Ferill 211. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 223  —  211. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um rafræna birtingu á álagningu skatta og gjalda.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.

1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkisskattstjóra er heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum.

2. gr.

    Við 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna bætist: og er ríkisskattstjóra heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt.

III. KAFLI

Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

3. gr.

    Við 4. mgr. 12. gr. laganna bætist: og er ríkisskattstjóra heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt.

IV. KAFLI

Breyting á lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, með síðari breytingum.

4. gr.

    Við 4. mgr. 10. gr. laganna bætist: og er ríkisskattstjóra heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt.

V. KAFLI

Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.

5. gr.

    Við 4. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna bætist: og er ríkisskattstjóra heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt.

VI. KAFLI

Breyting á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.

6. gr.

    Í stað 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sveitarstjórn annast álagningu fasteignaskatts. Skal hún fara fram í fasteignaskrá og er sveitarstjórn heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt.

VII. KAFLI

Breyting á lögum nr. 70/2015, um sölu fasteigna og skipa, með síðari breytingum.

7. gr.

    Við 2. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna bætist: og er heimilt að senda honum tilkynningu um álagningu eftirlitsgjalds rafrænt.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum.

8. gr.

    Á undan 2. málsl. 1. mgr. 28. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að senda eiganda skips tilkynningu um álagningu skipagjalds rafrænt.

IX. KAFLI

Breyting á skipulagslögum, nr. 123/2010, með síðari breytingum.

9. gr.

    Við 4. málsl. 3. mgr. 17. gr. laganna bætist: og er innheimtumanni ríkissjóðs heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt.

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með því er lagt til að rafræn birting verði meginreglan þegar kemur að birtingu tilkynninga um álagningu skatta og gjalda.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á bættan ríkisrekstur. Meðal annars skal stefnt að því að almannaþjónusta verði markvisst bætt með því að setja á fót rafræna þjónustugátt þar sem landsmenn geti á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt erindum sem beinast að stjórnvöldum. Í sáttmálanum kemur einnig fram það markmið að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og lögð áhersla á að stjórnsýslan sé skilvirk og réttlát. Til að fylgja eftir þessum áherslum er stefnt að öflugri rafrænni stjórnsýslu og fjölbreyttum möguleikum á sjálfsafgreiðslu fyrir gjaldendur, m.a. á þjónustugáttinni Ísland.is.
    Ísland er í kjörstöðu þegar kemur að hagnýtingu upplýsingatækni við veitingu opinberrar þjónustu. Tæknilegir innviðir eru allir til staðar og aðgengi og notkun landsmanna á upplýsingatækni með því besta sem gerist.
    Í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, er kveðið á um lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar þegar til greina kemur að taka stjórnvaldsákvörðun, þ.e. ákvörðun um réttindi og skyldur borgaranna. Í 20. gr. laganna felst svokölluð birtingarregla, þ.e. að birta beri aðila máls efni ákvörðunar sem bindur enda á stjórnsýslumál. Skyldan til að tilkynna ákvörðun hvílir á því stjórnvaldi sem ákvörðun tekur. Í lagagreininni er ekki kveðið á um tiltekinn birtingarhátt og því ræðst hann af formi ákvörðunar. Ákvarðanir um álagningu skatta og gjalda eru taldar íþyngjandi og því eru þær jafnan tilkynntar skriflega hvort sem kveðið er á um slíkan birtingarhátt í sérlögum eður ei. Í því ljósi og með hliðsjón af breytingum sem hafa orðið með auknum tækniframförum er tækifæri til hagræðingar fyrir hendi þegar kemur að útsendingu tilkynninga um álagningu skatta og gjalda.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er haldið áfram með þróun frá því 30. maí 2018, þegar rafræn birting álagningar tekjuskatts var heimiluð með 5. gr. laga nr. 50/2018. Þannig er lagt til að ýmsum lögum á sviði skattamála verði breytt þannig að í þeim verði kveðið skýrt á um heimild opinberra aðila til að birta skattþegnum tilkynningar um álagningu skatta og gjalda á rafrænan hátt. Réttaráhrif birtingar á rafrænu formi verða þau að þegar tilkynning um álagningu er birt á rafrænu svæði telst birting hafa átt sér stað.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, lögum nr. 70/2015, um sölu fasteigna og skipa, lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, og skipulagslögum, nr. 123/2010.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Þar sem skattamálum skal skipað með lögum verður markmiðum frumvarpsins aðeins náð með breytingum á skattalögum. Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess gætt sérstaklega við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum.
    Í ljósi þeirrar lágmarksreglu sem kveðið er á um í 20. gr. stjórnsýslulaga, að teknu tilliti til eðlis tilkynninga um álagningu skatta og gjalda og þeirrar réttaráhrifa sem þeim fylgja, skortir í mörgum tilvikum skýra, ótvíræða og samræmda lagastoð fyrir rafrænni birtingu slíkra tilkynninga.
    Ekki er talið að áformin komi inn á svið stjórnarskrár og þjóðréttarskuldbindinga. Áformin varða ekki ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð, tæknilegar reglur um vöru og fjarþjónustu eða frelsi til að veita þjónustu.

