Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 429  —  251. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um sjúkraflutninga.


     1.      Hefur verið tekin endanleg ákvörðun um flutning umsýslu sjúkraflutninga frá Rauða krossinum á Íslandi?
    Bent er á að samningur Sjúkratrygginga Íslands við Rauða krossinn á Íslandi (RKÍ) er um útvegun og rekstur bifreiða og búnaðar til sjúkraflutninga. Sjúkraflutningar eru alfarið í höndum sjúkraflutningaaðila sem eru slökkvilið og heilbrigðisstofnanir.
    Í upphafi árs unnu velferðarráðuneyti og RKÍ að undirbúningi samnings til 2–3 ára sem gilda skyldi þar til ríkið tæki við verkefninu. Á fundi ráðuneytisins með Rauða krossinum á Íslandi hinn 15. mars 2018 tilkynntu fulltrúar Rauða krossins að samtökin höfnuðu aðild að nýjum samningi, en myndu sinna þjónustunni þar til nýr aðili tæki við henni. Ákvörðunin fól í sér að samningssambandi var slitið mun fyrr en ráðuneytið hafði gert ráð fyrir. Velferðarráðuneytið hefur því tekið endanlega ákvörðun um flutning á verkefnum RKÍ um útvegun og rekstur sjúkrabíla og búnaðar til annars aðila.

     2.      Hvaða samskiptalegu, faglegu eða rekstrarlegu rök liggja til grundvallar því að fyrirhugað er að binda enda á samstarf við Rauða krossinn?
    Síðasti samningur Sjúkratrygginga Íslands við Rauða krossinn á Íslandi um útvegun og rekstur sjúkrabifreiða og búnaðar rann út í árslok 2015. Í samningaviðræðum sem stóðu yfir árin 2016 og 2017 milli Sjúkratrygginga Íslands og Rauða krossins var stefnt að endurnýjun samningsins og engin áform uppi um að færa þjónustuna annað. Í samningaviðræðum gerði velferðarráðuneytið kröfu um að ríkið teldist eigandi nýrra bifreiða sem keyptar yrðu á grundvelli samningsins enda greiddi ríkið langstærstan hluta kostnaðar við kaupin. Ákvörðun um slit samningssambands fyrr en ráðuneytið stefndi að var tekin af Rauða krossinum, sbr. svar við 1. tölul. Sú staðreynd að samningsaðilar náðu ekki saman um þann grundvallarþátt sem eignarhald sjúkrabíla er varð til þess að bundinn var endi á samstarfið. Eignarhald sjúkrabíla er stór fjárhagslegur þáttur en verðmæti sjúkrabíla var metið um 470 millj. kr. um síðustu áramót og áætlað er að fyrirhuguð kaup á 25 nýjum sjúkrabílum nemi um 500 millj. kr.

     3.      Hvaða aðili tekur við hlutverki Rauða krossins og hvernig verður staðið að vali þess aðila?
    Ekki hefur verið komist að endanlegri niðurstöðu um það hver taki við, en undirbúningur er langt kominn og nokkrir aðilar tilbúnir að taka verkefnið að sér. Til verkefnisins verður valinn traustur aðili sem vinnur eftir kröfulýsingu og samningi sem tryggja á gæði þjónustu. Í nýjum samningi er miðað við að umsýsluaðila til ráðgjafar verði einstaklingar sem besta þekkingu hafa á sjúkraflutningum á landinu. Ekki er hægt að veita nánari upplýsingar á þessu stigi en þessi þáttur skýrist fljótlega.

     4.      Liggur fyrir áhættumat og kostnaðargreining vegna fyrirhugaðs flutnings og ef svo er, hverjar eru niðurstöðurnar, hver er heildarkostnaðurinn við yfirfærsluna, þ.m.t. uppkaup bílaflota, umsýslukerfa o.fl.?
    Við tilfærslu verkefnisins verður öryggi sjúkraflutninga haft í fyrirrúmi án þess að gert hafi verið formlegt áhættumat. Þegar lok samnings við RKÍ voru fyrirsjáanleg var kallaður saman hópur þeirra sem mesta þekkingu hafa á sjúkraflutningum hér á landi til að vera ráðuneytinu til ráðgjafar við framkvæmd verkefnisins. Eitt meginhlutverk hópsins var að veita ráðgjöf um hvernig best yrði staðið að málum til að tryggja öryggi sjúkraflutninga meðan á tilfærslu stendur.
    Ágreiningur var milli velferðarráðuneytisins og RKÍ um fjárhagslegt mat vegna loka samningsins og urðu aðilar því ásáttir um að fá hlutlausan aðila til að gera slíkt mat. Matsaðili hefur ekki skilað niðurstöðu og er því enn óvissa um kostnað sem tilfærslan hefur í för með sér.

     5.      Hvernig eru þeir tveir þættir metnir sem hljóta að vera helstu hvatar umskipta, þ.e. aukin hagkvæmni og meiri gæði?
    Eins og fram kemur fyrr í svari þessu var ákvörðun um tilfærslu verkefnisins tekin þar sem ekki náðist sameiginleg niðurstaða um ákveðið grundvallaratriði í samningi.

     6.      Er gert ráð fyrir stjórnsýslulegum breytingum á skipan sjúkraflutninga innan heilbrigðisþjónustunnar í framhaldinu?
    Mikilvægi sjúkraflutninga innan heilbrigðiskerfisins hefur vaxið undanfarin ár vegna þess að framboð sérhæfðrar þjónustu hefur færst á færri staði, ferðamönnum hefur fjölgað mikið, menntun sjúkraflutningamanna aukist og framþróun orðið í þeirri heilbrigðisþjónustu sem hægt er að veita meðan á flutningi stendur. Sjúkraflutningar eru fyrsti viðkomustaður í mörgum hinna alvarlegustu tilvika sem heilbrigðiskerfið glímir við og því eru þeir mjög mikilvægur hluti heilbrigðiskerfisins. Velferðarráðuneytið undirbýr nú heildstæða stefnumótun vegna sjúkraflutninga þar sem tekið verður mið af auknu mikilvægi þeirra. Verður þá m.a. farið yfir valkosti varðandi stjórnsýslulega skipan þjónustunnar. Tímasetning á tilfærslu verkefnisins gefur tækifæri til að móta alla þætti þess í samræmi við niðurstöðu stefnumótunar.