Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 175  —  58. mál.
Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um aðdraganda að ávarpi forseta danska þingsins á hátíðarþingfundi á Þingvöllum.


     1.      Hver ber ábyrgð á þeim hluta alþjóðastarfs Alþingis að bjóða fulltrúum erlendra ríkja til Íslands fyrir hönd þingsins?
    Forsætisnefnd hefur umsjón með alþjóðastarfi Alþingis, sbr. 5 mgr. 10 gr. þingskapa. Hún fylgist með starfi alþjóðanefnda og ákvarðar fjárhagsramma þeirra. Þátttaka í öðru alþjóðastarfi en alþjóðanefnda fellur beint undir forseta og forsætisnefndina. Forseta berast árlega mörg boð um þátttöku í ráðstefnum og fundum sem ekki falla undir verksvið alþjóðanefnda og ákveður hann þá hvort og hvernig þátttöku Alþingis skuli háttað og hefur eftir atvikum samráð um það við forsætisnefnd. Þá annast forseti og forsætisnefnd tvíhliða samskipti Alþingis við önnur þjóðþing. Samráðsfundir sem forsetar þjóðþinga halda, t.d. reglubundnir fundir þingforseta NB8-landanna og ríkja Evrópuráðsins, eru hins vegar algjörlega í höndum forseta Alþingis. Á fundi forsætisnefndar 14.–15. ágúst í fyrra lá fyrir minnisblað, dags. 4. ágúst 2017, um hátíðahöld í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands, sbr. jafnframt ályktun Alþingis frá 16. okt. 2016. Það var ákvörðun forsætisnefndar að forseti og skrifstofan hefðu umboð til að vinna áfram að málinu.
    Á þessu ári, 2018, féll það í hlut Alþingis að bjóða til svonefnds NB8-fundar þingforseta norrænu þinganna og þinga Eystrasaltsríkjanna. Á fundi NB8 í fyrra var samþykkt sú tillaga Íslands að fundurinn yrði haldinn í tengslum við fullveldisafmælið í stað síðari hluta ágústmánaðar svo sem venja er til. Mörg boðsbréf voru því tengd báðum atburðum og send samtímis.

     2.      Hvenær var forseta danska þingsins formlega boðið að flytja ávarp á hátíðarþingfundi á Þingvöllum 18. júlí 2018? Hver tók þá ákvörðun og hvenær, og hvernig var ákvörðunarferlinu háttað? Óskað er eftir afriti af öllum samskiptum milli skrifstofu Alþingis og danska þingsins auk annarra upplýsinga sem varpað geta ljósi á þessa ákvörðun, undirbúning hennar og framkvæmd.
    Jafnskjótt og hugmyndir höfðu verið ræddar á sumarfundi forsætisnefndar í ágúst 2017 um fyrirkomulag fundar á Þingvöllum í tilefni fullveldisafmælisins var það kannað óformlega hjá skrifstofu danska þingsins hvort líklegt væri að forseti danska þingsins gæti þegið boð á hátíðarfund Alþingis og flutt ávarp á Þingvöllum. Málið var til athugunar um nokkurt skeið og loks ákveðið að því yrði ráðið til lykta á fundi sem forseti Alþingis átti með forseta danska þingsins 20. apríl 2018, en sá tvíhliða fundur var haldinn í tengslum við ferð forseta og forsætisnefndar á Jónshátíð í Kaupmannahöfn (sumardaginn fyrsta). Boðsbréf á hátíðarfund Alþingis voru send 14. febrúar 2018 til erlenda gesta en nánari dagskrá ekki send að því sinni. Tilkynningu um að danski þingforsetinn mundi flytja ávarp á Þingvöllum var birt á vef Alþingis 20. apríl 2018 og með henni fylgdi mynd af þingforsetunum með sérstakan fullveldisfána á milli sín með íslenskri áletrun.

