Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 333  —  73. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um notkun veiðarfæra.


     1.      Hvaða niðurstöðum hafa rannsóknir á umhverfisáhrifum veiðarfæra í sjó, botnvörpu, línu, neta, flotvörpu, snurvoðar, handfæra, skelfiskplógs og gildra, skilað? Hver eru áhrif þeirra á mismunandi botngerðir í sjó og á vistkerfi sem þar eru?
    Ráðherra leitaði álits Hafrannsóknastofnunar um rannsóknir á umhverfisáhrifum veiðarfæra. Í umsögn sinni bendir Hafrannsóknastofnun á að þegar rætt er um umhverfisáhrif veiðarfæra sem notuð eru við fiskveiðar þurfi að hafa í huga að áhrif af mismunandi gerðum veiðarfæra geta verið gjörólík og oft ekki samanburðarhæf. Oftast eru það þó eftirtalin þrjú atriði sem horft er til þegar að umhverfisáhrif eru borin saman:
     a.      Orkunotkun – yfirleitt mæld í magni af olíu sem þarf til að veiða eitt kíló af fiski. Breytileikinn getur hins vegar verið mikill á milli skipa þó að sama veiðarfæri sé notað. Olíunotkun hefur bein og óbein áhrif á vistkerfi í hafi.
     b.      Kjörhæfni – bæði í vali á stærð og tegund. Með ákveðnum veiðarfærum er auðvelt að stjórna kjörhæfni við val á stærð en ekki tegund en önnur eru aðeins nothæf til að velja milli tegunda en ekki stærðar fisks. Sífellt er unnið að því að bæta kjörhæfni veiðarfæra, t.d. til verndar ungviði og tegundum sem ekki er æskilegt að veiða. Lítil kjörhæfni veiðarfæra getur haft mikil áhrif á vistkerfi, staðbundið sem og á stærri svæðum.
     c.      Áhrif á fiska eða dýr sem komast í beina snertingu við veiðarfæri, veiðast þó ekki en verða fyrir miklu hnjaski sem getur leitt til dauða þeirra. Það er kallað óskráður fiskveiðidauði þegar rætt er um veiðitegundir. Veiðarfæri sem snerta botn og eru í beinni snertingu við botndýr, t.d. kórala, geta haft neikvæð áhrif á þau dýr og vistkerfi á botninum.
    Fyrir flest þau veiðarfæri sem upp eru talin í fyrirspurninni er til mikill fjöldi af birtum rannsóknum á umhverfisáhrifum. Oft er um að ræða erlendar rannsóknir en niðurstöður er oft hægt að heimfæra á íslenskar aðstæður.
    Hér fer á eftir samantekt Hafrannsóknastofnunar á umhverfisáhrifum nokkurra veiðarfæra.

