Ferill 178. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 181  —  178. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr (íslenskukunnátta).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.


1. gr.

    5. mgr. 6. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Dýralæknum, sem hefja störf á Íslandi, ber að kynna sér íslensk lög og reglur um dýralækningar. Heimilt er að gera kröfu í reglugerð um að dýralæknir búi yfir kunnáttu í íslensku eftir því sem við á hverju sinni, enda sé slík kunnátta talin nauðsynleg í starfi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæði 6. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, þannig að ekki verði gerð sú almenna krafa að dýralæknar í opinberri þjónustu hafi vald á íslenskri tungu heldur verði heimilt að gera þá kröfu ef slík kunnátta sé talin nauðsynleg í starfi. Frumvarpið er m.a. samið með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9510/2017. Athugun umboðsmanns beindist m.a. að því hvort það samræmist lögum sem gilda um starfsemi Matvælastofnunar að stofnunin ráði dýralækna sem hafa ekki vald á íslenskri tungu. Var það niðurstaða umboðsmanns að slíkt sé ekki í samræmi við 5. mgr. 6. gr. laganna. Í álitinu vekur umboðsmaður athygli á ákvæðum laga nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt 1. gr. laganna hafa ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan Evrópusambandsins eins og henni var breytt með ákvæðum EES-samningsins, lagagildi hér á landi. Bendir umboðsmaður á að reglugerðin kunni að hafa þýðingu um réttindi dýralækna sem hafa ekki vald á íslensku til að starfa hér á landi í opinberri þjónustu ef til stendur að ráða í starf þar sem íslenskukunnátta skiptir ekki máli vegna eðlis starfsins.
    Við gerð frumvarpsins var m.a. leitað upplýsinga hjá landlækni um þær kröfur sem gerðar eru til heilbrigðisstarfsmanna, sbr. lög nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn sem og reglugerðir þar um. Hvorki í fyrrgreindum lögum né reglugerðum er gerð skýlaus krafa um að heilbrigðisstarfsmenn hafi vald á íslensku en til þess er hins vegar heimild, sbr. 4. málsl. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 34/2012 sem hljóðar svo: „Auk þess er heimilt að gera kröfu um að umsækjandi búi yfir kunnáttu í íslensku og hafi þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf eftir því sem við á hverju sinni, enda sé slík kunnátta talin nauðsynleg í starfi og þá einkum vegna öryggis og samskipta við sjúklinga.“ Við veitingu starfsleyfis fyrir erlenda heilbrigðisstarfsmenn leggur landlæknir síðan mat á hvort gera eigi kröfu um íslenskukunnáttu. Fyrirhugað er að í kjölfar þeirrar lagabreytingar sem um ræðir í þessu frumvarpi verði sett í reglugerð nánari viðmið um það við hvaða aðstæður gerðar verði kröfur um íslenskukunnáttu hjá erlendum dýralæknum sem hyggjast starfa á Íslandi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með lagasetningunni er þess gætt að Matvælastofnun geti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu auk þess sem gætt er að þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu. Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9510/2017 vakti hann athygli á að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, (ESB) nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan Evrópusambandsins kynni að hafa þýðingu um réttindi dýralækna sem hafa ekki vald á íslensku til að starfa hér á landi í opinberri þjónustu ef til stendur að ráða í starf þar sem íslenskukunnátta skiptir ekki máli vegna eðlis starfsins. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur m.a. fram að ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkja skuli ekki gilda í þeim tilvikum þar sem þau takmarka umsóknir um og framboð á atvinnu eða rétt erlendra ríkisborgara til að hefja og stunda atvinnu eða setja þeim önnur skilyrði en þau sem gilda um þeirra eigin ríkisborgara. Þetta eigi þó ekki við í þeim tilvikum sem tungumálakunnátta skiptir máli vegna eðlis starfsins sem um ræðir.
