Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 168  —  167. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (endurgreiðslur vegna námslána).

Flm.: Sigríður María Egilsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Karl Gauti Hjaltason, Þorsteinn Víglundsson.


1. gr.

    Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Útgjöld vegna endurgreiðslu námslána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, sbr. ákvæði laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum. Frádráttur frá tekjum hvers einstaks gjaldanda, sbr. framangreint, skal þó að hámarki nema 1.000.000 kr. árlega.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 148. löggjafarþingi (391. mál) og er nú endurflutt óbreytt.
    Frumvarpið er lagt fram til þess að koma til móts við einstaklinga sem lokið hafa námi og hafið endurgreiðslur á námslánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Hlutverk sjóðsins er að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992. Raunin er hins vegar sú að kostnaðarsamt nám leiðir ekki alltaf til hærri launa að námi loknu og situr einstaklingurinn nánast alltaf eftir með lán á bakinu ofan á kostnað við uppihald. Þessi lán geta haft áhrif á greiðslugetu einstaklinga, t.d. til fasteignakaupa, og skert kjör þeirra samanborið við einstaklinga sem öfluðu sér ekki menntunar og fóru beint á vinnumarkað.
    Markmið þessa frumvarps er fjórþætt. Í fyrsta lagi hefur frumvarpið þann tilgang að jafna stöðu einstaklinga sem hafa aflað sér menntunar en gegna ekki endilega hálaunastöðum að námi loknu. Háskólamenntun leiðir ekki alltaf til hærri launa á vinnumarkaði, þrátt fyrir að sú þekking og færni sem menntaðir einstaklingar leggja til þjóðfélagsins sé auðgandi og nauðsynleg fyrir íslenskt efnahagslíf. Aukið menntunarstig er og verður þjóðhagslega hagkvæmt en ætti ekki að fela í sér skert lífsgæði að námi loknu. Í öðru lagi er frumvarpinu ætlað að fela í sér efnahagslegan hvata fyrir lánþega sem lokið hafa námi til þess að greiða niður lán sín fyrr en ella. Þetta lækkar lánabyrði einstaklingsins en styrkir jafnframt stöðu lánasjóðsins. Aukið innstreymi fjármagns til LÍN hefur í för með sér að minni þörf er á að skerða rétt núverandi námsmanna til lána frá sjóðnum. Í þriðja lagi er frumvarpinu ætlað að stuðla að bættri afkomu ríkissjóðs þar sem fjárþörf LÍN yrði að hluta til mætt með hraðari endurgreiðslu námslána í stað beinna greiðslna úr ríkissjóði. Í fjórða lagi er frumvarpinu ætlað að gefa lánþegum LÍN sem lokið hafa námi kost á því að greiða niður hluta námslána sinna hjá LÍN árlega, en njóta á móti skattalegs hagræðis af því að hafa skattalega heimilisfesti á Íslandi. Breytingin getur því leitt til þess að vel menntaðir einstaklingar sjái hag sinn í því að taka þátt í íslensku atvinnulífi og átt þátt í að koma í veg fyrir atgervisflótta og þar með bætt samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs.
    Frumvarpið felur í sér að gjaldendum sem greiða niður námslán sín hjá LÍN, hvort sem er í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, eða umfram skyldur þar, verði heimilaður frádráttur frá skattskyldum tekjum að sömu upphæð, að hámarki þó 1.000.000 kr. árlega.