Botnvarpa:
     a.      Orkunotkun er almennt talin mikil, stundum er talað um u.þ.b. 0,3–0,5 l á kg fisks en hana er þó að minnka með bættri orkunýtingu nýrra skipa. Gögn um þetta eru þó fremur takmörkuð.
     b.      Kjörhæfni botnvörpu er varðar stærð og tegundir er betri en flestra annarra veiðarfæra. Það er hægt að nota ýmsan búnað til að hafa áhrif á hvaða stærðir veiðarfærið velur, áður en fiskur kemur í veiðarfærið eða hvaða fiskur sleppur út. Einnig er í mörgum tilfellum hægt að hafa áhrif á tegundaval veiðarfærisins, oftast með því að nýta þekkingu á hegðun viðkomandi tegundar. Þetta er gert með breytilegri uppsetningu á veiðarfærinu.
     c.      Bein áhrif botnvörpu hafa án efa verið umtalsverð í gegnum tíðina á Íslandsmiðum og eru mögulega nokkur enn í dag. Þó ber þess að geta að núverandi notkun einskorðast við fremur afmörkuð svæði þar sem veiðiálag er mikið og hefur varað lengi, en önnur svæði sem eru opin fyrir veiðum eru undir litlu sem engu álagi. Smug smærri fisks í gegnum möskva veldur óskráðum fiskveiðidauða en umfang er óþekkt. Þróun í hönnun botnvörpu hefur verið nokkur undanfarið, m.a. hefur færst í vöxt að nota hlera sem snerta ekki botn.
    Veiðar með botnvörpu hafi þróast í þá átt að lágmarka orkunotkun og auka kjörhæfni enda hafa þessir þættir bein áhrif á afkomu veiðanna. Veiðisvæðin eru þokkalega vel skilgreind og meginþorri álags fjarri því að ná yfir víðfeðm svæði umhverfis landið. Veiðisvæði botvörpu hafa minnkað á Íslandsmiðum síðan um aldamót.
    Rannsóknir hafa sýnt að bein áhrif á sléttum botni (leir, sand, eða möl) eru fremur lítil eða ómælanleg, en þau geta verið óafturkræf ef togað er yfir hægvaxta og langlífar tegundir eins og kórala sem lifa á hörðum botni.
    Eitthvað af plastefnum tapast frá botnvörpu þó að stór hluti skili sér til endurvinnslu. Nethlutar sem verða eftir í vistkerfinu hafa sennilega áhrif á vistkerfið þótt ekki sé þekkt í dag hversu mikil. Margar rannsóknir hafa verið birtar sem tengjast áhrifum botnvörpu á lífríki, nokkrar um íslensk hafsvæði en þó aðallega erlend hafsvæði.

Lína:
     a.      Orkunotkun við línuveiðar er fremur lítil, um 0,14 l á kg fisks, en breytileikinn er sennilega mjög mikill. Nýir bátar sem sigla hratt til og frá fiskimiðum eyða sennilega mun meiri orku en hægfara bátar en orkunotkun við veiðarnar sjálfar er venjulega ekki mikil.
     b.      Kjörhæfni línu er fremur lítil í vali á tegundum og stærð. Þó er hægt að hafa áhrif á stærðarval með því að nota ákveðna stærð af beitu en krókastærð hefur þó lítil áhrif. Margar fisktegundir taka treglega eða alls ekki á línu.
     c.      Bein áhrif línunnar eru án efa frekar lítil. Þó er þekkt frá erlendum rannsóknum að línur hafa áhrif á hörðum botni og sér í lagi á kóralasvæðum. Óskráður fiskveiðidauði er líklega nokkur við línuveiðar. Fiskur fellur af línunni við drátt hennar, særist á krók og drepst einhverju síðar.
    Veiðar með línu hafa verið að þróast í þá átt að nota öflugri og hraðskreiðari báta sem geta lagt og dregið mun fleiri króka en áður. Áhrif línunnar á botn eru sennilega mest á hörðum botni þar sem lifa langlífar lífverur. Áhrif á vistkerfi á línusvæðum hér við land er óþekkt. Nokkuð er um að línur tapist á hörðum botni og sést mikið af tapaðri línu við neðansjávarmyndatöku á kóralasvæðum. Plastefni frá línuveiðum verða því eftir í umhverfinu en magnið er óþekkt.

