Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 381  —  191. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um aðgerðir til að styrkja stöðu brotaþola.


     1.      Hvernig stendur vinna ráðuneytisins við að rýna lagaumhverfi kynferðisbrota með það að markmiði styrkja stöðu kærenda kynferðisbrota, eins og segir í stjórnarsáttmálanum?
    Í aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, sem ráðherra kynnti í febrúar 2018, er að finna fjölmargar aðgerðir sem snúa beinlínis að brotaþolum í þeim tilgangi að styrkja stöðu þeirra, auka traust þeirra á réttarkerfinu og veita þeim hjálp og stuðning sem þeir þarfnast. Sérstaklega er tiltekið að styrkja þurfi réttarstöðu þeirra eins og tíðkast víða á Norðurlöndum, stytta málsmeðferðartíma, bæta aðgengi þeirra að upplýsingum og skerpa á hlutverki réttargæslumanna.
    Í kjölfar aðgerðaáætlunarinnar skipaði forsætisráðherra stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðisofbeldi, en varaformaður hans er sá sérfræðingur dómsmálaráðuneytisins sem ráðinn var sérstaklega fyrr á þessu ári til að fylgja eftir og vinna að innleiðingu aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota. Eitt meginhlutverk hópsins er „að gera tillögur um lagabreytingar með það að markmiði að styrkja stöðu brotaþola um allt land og líta í því skyni til réttarstöðu brotaþola og hlutverks réttargæslumanna annars staðar á Norðurlöndum auk dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu“.
    Réttarstaða brotaþola er því sérstaklega til skoðunar á vegum hópsins, hún borin saman við réttarstöðu brotaþola annars staðar á Norðurlöndunum og þróunin erlendis skoðuð í þeim tilgangi að bera hana saman við þróunina hérlendis. Markmiðið er að kanna leiðir til að mæta þörfum brotaþola og styrkja stöðu þeirra við rannsókn og meðferð sakamála eins og kostur er.

     2.      Hvaða skyldur, aðgerðir eða lagabreytingar telur ráðherra að séu nauðsynlegar í kjölfar fullgildingar samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (CETS nr. 210)?
    Til þess að hægt væri að fullgilda Istanbúl-samninginn fól ráðherra refsiréttarnefnd sérstaklega að skoða hvort íslensk refsilöggjöf fullnægði ákvæðum samningsins. Athugun nefndarinnar leiddi til breytinga á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með lögum nr. 23/2016, sem tóku gildi 5. apríl 2016. Breytingarnar fólu í sér að tvö ný efnisákvæði komu inn í hegningarlögin, auk þess sem lögsögu- og fyrningarreglum var breytt. Efnisbreytingarnar fólu í sér nýtt ákvæði um brot í nánum tengslum (218. gr. b), en það var talið bæði rökrétt og mikilvægt framhald vitundarvakningar í samfélaginu um umfang og alvarleika heimilisofbeldis og nýtt ákvæði um nauðungarhjónaband (2. mgr. 225. gr.).
    Annar liður í því að ná fram markmiðum Istanbúl-samningsins var að setja á stofn upplýsinga- og ráðgjafarmiðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Bjarkarhlíð er nú á öðru starfsári og mun ráðherra halda áfram að leggja sitt af mörkum til að tryggja henni áframhaldandi rekstrargrundvöll. Þá hafa dómsmála- og velferðarráðuneyti til skoðunar hvort koma skuli upp sambærilegu úrræði á landsbyggðinni.

     3.      Hvaða aðgerðum hyggst ráðherra beita til að styrkja stöðu brotaþola innan réttarvörslukerfisins og þeirra sem verða fyrir ofsóknum (e. stalking), ofbeldi eða heimilisofbeldi?
    Eins og áður kom fram var sérstakt refsiákvæði sett í almenn hegningarlög, nr. 19/1940, (218. gr. b), um ofbeldi í nánum tengslum (heimilisofbeldi), með breytingalögum nr. 23/2016. Megintilgangur ákvæðisins er að tryggja markvissari réttarvernd þeirra sem þurfa að þola alvarlegt eða endurtekið ofbeldi í nánum samböndum. Eitt þeirra sjónarmiða sem liggja til grundvallar ákvæðinu er að það sé til þess fallið að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og styðji við jafnstöðu kynjanna, sem sé lykillinn að því að vernda konur gegn ofbeldi. Í áðurnefndri skoðun refsiréttarnefndar komst hún að þeirri niðurstöðu að ekki væri nauðsynlegt í tengslum við fullgildingu Istanbúl-samningsins að lögfesta sérstakt ákvæði um umsáturseinelti. Allt að einu hefur ráðherra falið refsiréttarnefnd að taka til skoðunar hvort rétt sé að setja sérstakt refsiákvæði um umsáturseinelti, en bæði Noregur og Finnland hafa innleitt slíkt ákvæði í sína refsilöggjöf í anda 34. gr. Istanbúl-samningsins.
    Til að fá enn betri sýn á stöðu brotaþola í framkvæmd hefur verið leitað til lögmanna, sem hafa reynslu sem réttargæslumenn og þar af leiðandi sérþekkingu á aðstæðum og þörfum þolenda ofbeldisbrota, til ráðgjafar og upplýsinga um það sem betur mætti fara og hvað vanti upp á til að þeir geti sinnt starfi sínu sem skyldi og að skjólstæðingar þeirra fái þá þjónustu og hafi þau réttindi sem nauðsynleg og eðlileg eru.
    Í stuttu máli fer fram á vegum dómsmálaráðuneytisins og stýrihóps forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðisofbeldi ítarleg og yfirgripsmikil vinna er lýtur að réttarstöðu og aðstæðum þolenda ofbeldisbrota og áframhaldandi vinna og endurskoðun löggjafar er lýtur að því að efla og styrkja lagaumhverfi hér á landi svo það megi vernda enn frekar konur og börn gegn kynbundnu ofbeldi í anda Istanbúl-samningsins.