    Fyrsta markmiðið með frumvarpinu er að jafna stöðu einstaklinga sem aflað hafa sér menntunar við stöðu einstaklinga sem fyrr fóru á vinnumarkað, sem og að bæta stöðu einstaklinga sem lokið hafa kostnaðarsömu námi sem endurspeglast ekki endilega í tekjum þeirra. Það er raunveruleiki á íslenskum vinnumarkaði að ekki eru öll störf sem standa menntuðum einstaklingum til boða betur launuð en önnur störf á vinnumarkaði. Þó er óumdeilt að gildi menntunar fyrir þjóðfélagið er gífurlegt og þjóðhagsleg hagkvæmni falin í háu menntunarstigi. Með því að gera afborganir námslána frádráttarbærar er komið til móts við þann kostnað sem menntun getur haft í för með sér fyrir einstaklinga og er ákveðið jöfnunartækifæri fyrir þennan þjóðfélagshóp meðan hann kemur undir sig fótum eftir kostnaðarsamt háskólanám. Breytingunni er einnig ætlað að auðvelda lánþegum að greiða niður námslán sín hraðar, óháð tekjumöguleikum þeirra að námi loknu, og komast þannig hjá því að tekjutengdar afborganir leiði til þess að endanlegur vaxtakostnaður verði verulega hár sökum lengri afborgunartíma.
    Annað markmiðið með frumvarpinu er að hvetja þá aðila sem eru aflögufærir að spara með þessum hætti. Niðurgreiðsla lána er eitt form sparnaðar og með því að gefa lánþegum LÍN sem lokið hafa námi kost á að greiða niður hluta námslána sinna á hagfelldan hátt er í raun verið að bjóða upp á eina leið sparnaðar fyrir viðkomandi. Þar með væri kominn hvati til þess að greiða inn á lánið umfram skyldubundna afborgun, sem myndi bæði leiða af sér lægri vaxtakostnað fyrir einstaklinga sem og bætta afkomu LÍN. Aukið innstreymi fjármagns til LÍN væri sjóðnum verulega til hagsbóta og til þess fallið að aukin hagræðing hjá sjóðnum bitnaði síður á þeim sem síst skyldi, þ.e. námsmönnum sem byggja afkomu sína á lánum frá sjóðnum.
    Þriðja markmiðið er að flýta endurgreiðslum til LÍN, styrkja stöðu sjóðsins og auka endurheimtuhlutfall. Breytingin er til þess fallin að hvetja til aukinnar endurheimtu fjármagns til LÍN, sem á móti þýðir minni fjárþörf sem endurheimtunni nemur, en ellegar kæmi hún frá hinu opinbera. Lögbundið hlutverk LÍN er að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag og sjóðnum ber því ávallt skylda til þess að lána þeim sem til hans leita. Aðsókn í lánshæft nám hefur færst í aukana og því ljóst að fjárþörf LÍN mun halda áfram að aukast. Þegar sjóðinn skortir fjármagn til útlána kemur fjármagnið úr ríkissjóði. Með því að hvetja til hraðari niðurgreiðslu námslána, eins og þessi lagabreyting felur í sér, aukast þeir fjármunir sem LÍN hefur til ráðstöfunar og getur lánað út aftur. Þótt sjóðurinn kunni að verða af vaxtatekjum þá er vaxtastig lána sjóðsins langt undir ávöxtunarkröfu annarra fjármálastofnana og raunar lægra en raunávöxtun fjármagns á markaði. Því er töluvert hagræði falið í því fyrir sjóðinn að endurheimt verði hraðari sem eykur handbært fé sjóðsins til endurlána. Ríkissjóður verður vissulega af skatttekjum en með auknum hvata til skjótrar endurgreiðslu lána lækkar fjárþörf LÍN að sama skapi.
    Fjórða markmiðið með frumvarpinu er að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs fyrir hæfa og vel menntaða einstaklinga. Mikil umræða hefur verið um atgervisflótta eða svokallaðan spekileka þeirra einstaklinga sem auðvelt eiga með að fá atvinnu erlendis, oft vegna þess að þeir hafa lokið framhaldsnámi eða sérhæft sig á einhverjum sviðum. Langskólagengnir einstaklingar hafa oft og tíðum há námslán á bakinu eftir slíkt nám. Sú breyting sem mælt er fyrir um í frumvarpinu felur því í sér að fólk sem nýtur tekna sem eru skattskyldar á Íslandi og ráðstafar hluta tekna sinna til niðurgreiðslu námslána fær skattafslátt í formi frádráttar frá tekjuskattsstofni. Með þessu móti verða tekjur sem eru skattskyldar á Íslandi meira virði en áður í samanburði við tekjur sem eru skattlagðar erlendis, en aðeins yrði hægt að draga útgjöld vegna endurgreiðslu námslána hjá LÍN frá tekjum sem skattskyldar eru á Íslandi, enda er eingöngu um breytingu á íslenskum tekjuskattslögum að ræða. Þannig felur frumvarpið í sér efnahagslega hvata fyrir lánþega LÍN sem lokið hafa námi til þess að starfa á Íslandi og eykur þannig samkeppnishæfni íslensks vinnumarkaðar auk þess að draga úr atgervisflótta.