5. Samráð.
    Margir geta haft hagsmuni eða skoðun á áformunum og síðar frumvarpinu. Í grunninn geta allir þeir sem eiga í skriflegum samskiptum við álagningaraðila skatta og fleiri stofnanir haft hagsmuni af þeim, þ.m.t. allir skattgreiðendur. Því er brýnt að efni frumvarpsins verði vel kynnt almenningi af hálfu embættis ríkisskattstjóra verði það að lögum.
    Við vinnslu þessa frumvarps var haft samráð við fulltrúa frá fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá var ráðgast við embætti tollstjóra og ríkisskattstjóra á frumstigum málsins.

6. Mat á áhrifum.
    Með því að falla frá því fyrirkomulagi að tilkynna skriflega um álagningu skatta og gjalda þykir líklegt að útgjöld ríkisins dragist saman um sem nemur 120 millj. kr. á ári. Sú fjárhæð nemur samanlögðum kostnaði ríkisaðila af póstburðargjöldum vegna útsendinga tilkynninga um álagningu skatta og gjalda. Við undirbúning frumvarpsins hefur verið litið til greiningar sem unnin var af skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í henni er aðeins tekið tillit til lægri póstburðargjalda en ekki metið hagræði hins opinbera af skjalavistun og frágangi útsendra tilkynninga.
    Rafrænar tilkynningar um álagningu hafa jákvæð fjárhagsleg áhrif í för með sér fyrir ríki og sveitarfélög. Óbein áhrif af breytingunum eru einnig jákvæð fjárhagslega, svo sem minna umstang við umsýslu skjala, betra aðgengi að gögnum og hagkvæmari vistun af hálfu álagningaraðila, einstaklinga og lögaðila. Einnig er rafræn birting almennt mun einfaldari í framkvæmd en bréfasendingar. Árlega greiðir íslenska ríkið um 500 millj. kr. fyrir bréfasendingar til einstaklinga og lögaðila. Af þeirri fjárhæð nemur árlegur kostnaður við að senda út tilkynningar um álagningu opinberra gjalda um 120 millj. kr. Óljóst er hverju áhrifin munu nema á útgjaldahlið sveitarfélaganna en vitað að þau geta að einhverju marki orðið jákvæð.
    Í júní síðastliðnum var gerð breyting á birtingu tilkynningar um álagningu bifreiðagjalda með reglugerð nr. 644/2018. Breytingin fólst í því að 205 þúsund einstaklingar fengu rafræna tilkynningu í pósthólfið á Í sland.is en ekki með bréfpósti eins og áður hefur tíðkast og 60 þúsund lögaðilar fengu sendan rafrænan reikning. Hægt var að óska eftir því hjá þjónustuveri tollstjóra að fá seðilinn sendan heim á pappírsformi. Breytingin var vel auglýst í blöðum, á vefmiðlum og með útvarpsauglýsingum. Hvað innheimtuna varðar var innheimtuhlutfallið 20. ágúst 2018 örlítið betra en á sama tíma í fyrra samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslunni.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að ríkisskattstjóra verði heimilt að birta greiðendum bifreiðagjalds tilkynningu um álagningu gjaldsins rafrænt. Kveðið er á um gjalddaga og eindaga bifreiðagjalds í 1. mgr. 3. gr. laganna. Með reglugerð nr. 644/2018, sem tók gildi 21. júní 2018 var rafræn álagning bifreiðagjalds heimiluð og tekið fram að tilkynning um álagningu teldist birt skráðum eiganda ökutækis þegar hann gæti nálgast hana í pósthólfi á vefsvæðinu Ísland.is. Álagningin teldist bindandi frá og með þeim degi. Þetta gildir eftir sem áður en talið er að samræmisins vegna sé rétt að binda heimildina í lög.

Um 2. gr.

    Lagt er til að tilkynningar um álagningu erfðafjárskatts verði hér eftir rafrænar. Álagningin telst bindandi frá og með þeim degi sem erfingjar geta nálgast hana í pósthólfi á vefsvæðinu Ísland.is.

Um 3.–5. gr.

    Hér er lagt til að ríkisskattstjóra sé heimilt að senda gjaldendum tilkynningu um álagningu tryggingagjalds, fjársýsluskatts og olíugjalds rafrænt.

Um 6. gr.

    Lagt er til að sveitarstjórnum verði heimilt að senda gjaldendum tilkynningu um álagningu fasteignaskatts rafrænt.

Um 7. gr.

    Lagt er til í greininni að heimilt verði að senda fasteignasala tilkynningu um álagningu eftirlitsgjalds rafrænt.

Um 8. gr.

    Lagt er til að heimilt verði að senda eiganda skips tilkynningu um álagningu skipagjalds rafrænt.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að senda megi gjaldendum tilkynningu um álagningu skipulagsgjalds rafrænt.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.