Net:
     a.      Orkunotkun við netaveiðar er lítil, um 0,15 l á kg fisks. Hraðfiskibátar á netaveiðum eyða sennilega hlutfallslega mun meiri orku en hægfara bátar en orkunotkun við veiðarnar sjálfar er ekki mikil.
     b.      Kjörhæfni neta er mjög góð í vali á stærð þar sem möskvastærð er ráðandi þáttur um hvaða stærðir veiðast í net. Kjörhæfni í vali á tegundum er þó mjög lítil og getur meðafli verið af ýmsu tagi. Afli í netum hér við land er samt nokkuð hreinn eftir tegundum vegna þess að sjómenn velja veiðisvæði eftir þeim tegundum sem sótt er í. Meðafli er eftir sem áður alltaf einhver, þ.m.t. sjávarspendýr og sjófuglar.
     c.      Bein áhrif netaveiða eru frekar lítil á botn, en hafa þó fundist í erlendum rannsóknum. Net dragast eftir botni vegna strauma og fallaskipta og geta því haft áhrif á botnlífverur.
    Netaveiðar hafa minnkað töluvert og er nú lítill hluti veiða við Ísland. Meðafli sjávarspendýra og fugla í net er áhyggjuefni, m.a. vegna þess að stofnar sumra þessara tegunda hafa minnkað. Þetta er vandamál sem er þekkt um allan heim og eru margar rannsóknir standa yfir, eða er lokið, sem snúa að því að minnka meðafla sjávarspendýra og fugla við netaveiðar. Um net sem tapast í sjó (drauganet) er lítið vitað. En þó er þekkt að net sem tapast halda mögulega eitthvað áfram að fanga fisk og geti haft staðbundin áhrif á vistkerfið. Plastefni koma hér einnig við sögu. Fátt er vitað um magn tapaðra neta við Ísland frá upphafi vélabátaaldar. Núna er skylt að tilkynna um töpuð veiðarfæri í afladagbók.

Flotvarpa:
     a.      Þegar orkunotkun skipa sem draga flotvörpu er skoðuð í samhengi við afla þá eru þessar veiðar með einna minnstu olíunotkun á kíló af veiddum fiski í samanburði við önnur veiðarfæri eða 0,02–0,09 l á kg fisks. Breytileikinn er tengist hversu langt er sótt.
     b.      Kjörhæfni flotvörpu er yfirleitt lítil þar sem gjarnan er notaður smár möskvi og flestar tegundir og stærðarflokkar fangast því inni. Veiðarnar eru hins vegar nánast alltaf stundaðar á fisktegundum sem mynda torfur í efri lögum sjávar og er veiðin því í flestum tilfellum hér við land býsna hreinn afli af þeirri tegund sem sótt er í. Til eru útfærslur veiðarfærisins sem skilja í sundur stærðir eða tegundir, sbr. notkun á meðaflaskiljum á ákveðnum svæðum.
     c.      Bein áhrif af völdum flotvörpu á vistkerfið eru lítil á botnsamfélög, jafnvel engin eða varla mælanleg. Smug minni fiska í gegnum möskva, sem leiðir til óskráðs fiskveiðidauða, er sennilega eitthvert en magn er ekki þekkt.
    Flotvarpan hefur ekki mikil áhrif á vistkerfin á annan hátt en að fjarlægja ákveðið magn af torfufiski úr uppsjávarlögunum. Hún snertir sjaldan botn og nánast er óþekkt að veiðarfærið tapist í hafi við veiðar. Flotvarpa skilar sér því að langmestu leyti til endurvinnslu við úreldingu, en þessi veiðarfæri geta enst í mörg ár.

Snurvoð:
     a.      Orkunotkun snurvoðabáta er svipuð og báta sem veiða með staðbundnum veiðarfærum um, 0,18 l á kg fisks. Veiðarfærið er hagkvæmt með tilliti til orkunotkunar vegna þess hversu létt það er og afkastamikið.
     b.      Kjörhæfni snurvoðar er góð bæði við val á stærð og tegundum og svipar nokkuð til kjörhæfni botnvörpu. Með ýmsum ráðum er hægt að hafa áhrif á stærðaval og jafnvel hvaða tegundir eru teknar.
     c.      Bein áhrif snurvoðar eru sennilega einna minnst þeirra veiðarfæra sem notuð eru á botni. Snurvoð er aðeins nothæf á sléttum eða nánast sléttum leir-, sand- og malarbotni. Venjulega er snurvoð ekki notuð á miklu dýpi (<150m) og gætir því jafnvel meiri áhrifa á botndýralíf af veðri en af veiðarfærinu. Langlífari lífverur sem lifa á hörðum botni verða sennilega fyrir minni áhrifum frá snurvoð en mörgum öðrum veiðarfærum þar sem hún er lítið notuð á slíkum svæðum. Óskráður fiskveiðidauði vegna smugs minni fiska í gegnum möskva er óþekktur en er talinn vera minni en t.d. í botnvörpu vegna þess að veiðarfærið er notað á minna dýpi, sem og þess hversu létt það er ásamt því að veiðiferli er stutt.
    Veiðar með snurvoð hafa sennilega lítil áhrif á vistkerfi hér við land. Er þetta vegna eiginleika snurvoðar og notkunar, en ekki síst vegna þess hversu lítil hlutdeild þessara veiða er í fiskveiðum við landið. Snurvoð tapast sjaldan í hafi og ætti því að skila sér vel til endurvinnslu.