    Samkvæmt gildandi lögum er sú krafa gerð að dýralæknar sem starfi í opinberri þjónustu hafi vald á íslenskri tungu. Upp hafa komið þær aðstæður að ekki hefur reynst mögulegt að manna stöður til samræmis við fyrrgreint skilyrði.
    Að öllu ofangreindu virtu þykir mikilvægt að koma starfsemi Matvælastofnunar í lögmætt horf og fella brott skilyrði um vald á íslenskri tungu, en veita frekar heimild til að gera þá kröfu ef slík kunnátta er talin nauðsynleg í starfi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 6. gr. laganna þar sem fallið er frá ófrávíkjanlegri kröfu um íslenskukunnáttu dýralækna í opinberri þjónustu. Þess í stað þykir rétt að heimilt sé að gera þá kröfu ef slík kunnátta er talin nauðsynleg í starfi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá. Litið var til ákvæða laga nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt 1. gr. laganna hafa ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan sambandsins, eins og henni var breytt með ákvæðum EES-samningsins, lagagildi hér á landi. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur m.a. fram að ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkja skuli ekki gilda í þeim tilvikum þar sem þau takmarka umsóknir um og framboð á atvinnu eða rétt erlendra ríkisborgara til að hefja og stunda atvinnu eða setja þeim önnur skilyrði en þau sem gilda um þeirra eigin ríkisborgara.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst starfsemi Matvælastofnunar og dýralækna. Það er samið með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9510/2017. Frumvarpið var til umsagnar í samráðsgátt Stjórnarráðsins á Ísland.is tímabilið 24. ágúst til 2. september 2018. Alls bárust fimm umsagnir. Umsagnaraðilar voru m.a. Bændasamtök Íslands, Dýralæknafélag Íslands og Samtök iðnaðarins. Í umsögnum var lagst gegn fyrirhugaðri breytingu og lögð áhersla á mikilvægi þess að dýralæknar hafi vald á íslenskri tungu þar sem þörf sé á. Ákveðins misskilnings virtist gæta í hluta umsagna þess efnis að yrði af lagabreytingunni yrði Matvælastofnun ekki bundin lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og þeirri meginreglu að íslenska sé mál stjórnvalda. Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum verður Matvælastofnun eftir sem áður bundin af fyrrgreindum lögum um stöðu íslenskrar tungu þar sem lagabreytingin kveður einungis á um að ekki verði gerð krafa um íslenskukunnáttu allra dýralækna. Þrátt fyrir fyrirhugaða lagabreytingu ber Matvælastofnun sem stjórnvaldi að uppfylla skilyrði laga nr. 61/2011.
    Brýnt þykir að koma starfsemi Matvælastofnunar í lögmætt horf og fella brott skilyrði um vald á íslenskri tungu til þess að stofnuninni verði til að mynda gert kleift að ráða til sín erlenda dýralækna tímabundið vegna sláturtíðar. Því er lagt til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

6. Mat á áhrifum.
    Samþykkt frumvarpsins verður almenningi til hagsbóta þar sem tryggt verður að Matvælastofnun geti sinnt sínu lögbundna eftirlitshlutverki sem varðar t.d. frumframleiðslu, úrvinnslu og markaðssetningu landbúnaðarafurða.
    Einnig verður samþykkt frumvarpsins stjórnsýslu ríkisins til hagsbóta þar sem Matvælastofnun yrði gert kleift að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Að öðru leyti hefur samþykkt frumvarpsins ekki áhrif.
    Frumvarpið snertir dýralækna á Íslandi en ekki eru fyrir hendi tölulegar upplýsingar um kynjahlutfall dýralækna. Ákvæði frumvarpsins snerta bæði kynin jafnt og er því ekki ætlað að hafa áhrif á stöðu kynjanna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum hefur það ekki áhrif á tekjur eða gjöld ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að ekki verði gerð sú krafa að dýralæknar í opinberri þjónustu hafi vald á íslenskri tungu heldur verði heimilt að gera þá kröfu ef slík kunnátta sé talin nauðsynleg í starfi.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.