     3.      Hvenær og með hvaða hætti voru fulltrúar í forsætisnefnd og formenn þingflokka upplýstir um að fyrirhugað væri að bjóða forseta danska þingsins á hátíðarþingfundinn í krafti embættis síns? Hvenær og með hvaða hætti voru þeir upplýstir um það þegar honum hafði verið boðið?
    Eins og áður er greint frá var forsætisnefnd skýrt frá málinu fyrir rúmu ári síðan. Almennt er gert ráð fyrir því að varaforsetar og áheyrnarfulltrúar skýri þingflokkum sínum frá málum sem rædd eru í forsætisnefnd og nokkru varða, eða áframsendi gögn sem máli skipta. Þá var, eins og áður sagði, skýrt frá málinu á vef Alþingis 20. apríl sl., allnákvæmlega, og má almennt reikna með því að slíkar tilkynningar lesi alþingismenn, eins og margar aðrar tilkynningar um starfsemi þingsins. Rétt er að leggja áherslu á að þegar þingforsetum erlendra ríkja er boðið í opinbera heimsókn, þeir sóttir heim eða önnur hefðbundin samskipti átt við þá er ekki spurt um stjórnmálaskoðanir viðkomandi einstaklings enda er boðið til þess sem er æðsti fulltrúi þjóðþingsins gangvart öðrum þingum. Gildir slíkt jafnt um smá sem stór ríki.

     4.      Leit forseti Alþingis svo á að birting tilkynningar um málið á vef Alþingis 20. apríl 2018 fullnægði upplýsingaskyldu hans gagnvart forsætisnefnd og þingflokksformönnum? Ef ekki, hvernig ber að hátta upplýsingagjöf svo að hún teljist fullnægjandi þegar fulltrúum erlendra ríkja er boðið til Íslands á vegum Alþingis? Óskað er eftir afriti af dagskrá funda, dagskrárskjölum og af þeim liðum fundargerða forsætisnefndar og funda forseta Alþingis með þingflokksformönnum sem varpað geta ljósi á málið.
    Í ályktun Alþingis frá okt. 2016 var hátíðarfundurinn ákveðinn, og var þingfrestun í júní 2018 miðuð við þær dagsetningar. Meginundirbúningur fundarins á þessu ári hefur að sjálfsögðu að mestu snúist um þau málefni sem afgreidd yrðu á þingfundinum að þessu sinni, eins og venja hefur verið á hátíðarfundum Alþingis 1974, 1994 og árið 2000. Á fundi forsætisnefndar við lok þinghalds, 11. júní, sl., svo og í lokaávarpi sínu minnti forseti á fundinn svo sem hann hafði áður gert í ávarpi við þingsetningu. Skrifstofan sendi síðan út í fyrri hluta júlímánaðar (9. og 13.) til þingmanna nokkra tölvupósta með upplýsingum um fundinn og fyrirkomulag hans, þar á meðal fyrirhugaða dagskrá fundarins. Enn fremur voru gögn undirbúin og lögð fyrir forsætisnefnd og formenn þingflokka 17. júlí. Forstöðumaður þingfundaskrifstofu, sem hafði á hendi undirbúning framkvæmda við Þingvallafundinn, svo og samvinnu við alla þá aðila sem að málinu komu, var á fundi forsætisnefndar 19. janúar 2018 þar sem lá fyrir minnisblað um fundinn og undirbúning hans. Forsætisnefnd fjallaði einnig um Þingvallafundinn 9. apríl sl. Upplýsingar lágu því fyrir löngu áður en forseti fór ítarlega yfir málið á fundi nefndarinnar 17. júlí.

     5.      Hvaða ástæður hefðu nægt til að forseti Alþingis hefði afturkallað boð sitt til forseta danska þingsins á hátíðarþingfundinn á Þingvöllum og hversu langan fyrirvara hefði þurft að hafa til að sómi hlytist af?
    Ógerningur er að svara spurningunni þar sem ekkert dæmi finnst um að formlegt boð til erlends þingforseta eða til sérstaks gests á vegum Alþingis hafi verið afturkallað. Fyrir því er engin „venja“ og tilgangslítið að geta sér til um hvaða ástæður gætu legið til þess né hvaða fyrirvarar ættu að vera á slíku. Og ekki víst að sómi væri að.