Handfæri:
     a.      Orkunotkun handfærabáta er svipuð og báta sem nota önnur staðbundin veiðarfæri eða snurvoð, um 0,14 l á kg fisks. Breytileikinn er sennilega nokkur líkur og við notkun annarra veiðarfæra.
     b.      Kjörhæfni handfæra er lítil við val á stærð enda endurspeglast það í tíðum skyndilokunum þegar hlutfall undirmálsfisks í afla mælist of hátt. Handfæri hafa sæmilega kjörhæfni varðandi val á tegund enda fáar tegundir af fiski sem það veiðarfæri veiðir í einhverju magni hér við land.
     c.      Bein áhrif handfæraveiða eru mjög lítil. Varla er hægt að segja að handfæri snerti botn þótt þau geti það vissulega. Einhverjir fiskar falla af veiðarfærinu, mögulega þá særðir til ólífis en magnið er óþekkt.
    Handfæraveiðar hafa sennilega afar lítil áhrif á botnvistkerfi. Helsta ástæðan er hversu létt veiðarfærið er, en þó aðallega vegna þess hve lítil hlutdeild veiðarfærisins er í heildarveiðiálagi við landið.

Skelfiskplógur:
     a.      Orkunotkun við veiðar með skelfiskplóg getur verið æði misjöfn eða 0,02–0,1 l á kg fisks. Fer það að nokkru leyti eftir gerð plóga en einnig eftir því hvernig bátar eru notaðir.vernd
     b.      Kjörhæfni skelfiskplógs er lítil en þó mögulega nokkur við stærðarval. Vegna eðlis veiðarfærisins veiðist lítið annað en þau dýr sem sitja á eða eru í botni.
     c.      Bein áhrif skelfiskplógs geta verið mikil en ná þó venjulega ekki yfir víðfeðm svæði. Rannsóknir á áhrifum kúfiskplógs á sandbotn hafa leitt í ljós að áhrif veiðanna eru lítt merkjanleg eftir fáar vikur og nánast ómælanleg að nokkrum mánuðum liðnum. Ástæðan er einkum talin sú að vegna þess hversu grunnt er á veiðisvæðin séu veðuráhrif í raun mun meiri heldur en áhrif af veiðarfærinu. Af sömu ástæðu að þær lífverur sem lifa á botni sem hreyfist mikið í grunnum sjó eru oftast með stuttan lífsferil og endurnýjun því hröð. Þetta á þó ekki við um beitingu plógs á hörðum botni þar sem langlífari tegundir lifa.
    Ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af skelfiskplógum þar sem notkun þeirra er lítil. Fylgjast þarf hins vegar vel með veiðum með sæbjúgna- og ígulkeraplógum sem eru svipuð veiðarfæri þar sem áhugi á þeim veiðum fer vaxandi. Sæbjúgnaplógar eru notaðir á hörðum botni og því veruleg hætta á að vistkerfi á botni eyðileggist, t.d. svampar og kóralar, ef plógur fer yfir þau.

