Ferill 282. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 313  —  282. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögræðislögum, nr. 71/1997, með síðari breytingum (fyrirframgefin ákvarðanataka).

Flm.: Hanna Katrín Friðriksson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Halldóra Mogensen, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Fyrirframgefin ákvarðanataka.

    1. Lögráðamaður og aðrir sem koma að ákvarðanatöku um hag og meðferð lögræðissvipts manns skulu virða þann vilja hins lögræðissvipta sem hann hefur lýst með sannanlegum hætti áður en þörf til lögræðissviptingar skv. 4. gr. hefur skapast.
    2. Að sömu skilyrðum uppfylltum og kveðið er á um í 1. mgr. er manni heimilt að breyta, auka við eða afnema fyrirframgefna ákvarðanatöku sína.
    3. Undir fyrirframgefna ákvarðanatöku falla eftir tilvikum ákvarðanir um framkvæmd og lok meðferðar, þá þjónustu, aðstoð eða sérstöku úrræði sem hinn lögræðissvipti nýtur, meðferð fjármuna hans, umsjá barna sem hann fer einn með forræði yfir og aðrar ákvarðanir sem snúa að persónulegum högum hans þar til lögræðissvipting fellur úr gildi.
    4. Skylda til að virða fyrirframgefnar ákvarðanir lögræðissvipts manns tekur ekki til ákvarðana sem ómögulegt telst að framfylgja eða ganga gegn lögum eða góðu siðferði. Ef meðferð er hafnað með fyrirframgefinni ákvarðanatöku telst sú ákvörðun bindandi hafi hinn lögræðissvipti verið upplýstur um hugsanlegar afleiðingar þeirrar ákvörðunar í samræmi við lög um réttindi sjúklinga.

2. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    3. Heimilt er að krefjast úrskurðar um hvenær brýn þörf til lögræðissviptingar hafi skapast.

3. gr.

    Við 2. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé þess krafist skal dómari taka fram í úrskurði hvenær brýn þörf skv. 1. mgr. 4. gr. hafi skapast.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

Inngangur.
    Í fyrirframgefinni ákvarðanatöku (e. Advance Directive) felst viðurkenning samfélagsins á því að virða beri vilja lögræðissviptra einstaklinga þótt þeir hafi misst réttinn eða getuna til að taka ákvarðanir um eigið líf.
    Reglur um fyrirframgefna ákvarðanatöku hafa verði leiddar í lög, þó með ólíkum hætti, víða í Evrópu, Ástralíu, Bandaríkjunum og Kanada. Útfærslum á slíkum reglum má skipta í tvo flokka. Annars vegar eru reglur sem snúa að ákvarðanatöku sjúklinga með ólæknandi sjúkdóma um hversu lengi þeir hljóti lífsbjargandi meðferð, fari svo að þeir missi getuna til að tjá sig. Hins vegar eru reglur sem veita einstaklingum sem sviptir eru lögræði rétt til að taka bindandi ákvarðanir um hag sinn, áður en til lögræðissviptingar kemur. Á það helst við um fólk sem svipt er lögræði oftar en einu sinni um ævina, t.d. vegna geðrænna veikinda, eða fólk sem veit með fyrirvara að líklegt sé að til lögræðissviptingar muni koma, t.d. vegna elliglapa eða Alzheimers. Markmiðið með frumvarpi þessu er að vernda rétt þeirra sem tilheyra þeim hópum til töku eigin ákvarðana.
    Í skýrslu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um réttindi hvers manns til þess að njóta bestu mögulegu líkamlegrar og andlegrar heilsu frá júní 2017 kemur m.a. fram að í geðheilbrigðisþjónustu verði að virða „siðareglur læknisfræðinnar og mannréttindi (þ.m.t. „eigi skal skaða“), sem og valfrelsi, réttinn til að ráða ferðinni, sjálfsforræði, vilja, það sem einstaklingurinn kýs og mannlega reisn“. Þá segir enn fremur í skýrslunni: „Ofurtrú á lyfjafræðilegum inngripum, þvingun við meðferð og meðferð inni á stofnunum er ekki í samræmi við meginregluna um að valda ekki skaða, eða mannréttindi. Bjóða ætti starfsfólki í geðheilbrigðisþjónustu tækifæri til auka færni á sviði mannréttinda með reglulegu millibili.“ Er hér leitast við að bregðast við þessu mati.

