Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 154  —  154. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum (lenging fæðingarorlofs).

Flm.: Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „þrjá“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fimm.
     b.      Í stað orðsins „þremur“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: tveimur.
     c.      Í stað orðsins „níu“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: tólf.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „þrjá“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fimm.
     b.      Í stað orðsins „þrjá“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: tvo.
     c.      Í stað orðsins „níu“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: tólf.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „þrjá“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fimm.
     b.      Í stað orðsins „þrjá“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: tvo.
     c.      Í stað orðsins „níu“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: tólf.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

    Í frumvarpinu er lagt til að fæðingarorlof verði lengt úr níu mánuðum í tólf og felur sú breyting í sér aukinn rétt beggja foreldra auk þess sem ungbörn fá meiri tíma til samvista með foreldrum sínum. Sveitarfélög víða um land leitast við að brúa þann tíma þegar foreldrar þurfa að bíða eftir dagvistun eftir að fæðingarorlofi lýkur. Ríki og vinnumarkaður þurfa að leggja sitt af mörkum til að ná því markmiði.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sjálfstæður réttur hvers foreldris skv. 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna verði fimm mánuðir og að sameiginlegur réttur foreldra skv. 3. málsl. sömu málsgreinar verði tveir mánuðir. Sambærileg breyting er lögð til á 18. gr. þar sem kveðið er á um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar og 19. gr. þar sem kveðið er á um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi. Sú skipting er í samræmi við tillögur starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem skilaði velferðarráðuneytinu skýrslu í mars 2016. 1 Í starfshópnum sátu fulltrúar stéttarfélaga, sveitarfélaga og atvinnulífs.
    Í árslok 2012, í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, voru samþykkt lög nr. 143/2012, um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, þar sem kveðið var á um lengingu fæðingarorlofs úr samtals níu mánuðum í tólf mánuði. Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum í maí 2013 var horfið frá þessum breytingum.

1     www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/skyrslur2016/11032016_Framtidarstefna_i_daedingarorlofsmalum.pdf