Gildrur:
    Orkunotkun við gildruveiðar er sennilega svipuð og við neta-, eða línuveiðar en gæti þó verið meiri í hlutfalli við veiddan fisk/krabba þar sem magnið sem veiðist er sennilega minna.     Kjörhæfni gildra getur verið nokkur í vali á stærð en verri í vali á tegund. Gjarnan eru notuð göt eða möskvar til að smár fiskur/krabbi sleppi út.
    Bein áhrif á vistkerfi hafa lítið verið rannsökuð hér á landi, enda gildruveiðar enn sem komið er í mjög litlar hér við land. Þekkt er víða erlendis að áhrif gildruveiða eru mælanleg ef mikið af gildrum eru notaðar. Það hefur einnig komið í ljós hjá þjóðum þar sem gildruveiðar eru algengar að vandamál skapast vegna draugagildra, þær valda bæði óskráðum fiskveiðidauða og plastmengun.
    Heilt yfir þá hafa gildruveiðar fremur lítil umhverfisáhrif, en það getur þó snúist við ef ásókn í þessar veiðar eykst.

Almennt.
    Rannsóknir á umhverfisáhrifum veiðarfæra í sjó hafa verið gerðar hér við land út frá veiðiálagi og þeim áhrifum sem veiðar með mismunandi veiðarfærum hafa á mismunandi veiðistofna. Einnig út frá verndun botnsvæða fyrir ákveðnum veiðarfærum, eða öllum, til að athuga hvort sjá megi frávik á vistkerfi á slíkum slóðum í samanburði við samanburðarhæf svæði. Þá hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir þar sem eitt veiðarfæri er skoðað sérstaklega og það notað til að raska svæði sem mælt er fyrir og í nokkur skipti eftir álag. Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir á beinum áhrifum notkunar mismunandi veiðarfæra á mismunandi botngerðir hér við land enda vantar meiri og betri kortlagningu botngerða og vistkerfa umhverfis landið. Unnið er að því að bæta úr þeim skorti og samhliða fylgst vel með erlendum rannsóknum.

     2.      Hefur verið höfð hliðsjón af niðurstöðum úr erlendum rannsóknum þegar veiðitækni og notkun veiðarfæra kemur til álita við stjórn fiskveiða?
    Þegar fyrirspurnir um álitamál sem snúa að stjórnun fiskaveiða eru borin undir Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna er ráðgjöf til stjórnvalda ávallt byggð á bestu og nýjustu rannsóknum og athugunum hvort sem þær eru innlendar eða erlendar. Ef engar heimildir finnast er haft beint samband við helstu sérfræðinga erlendis til að leita eftir áliti eða þekkingu um viðkomandi málefni. Slíkar fyrirspurnir berast einnig frá öðrum þjóðum til íslenskra sérfræðinga vegna sömu ástæðna.
    Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar taka þátt í alþjóðasamstarfi um málefni er lúta að umhverfisáhrifum veiða á vettvangi Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), í evrópskum rannsóknarverkefnum sem og í öðrum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum.

     3.      Hvernig á að afla aukinnar þekkingar á umhverfisáhrifum mismunandi veiðarfæra og hafa hana til hliðsjónar við ráðgjöf í sjávarútvegi og stjórn veiða?
         Þekking á umhverfisáhrifum fæst með auknum rannsóknum á vistkerfi hafsins og þeim búsvæðum sem þar eru. Skilgreina þarf mismunandi búsvæði, bæði út frá umhverfisaðstæðum og þeim lífverum sem þar dveljast, eða nýta sér þau. Áhrif mismunandi veiðarfæra er þá hægt að meta fyrir hvert búsvæði fyrir sig. Gæta skal að viðkvæmum búsvæðum og að ekki sé gengið of nærri einstökum búsvæðum sem myndi minnka fjölbreytileika þeirra hér við land.
    Áfram er unnið að því að finna svæði þar sem viðkvæmar lífverur eða vistkerfi er að finna en slíkar rannsóknir eru dýrar og tímafrekar.