Efni frumvarpsins.
    Í 55. gr. lögræðislaga er kveðið á um rétt lögræðissviptra einstaklinga til hafa áhrif á hver verði skipaður lögráðamaður þeirra, sem og um takmarkanir á þeim rétti. Með frumvarpi þessu er lagt til að á eftir 4. gr. laganna komi ný grein, 4. gr. a, sem veiti lögræðissviptum einstaklingum rýmri rétt til ákvarðanatöku um hagi sína en þann sem snýr eingöngu að skipun lögráðamanns.
    Þannig er í 1. mgr. 4. gr. a kveðið á um að bæði lögráðamanni og öðrum sem komi að ákvarðanatöku um hag og meðferð lögræðissvipts einstaklings beri að virða vilja hans. Þau skilyrði eru sett í ákvæðinu að hinn lögræðissvipti hafi annars vegar lýst vilja sínum með sannanlegum hætti og hins vegar að hann hafi gert það áður en þörf til lögræðissviptingar í skilningi 4. gr. laganna hafi skapast. Í orðalagi ákvæðisins um vilja hins lögræðissvipta felst einnig að yfirlýsing hans teljist ekki gild að lögum hafi hann verið beittur blekkingu, hótunum eða einhvers konar ólögmætri nauðung við gerð hennar.
    Varðandi form yfirlýsinga hefur á sumum svæðum verið lögfest skilyrði um að fyrirframgefin ákvarðanataka sé skrifleg og vottuð af einum til tveimur lögráða einstaklingum. Á það t.d. við á Englandi og þeim fylkjum Bandaríkjanna sem settar hafa sambærilegar reglur í lög. Verður að telja að slíkt form yfirlýsinga sé best til þess fallið að lýsa vilja hins lögræðissvipta á óvefengjanlegan hátt. Flutningsmenn frumvarpsins vilja þó ekki útiloka að önnur form yfirlýsinga geti einnig talist fullnægjandi sönnun á fyrirframgefinni ákvarðanatöku.
    Vafi kann að koma upp um gildi yfirlýsingar vegna óvissu um hvenær brýn þörf til lögræðissviptingar hafi skapast. Í þeim tilvikum er sóknaraðila heimilt að krefjast þess að dómari skeri úr um það í úrskurði sínum, sbr. 2. og 3. gr. frumvarpsins. Sé slík krafa ekki lögð fram telst sú yfirlýsing hins lögræðissvipta um fyrirframgefna ákvarðanatöku sem nýjust er gilda.
    Skv. 2. mgr. 4. gr. a er þeim sem sviptur hefur verið lögræði heimilt að breyta, auka við eða afnema fyrirframgefna ákvarðanatöku sína. Sömu skilyrði eru gerð til slíkra ákvarðana, varðandi sannanleika og tímamörk, og gilda um fyrirframgefna ákvarðanatöku. Nýjasta lögmæta útgáfa fyrirframgefinnar ákvarðanatöku telst gilda meðan lögræðissvipting stendur yfir.
    Í 3. mgr. 4. gr. a er listi yfir ákvarðanir sem fallið geta undir fyrirframgefna ákvarðanatöku. Listinn er lýsandi fyrir hvers kyns ákvarðanir fyrirframgefin ákvarðanataka geti tekið til en honum er ekki ætlað að vera tæmandi.
    Um undanþágur er kveðið í 4. mgr. 4. gr. a. Þær eru annars vegar að lögráðamanni og öðrum sem koma að ákvarðanatöku um hag og meðferð hins lögræðissvipta er ekki gert að virða ákvarðanir sem er ómögulegt að framfylgja, gengur gegn lögum eða er andstæð góðu siðferði. Dæmi um hið fyrstnefnda er ósk um meðferð eða þjónustu sem hvergi er fáanleg. Hins vegar er í ákvæðinu kveðið á um að fyrirframgefin ákvörðun um að hafna meðferð sé eingöngu bindandi hafi hinn lögræðissvipti verið upplýstur um hugsanlegar afleiðingar slíkrar ákvörðunar, líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 8. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997. Í þeim tilvikum er rétt að gera jafn ríkar kröfur til vilja hins lögræðissvipta og um örugga vitneskju sjúklings skv. 9. gr. laga um réttindi sjúklinga.