.

Markmið og meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins er að kveða á um að ríkið, í gegnum Isavia ohf. og dótturfélag þess Fríhöfnina ehf., hætti að reka verslanir með tollfrjálsar vörur í smásölu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en bjóði þess í stað verslunarrými út til fyrirtækja á almennum smásölumarkaði sem annist alla verslunarþjónustu við farþega flugstöðvarinnar, þ.m.t. Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til að selja áfengi og tóbak. Í núverandi lagaumhverfi er sérstaklega mælt fyrir um skyldu Isavia ohf. til að hafa með höndum rekstur fríhafnarverslunar.
    Markmið frumvarpsins er að breyta þessu fyrirkomulagi og mæla fyrir um að ríkið hætti samkeppnisrekstri á ýmsum smásöluvörum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en bjóði þess í stað út allan rekstur á verslunum með vörur og þjónustu í samræmi við ákvæði laga um opinber innkaup þar sem gætt sé að jafnræði fyrirtækja og stuðlað að virkri samkeppni milli aðila á innlendum smásölumarkaði.
    Tilgangurinn er að hlutverk Isavia ohf. verði áfram að meginstefnu til að annast rekstur og uppbyggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en öðrum aðilum verði falinn rekstur verslunar og þjónustu í flugstöðinni. Þannig er skilið betur á milli þess sem fellur undir eðlilegt verksvið ríkisins í flugstöðinni og hefðbundinnar verslunar og þjónustu sem best er komin í höndum einkaaðila í virkri samkeppni á smásölumarkaði.

Um fríhafnarverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
    Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið rekin fríhafnarverslun með einum eða öðrum hætti frá árinu 1958. Um áramótin 2009 tók Keflavíkurflugvöllur ohf. við rekstri Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en félagið var stofnað til að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarins og flugstöðvarinnar. Félagið annaðist einnig flugleiðsöguþjónustu og þjónustu við flugrekendur, rekstur fríhafnarverslana og aðra starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar auk þess að sjá um hagnýtingu flugvallarins í þágu öryggis- og varnarmála. Skömmu eftir stofnun Keflavíkurflugvallar ohf. var hafist handa við að kanna kosti sameiningar Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. Í kjölfarið voru lög þess efnis, nr. 153/2009, samþykkt á Alþingi og Isavia ohf. stofnað árið 2010. Isavia á og rekur félagið Fríhöfn ehf. sem er sérstakt einkahlutafélag sem hefur þann afmarkaða tilgang að reka umræddar fríhafnarverslanir. Í núverandi lagaumhverfi, nánar til tekið í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar ofl., er sérstaklega mælt fyrir um skyldu Isavia til hafa með höndum rekstur fríhafnarverslana.
    Fríhöfnin ehf. rekur nú fimm verslanir, fjórar fyrir brottfararfarþega og eina fyrir komufarþega, sem njóta opinberrar íhlutunar í formi skattleysis og bjóða upp á vörur á verulega lægra verði en viðgengst á almennum markaði. Slíkt skekkir ekki einungis innlenda samkeppni heldur eru skatttekjur ríkisins af innlendri verslun lægri vegna núverandi fyrirkomulags sem leiðir til þess að innlendir neytendur bera hlutfallslega hærri byrðar en ella.
    Meðal vara sem Fríhöfnin ehf. býður upp á í flugstöðinni eru auk áfengis og tóbaks mikið úrval af sælgæti, snyrtivörum, leikföngum, ferðavörum og nærfötum frá Victorias´s Secret, en Fríhöfnin ehf. fékk nýlega umboð frá alþjóðlegu nærfatakeðjunni til sölu á þeim vörum. Er ekki óvarlegt, út frá umfangi verslunar Fríhafnarinnar ehf., að líta svo á að ríkið sé einn stærsti söluaðili sælgætis og snyrtivara á innanlandsmarkaði.
    Í evrópskum samkeppnisrétti hefur fríhafnarverslun verið skilgreind sem sérstakur vörumarkaður og sambærileg framkvæmd hefur því verið viðhöfð hér á landi. Ástæða er þó til að líta sérstaklega á sérstöðu fríhafnarverslunarinnar vegna annars vegar komuverslunar og hins vegar mikillar markaðshlutdeildar í tilteknum vöruflokkum. Komuverslanir þekkjast nær ekki í öðrum vestrænum samanburðarríkjum fyrir utan Noreg og Sviss. Þá ber að geta þess að ríkið getur með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi haft mikil áhrif á samkeppni og samkeppnisskilyrði í landinu, í þessu tilviki á innlendan smásölumarkað. Ríkið hefur komið á fót sérstakri samkeppnislöggjöf til að stuðla að virkari samkeppni og bera því stjórnvöld ríka ábyrgð á því að ryðja úr vegi hvers kyns samkeppnishindrunum. Á það sérstaklega við þegar ríkið er sjálft þátttakandi á samkeppnismarkaði með smásöluvörur þar sem ekki er þörf á rekstrarlegri aðkomu ríkisins. Til viðbótar við það hefur reynslan sýnt að ríkið er almennt mjög óskilvirkur rekstraraðili en skákar í því skjóli að þurfa ekki að keppa um fjármagn með sama hætti og einkaaðilar á markaði.
    Núverandi fyrirkomulag á fríhafnarverslun er þannig til þess fallið að vinna gegn virkri samkeppni á innlendum smásölumarkaði og rýra þar með kjör almennings til lengri tíma litið og draga úr jafnræði þeirra ásamt því að veikja tekjuöflunarkerfi ríkisins.
    Breytingin sem lögð er til með frumvarpinu miðar að því að færa starfsemi ríkisins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar nær því sem eðlilegt getur talist að falli undir verksvið ríkisvaldsins við rekstur á mikilvægu samgöngumannvirki eins og Keflavíkurflugvöllur er og skilja frá þeirri starfsemi ótengdan verslunarrekstur þar sem til staðar er virkur samkeppnismarkaður aðila með ýmsar smávörur. Mikilvægt er að við útboð á verslunarrýmum af hálfu hins opinbera hlutafélags Isavia verði ákvæðum laga um opinber innkaup fylgt og er þess sérstaklega getið að gæta þurfi virkrar samkeppni, jafnræðis milli aðila á markaði og gagnsæis við alla ákvarðanatöku.

Mat á áhrifum og gildistaka.
    Lagt er til grundvallar að frumvarpið hafi ekki mikil áhrif á heildarafkomu Isavia þar sem afgjald fyrir afnot af verslunarrými í flugstöðinni hljóti að endurspegla eftir atvikum þann ábata sem félagið hefur haft af fríhafnarrekstrinum.
    Flutningsmenn gera ráð fyrir að Isavia gefist nægilega rúmur tími frá samþykkt frumvarpsins fram að gildistöku til að gera viðeigandi ráðstafanir með Fríhöfn ehf. og undirbúa útboð samkvæmt efni frumvarpsins.